Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 7. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 300  —  7. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis,
nr. 24/2000, og lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998.


Frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið sem er endurflutt frá 140. löggjafarþingi (108. mál). Á því þingi fékk nefndin á sinn fund nokkra gesti og lagði til að málið yrði samþykkt með nokkrum breytingum og er álit nefndarinnar fylgiskjal með frumvarpinu. Við framlagningu málsins á þessu þingi hafa þær breytingar sem nefndin lagði þar til verið teknar upp í frumvarpið.
    Með frumvarpinu er lagt til að framboði sem á fulltrúa á Alþingi eða í sveitarstjórn en fær ekki kjörinn fulltrúa í landskjörstjórn eða yfirkjörstjórn verði heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa til setu í henni.
    Nefndin tók fram við afgreiðslu málsins á síðasta þingi að starf yfirkjörstjórnar hefst þegar framboðslistum er skilað og að hún teldi eðlilegt að formaður viðkomandi kjörstjórnar geri framboði sem á fulltrúa á Alþingi eða í sveitarstjórn viðvart áður en boðað er til fyrsta fundar til þess að unnt sé að tilnefna áheyrnarfulltrúa inn í kjörstjórnirnar eins og lagt er til í frumvarpinu og áréttar nefndin það framkvæmdaratriði nú.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Alþingi, 15. október 2012.



Valgerður Bjarnadóttir,


form.


Álfheiður Ingadóttir,


frsm.

Róbert Marshall.



Lúðvík Geirsson.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.


Vigdís Hauksdóttir.



Jón Kr. Arnarson.




Fylgiskjal.


Nefndarálit með breytingartillögu frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd
um frumvarp til laga um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis,
nr. 24/2000, og lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998.

(Þingskjal 1424, 108. mál 140. löggjafarþings.)



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórhall Vilhjálmsson frá landskjörstjórn, Svein Sveinsson og Katrínu Theodórsdóttur frá yfirkjörstjórnum og Skúla Guðmundsson frá innanríkisráðuneyti.
    Með frumvarpinu er lagt til að framboði sem á fulltrúa á Alþingi eða í sveitarstjórn en fær ekki kjörinn fulltrúa í landskjörstjórn eða yfirkjörstjórn verði heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa til setu í henni.
    Samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis kýs Alþingi eftir hverjar almennar alþingiskosningar fimm manna landskjörstjórn og jafnmarga til vara. Fimm manna yfirkjörstjórn í hverju kjördæmi með jafnmörgum mönnum til vara er kosin með sama hætti. Samkvæmt þingsköpum Alþingis skal beita hlutfallskosningu til starfa innan þings eða utan þannig að tillögur um fulltrúa í landskjörstjórn og yfirkjörstjórn miðast við þingstyrk hvers flokks og því hefur framboð sem á fulltrúa á Alþingi en lítinn þingstyrk ekki náð fulltrúa inn í kjörstjórnir. Nefndin telur að við þær aðstæður sé eðlilegt að framboð fái áheyrnarfulltrúa inn í kjörstjórnirnar eins og lagt er til í frumvarpinu.
    Fyrir nefndinni kom fram að starf yfirkjörstjórnar hefst þegar framboðslistum hefur verið skilað. Nefndin telur eðlilegt að formaður viðkomandi kjörstjórnar geri framboði sem á fulltrúa á Alþingi eða í sveitarstjórn viðvart áður en boðað er til fyrsta fundar til þess að unnt sé að tilnefna áheyrnarfulltrúa. Nefndin fjallaði einnig um varamenn í kjörstjórnum en samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að varamenn séu kosnir um leið og aðalmenn í kjörstjórnir. Nefndin telur því eðlilegt að leggja til að þau framboð sem um ræðir í frumvarpinu tilnefni einnig einn áheyrnarfulltrúa til vara og leggur til breytingu á frumvarpinu þess efnis.
    Fyrir nefndinni var kynnt greinargerð dómsmála- og mannréttindaráðuneytis frá 17. febrúar 2010 sem unnin var í tilefni af skýrslu ÖSE/ODIHR sem úttektarnefnd á vegum ÖSE gerði um framkvæmd alþingiskosninga á Íslandi 25. apríl 2009. Úttektarnefndin gerði tylft athugasemda og ábendinga sem huga þyrfti að við framkvæmd og endurskoðun kosningalaga. Þar má m.a. nefna endurskoðun lagaákvæða um vægi atkvæða, athugun á því hvort styrkja eigi hlutverk landskjörstjórnar til að bæta kosningaframkvæmdina, endurskoðun og traustari lagaákvæði varðandi skráningu framboðslista, þar á meðal um fresti til að bæta úr ágöllum og frest til að samþykkja þá og ýmsar ábendingar sem tengjast hlutverki fjölmiðla og eftirliti með þeim. Nefndin hefur komið greinargerðinni til allsherjar- og menntamálanefndar, m.a. vegna umfjöllunar um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu (þskj. 1186, 748. mál), og frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla o.fl. (þskj. 935, 599. mál). Nefndin telur tímabært að endurskoðun kosningalaga fari fram og að nauðsynlegt sé að fara yfir þessar athugasemdir og ábendingar. Nefndin bendir þó jafnframt á að ekki er nauðsynlegt að gera breytingar á kosningalögum til þess að bæta ýmislegt við framkvæmd kosninga, svo sem að vera með aðgengilegar skýrar og samræmdar leiðbeiningar, staðlaða meðmælendalista með framboðum o.fl. sem tengist stöðu nýrra framboða. Nefndin telur mjög mikilvægt að auðvelda nýjum framboðum að bjóða fram. Nefndin telur í þessu sambandi rétt að benda á að þegar ný framboð sem ekki eiga kjörinn fulltrúa á Alþingi eða í sveitarstjórn skila framboðslistum tilnefna þau sérstakan umboðsmann sem fylgist með framkvæmd og tilhögun kosninga í hverju kjördæmi eða sveitarstjórn og hefur sú tilhögun gefist vel.
    Nefndin fjallaði einnig um þóknun fyrir störf í landskjörstjórn og yfirkjörstjórnum en í 2. mgr. 18. gr. laga um kosningar til Alþingis er kveðið á um að ráðherra ákveði þóknun fyrir störf í landskjörstjórn, yfirkjörstjórn og umdæmiskjörstjórn. Nefndin telur eðlilegt að þóknun áheyrnarfulltrúa verði ákveðin með sama hætti og þóknun annarra fulltrúa en formanna í kjörstjórnum og leggur til breytingu á frumvarpinu í þá veru.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



     1.      Við fyrri efnismálslið 2. og 3. gr. bætist: og annan til vara.
     2.      Á eftir 2. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
             Í stað orðanna „fyrir störf“ tvívegis í 2. mgr. 18. gr. laganna kemur: fyrir störf og setu.

    Ólöf Nordal og Vigdís Hauksdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 25. maí 2012.



Valgerður Bjarnadóttir,


form.


Álfheiður Ingadóttir,


frsm.


Róbert Marshall.



Lúðvík Geirsson.


Magnús M. Norðdahl.


Birgir Ármannsson.



Margrét Tryggvadóttir.