Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 248. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 349  —  248. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands (skrifleg framlagning mála á ríkisstjórnarfundum).

Frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið sem meiri hluti nefndarinnar flutti.
    Með frumvarpinu er lagt til að ráðherrar leggi mál skriflega fram fyrir ríkisstjórn og einungis þegar sérstaklega stendur á verði heimilt með samþykki forsætisráðherra að víkja frá þeirri skyldu. Byggist afgreiðsla máls í ríkisstjórn á öðrum sjónarmiðum en koma fram í minnisblaði ráðherra um málið er lagt til að gerð verði grein fyrir því í fundargerð. Þá er lagt til að dagskrár ríkisstjórnarfunda verði gerðar opinberar að fundum loknum, kynntar fjölmiðlum með tilkynningu og birtar á vefsvæði Stjórnarráðs Íslands. Þá eru lagðar til breytingar á upplýsingalögum sem fela í sér að veita skuli aðgang að fundargerðum ríkisstjórna þegar liðin eru átta ár frá því að gögnin urðu til nema undanþágur laganna eigi við vegna einka- eða almannahagsmuna.
    Með samþykkt frumvarpsins fellur brott ákvæði 4. mgr. 7. gr. laganna um hljóðritun ríkisstjórnarfunda sem tekur að öðrum kosti gildi 1. nóvember nk. skv. 2. mgr. 28. gr. laganna sem meiri hlutinn telur eðlilegt að falli einnig brott og leggur þá breytingu til. Þá fellur einnig brott ákvæði um sérstaka trúnaðarmálabók þar sem færa átti þau atriði fundargerðar sem hafa að geyma upplýsingar sem falla undir takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna og almannahagsmuna.
    Nefndin óskaði eftir umsögn allsherjar- og menntamálanefndar um málið samkvæmt lokamálsgrein 25. gr. þingskapa sem taldi sér ekki fært að verða við því vegna tímaskorts.
    Meiri hlutinn telur það í samræmi við niðurstöður þingmannanefndar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að kveðið verði með þessum hætti á um skriflega framlagningu mála fyrir ríkisstjórn og opinbera birtingu dagskrár ríkisstjórnarfunda. Í skýrslu þingmannanefndarinnar var einnig lagt til að haldin yrði sérstök trúnaðarmálabók til að nota þegar rætt væri um viðkvæm málefni ríkisins eða önnur mál er lúta trúnaði á ríkisstjórnarfundum. Meiri hlutinn telur að með þeirri breytingu sem lögð er til í frumvarpinu um að veita skuli aðgang að fundargerðum þegar átta ár eru liðin frá því að þau urðu til, nema undanþáguheimildir upplýsingalaga eigi við, svo sem ef upplýsingar eiga að fara leynt vegna einka- eða almannahagsmuna, sé ekki þörf á slíkri trúnaðarmálabók.
    Meiri hlutinn telur að með því að leggja til að dagskrá ríkisstjórnarfunda verði opinber samdægurs, í stað hljóðritana, verði rekjanleiki ákvarðana í ríkisstjórn tryggður með skriflegri framlagningu gagna sem og með því að fundargerðir verði aðgengilegar öllum eftir átta ár í stað 30 áður.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Á eftir 2. gr. komi ný grein er orðist svo:
    2. mgr. 28. gr. laganna fellur brott.

Alþingi, 25. október 2012.


Valgerður Bjarnadóttir,

form., frsm.

Davíð Stefánsson.

Róbert Marshall.


Lúðvík Geirsson.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.