Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 248. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 358  —  248. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands
(skrifleg framlagning mála á ríkisstjórnarfundum).

(Eftir 2. umræðu, 25. október.)


1. gr.

    Á eftir 2. mgr. 6. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Öllum málum sem ráðherrar bera upp í ríkisstjórn skal fylgja sérstakt minnisblað ráðherra til ríkisstjórnar þar sem meginatriði máls eru rakin og helstu sjónarmið sem að baki liggja. Ef óskað er eftir samþykki ríkisstjórnar skal setja þar fram skýrt orðaða tillögu. Þegar sérstaklega stendur á er heimilt með samþykki forsætisráðherra að víkja frá skyldu til að leggja mál fram skriflega.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 2. mgr. orðast svo: Ef afgreiðsla máls byggist á öðrum sjónarmiðum en þeim sem lýst er í minnisblaði ráðherra, sbr. 3. mgr. 6. gr., eða í öðrum framlögðum gögnum skal gera grein fyrir þeim í fundargerð.
     b.      4. mgr. orðast svo:
                  Dagskrá ríkisstjórnarfunda skal gerð opinber að fundi loknum, kynnt fjölmiðlum með tilkynningu og birt á vefsvæði Stjórnarráðs Íslands. Sá ráðherra sem ber ábyrgð á dagskrármáli gerir nánari grein fyrir efnisatriðum þess samkvæmt nánari ákvörðun ríkisstjórnarinnar, að eigin frumkvæði eða samkvæmt fyrirspurnum þar um. Heimilt er að undanskilja dagskrármál birtingu ef þau varða málefni sem eru undanþegin upplýsingarétti almennings samkvæmt upplýsingalögum, þegar umfjöllun ríkisstjórnar er ólokið, endanleg ákvörðun í máli liggur ekki fyrir eða þegar aðrar málefnalegar ástæður réttlæta að vikið sé frá meginreglunni um birtingu að mati ríkisstjórnarinnar. Um aðgang að gögnum ríkisstjórnar fer samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga.

3. gr.

    2. mgr. 28. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

5. gr.

    Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á upplýsingalögum, nr. 50/1996, með síðari breytingum: Við 3. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þó skal veita aðgang að gögnum skv. 1. tölul. 4. gr. þegar liðin eru átta ár frá því að gögnin urðu til að frátöldum upplýsingum sem falla undir 5. og 6. gr.