Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 322. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 369  —  322. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra,
með síðari breytingum (gæludýr).

Flm.: Helgi Hjörvar, Ólína Þorvarðardóttir, Magnús Orri Schram.


1. gr.

    Við 1. gr. laganna bætist ný skilgreining, í réttri stafrófsröð, svohljóðandi:
     Gæludýravegabréf: Skilríki sem staðfestir að gæludýr hafi fengið allar nauðsynlegar bólusetningar til að hægt sé að ferðast með það innan landa Evrópusambandsins og aftur til Íslands.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     1.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, 3. og 4. mgr., svohljóðandi:
                  Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. þarf ekki að einangra gæludýr sem er flutt inn til landsins á grundvelli 4. gr. a svo framarlega sem það uppfyllir skilyrði um heilbrigðis- og upprunavottorð sem staðfesta nauðsynlega bólusetningu og því fylgir gæludýravegabréf komi það frá landi innan Evrópusambandsins. Komi dýrið frá landi þar sem hundaæði fyrirfinnst er bólusetning gegn sjúkdómnum nauðsynleg auk blóðsýnatöku sem sýnir fram á að dýrið hafi myndað mótefni gegn honum.
                  Matvælastofnun gefur út gæludýravegabréf fyrir þau gæludýr sem uppfylla skilyrði 3. mgr.
     2.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd reglna um gæludýravegabréf.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í frumvarpi þessu, sem áður var lagt fram á 139. þingi (668. mál) og 140. þingi (134. mál), án þess að hljóta afgreiðslu, eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga er varða innflutning gæludýra. Í frumvarpinu er lagt til að ekki þurfi að einangra gæludýr sem flutt eru inn til landsins, svo framarlega sem þeim fylgja nauðsynleg heilbrigðis- og upprunavottorð sem staðfesta nauðsynlega bólusetningu og að blóðsýnataka hafi leitt í ljóst að dýrið hafi myndað mótefni gegn sjúkdómnum sem bólusett var gegn. Með frumvarpinu er einstaklingum því gert kleift að ferðast með dýr sín til útlanda og aftur heim án þess að nauðsynlegt sé að einangra þau í sóttvarnastöð við heimkomu.
    Hingað til hafa reglur hér á landi komið í veg fyrir að fólk geti ferðast með gæludýr með sér án þess að nauðsynlegt hafi verið að þau verji fjórum vikum í einangrun þegar komið er aftur til landsins. Regluverkið gerir það einnig að verkum að aðilar sem njóta aðstoðar hjálparhunda, t.d. blindir, sjónskertir og flogaveikir, hafa ekki getað komið til landsins án þess að þurfa að skilja dýrið eftir heima og þurft að reiða sig á aðra hjálp sem í flestum tilvikum er ekki fyrir hendi. Að sama skapi geta íslenskir einstaklingar ekki ferðast til útlanda með hjálparhunda sína þar sem hundarnir þurfa að fara í einangrun þegar heim er komið. Slík einangrun hefur gífurlega slæm áhrif á dýrið þar sem mikilvægt er að þjálfunin sé stöðug og ekki sé gert hlé á henni.
    Íslendingar hafa á síðustu árum sent rústabjörgunarsveit sína til hjálparstarfa erlendis, svo sem á Haítí. Í rústabjörgun spila leitarhundar stórt hlutverk við að finna einstaklinga sem eru klemmdir fastir og þurfa á hjálp að halda. Það sama gildir hins vegar um leitarhundana, þeir þurfa að dvelja í einangrun þegar komið er aftur heim sem hefur mikil áhrif á þjálfun þeirra. Af þeim sökum hefur ekki verið hægt að ferðast til útlanda með þá þrautþjálfuðu hunda sem margoft hafa sýnt og sannað að þeir eru mikilvægt hjálpar- og vinnutæki við slíka björgun.
    Sérstakar aðstæður hér á landi hafa hingað til komið í veg fyrir að hægt sé að flytja inn gæludýr án þess að þau þurfi að einangra á sóttvarnastöð. Til að mynda er Ísland eitt af eingöngu tíu löndum í heimi þar sem hundaæði er ekki að finna. Þar að auki eru aðrir dýrasjúkdómar sem þekktir eru erlendis algjörlega óþekktir hér á landi. Reglur um bólusetningu gegn smitsjúkdómum hafa verið þær að eingöngu má bólusetja dýr gegn þeim sjúkdómum sem eru landlægir hér. Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu hafa í för með sér að nauðsynlegt verður að breyta þeim reglum, þ.e. þannig að gæludýr sem eiga uppruna sinn hér á landi verði einnig hægt að bólusetja gegn algengum sjúkdómum sem finnast erlendis, svo sem hundaæði. Það er því ljóst að ef frumvarpið verður samþykkt verður óhjákvæmilegt að fella úr gildi bann við bólusetningum við smitsjúkdómum í viðauka 1A við lög nr. 25/1993 sem fram kemur í 4. gr. reglugerðar nr. 665/2001 um viðbrögð við smitsjúkdómum.
    Í Evrópusambandslöndum hafa reglur um ferðalög gæludýra verið samræmdar frá 3. júlí 2004, eða frá gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 998/2003. Í aðfaraorðum reglugerðarinnar kemur skýrt fram að á síðastliðnum tíu árum hafi hættan á hundaæði minnkað gríðarlega. Samkvæmt reglunum er heimilt að flytja gæludýr sem hafa gæludýravegabréf á milli landa ESB ef skilyrði um bólusetningar eru uppfyllt. Dýrin eru merkt með sérstakri örflögu sem einnig er að finna í vegabréfinu og þannig hægt að tryggja að um viðkomandi dýr sé að ræða. Bólusetja þarf dýrið gegn hundaæði og fá staðfestingu á því hjá dýralækni og er þá heimilt að ferðast með dýrið eftir 21 dags bið. Strangari reglur gilda um dýr sem koma frá löndum utan ESB og annarra sérstaklega tilgreindra landa. Í þeim tilvikum þarf að staðfesta með blóðsýnatöku að dýrið hafi myndað mótefni gegn hundaæði og er eftir það heimilt að ferðast til landa Evrópusambandsins eftir þriggja mánaða bið. Ákvæði reglugerðarinnar koma í veg fyrir ósveigjanlegar hindranir fyrir einstaklinga sem vilja ferðast með gæludýr sín, á sama tíma og þau tryggja heilbrigðisöryggi allra þeirra er koma að málinu.
    1. janúar 2012 féllu úr gildi strangari kröfur um innflutning gæludýra sem gilt hafa í Bretlandi, Svíþjóð, Írlandi og Möltu. Í Bretlandi, sem er eitt þeirra landa í heiminum þar sem hundaæði er ekki að finna, hafa lengi gilt strangar reglur um innflutning gæludýra. Á 19. öld var komið á reglum um sex mánaða einangrun fyrir hunda og árið 1928 fyrir ketti. Árið 2000 var fallið frá kröfum um einangrun gæludýra sem komu frá löndum Evrópusambandsins og öðrum sérstaklega tilgreindum löndum ef skilyrðum um bólusetningu gegn hundaæði og staðfestingu með blóðsýni á að dýrið hafi myndað mótefni var fullnægt. Strangari reglur gilda um innflutning dýra frá öðrum löndum. Í skýrslu sem var unnin fyrir Defra (Department for Environment, Food and Rural Affairs), sem er sú opinbera stofnun í Bretlandi sem fer með landbúnaðarmál, umhverfismál, byggðaþróun o.fl. var metin hætta á því að fyrrnefndar breytingar mundu leiða til þess að hundaæði kæmi upp í Bretlandi. Niðurstöður skýrsluhöfunda var að líkurnar mundu aukast töluvert en væru samt litlar, búast mætti við einu tilfelli hundaæðis á hverjum 211 árum í stað 13.272 ára miðað við gildandi reglur, eða einu tilfelli á hverjar 9,8 milljónir innfluttra dýra í stað eins tilfellis á 617 milljónir innfluttra dýra. Enn fremur gætu breytingarnar leitt til þess að einn einstaklingur gæti látið lífið af völdum hundaæðis á hverjum 21.000 árum. Verði þetta frumvarp að lögum munu gilda sambærilegar reglur varðandi hundaæði við innflutning gæludýra til Íslands og giltu í Bretlandi fyrir breytingarnar en áætla má að árlega séu flutt u.þ.b. 200 sinnum fleiri gæludýr til Bretlands en Íslands.
    Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru sambærilegar reglum sem gilda í Evrópusambandslöndum um frjálsa för gæludýra innan sambandsins að því leyti að gert er ráð fyrir að gæludýrum fylgi svokallað gæludýravegabréf sem gerir einstaklingum kleift að ferðast óáreittir með gæludýr sín, þ.m.t. hjálparhunda, allt frá Íslandi til Miðjarðarhafs. Áfram verður gerð rík krafa um bólusetningar gegn fjölda sjúkdóma, meðferðir gegn innvortis og útvortis sníkjudýrum og rannsóknir á blóð- og saursýnum til að greina möguleika á sjúkdómum. Starfshópur á vegum embættis yfirdýralæknis sendi árið 2002 frá sér skýrslu um áhættugreiningu vegna innflutnings gæludýra til Íslands. Þar var eingöngu horft á tvær leiðir: annars vegar óbreytt fyrirkomulag og hins vegar að alls engar varnaraðgerðir væru viðhafðar. Í skýrslunni er að finna upptalningu á þeim sjúkdómum sem talið var að gætu borist til landsins ef engar varnaraðgerðir væru viðhafðar. Ef horft er framhjá þeim sjúkdómum sem berast til landsins þrátt fyrir gildandi fyrirkomulag, sitja eftir sjúkdómar sem ýmist má fyrirbyggja með bólusetningum og meðferðum við sníkjudýrum eða teljast óalvarlegir sjúkdómar sem væru ólíklegir til að smitast áfram frá sýktu dýri. Þeir sjúkdómar sem geta haft alvarlegastar afleiðingar og má ætla út frá skýrslunni að gætu borist til landsins ef engar varnaraðgerðir væru viðhafðar eru allir ýmist hluti af staðalbólusetningum hunda og katta í öðrum löndum eða þess eðlis að greina má þá með prófunum fyrir eða eftir komuna til landsins. Einnig verður að hafa í huga að óvíða í heiminum er betur hugað að eftirliti og heilbrigði gæludýra en á Íslandi. Stjórnvöld halda nákvæmar skrár um allt hundahald, sáralítið er um útigangsketti og útigangshundar þekkjast ekki. Þar að auki þrífast flestar þær tegundir millihýsla sem þarf til að bera á milli marga dýrasjúkdóma ekki á Íslandi vegna legu landsins.
    Reynsla Norðurlandanna og Bretlands af notkun gæludýravegabréfa í stað einangrunar gæludýra hefur almennt verið mjög góð og tímabært að lög og reglur á Íslandi á þessu sviði taki mið af þeim miklu framförum sem orðið hafa í gerð bóluefna, sníkjudýralyfja og gæðum mælinga á blóðsýnum. Í því samhengi má benda á að á vef dýralækningastofnunarinnar í Bretlandi kemur fram að frá því að fyrirkomulaginu var breytt þar í landi hafi orðið vart við mjög fáa nýja sjúkdóma sem hvorki stefni íbúum né lífríki í hættu. Sjúkdómarnir séu ýmist auðmeðhöndlaðir eða að hætta á að þeir smitist áfram sé ákaflega lítil. Þá kom út sl. sumar ítarleg áhættugreining á vegum ástralska landbúnaðarráðuneytisins en reglur um innflutning gæludýra til Ástralíu eru afar strangar. Þar eru lagðar til töluverðar tilslakanir á núgildandi reglum, m.a. að fallið verði frá kröfu um einangrun vegna hundaæðis ef skilyrði um bólusetningu og mótefnamælingu eru uppfyllt. Einnig er lagt til að lágmarkstími einangrunar vegna sníkjudýrameðferðar verði styttur úr 30–120 dögum í 10 daga komi dýrin frá tilteknum löndum.
    Miðað við aðstæður á Íslandi, smæð landsins og umfang innflutnings gæludýra, ætti að vera svigrúm til að víkja frá tillögum Ástrala um einangrun vegna sníkjudýrameðferðar. Núverandi fyrirkomulag takmarkar einnig mjög möguleika á innflutningi gæludýra, þar sem aðeins er hægt að flytja inn dýr nokkra daga í hverjum mánuði, eða þegar einangrunarstöðvarnar taka á móti nýjum hópi. Þar að auki leggst óþarfa kostnaður á eigendur gæludýra en kostnaður við vistun í einangrunarstöð er 100.000–145.000 kr. fyrir ketti og 135.000–230.000 kr. fyrir hunda.