Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 300. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 450  —  300. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Birgis Þórarinssonar um frítökurétt
slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvers vegna hefur afgreiðsla erindis slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli vegna vangoldins frítökuréttar, sbr. lög um 40 stunda vinnuviku, nr. 88/1971, og EES-tilskipunar frá apríl 1997 dregist svo mjög?
     2.      Hvenær má vænta niðurstöðu í málinu sem sent var ráðuneytinu 18. september 2011?


    Ráðuneytið svaraði erindi Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) varðandi frítökurétt slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli, sem Guðni Haraldsson hæstaréttarlögmaður ritaði fyrir þeirra hönd, og er raunar dagsett 26. september 2011, hinn 23. október sl. Erindið var móttekið af ráðuneytinu 29. september í fyrra.
    Varnarlið Bandaríkjanna rak flotastöð sína á Keflavíkurflugvelli um tæplega 60 ára skeið, til 30. september 2006, er henni var lokað og varnarliðið hvarf á brott frá Íslandi. Á þeim tíma er það starfaði hér á landi fór utanríkisráðherra með allt stjórnsýsluvald á varnarsvæðunum, en við brotthvarf varnarliðsins varð breyting á því, m.a. þannig að stjórnun og rekstur Keflavíkurflugvallar fluttist undir valdheimildir þess ráðherra er fór með samgöngumál. Vegna þessarar miklu breytingar sem varð á stjórnsýsluvaldi utanríkisráðherra á varnarsvæðunum við brotthvarf varnarliðsins taldi ráðuneytið vafa leika á um að það heyrði réttilega undir það að svara erindi LSS um frítökurétt, sbr. 9. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 125/2011, sem þá gilti. Með vísan til þess að erindið lýtur að launa- og kjaramálum taldi ráðuneytið rétt að fjármálaráðuneytið fengi það til afgreiðslu og var það því sent því ráðuneyti hinn 28. október í fyrra, sbr. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Fjármálaráðuneytið sendi erindið hins vegar til innanríkisráðuneytisins til afgreiðslu með bréfi dags. 4. nóvember 2011 með vísan til þess að stjórnun og rekstur Keflavíkurflugvallar heyrði undir þann ráðherra er færi með samgöngumál. Innanríkisráðuneytið tók erindið ekki til efnislegrar meðferðar, en vísaði því hinn 11. maí sl. til forsætisráðuneytis til að skera úr því undir hvaða ráðuneyti efnisleg meðferð erindisins heyrði með vísan til 2. mgr. 11. gr. þágildandi forsetaúrskurðar, nr. 125/2011. Áður en til þess kom ákvað utanríkisráðuneytið í samráði við hin ráðuneytin þrjú að það mundi fjalla um erindið og kom það til afgreiðslu í ráðuneytinu hinn 8. júní sl. Frá þeim tíma hefur ráðuneytið unnið að undirbúningi svarsins, sem krafist hefur talsverðrar gagnaöflunar, og hefur því nú verið svarað eins og að framan greinir.