Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 190. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 504  —  190. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um menntun og ráðningu kennara
og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 87/2008,
með síðari breytingum (afnám umsóknarfrests til að sækja um leyfisbréf).


Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigríði Pétursdóttur og Guðbjörgu Pálsdóttur frá menntavísindasviði Háskóla Íslands.
    Allsherjar- og menntamálanefnd bárust ábendingar frá nemendum í námi til B.Ed.-gráðu sem luku námi sínu fyrir 1. júlí 2012 en gættu þess ekki að sækja um leyfisbréf skv. 3. mgr. 23. gr. laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 87/2008, fyrir þann tíma.
    Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu er lagt til að felldur verði brott frestur til að sækja um leyfisbréf til mennta- og menningarmálaráðuneytisins og þess í stað lagt til grundvallar að þeir sem byrjað hafi fullgilt kennaranám samkvæmt námsskipulagi eldri laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra, nr. 86/1998, og lokið því fyrir 1. júlí 2012 eigi rétt á útgáfu leyfisbréfs og sé sá réttur ótímabundinn. Hið sama gildir um þá sem innritast hafi í 60 eininga diplómanám til kennslu í grunn- og framhaldsskólum á grundvelli laga nr. 86/1998 og lokið hafa náminu fyrir 1. júlí 2012, að þeim veitist ótímabundinn réttur til útgáfu leyfisbréfs.
    Nefndin telur hins vegar mikilvægt að um leið og ótímabundinn frestur til að sækja um leyfisbréf sé veittur þeim sem hafa aflað sér tilskilinnar starfsmenntunar fyrir gildistöku laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda sé nauðsynlegt að afmarka eins og unnt er þann hóp svo að það sé engum vafa undirorpið hverjir eigi í hlut. Nefndin bendir á að sambærileg sjónarmið voru uppi þegar þáverandi menntamálanefnd gerði breytingar á 3. mgr. 23. gr. laga nr. 87/2008 á 139. löggjafarþingi (þskj. 1893).
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Á eftir orðunum „luku náminu fyrir 1. júlí 2012“ í 1. gr. komi: eða áttu við lok vormissiris 2011 30 eða færri einingum ólokið til prófs.

    Þorgerður K. Gunnarsdóttir og Siv Friðleifsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Björgvin G. Sigurðsson, framsögumaður málsins, var einnig fjarverandi við afgreiðslu þess.

Alþingi, 15. nóvember 2012.

Skúli Helgason,
varaform.
Bjarkey Gunnarsdóttir.
Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.
Tryggvi Þór Herbertsson.
Birgitta Jónsdóttir.