Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 172. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 509  —  172. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011–2022.


Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið sem er endurflutt frá 140. löggjafarþingi. Nefndin fjallaði þá um málið samhliða þingsályktunartillögu um fjögurra ára fjarskiptaáætlun og fékk á sinn fund fjölda gesta. Meiri hluti nefndarinnar lagði þá til að tillagan yrði samþykkt.
    Meiri hlutinn ítrekar þau sjónarmið er koma fram í áliti hans frá 140. löggjafarþingi (sjá fylgiskjal). Meiri hlutinn bendir sérstaklega á að fjögurra ára fjarskiptaáætlun er í reynd aðgerðaáætlun og að kostnaður getur fylgt þeim verkefnum sem þar eru tilgreind. Unnt er að sækja fjármagn til að mæta þeim kostnaði sem fellur í fjarskiptasjóð, sbr. lög nr. 132/2005, en gildistími þeirra laga er afmarkaður. Skv. 9. gr. þeirra laga er gert ráð fyrir að fjarskiptasjóður verði leystur upp í lok árs 2016 og inneign hans renni í ríkissjóð. Meiri hlutinn áréttar því þau sjónarmið að mikilvægt sé að á þeim tíma liggi fyrir hvernig fara eigi með fjármögnun þeirra verkefna sem þarf að inna af hendi eftir að fjarskiptasjóður verður leystur upp og að ákvörðun um slíkt eigi að vera í höndum þess þings er þá situr, enda þurfi þá jafnframt að taka afstöðu og ákvörðun um nýja fjarskiptaáætlun til fjögurra ára og þau verkefni sem þá verða framkvæmd.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 15. október 2012.

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,
form., frsm.
Ólína Þorvarðardóttir.
Róbert Marshall.

Mörður Árnason.
Álfheiður Ingadóttir.



Fylgiskjal.


Nefndarálit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar um tillögu til þingsályktunar um tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011–2022.

(Þingskjal 1476, 342. mál 140. löggjafarþings.)


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurberg Björnsson, Veru Sveinbjörnsdóttur og Steinunni Valdísi Óskarsdóttur frá innanríkisráðuneyti, Böðvar Jónsson og Pétur Jóhannesson frá Reykjanesbæ, Þorvarð Hjaltason frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Gunnar H. Gunnarsson og Örn Gunnarsson frá Samtökum um betri byggð, Hrein Haraldsson og Eirík Bjarnason frá Vegagerðinni, Karl Sigurðsson, Örn Sigurðsson og Ólaf Bjarnason frá Reykjavíkurborg, Ármann Kr. Ólafsson, Steingrím Hauksson og Ólaf Þór Gunnarsson frá Kópavogsbæ, Gunnar Val Sveinsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Árna Jóhannsson og Sigþór Sigurðsson frá Samtökum iðnaðarins, Lísbet Einarsdóttur frá Samtökum verslunar og þjónustu, Friðrik J. Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Oddnýju S. Þórðardóttur, Evu Sigurbjörnsdóttur, Ingólf Benediktsson og Guðlaug Ágústsson frá Árneshreppi, Ástu Pálmadóttur, Stefán Vagn Stefánsson, Bjarna Jónsson og Sigfús J. Sigfússon frá Sveitarfélaginu Skagafirði, Harald Sigþórsson, lektor við Háskólann í Reykjavík, Ólaf Guðmundsson frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Einar Magnús Magnússon og Mörtu Jónsdóttur frá Umferðarstofu, Kristin Jónasson, Hrefnu Bryndísi Jónsdóttur og Davíð Pétursson frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, Bjarna Jónsson og Ágúst Þór Bragason frá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi, Sigurð Pétursson, Elís Jónatansson, Eyrúnu Ingibjörgu Sigþórsdóttur, Guðbrand Sverrisson, Gústaf Jökul Ólafsson, Friðbjörgu Matthíasdóttur, Guðfinnu Hreiðarsdóttur, Eirík Kristjánsson, Jón Gísla Jónsson, Magnús Ólafs Hansson og Aðalstein Óskarsson frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Björn Hafþór Guðmundsson frá Samtökum sveitarfélaga á Austurlandi, Stefán Boga Sveinsson frá Fljótsdalshéraði, Hrafnkel Gíslason og Björn Geirsson frá Póst- og fjarskiptastofnun, Sæmund Þorsteinsson og Þór Jens Þórisson frá Skiptum og Hrannar Pétursson og Sigurð Inga Hauksson frá Vodafone. Umsagnir bárust frá Bláskógabyggð, Byggðastofnun, Bændasamtökum Íslands, Fljótsdalshéraði, Grindavíkurbæ, Hafnasambandi Íslands, Hrunamannahreppi, Hörgársveit, Kópavogsbæ, Landhelgisgæslu Íslands, Neyðarlínunni ohf., Persónuvernd, Póst- og fjarskiptastofnun, Rangárþingi ytra, Reykjanesbæ, ríkislögreglustjóra, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, Sveitarfélaginu Skagafirði, Sveitarfélaginu Ölfusi, Vegagerðinni og Vodafone.
    Með tillögu þessari er lögð fram fjarskiptaáætlun til tólf ára, 2011–2022, en um er að ræða framkvæmdaáætlun stjórnvalda. Samhliða er lögð fram fjarskiptaáætlun til fjögurra ára, 2011–2014. Grundvallarmarkmið fjarskiptaáætlunar eru hliðstæð markmiðum samgönguáætlunar sem einnig er lögð fram á þessu þingi. Markmiðin eiga að stuðla að aðgengilegum, greiðum, hagkvæmum, skilvirkum, öruggum og umhverfisvænum fjarskiptum sem eiga að leggja grunn að framþróun íslensks samfélags. Fjarskiptaáætlun til tólf ára er frábrugðin fjarskiptaáætlun til fjögurra ára að því leyti til að í henni er mörkuð stefna fyrir næstu tólf árin en í þeirri síðarnefndu er tilgreind aðgerðaáætlun sem endurskoðuð er að tveimur árum liðnum. Fjarskiptaáætlun til tólf ára er í reynd í stöðugri endurskoðun þar sem slík áætlun er lögð fram á fjögurra ára fresti. Þannig gefst tækifæri til að meta stöðuna og taka tillit til þarfa samfélagsins fyrir bætt fjarskipti, m.a. með hliðsjón af þeirri tækniþróun sem orðið hefur.
    Meiri hlutinn bendir á að gott fjarskiptasamband stuðlar að atvinnuuppbyggingu, bættum lífsgæðum, jákvæðri byggðaþróun og eflingu fjölbreytts mannlífs. Öflug fjarskipti og góðar tengingar eru í vaxandi mæli forsenda þess að búseta, nám og rekstur fyrirtækja geti gengið í dreifbýli landsins. Jákvætt er því að sjá skýr markmið fyrsta hluta tillögunnar um aðgengileg og greið fjarskipti þar sem lögð er áhersla á tengingu lítilla byggðakjarna við ljósleiðara og góða tengingu heimila og vinnustaða á landinu öllu. Meiri hlutinn telur jafnframt mikilvægt að áhersla sé lögð á það að öllum landsmönnum sé tryggð jöfn aðstaða til að nýta sér möguleika upplýsingatækninnar og bendir á að þeir sem búa í dreifbýli þurfa oft að leita mun lengra eftir þjónustu en íbúar í þéttbýli. Því er mjög mikilvægt að tryggja möguleika þeirra til að eiga samskipti við þjónustuaðila, stjórnvöld og stjórnsýslu með rafrænum og öruggum hætti. Einnig bendir meiri hlutinn á mikilvægi þess að tryggja gott fjarskiptasamband á sjó með öryggi sjófarenda að leiðarljósi.
    Rétt er þó að benda á að öflug og góð fjarskipti munu aldrei koma í veg fyrir nauðsyn almennrar póstþjónustu og meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að allir landsmenn búi við fullnægjandi póstþjónustu. Jákvætt er því að sjá þau markmið í öðrum hluta áætlunarinnar að íslenskir neytendur eigi kost á hagkvæmri og skilvirkri póstþjónustu og að tryggð verði fjármögnun alþjónustu í pósti. Meiri hlutinn bendir á að í fjarskiptaáætlun til fjögurra ára er gert ráð fyrir tveimur verkefnum á sviði póstþjónustu og þar er m.a. lagt til að skilgreining á alþjónustu í pósti verði endurskoðuð og hagkvæm lausn fundin á fjármögnun.
    Nauðsynlegt er að hafa í huga að fjarskipti eru mikilvægur hlekkur í öryggi landsmanna þegar vá ber að. Í þriðja hluta tillögunnar eru lögð til markmið um örugg fjarskipti og telur meiri hlutinn vert að árétta það sem fram kemur í áliti hennar um fjarskiptaáætlun til fjögurra ára (343. mál) að mikilvægt sé að tryggja fjarskiptasamband. Jafnframt þarf að koma á fót öryggiskerfi þannig að ef hættuástand skapast eða náttúruhamfarir eru yfirvofandi verði unnt að koma skjótum boðum til íbúa og gesta á viðkomandi svæði. Meiri hlutinn telur brýnt að viðbragðsáætlanir séu til staðar og í stöðugri endurskoðun. Í fjarskiptaáætlun til fjögurra ára er m.a. lagt til að mótaðar verði tillögur um framtíðarskipan fyrirkomulags öryggisstjórnunar á grunnstoðum fjarskipta á neyðarstundu og að mótaðar verði viðbragðsáætlanir um náttúruvá, farsóttir og netárásir. Telur meiri hlutinn brýnt að horfa til þessara þátta við framkvæmd fjarskiptaáætlunar til tólf ára.
    Tillögunni fylgir ekki kostnaðaráætlun enda er um að ræða stefnumörkun á sviði fjarskipta til tólf ára. Þegar hefur komið fram að í fjarskiptaáætlun til fjögurra ára eru tiltekin einstök verkefni til samræmis við markaða stefnu enda er sú áætlun í reynd aðgerðaáætlun. Ljóst er því að kostnaður getur fylgt þeim verkefnum sem þar eru tilgreind. Líkt og fram kemur í nefndaráliti um fjarskiptaáætlun til fjögurra ára er unnt að sækja fjármagn til að mæta þeim kostnaði sem til fellur í fjarskiptasjóð, sbr. lög nr. 132/2005, um fjarskiptasjóð. Gildistími þeirra laga er þó afmarkaður og skv. 9. gr. laganna er gert ráð fyrir því að fjarskiptasjóður verði leystur upp í lok árs 2016 og að inneign renni í ríkissjóð. Stefnumörkun í fjarskiptum er endurskoðuð á fjögurra ára fresti með nýrri fjarskiptaáætlun til tólf ára. Meiri hlutinn telur mikilvægt að á þeim tíma liggi fyrir hvernig fara eigi með fjármögnun þeirra verkefna sem inna þarf af hendi eftir að fjarskiptasjóður líður undir lok. Meiri hlutinn bendir jafnframt á að eðlilegt er að ákvörðun um slíkt verði í höndum þess þings sem þá situr enda þarf það þá jafnframt að taka afstöðu og ákvörðun um nýja fjarskiptaáætlun til fjögurra ára og þau verkefni sem þá verða framkvæmd.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Árni Johnsen var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 30. maí 2012.

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,
form., frsm.
Ólína Þorvarðardóttir.
Þuríður Backman.

Róbert Marshall.
Mörður Árnason.