Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 447. máls.

Þingskjal 561  —  447. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða,
með síðari breytingum (stærðarmörk
krókaaflamarksbáta, strandveiðar).


(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)




1. gr.

    Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Veiðileyfi með krókaaflamarki verður aðeins gefið út á fiskiskip sem er undir 15 brúttótonnum að stærð. Bátar sem eru, eða verða, stærri en þessu nemur skulu sviptir veiðileyfi með krókaaflamarki frá og með næstu fiskveiðiáramótum.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. a í lögunum:
     a.      Í stað orðanna „6.000 lestir af óslægðum botnfiski sem nýttar skulu“ í 1. mgr. kemur: 3,6% af leyfðum heildarafla þorsks og 3,6% af leyfðum heildarafla ufsa, sem nýta skal.
     b.      Í stað orðanna „ráðherra með reglugerð“ í 2. mgr. kemur: Fiskistofa með auglýsingu.
     c.      Á eftir 1. málsl. 1. tölul. 5. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Óheimilt er að fara til veiða fyrr en kl. 12 á hádegi næsta mánudag eftir sjómannadag.
     d.      Við 7. mgr. bætist: Þar er m.a. heimilt að kveða á um:
                  1.      Úthlutun á föstum fjölda sóknardaga fyrir hvert fiskiskip í maí og júní í því skyni að auka öryggi við strandveiðar. Fjöldi sóknardaga skal ákveðinn sem 3/ 4 af fjölda veiðidaga á viðkomandi svæði um næstliðið ár. Sækja þarf um úthlutun sóknardaga innan frests sem ákveðinn er í reglugerð.
                  2.      Skilyrði um eignarhald. Ef eigandi fiskiskips er lögaðili er heimilt að kveða á um að lögskráðir sjómenn á fiskiskipinu eigi tiltekna lágmarkseignarhlutdeild í lögaðilanum. Enginn eigenda lögaðila sem á bát með strandveiðileyfi getur átt aðild að nema einu strandveiðileyfi.

3. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, XII, svohljóðandi:
    Fiskistofu er heimilt, fram til 1. ágúst 2013, að fenginni beiðni eigenda þeirra fiskiskipa sem hafa veiðileyfi með krókaaflamarki og eru 15 brúttótonn eða stærri 1. nóvember 2012, að umskrá krókaaflahlutdeild þeirra í aflahlutdeild frá og með fiskveiðiárinu 2013/2014.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með þessu frumvarpi eru lagðar til minni háttar breytingar á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, til þess annars vegar að skýrgreina mörk milli báta sem hafa leyfi til veiða með krókaaflamarki („krókakerfisins“) og þeirra sem hafa almennt leyfi til veiða með aflamarki og hins vegar til að ná fram minni háttar breytingum á reglum um svonefndar strandveiðar. Við undirbúning frumvarpsins var ekki haft samráð við aðila utan stjórnsýslunnar.

A.     Stærð krókaaflamarksbáta.
    Samkvæmt lögum nr. 129 20. desember 2001, um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, var einvörðungu heimilt að flytja krókaaflahlutdeild á bát sem var undir 6 brl. eða 6 brúttótonn hefði hann veiðileyfi með krókaaflamarki. Með 6. gr. laga nr. 85/2002, um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, var þessum stærðarmörkum lyft í 15 brúttótonn. Við breytinguna komu þau ákvæði í lög um stjórn fiskveiða sem nú standa óbreytt í 2. málsl. 6. mgr. 12. gr. gildandi laga og hljóða svo:
    „Krókaaflahlutdeild verður aðeins flutt til báts sem er undir 15 brúttótonnum, enda hafi hann veiðileyfi með krókaaflamarki.“
    Í athugasemdum með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 85/2002, sagði að 6 brl. eða 6 brúttótonna takmörkunin væri „talin of þröng, m.a. af öryggisástæðum“. Þá sagði einnig að breyting á stærðarmörkunum væri reist á tillögum nefndar um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða sem starfaði samkvæmt heimild í ákvæði til bráðabirgða V í lögum nr. 1/1999, um breyting á lögum um stjórn fiskveiða (svonefndrar endurskoðunarnefndar) (þskj. 882, 127. löggjafarþing). Við þetta má bæta að allnokkur umræða varð um stærðarmörkin við meðferð frumvarpsins í þinginu og í þingnefnd. Niðurstaðan um 15 brúttótonn var niðurstaða samkomulags með þingmönnum í ríku samráði við hagsmunaaðila. 1
    Þegar liðin eru 10 ár frá þessum ákvörðunum er áhugavert að skoða þróun greinarinnar hvað snertir fjölda báta innan krókaaflamarkskerfisins:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Af þessari mynd má ráða að krókaaflamarksbátum (með hlutdeild) hefur fækkað allnokkuð frá fiskveiðiárinu 2004/2005, þegar þeir voru yfir 600 talsins, en sú fjölgun sem þá kom fram á sér skýringar í því að dagabátar komu inn í krókaaflamarkskerfið. Sóknardagabátarnir öðluðust krókaaflahlutdeild í áföngum, en flestir komu inn í kerfið við upphaf fiskveiðiársins 2004/2005, en það var jafnframt síðasta fiskveiðiár sóknardagabátanna, sbr. lög nr. 74 7. júní 2004. Framan af virðist einkum sem smærri bátar hafi látið af veiðum ef horft er til upplýsinga um þróun á meðalstærð krókaaflamarksbáta á mynd 2. Greinilegt er að hlutdeildarbátum hefur fækkað nokkuð samhliða því að viðskipti hafa orðið með hlutdeildir, en hugsanlegt er að skertur þorskkvóti hafi ýtt undir slík viðskipti. Þá bendir fjölgun hlutdeildarlausra báta til þess að lítið sé um úreldingu á bátum sem síðan kann að tengjast nýjum möguleikum til nýtingar þeirra með strandveiðum.
    Nokkuð hefur verið um nýsmíði krókaaflamarksbáta á síðustu árum. Bátarnir hafa tekið verulegum breytingum, m.a. með yfirbyggðri vinnuaðstöðu og framþróun í búnaði. Vekja má athygli á því að reglur um mælingu á stærð þeirra eru séríslenskar og e.t.v. óheppilegar sem viðmiðun innan fiskveiðistjórnarkerfis. Samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 527/1997 um mælingu skipa með lengd allt að 24 metrum er brúttótonnatala hvers skips sem styttra er en 15 metrar ákvörðuð með því að margfalda lengd þess í öðru veldi við breidd þess og stuðulinn 0,031. Af þeim sökum er mögulegt að auka veiðigetu skipanna með því að gera þau breiðari (og styttri) en ella væri jafnvel ástæða til. Við þetta bætist sú tilhneiging að setja utan á bátana ýmiss konar svalir, kassa og síðustokka sem ekki reiknast með við mælingu þeirra. Þetta á einkum við um stærstu línubátana sem hafa beitningarvélar um borð sem þrengt geta mjög að annarri vinnuaðstöðu.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Þrengslin um borð í stærstu línubátunum eru undirrót kröfu sem hefur komið fram hjá litlum hluta útgerðaraðila um að hámarksstærð bátanna verði lyft verulega. Hægast er um þetta að vísa til bréfs Landssambands línubáta til atvinnuveganefndar Alþingis, dags. 16. apríl 2012, í tilefni af þinglegri meðferð frumvarps til nýrra heildarlaga um stjórn fiskveiða á 140. löggjafarþingi (þskj. 1052). Þessi sjónarmið eru þvert á afstöðu heildarsamtakanna Landssambands smábátaeigenda, sem hafa verið eindregið andsnúin breytingum á reglum um stærð bátanna, þar sem með því væri gengið gegn þeirri sátt sem náðist um stærð þeirra á Alþingi vorið 2002.
    Með frumvarpinu er stefnt að því að skýrgreina mörkin milli krókaaflamarksbóta og annarra fiskiskipa. Verði frumvarpið að lögum verður það til þess að bátur sem stækkaður er þannig að hann verði 15 brúttótonn eða stærri missir veiðileyfi sitt með krókaaflamarki. Fyrir því er eitt dæmi að bátur hafi verið stækkaður verulega en haldið leyfi sínu sem krókaaflamarksbátur. Hann nýtur áfram hlutdeildar sinnar í krókaaflamarki, en getur hvorki flutt til sín aukna krókaaflahlutdeild né flutt á sig (leigt til sín) krókaaflamark, sbr. 8. mgr. 15. gr. laga um stjórn fiskveiða. Svo virðist sem þessi óvenjulega aðstaða hafi ekki verið séð fyrir þegar unnið var að setningu lagaákvæða um krókaaflamarksbáta. Í þessu sambandi verður einnig að hafa í huga að lög um stjórn fiskveiða heimila að bátar í þessari aðstöðu, eins og aðrir krókabátar, leigi til sín venjulegt aflamark. Verði frumvarpið að lögum mun þessum aðila bjóðast að flytjast úr krókaaflamarkskerfinu í aflamarkskerfið.

B.     Breytingar á reglum um strandveiðar.
    Með frumvarpinu er lagt til að í stað fastákveðins heildarafla við strandveiðar, sem í dag er 8.600 tonn skv. 6. gr. a auk heimilda í ákvæði til bráðabirgða IX, muni sérstakri hlutdeild heildarafla þorsks og ufsa verða ráðstafað til strandveiða. Vel þykir fara á því í ljósi reynslu síðustu ára að skjóta styrkari stoðum undir varanlegar strandveiðar með þeim hætti.
    Með frumvarpinu er einnig lagt til að heimilað verði að setja fyrirmæli í reglugerð um lágmarksdagafjölda fyrir veiðitíma hvers skips í maí og júní í því skyni að auka öryggi við strandveiðar. Þá verði einnig heimilt að setja nánari ákvæði um eignarhald á fiskiskipum á strandveiðum, til að varna því að sami eða sömu aðilar geri út fleiri en einn strandveiðibát, en það stríðir gegn markmiðum strandveiðanna. Loks má benda á tillögu um að kveðið verði skýrt á um bann við að halda úr höfn fyrr en eftir kl. 12 á hádegi næsta mánudag eftir sjómannadag. Sú tillaga er reist á fyrirmynd í 1. mgr. 2. gr. laga um sjómannadag, nr. 20/1987, en vel þykir fara á því að árétta hana hér.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er m.a. kveðið á um mögulegt brottfall veiðileyfis með krókaaflamarki frá og með næstu fiskveiðiáramótum eftir að ákvörðun hefur verið tilkynnt eiganda bátsins. Um krókaaflahlutdeildina færi samkvæmt almennum ákvæðum laga um stjórn fiskveiða þannig að jafnan væri mögulegt, í þessum tilvikum, að ráðstafa hlutdeildinni frá bátnum yfir á annan bát, sem hefði veiðileyfi með krókaaflamarki, áður en kæmi til úthlutunar krókaaflamarks fyrir næsta fiskveiðiár. Þrátt fyrir þetta er ekki útilokað að krókaaflamarki yrði úthlutað til báts sem ekki hefði leyfi til veiða með krókaaflamarki. Vegna takmarkana við flutning aflamarks af bátum er ljóst að stór hluti þess mundi falla niður ónýtt enda væri óheimilt að halda bátnum til veiða á grundvelli krókaaflamarks.

Um 2. gr.

    Í greininni eru lagðar til nokkrar breytingar á ákvæðum laga um stjórn fiskveiða sem varða strandveiðar. Fiskistofa mun annast framkvæmd þessara ákvæða, en þau munu hafa nokkurn kostnað í för með sér fyrir stofnunina og þá aðila sem sækjast munu eftir leyfi til strandveiða og verða að sæta kröfum um að leggja fram upplýsingar með umsókn sinni um eignarhald í félögum sem gera munu út strandveiðibáta, og taka afstöðu til þess tímanlega hvort óskað verði eftir föstum dögum við veiðarnar í stað hins almenna fyrirkomulags.

Um 3. gr.

    Í greininni er m.a. mælt fyrir um heimild eigenda krókaaflamarksbáta, sem eru 15 brúttótonn eða stærri, 1. október 2012, til að færa bátana yfir í almenna aflamarkskerfið fiskveiðiárið 2013/2014. Skoða verður þetta ákvæði með hliðsjón af því að samkvæmt ákvæðum 1. gr. er gert ráð fyrir að bátarnir muni missa veiðileyfi með krókaaflamarki frá og með sama tíma. Í raun er hér um mögulegan ávinning að ræða fyrir hlutaðeigandi ef horft er til þess að verð varanlegrar hlutdeildar í aflamarki er nokkuð hærra en hlutdeildar í krókaaflamarki.



Fylgiskjal.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða,
nr. 116/2006, með síðari breytingum (stærðarmörk
krókaaflamarksbáta, strandveiðar).

    Í frumvarpi þessu er lagðar til breytingar af tvennum toga. Annars vegar er lögð til breyting á stærðarmörkum báta sem veiða samkvæmt krókaaflamarki og felur breytingin í sér að frá og með fiskveiðiárinu 2013/2014 verði hámarksstærð þeirra 15 brúttótonn. Er með þessari breytingu verið að skýra gildandi reglur sem ekki hafa þótt vera nægjanlega ljósar. Þá er lagt til að sett verði bráðabirgðaákvæði í lögin um að eigendur þessara báta hafi heimild til að færa bátana yfir í almenna aflamarkskerfið fiskveiðiárið 2013/2014 enda mundu þeir að óbreyttu missa veiðileyfi með krókaaflamarki frá og með sama tíma. Ekki verður séð að breytingin hafi fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð. Hins vegar eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á ákvæðum um strandveiðar. Lögð er til breyting á viðmiðunarafla en lagt er til að notast verði við hlutfallstölur af heildarafla viðkomandi fisktegundar í stað fastákveðins heildarafla sem nú er 6.000 lestir. Einnig er gert ráð fyrir breytingu á stjórnsýslu veiðanna þar sem m.a. eftirlitshlutverk Fiskistofu vegna leyfisveitinga verður aukið. Þá er lagt til að veitt verði heimild til breytinga er varða veiðileyfi, veiðitíma sem og skilyrði um eignarhald þeirra báta sem veiðarnar stunda.
    Verði frumvarpið lögfest óbreytt má gera ráð fyrir að fjárhagsleg áhrif frumvarpsins fyrir ríkissjóð gætu einkum orðið vegna breytingar á viðmiði um aflamagn strandveiða. Aukist aflamagn þeirra fiskstofna sem ráðstafað er til strandveiða gætu tekjur ríkissjóðs lækkað frá því sem þær annars yrðu samkvæmt gildandi lagaákvæðum. En telja verður líklegt að fjöldi þeirra aðila sem stunda strandveiðar veiði undir 30 tonnum á fiskveiðiárinu og falli þar með undir undantekningarákvæði a-liðs 9. gr. laga um veiðigjöld, nr. 74/2012. Ekki eru forsendur á þessu stigi til að meta þróun aflaheimilda og hugsanlegar breytingar á tekjum ríkissjóðs vegna þessa. Þá má gera ráð fyrir að breytingar á verkefnum Fiskistofu verði óverulegar og rúmist innan gildandi fjárheimilda stofnunarinnar.
Neðanmálsgrein: 1
    1 Rétt er að athuga til hliðsjónar að frá og með 1. september 2001 var auk krókaaflamarkskerfis fyrir hendi sóknarkerfi smábáta með framseljanlegum sóknardögum. Tekið var skýrt fram að slíkir bátar væru ekki 6 brúttótonn eða stærri, og var sérstaklega tekið fram að óheimilt væri að stækka þá yfir þau mörk, sbr. 1. gr. laga nr. 3 31. janúar 2002. Með lögum nr. 74 7. júní 2004 voru sóknarbátarnir færðir í krókaaflamarkskerfið og við upphaf fiskveiðiársins 2005/2006 voru ákvæði um stærðarmörk þeirra felld úr gildi, enda höfðu þau enga þýðingu lengur, sbr. 1. gr. laga nr. 42 12. júní 2006.