Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 481. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 619  —  481. mál.




Álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar



um skýrslu Ríkisendurskoðunar um Lánasjóð íslenskra námsmanna,
lánshæfi náms og þróun útlána.


    Með bréfi dags. 7. október 2011 sendi forseti Alþingis skýrslu Ríkisendurskoðunar um Lánasjóð íslenskra námsmanna, lánshæfi náms og þróun útlána (2011) til umfjöllunar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í samræmi við ákvæði 8. tölul. 1. mgr. 13. gr. þingskapa. Framsögumaður málsins er Margrét Tryggvadóttir. Á fund nefndarinnar komu Sveinn Arason, Kristín Kalmansdóttir og Þórir Óskarsson frá Ríkisendurskoðun, Guðrún Ragnarsdóttir og Auður Lilja Erlingsdóttir frá Lánasjóði íslenskra námsmanna og Jenný Bára Jensdóttir, Þórir Ólafsson og Einar Hreinsson frá mennta- og menningarmálaráðuneyti.
    Í skýrslunni sem tekur sérstaklega á lánshæfi náms og þróun útlána er átta ábendingum beint til mennta- og menningarmálaráðuneytis og Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) og leitaði nefndin eftir viðbrögðum við ábendingunum hjá þeim.
    Ríkisendurskoðun beinir þeim ábendingum til mennta- og menningarmálaráðuneytis í skýrslunni að tryggja að ákvæðum laga sé fylgt en í skýrslunni kemur fram að á undanförnum árum hefur LÍN veitt lán vegna náms sem uppfyllir ekki þau skilyrði um lánshæfi sem kveðið er á um í lögum. Bent er á að skipa þurfi faglega nefnd til að fara yfir lánshæfi náms hér á landi og erlendis. Á þann hátt má tryggja að eingöngu verði veitt lán til viðurkennds náms sem uppfyllir skilgreindar kröfur yfirvalda. Loks beinir Ríkisendurskoðun því til mennta- og menningarmálaráðuneytis að setja sérstakar reglur um lánshæf skólagjöld, til að tryggja að þau séu ekki hærri en raunkostnaður kennslunnar. Ríkisendurskoðun beinir einnig nokkrum tilmælum beint til LÍN. Lögð er áhersla á að ákvæðum laga um lánshæfi sé fylgt eftir. Vakin er athygli á þeirri niðurstöðu Ríkisendurskoðunar að sjóðnum sé óheimilt að veita námslán vegna frumgreinanáms þar sem það uppfyllir ekki kröfur laga. Nauðsynlegt er að tryggja jafnræði framhaldsskólanema til námslána ef haldið verður áfram að lána til frumgreinanáms og annars undirbúningsnáms fyrir háskóla- eða starfsnám. Í skýrslunni er lagt til að takmarka eigi rétt einstaklinga til námslána við tiltekinn aldur, t.d. 18–50 ár líkt og gert er víða erlendis. Bent er á að taka þurfi til endurskoðunar reglur sjóðsins um skólagjaldalán vegna náms erlendis með það fyrir augum að kanna möguleika á því hvort rétt sé að þrengja reglur um skólagjaldalán vegna náms erlendis en skoða jafnframt möguleika á styrkjakerfi fyrir nemendur í tilteknum námsgreinum. Loks bendir Ríkisendurskoðun á mikilvægi þess að lánþegar séu upplýstir reglulega um fjárskuldbindingar sínar. Um er að ræða langtímaskuldbindingar og því mikilvægt að lánþegar séu meðvitaðir um þær.
    Á fundum nefndarinnar var farið yfir þær ábendingar sem beint var til LÍN og ráðuneytisins í skýrslunni. Fjallað var sérstaklega um stöðu frumgreinanámsins, sögulegar ástæður þeirrar venju að námið sé lánshæft og reifuð þau sjónarmið sem lögð eru til grundvallar við mat á lánshæfi í slíkum tilfellum. Niðurstöður skýrslunnar gáfu skýrt til kynna að lánveiting til frumgreinanáms uppfyllti ekki lagaskilyrði og bryti gegn jafnræði nemenda. Í því samhengi var einnig fjallað um hvernig best væri að haga mati á lánshæfi og fram kom í máli fulltrúa sjóðsins að unnið væri að því að koma því mati út úr stofnuninni og gera það faglegra. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar var einnig vikið að þessu sjónarmiði og mikilvægi þess að slíkt mat sé óháð og faglegt. Fram kom á fundum nefndarinnar að ástæða væri til að skoða hvernig úthlutun væri háttað og hvernig nám sé skilgreint. Rætt var um hvort rétt væri að binda námslánin við aldur lánþega, þar sem aukist hefur fólk sæki sér menntun á seinni hluta starfsævinnar og allt fram á eftirlaunaaldur. Fjallað var um aukningu útlána síðustu árin, sem skýrist af fjölgun háskóla sem og annarra skóla sem bjóða upp á lánshæft nám sem viðurkennt er af mennta- og menningarmálaráðuneytinu og innheimta skólagjöld. Fram kom að skólagjöld eru iðulega miðuð við hámark þeirrar fjárhæðar sem LÍN lánar til skólagjalda. Á síðustu 10 árum hafa umsvif sjóðsins aukist um 45% og lán til skólagjalda fimmfaldast. Víða erlendis þurfa nýir skólar að sanna sig áður en lánasjóðir lána fyrir skólagjöldum í þá. Nefndin telur rétt að skoða hvort rétt sé að bregðast við þessari þróun og auka þær kröfur sem gerðar eru til skóla sem innheimta skólagjöld sem lánað hafi verið fyrir.
    Fyrir nefndinni kom fram að mennta- og menningarmálaráðherra hefði skipað fimm manna nefnd um endurskoðun á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992. Var nefndinni ætlað að skýra tilgang og markmið námslánakerfisins á Íslandi og meta stöðu þess með hliðsjón af þróun námsframboðs og menntunar á háskólastigi.
    Nefnd ráðherra skilaði tillögum sínum í formi frumvarpsdraga í mars 2012 og var þá hagsmunaaðilum gefinn kostur á að skila athugasemdum um tillögurnar. Í kjölfarið vann ráðuneytið að frumvarpi til heildarlaga um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Frumvarpið er á þingmálaskrá mennta- og menningarmálaráðherra en hefur þó ekki verið lagt fram á Alþingi. Því er beint til ráðuneytisins að áður en endanlegt frumvarp verður lagt fyrir Alþingi verði gengið úr skugga um hvort farið hafi verið að ábendingum Ríkisendurskoðunar, ekki síst þeim sem varða heimildir stjórnar LÍN til ákvarðana, t.d. hvað varðar lánshæfi og jafnræði framhaldsskólanema til lánshæfis.
    Nefndin leggur jafnframt áherslu á að úrlausnarefni um það hvort takmarka eigi rétt til námslána við tiltekinn aldur eða fjárhæð er hluti af stefnumótun stjórnvalda í þessum málaflokki en ekki Ríkisendurskoðunar. Hið sama á við um lán vegna skólagjalda við nám erlendis. Nefndin bendir á að málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna falla ekki undir málefnasvið hennar að öðru leyti en því sem lýtur að eftirliti og umfjöllun um ábendingar og skýrslur Ríkisendurskoðunar. Það er því ekki hlutverk nefndarinnar að taka beina afstöðu til þessara atriða. Beinir nefndin því sérstaklega til allsherjar- og menntamálanefndar að taka afstöðu til þeirra í umfjöllun um frumvarp til nýrra laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna.
    Nefndin tekur í megindráttum undir þær ábendingar sem fram koma í skýrslu Ríkisendurskoðunar um Lánasjóð íslenskra námsmanna, lánshæfi náms og þróun útlána (2011) og leggur áherslu á að mennta- og menningarmálaráðuneytið í samvinnu við Lánasjóð íslenskra námsmanna taki mið af þeim ábendingum sem fram hafa komið í þeirri vinnu sem nú stendur yfir.

Alþingi, 26. nóvember 2012.



Valgerður Bjarnadóttir,


form.


Margrét Tryggvadóttir,


frsm.

Álfheiður Ingadóttir.



Róbert Marshall.


Lúðvík Geirsson.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.