Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 488. máls.

Þingskjal 629  —  488. mál.


Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar (stjórnvaldssektir og viðurlög).

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)




1. gr.

    Við 2. mgr. 6. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Búnaður til vigtunar og hugbúnaður tengdur honum skal vera með þeim hætti að tryggt sé að allur afli sé vigtaður og skulu upplýsingar um niðurstöðu vigtunar vera aðgengilegar Fiskistofu og geymdar í sérstökum gagnagrunni, á formi sem stofnunin ákveður, í a.m.k. fimm ár. Ráðherra setur nánari ákvæði í reglugerð um vigtunarbúnað þar sem m.a. er heimilt að kveða á um gerð og virkni voga, innsigli á búnaði til vigtunar og hugbúnað tengdan honum og nauðsynlegar upplýsingar um niðurstöðu vigtunar.

2. gr.

    3. mgr. 9 gr. laganna orðast svo:
    Skipstjórar fiskiskipa skulu halda sérstaka rafræna afladagbók. Með reglugerð er heimilt að kveða á um:
     1.      Upplýsingar sem skrá skal í afladagbækur, form þeirra, kröfu um nákvæmni við skráningu á magni afla, skil á afladagbókum til Fiskistofu o.fl.
     2.      Undanþágu frá skyldu til að halda rafræna afladagbók við sérstakar aðstæður, svo sem ef búnaður er bilaður eða ef aðstæður um borð í fiskiskipi eru þannig að ekki er unnt að færa rafræna afladagbók þar.

3. gr.

    1. og 2. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
    Óheimilt er að taka við, vinna, stunda viðskipti með afla eða hafa milligöngu um viðskipti með afla sem ekki hefur verið veginn samkvæmt gildandi reglum um vigtun sjávarafla.
    Aðilar sem taka við, vinna, stunda viðskipti með afla eða hafa milligöngu um viðskipti með afla og forsvarsmenn útgerða vegna viðskipta með afla eða afurðir vinnsluskipa skulu fylla út og skila skýrslum um ráðstöfun afla í því formi og með þeim hætti er ráðuneytið ákveður.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 13. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum: „sambærilegar veiðar“ í 1. málsl. kemur: eða að ekki sé farið að lögum og reglum um veiðarfæri.
     b.      Í stað orðanna „sjö daga eða sjö“ í 2. og 4. málsl. kemur: tvo daga eða tvær.
     c.      Í stað orðanna „áttunda degi eða áttundu“ í 4. málsl. kemur: þriðja degi eða þriðju.

5. gr.

    Í stað orðanna „sbr. 3. mgr. 12. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum“ í 1. mgr. 14. gr. laganna kemur: sbr. 3. mgr. 15. gr. laga um stjórn fiskveiða.

6. gr.

    Við 15. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Brot gegn fyrirmælum um afladagbækur skv. 3. mgr. 9. gr. varða sviptingu leyfis til veiða í atvinnuskyni. Svipting skal vara þar til skil hafa verið gerð eða skýringar gefnar á ástæðum vanskila samhliða úrbótum.

7. gr.

    Við 17. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 1. mgr., svohljóðandi:
    Telji Fiskistofa að fyrir liggi rökstuddur grunur um að vigtunarleyfishafi fari ekki að lögum og reglum um vigtun og skráningu sjávarafla er Fiskistofu heimilt að krefja vigtunarleyfishafa um greiðslu kostnaðar við sérstakt eftirlit með vigtun og skráningu sjávarafla hjá viðkomandi vigtunarleyfishafa. Skal vigtunarleyfishafa tilkynnt um ákvörðun Fiskistofu. Skal vigtunarleyfishafi greiða allan kostnað við slíkt eftirlit, þar með talinn launakostnað eftirlitsmanna.

8. gr.

    Á eftir orðunum „samkvæmt þessum kafla“ í 18. gr. laganna kemur: öðrum en um álagningu stjórnvaldssekta.

9. gr.

    Á eftir 18. gr. laganna kemur ný grein, 18. gr. a, svohljóðandi:
    Fiskistofa getur lagt stjórnvaldssektir á einstakling eða lögaðila ef hann:
     a.      hagar veiðum þannig að afli skemmist í veiðarfærum eða brýtur gegn ákvæðum í reglugerð um notkun einstakra veiðarfæra, sbr. 1. mgr. 2. gr.,
     b.      brýtur gegn 2. mgr. 2. gr. um skyldu til að hirða og landa öllum afla,
     c.      brýtur gegn 2. mgr. 3. gr. um að óheimilt sé að hefja veiðiferð nema skipið hafi aflaheimildir,
     d.      brýtur gegn 1. mgr. 4. gr. um notkun veiðarfæra,
     e.      brýtur gegn 2. mgr. 5. gr. um að senda tilkynningar til Fiskistofu,
     f.      brýtur gegn 1. eða 2. mgr. 6. gr. um skyldu til vigtunar afla,
     g.      sem löggiltur vigtunarmaður brýtur gegn 7. gr.,
     h.      hindrar störf eftirlitsmanns skv. 1. mgr. 8. gr.,
     i.      brýtur gegn ákvæðum 9. gr. um meðferð afla, upplýsingagjöf og afladagbækur,
     j.      sem ökumaður afla brýtur gegn 10. gr.,
     k.      brýtur gegn 1. mgr. 12. gr. um meðferð afla sem ekki hefur verið veginn samkvæmt reglum um vigtun sjávarafla.
    Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 50 þús. kr. til 50 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 250 þús. kr. til 150 millj. kr. Við ákvörðun sekta skal m.a. tekið tillit til þeirra hagsmuna sem í húfi eru, alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, hvort brot leiðir til rangskráningar afla, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða sl. tvö ár. Ráðherra er heimilt að ákveða fjárhæðir sekta sem lagðar eru á samkvæmt einstökum töluliðum þessarar greinar í reglugerð, innan þess ramma sem ákveðinn er í þessari málsgrein.
    Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir að ákvörðun um sektina var tekin. Ákvörðun um álagningu stjórnvaldssektar er aðfararhæf og renna sektir í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
    Stjórnvaldssektum skal beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
Stjórnvald getur fellt mál niður í stað þess að leggja á stjórnsýsluviðurlög ef:
     a.      ómögulegt var að koma í veg fyrir brot,
     b.      brot er mjög smávægilegt,
     c.      ef sérstaklega stendur á og álagning stjórnsýsluviðurlaga þykir ekki brýn af almennum réttarvörsluástæðum.
    Aðili máls getur einungis skotið ákvörðun um stjórnvaldssekt til dómstóla. Málshöfðunarfrestur er þrír mánuðir frá því að ákvörðun var tekin. Slíkt málskot frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar.

10. gr.

    Við lokamálslið 21. gr. laganna bætist: og um álagningu stjórnvaldssekta skv. 18. gr. a.

11. gr.

    Við 22. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Fiskistofu er heimilt að taka gjald fyrir vinnslu sértækra upplýsinga ef hún krefst vinnu sem telst umfram venjulega gagnaskráningu og gagnamiðlun stofnunarinnar.

12. gr.

    Á eftir orðunum „reglum settum samkvæmt þeim“ í 1. mgr. 23. gr. laganna kemur: sem ekki varða álagningu stjórnvaldssektar skv. 18. gr. a.

13. gr.

    Í stað 2. mgr. 23. gr. laganna koma fimm nýjar málsgreinar, 2.–6. mgr., svohljóðandi:
    Brot gegn lögum þessum sæta aðeins rannsókn lögreglu að undangenginni kæru Fiskistofu.
    Varði meint brot á lögum þessum bæði stjórnvaldssektum og refsingu metur Fiskistofa með tilliti til grófleika brots og réttarvörslusjónarmiða hvort sá hluti málsins sem varðar refsiábyrgð einstaklings skuli kærður til lögreglu. Gæta skal samræmis við úrlausn sambærilegra mála. Með kæru Fiskistofu skulu fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot er studdur við. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um ákvörðun Fiskistofu að kæra mál til lögreglu.
    Fiskistofu er heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað og tengjast þeim brotum sem falla undir 3. mgr. Fiskistofu er heimilt að taka þátt í aðgerðum lögreglu sem varða rannsókn þeirra brota sem falla undir 3. mgr.
    Lögreglu og ákæruvaldi er heimilt að láta Fiskistofu í té upplýsingar og gögn sem þau hafa aflað og tengjast þeim brotum sem falla undir 3. mgr. Lögreglu er heimilt að taka þátt í aðgerðum Fiskistofu sem varða rannsókn þeirra brota sem falla undir 3. mgr.
    Ákærandi getur sent mál sem varðar brot á þessum lögum og gögn því tengd til Fiskistofu til meðferðar og ákvörðunar.

14. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæðum 3.–5., 8.–10. og 12.– 13. gr. verður þó aðeins beitt um verknaði sem er lokið eftir gildistöku þeirra, en um eldri mál fer samkvæmt ákvæðum eldri laga.

15. gr.

Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku þessara laga breytast eftirfarandi lagaákvæði sem hér segir:
     1.      Lög um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006: 1. mgr. 17. gr. fellur brott.
     2.      Lög um veiðieftirlitsgjald, nr. 33/2000: Í stað tölunnar „19.500“ í 1. málsl. 4. mgr. 4. gr. kemur: 29.000.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Við undirbúning þess var Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Landssambandi smábátasjómanna og Samtökum fiskvinnslustöðva gefið færi á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, og var leitast við að taka tillit til þeirra. Í frumvarpinu felast tillögur um allnokkrar breytingar á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar sem varða eftirlit með vigtun sjávarafla, heimildir til að leggja á stjórnvaldssektir, gjaldtöku vegna sérvinnslu upplýsinga og afladagbækur.

A.     Eftirlit með vigtun sjávarafla.
    Í III. kafla laga um umgengni um nytjastofna sjávar er fjallað um vigtun sjávarafla og heimildir aðila sem hafa sérstök vigtunarleyfi útgefin af Fiskistofu til að annast vigtun sem lögð er til grundvallar aflaskráningu. Vigtunarleyfishafar eru í flestum tilvikum fiskvinnslur en oft á tíðum er vinnsla og útgerð á sömu hendi. Þannig liggur fyrir að vigtunarleyfishafi getur verið að vigta afla eigin skipa og hefur þá beina fjárhagslega hagsmuni af niðurstöðu vigtunar. Mikilvægt er að endurskoða reglur um vigtun og skráningu sjávarafla til að tryggja betur að hún fari rétt fram og eftirlit verði skilvirkara.

B.     Álagning stjórnvaldssekta.
    Með frumvarpinu er gerð tillaga um að Fiskistofu verði heimilað að leggja á stjórnvaldssektir í stað þess, sem nú er, að brot gegn lögunum varði opinberri ákæru sem sakamál. Tilgangur þessa er að auka skilvirkni við eftirlit með nýtingu á fiskveiðiauðlindinni. Fyrir liggur að málafjöldi hjá embættum lögreglustjóra er mikill samhliða því að álag á dómstóla er verulegt. Ótvíræðir hagsmunir eru af því að mögulegt sé að taka af festu á tilvikum þar sem vegið er að grunnþáttum fiskveiðistjórnunarkerfisins, svo sem brotum gegn vigtun og skráningu sjávarafla og reglum sem banna brottkast. Löggjöfin í dag gerir ekki ráð fyrir upptöku á afla sem landað hefur verið og fluttur til vinnslu án þess að hafa verið löglega vigtaður og geta aðilar því talið litla áhættu af slíkri háttsemi þegar litið er til þess mikla fjárhagslega ávinnings sem er af brotinu. Þannig er ekki útilokað að aðili hagnist á broti enda þótt mál upplýsist þar sem sektir sem dæmdar hafa verið eru almennt nokkuð lágar og afli hefur ekki verið gerður upptækur.

C.     Sérvinnsla upplýsinga.
    Lagt er til með frumvarpinu að Fiskistofu verði veittar heimildir til að taka gjald vegna sérvinnslu upplýsinga sem telst umfram eðlilega og einfalda upplýsingagjöf stofnunarinnar.

D.     Afladagbækur.

    Loks er lagt til með frumvarpinu að gerðar verði minni háttar breytingar á ákvæðum um afladagbækur. Að hluta til tengjast tillögurnar eftirliti með vigtun og skráningu sjávarafla, en telja verður að aflameðferð botnfisks um borð í fiskiskipum í dag sé með þeim hætti að skipstjórar hafi nokkuð nákvæma vitneskju um aflamagn hverrar tegundar. Því er talið eðlilegt að heimila ráðherra að gera kröfur um nákvæmni við skráningu aflamagns í afladagbók.
    Nánar um tilefni og nauðsyn framangreindra breytingartillagna er vísað til athugasemda við einstakar greinar frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Með 1. gr. frumvarpsins er lagt til að aukið verði við ákvæði 2. mgr. 6. gr. laganna um leyfi til vigtunar sjávarafla. Tilefni þessa er sú vinna við endurskoðun reglna um vigtun og skráningu sjávarafla og slægingarstuðla sem ráðist hefur verið í til þess m.a. að draga úr reglukostnaði og reglubyrði, stuðla að bættri umgengni um sjávarafla og girða betur í veg fyrir að unnt sé að skrá afla sem ís við skráningu til aflamarks. Meðal þess sem litið er til í þessu sambandi eru þær tækniframfarir sem orðið hafa við skráningu og vigtun sjávarfangs hjá útgerðaraðilum og fiskvinnslum. Hér má sérstaklega nefna starf vinnuhóps á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, sem skipaður er fulltrúum ráðuneytisins og Fiskistofu auk sérfræðingum Matís. Í greinargerð vinnuhópsins frá janúar 2012 er þannig fjallað heildstætt um vigtarreglur og gerðar tillögur um endurskoðun þeirra sem tengjast þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpsgreininni.

Um 2. gr.

    Ákvæði þessarar greinar eru byggð á gildandi lögum auk 1. mgr. 17. gr. laga um stjórn fiskveiða. Ákvæðin eru hins vegar nokkuð fyllri, en gert er ráð fyrir því nýmæli að heimilt verði að setja ákvæði í reglugerð um tiltekna nákvæmni við skráningu aflamagns hverrar tegundar í afladagbók. Þegar afla er landað til vigtunar getur verið um verulegt frávik að ræða milli magns áætlaðs afla í afladagbók og þess sem vigtað er við löndun. Með þessu nýmæli er heimilt að setja ákveðið prósentufrávik í reglugerð, en eftir atvikum getur mikið frávik leitt til þess að veiðar hlutaðeigandi aðila verði teknar til nánari athugunar samkvæmt öðrum ákvæðum laganna. Í greininni er auk þess gerð tillaga um heimild til að mæla fyrir um undanþágu frá skyldu til að halda rafræna afladagbók, þ.e. leyfi til að halda afladagbók í bókarformi, en hér er m.a. höfð í huga sú undanþága sem nú er sett í 3. (og áður 12. gr.) reglugerðar nr. 667/2007, um afladagbækur, með áorðnum breytingum.

Um 3. gr.

    Ákvæði þessarar greinar fela í sér breytingu á 1. mgr. 12. gr. laganna þar sem kveðið er á um að aðili sem stundar viðskipti með afla skuli ganga úr skugga um að afli hafi verið veginn samkvæmt gildandi reglum um vigtun sjávarafla. Afli sem ekki er veginn og skráður í samræmi við lög og reglur þar um telst vera ólögmætur sjávarafli. Vafi getur leikið á því hvaða aðili telst vera aðili sem stundar viðskipti með afla. Gert er ráð fyrir því að ákvæðið gildi ekki aðeins um kaupendur afla heldur alla aðila sem stunda viðskipti með afla og þá sem hafa milligöngu um slík viðskipti. Þannig tekur ákvæðið til aðila sem taka við afla í öðru skyni en því að vigta afla samkvæmt vigtunarleyfi og aðila sem vinna afla. Að auki er lagt til að skýrt verði kveðið á um að óheimilt sé að taka við, vinna, stunda viðskipti með afla eða hafa milligöngu um viðskipti með afla sem ekki hefur verið vigtaður.

Um 4. gr.

    Ákvæðum þessarar greinar er ætlað að setja eðlilegri viðmiðun en nú er um hvenær aukinn kostnaður af eftirliti beinist að þeim eftirlitsskylda. Í 13. gr. kemur fram að telji Fiskistofa að afli skips sé að stærðarsamsetningu, aflasamsetningu eða gæðum frábrugðinn afla annarra skipa sem stunda sambærilegar veiðar skuli Fiskistofa setja eftirlitsmann um borð í skipið sem fylgist sérstaklega með veiðum þess. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að gildissvið ákvæðisins verði víkkað þannig að það nái m.a. yfir eftirlit með veiðarfærum grásleppubáta. Nokkuð þrálát umræða hefur verið um að reglur um fjölda grásleppuneta í sjó séu ekki virtar og hefur eftirlit Fiskistofu upplýst og kært nokkur slík mál. Í dag gera lög ráð fyrir að útgerð greiði kostnað af umræddu eftirliti hafi það staðið í sjö daga eða sjö túra en reynslan hefur sýnt að sá tími er það langur að greiðsluskylda lendir ekki á útgerðarmönnum. Eftirlit af þessu tagi krefst mikillar viðveru eftirlitsmanna og kemur niður á möguleikum stofnunarinnar til að sinna öðrum eftirlitsþáttum og er því lagt til að gjaldskylda lendi á útgerð eftir tvo daga eða tvær veiðiferðir í stað sjö. Telja verður eðlilegt að þeir aðilar sem hið sérstaka eftirlit beinist að beri þann kostnað sem af eftirlitinu hlýst, þar með talinn launakostnað.

Um 5. gr.

    Með þessu ákvæði er leiðrétt tilvísun til ákvæðis í lögum um stjórn fiskveiða, sem hefur verið röng eftir að þau voru endurútgefin samkvæmt fyrirmælum í 4. gr. laga nr. 42/2006 um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990.

Um 6. gr.

    Með þessu ákvæði er lagt til að sérstaklega verði mælt fyrir um meðferð brota gegn reglum um afladagbækur, þannig að varanleiki veiðileyfissviptingar taki mið af þeim úrbótum sem hlutaðeigandi aðilar ráðast í.

Um 7. gr.

    Með ákvæðum þessarar greinar er Fiskistofu veitt heimild til þess að ráðast í sérstaka rannsókn á einstökum vigtunarleyfishöfum, að fengnum rökstuddum grun um að hann fari ekki að lögum og reglum um vigtun sjávarafla. Nokkuð hefur borið á því að munur er á íshlutfalli í afla eftir því hvort að eftirlitsmenn Fiskistofu eru viðstaddir vigtun afla hjá vigtunarleyfishafa eða vigtun fari fram án sérstaks eftirlits. Munurinn er á þann veg að frádráttur vegna íss í afla lækkar til muna þegar eftirlitsmenn eru viðstaddir vigtun sem gefur tilefni til að ætla að íshlutfalli geti verið hagrætt til að auka hlutfall íss í þeim tilgangi að minnka hlut afla til aflamarks. Enn fremur eru nokkuð sterkar vísbendingar um að vigtun sé ekki framkvæmd í samræmi við reglur og því tilefni til frekari skoðunar hjá viðkomandi vigtunarleyfishafa. Eftirlit með vigtun sjávarafla er tímafrekt og verður að telja eðlilegt að sá aðili sem eftirlitið beinist að beri kostnað vegna þessa sértæka eftirlits, þar með talinn launakostnað.

Um 8. gr.

    Ákvæði þessarar greinar eru sett til samræmis við þær tillögur sem 8. gr. hefur að geyma.

Um 9. gr.

    Með ákvæðum þessarar greinar er lagt til að Fiskistofa öðlist heimildir til að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á nánar tilteknum ákvæðum laganna. Þessari tillögu er fyrst og fremst ætlað að gera eftirlit Fiskistofu einfaldara og skilvirkara, en samkvæmt gildandi lögum sæta brot gegn lögunum opinberri ákæru og meðferð sem sakamál.
    Með ákvæðum greinarinnar er lagt til að við ákvörðun sekta skuli m.a. taka tillit til þeirra hagsmuna sem í húfi eru, alvarleika brots, hvort brot leiði til rangskráningar afla, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Við afmörkun hámark sektarfjárhæða var litið til þeirra miklu hagsmuna sem um er að ræða og miðar ákvæðið þannig að því að tryggja að einstaklingar eða lögaðilar geti ekki hagnast á því að brjóta gegn ákvæðum laganna.
    Gert er ráð fyrir að ákvörðun Fiskistofu um stjórnvaldssekt sé aðfararhæf og að sektir fari í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu. Stjórnvaldssektum skal beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi. Ákvæðið veitir þó Fiskistofu heimild til þess að fella mál niður án viðurlaga í ákveðnum tilvikum sem lögfest eru í ákvæðinu. Er slík niðurfellingarheimild eðlileg í ljósi meðalhófs og byggist á fyrirmynd í öðrum lögum.
    Í lokamálsgrein ákvæðisins er kveðið á um að aðili máls geti einungis skotið ákvörðun um stjórnvaldssekt til dómstóla og að málshöfðunarfrestur sé þrír mánuðir frá því að ákvörðun var tekin. Þá frestar málskot ekki aðför.
    Við smíði þessa ákvæðis frumvarpsins var horft til annarra lagabálka sem hafa að geyma sambærilegar heimildir og þeirra leiðbeininga um stjórnvaldssektir sem eru í Skýrslu nefndar um viðurlög við efnahagsbrotum frá árinu 2006 (skýrslan er vistuð á vef forsætisráðuneytisins).

Um 10. gr.

    Með þessari grein er Fiskistofu sérstaklega heimilað að birta upplýsingar um álagðar stjórnvaldssektir á einstaka einstaklinga og lögaðila í sjávarútvegi, með sama hætti og gildir nú þegar um sviptingu veiðileyfa og vigtunarleyfa.

Um 11. gr.

    Fiskistofu berst árlega mikið af fyrirspurnum sem tengjast starfssviði stofnunarinnar, t.d. úthlutunum aflaheimilda, beitingu viðurlaga, magni landaðs afla o.fl., en að miklu leyti eru þessar upplýsingar þegar settar fram með skýrum hætti á gagnvirkum vef stofnunarinnar, www.fiskistofa.is. Auk þessa fær stofnunin margs konar beiðnir um m.a. tengingu við gagnagrunna stofnunarinnar og nánari upplýsingaöflun um t.d. veiðar á einstökum nytjastofnum, atriði er varða einstaka útgerðaraðila eða nánar afmarkaðan flokk þeirra. Vinna að þessum fyrirspurnum getur verið sértæk og tímafrek en auk þess gagnast hún fyrst og fremst þeim sem leitar eftir upplýsingunum. Í því ljósi orkar tvímælis að kostnaður af vinnunni hvíli að öllu leyti á stofnuninni. Með greininni er gerð tillaga um að heimilt verði að taka gjald fyrir þessa vinnu, sem taka mundi mið af raunkostnaði við hana.

Um 12. gr.

    Með fyrirmælum þessarar greinar er girt fyrir þann skýringarkost að brot gegn lögunum, sem varða stjórnvaldssektum ef þetta frumvarp nær fram að ganga, muni jafnframt geta varðað refsingu skv. 23. gr. laganna.

Um 13. gr.

    Með þessari grein er lagt til að sérákvæði um refsihæð vegna brota á lögunum falli brott, en lítið mun reyna á almenn refsiákvæði 23. gr. laganna verði frumvarp þetta að lögum. Auk þess er greininni, sem byggð er á fyrirmyndum í öðrum lögum, einkum 42. gr. samkeppnislaga, ætlað að skýra skilin milli viðurlaga í formi stjórnvaldssekta og venjulegra refsinga, þannig að ljóst sé að lögin girði fyrir svonefnd tvöföld refsiviðurlög.

Um 14. gr.

    Ákvæðinu er ætlað að marka skýr lagaskil.

Um 15. gr.

    Með 1. tölul. greinarinnar er lagt til að ákvæði um afladagbækur falli brott í lögum um stjórn fiskveiða jafnhliða setningu nokkuð fyllri ákvæða um afladagbækurnar, sbr. 2. gr. þessa frumvarps.
    Ákvæði 2. tölul. greinarinnar eru sett til samræmis við lög um veiðieftirlitsgjald, þar sem mislestur við síðustu endurskoðun þeirra laga leiddi til þess að gjaldtaka vegna veru eftirlitsmanns um borð í skipum við nánar greindar aðstæður varð mishá eftir því hvort stundaðar voru veiðar innan eða utan lögsögu. Að sjálfsögðu standa engin efnisleg rök til þess. Hér er lagt til að gjaldið verði eitt og hið sama í þessum tilvikum, þ.e. 29.000 kr. á dag, sem telja verður fremur hóflegt.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar (stjórnvaldssektir og viðurlög).

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, auk þess sem minni háttar breytingar eru lagðar til á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, og lögum nr. 33/2000, um veiðieftirlitsgjald.
    Breytingartillögur frumvarpsins varða í fyrsta lagi eftirlit með vigtun sjávarafla og sérstakt utanumhald um aflabrögð fiskiskipa. Með breytingunum er verið að auka kröfur til vél- og hugbúnað sem notaður er til vigtunar hjá þeim aðilum sem Fiskistofa hefur gefið leyfi til að annast vigtun. Einnig er aðgengi Fiskistofu bætt að gagnagrunnum um aflabrögð og henni veitt heimild til að nálgast gögn sem ná allt að fimm ár aftur í tímann. Þá eru í frumvarpinu gerðar auknar kröfur er varða afladagbækur og tengjast þær kröfur framangreindum breytingum. Til að mynda er gert ráð fyrir að bækurnar verði á rafrænu formi auk þess sem brot við fyrirmælum um afladagabækur munu varða tímabundinni veiðileyfissviptingu. Í öðru lagi er skerpt á ákvæðum er varða viðskipti með afla en lagt er til að óheimilt verði að eiga viðskipti með afla sem ekki hefur verið vigtaður. Er með þessu ábyrgðin á viðskiptunum sett jafnt á seljendur og kaupendur. Í þriðja lagi eru breytingar er varða greiðslu kostnaðar vegna eftirlits með fiskiskipum og eftirlits með vigtunarleyfishöfum. Lagt er til að það tímabil eða fjöldi sjóferða sem eftirlitsmaður er um borð áður en útgerð skipsins greiðir allan kostnað vegna eftirlitsins verði styttur úr sjö dögum eða sjö veiðiferðum niður í tvo daga eða tvær veiðiferðir. Þá er lagt til að Fiskistofa geti krafið vigtunarleyfishafa um greiðslu kostnaðar við sérstakt eftirlit með þeim, hafi stofnunin þá grunaða um misferli við vigtun og skráningu sjávarafla. Í fjórða lagi er lagt til að Fiskistofu verði heimilt til að leggja á stjórnvaldssektir við brotum á lögunum og skulu sektarfjárhæðir taka mið af alvarleika brots, brotatíma og samstarfsvilja hins brotlega. Lagt er til að fjársektir geti numið frá 50 þús. kr. til 50 m.kr hjá einstaklingum en 250 þús. kr. til 150 m.kr. hjá lögaðilum. Gert er ráð fyrir að sektir að frádregnum álagningar- og innheimtukostnaði renni í ríkissjóð. Í fimmta lagi er lagt til að Fiskistofa fái heimild til að innheimta þjónustugjöld þegar unnar eru sértækar upplýsingar sem ekki teljast til venjulegra verkefna stofnunarinnar.
    Fjárhagsleg áhrif frumvarpsins á afkomu ríkissjóðs varða fyrst og fremst auknar heimildir Fiskistofu til gjaldtöku og álagningu sekta. Að hluta til mun stofnunin geta innheimt hærra hlutfall af þeim kostnaði sem nú þegar fellur til hjá henni. Þá má gera ráð fyrir að ákvæði um stjórnvaldssektir geti létt álagi af lögreglu og dómstólum. Á móti kemur að frumvarpið felur í sér að auknar skyldur verða lagðar á Fiskistofu. Gera má ráð fyrir að flestum þeim verkefnum verði hægt að mæta með gjaldtöku og að önnur rúmist innan gildandi fjárheimilda stofnunarinnar. Fjöldi tilfella þar sem Fiskistofa getur innheimt gjald eða lagt á sektir er breytilegur á milli ára og ekki liggja fyrir neinar forsendur að svo stöddu til að unnt sé að meta væntanlegar tekjur ríkissjóðs í fjárhæðum. Að öllu virtu má þó gera ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins hafi óveruleg áhrif á afkomu ríkissjóðs.