Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 214. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 636  —  214. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum
vegna breytinga á Stjórnarráði Íslands.


Frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jóhann Sigurjónsson og Ólaf S. Ástþórsson frá Hafrannsóknastofnuninni, Friðrik Arngrímsson og Friðrik Friðriksson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Pétur Reimarsson frá Samtökum atvinnulífsins, Halldór Runólfsson frá Matvælastofnun og Sigurð Guðjónsson frá Veiðimálastofnun.
    Umsagnir bárust frá Hafrannsóknastofnuninni, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Matvælastofnun, Samtökum atvinnulífsins og Veiðimálastofnun.
    Þær meginbreytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu tengjast flutningi málaflokka og verkefna milli ráðuneyta á grundvelli forsetaúrskurðar nr. 100, dags. 30. ágúst 2012, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands sem felur í sér að í stað eftirtalinna fimm ráðuneyta; iðnaðar-, sjávarútvegs- og landbúnaðar-, umhverfis-, efnahags- og viðskipta- og fjármálaráðuneytis komi þrjú ný ráðuneyti sem verði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
    Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á yfirstjórn Hafrannsóknastofnunarinnar. Þær fela í sér að stjórn stofnunarinnar verði aflögð og skipan ráðgjafanefndar við stofnunina verði breytt þannig að hlutverk hennar einskorðist við umfjöllun um langtímarannsóknarstefnu. Þá er lagt til að stofnuð verði samstarfsnefnd tveggja ráðuneyta um mótun langtímanýtingarstefnu fyrir fiskstofna og aðrar lifandi auðlindir hafsins. Einnig er lagt til að samhliða flutningi málefna dýraverndar frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis flytjist eftirlit með framkvæmd laga nr. 15/1994, um dýravernd, frá Umhverfisstofnun til Matvælastofnunar.

Hafrannsóknastofnunin.
    Nefndin fjallaði um breytingar á stjórn Hafrannsóknastofnunarinnar en samkvæmt gildandi lögum eru fimm menn í stjórn skipaðir af ráðherra, einn án tilnefningar, einn tilnefndur af Fiskifélagi Íslands, einn tilnefndur af Landssambandi íslenskra útvegsmanna, einn tilnefndur af starfsmönnum Hafrannsóknastofnunarinnar og einn tilnefndur af Sjómannasambandi Íslands og Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands. Stjórnin hefur því verið skipuð aðilum innan og utan stofnunar, fræðimönnum og fulltrúum hagsmunaaðila. Stjórnin fer með yfirstjórn stofnunarinnar og tekur ákvarðanir um meginatriði í stefnu og starfi hennar. Stjórnin gerir m.a. tillögur til ráðherra um starfs- og fjárhagsáætlun og staðfestir reikninga að loknu ársuppgjöri. Ráðgjafanefndin hefur hins vegar haft það hlutverk að fylgjast með rekstri stofnunarinnar og að vera tengiliður milli hennar og sjávarútvegsins. Með þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu væri stjórnin lögð niður og þau verkefni sem stjórnin hefur samkvæmt gildandi lögum og varða fjárreiður, þar á meðal gerð tillagna um fjárhagsáætlun og staðfesting reikninga að loknu ársuppgjöri, flutt á verksvið forstjóra. Með þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu væri stjórnin lögð niður og verksvið forstjóra aukið að sama skapi þar sem stjórn eða ráðgjafanefnd gerði ekki lengur tillögur um fjárhagsáætlun eða staðfesti reikninga að loknu ársuppgjöri. Í 49. gr. laga um fjárreiður ríkisins er kveðið á um ábyrgð á fjárreiðum, þ.e. að forstöðumenn beri ábyrgð á því að fjárhagsráðstafanir þeirra séu í samræmi við heimildir, ársreikningar séu gerðir í samræmi við lögin og staðið sé við skilaskyldu á þeim til Fjársýslu ríkisins. Brot á því ákvæði varða skyldur opinberra starfsmanna samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Nefndin telur að þær breytingar sem lagðar eru til á stjórn Hafrannsóknastofnunarinnar séu til þess fallnar að skýra valdsvið og ábyrgð forstjóra á stjórnun stofnunarinnar.
    Nefndin fjallaði einnig um tillögu í umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar um að afnema ákveðinn greini úr heiti stofnunarinnar og telur rétt að leggja það til.

Ráðgjafanefnd.
    Hlutverk ráðgjafanefndarinnar verður samkvæmt frumvarpinu að fjalla um langtímarannsóknastefnu fyrir stofnunina, vera forstjóra til ráðuneytis og fjalla um starfsáætlanir stofnunarinnar. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að við þessar breytingar væri eðlilegt að starfsmenn stofnunarinnar tilnefndu fulltrúa sinn í ráðgjafanefndina eins og þeir hafa gert í stjórn stofnunarinnar, sem hafði m.a. þetta hlutverk áður, þannig að sjónarmið þeirra kæmu fram en sú tilhögun hefur að mati starfsmanna og yfirstjórnar stofnunarinnar reynst mjög vel. Nefndin tekur undir þau sjónarmið og leggur til að við ráðgjafanefndina, sem samkvæmt frumvarpinu er skipuð sex fulltrúum, bætist sjöundi fulltrúinn sem tilnefndur verði af starfsmönnum Hafrannsóknastofnunarinnar.

Sérstök samstarfsnefnd ráðuneyta.
    Með frumvarpinu er einnig lagt til að sérstök samstarfsnefnd ráðuneyta um mótun langtímastefnu fyrir fiskstofna og eftir atvikum aðrar lifandi auðlindir hafsins verði starfrækt. Lagt er til að sá ráðherra sem fer með málefni sjálfbærrar þróunar skipi nefndina. Tveir fulltrúar skulu skipaðir án tilnefningar og tveir samkvæmt tilnefningu þess ráðherra sem fer með sjávarútvegsmál. Fyrir nefndinni kom fram að innan atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis sé mikil þekking og reynsla varðandi nýtingu og verndun fiskstofna, auk reynslu af viðamiklu alþjóðlegu samstarfi um nýtingu sameiginlegra fiskstofna. Nefndin telur að með skipun sérstakrar samstarfsnefndar þessara ráðuneyta sé því unnt að nýta þá þekkingu sem fyrir er og styrkja málaflokkinn til langs tíma litið.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um mikilvægi þess að við mótun slíkrar stefnu sé nauðsynlegt að aðilar í atvinnugreininni taki virkan þátt í því starfi svo að sem mest sátt ríki um niðurstöðuna. Nefndin tekur undir þau sjónarmið og telur nauðsynlegt að halda áfram nánu samstarfi stjórnvalda, rannsóknaraðila og atvinnugreinarinnar og styrkja það frekar. Nefndin telur því rétt að leggja til breytingu á greininni í þá veru að samstarfsnefnd ráðuneytanna skuli ekki einungis leita faglegs stuðnings Hafrannsóknastofnunarinnar við mótun langtímanýtingarstefnu, eins og lagt er til í frumvarpinu, heldur einnig gangast fyrir skipulegu samráði við fulltrúa atvinnugreinarinnar og leggur til þá viðbót við greinina.

Málefni dýraverndar.
    Á fundum nefndarinnar var fjallað um flutning dýraverndarmála frá Umhverfisstofnun til Matvælastofnunar, þ.e. það hlutverk að annast starfsemi dýraverndarráðs og framkvæmd dýraverndunarlaga. Matvælastofnun, eða MAST eins og heiti stofnunarinnar er skammstafað, skiptist í tvö meginfagsvið, þ.e. heilbrigði og velferð dýra og matvælaöryggi og neytendamál.     Hlutverk Matvælastofnunar, skv. 2. gr. laga um stofnunina, er að annast starfsemi sem yfirdýralækni er falin samkvæmt lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum (sem heita nú lög um slátrun og sláturafurðir), lögum um matvæli, lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, lögum um innflutning dýra o.fl. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að færsla dýraverndarmála til Matvælastofnunar byggist á því mati að þannig verði eftirlit með dýravernd í heild skilvirkara og flestum þeim verkefnum er varða velferð dýra komið á eina hendi. Nefndin telur þá tilhögun eðlilega þegar litið er til þeirra verkefna sem stofnunin hefur þegar á hendi, m.a. eftirlit með heilbrigði og velferð dýra, þótt nafn stofnunarinnar sé ekki nægilega lýsandi að því leyti.

Upplýsingar um fyrirsvar málaflokka.
    Fyrir nefndinni hafa komið fram ábendingar frá umboðsmanni Alþingis um að upplýsingar um hver fari með hvaða málaflokka og verkefni innan stjórnsýslunnar séu ekki nægilega aðgengilegar. Nefndin ítrekar því sjónarmið sem komu fram í áliti meiri hluta allsherjarnefndar við meðferð frumvarps er varð að lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, um nauðsyn þess að samhliða þeim breytingum að afnema heiti ráðherra og ráðuneyta úr lögum um Stjórnarráð Íslands og öðrum lögum, sé tryggt að upplýsingar um það hvernig málaflokkar skiptast milli ráðherra og ráðuneyta séu aðgengilegar og skýrar, svo að ekki sé hætta á því að almennir borgarar eigi í erfiðleikum með að leita réttar síns þegar þeir þurfa t.d. að kæra ákvarðanir stjórnvalda um rétt þeirra og skyldur til æðra stjórnvalds. Nefndin beinir því til forsætisráðuneytis að gerð verði gangskör að því að auka gegnsæi upplýsinga um fyrirsvar einstakra málaflokka, m.a. á vefsíðum ráðuneyta og jafnvel þannig að á einni síðu verði hægt að fletta upp einstökum málaflokkum og hvaða stofnanir og ráðuneyti fari með þá.
    Nefndin vekur athygli á því að í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að Orkustofnun heyri undir það ráðuneyti er fer með rannsóknir, verndun og nýtingu hafsbotnsins, þ.e. atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, sbr. forsetaúrskurð nr. 100/2012 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Rétt er að Orkustofnun heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, en umhverfis- og auðlindaráðuneyti fer samkvæmt forsetaúrskurði með tiltekna þætti er varða vernd vistkerfa á hafsbotni sem og söfnun og skráningu upplýsinga um hafsbotninn.
    Nefndin leggur til smávægilega tæknilega lagfæringu sem láðst hefur að leggja til við breytingar á lögum um loftslagsmál.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.


Alþingi, 26. nóv. 2012.

Valgerður Bjarnadóttir,
form., frsm.
Álfheiður Ingadóttir.
Róbert Marshall.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.
Lúðvík Geirsson.
Margrét Tryggvadóttir.