Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 495. máls.

Þingskjal 637  —  495. mál.


Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)




1. gr.

    Í stað ártalsins „2012“ í 14. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum kemur: 2013.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2013.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er lagt fram með hliðsjón af frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2013. Þar er lagt til að fjárhæð frítekjumarks vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega við útreikning tekjutryggingar og heimilisuppbótar haldist óbreytt á árinu 2013, en gert er ráð fyrir að fjárhæðir frítekjumarka örorkulífeyrisþega verði þær sömu og á árinu 2012. Frítekjumarkið er nú 1.315.200 kr. á ári sem jafngildir 109.600 kr. á mánuði.
    Samkvæmt 3. málsl. b-liðar 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum, skulu örorkulífeyrisþegar hafa 300.000 kr. frítekjumark á ári vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar. Hið sama gildir um útreikning heimilisuppbótar skv. 8. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, með síðari breytingum.
    Frítekjumarkið var hækkað í 1.200.000 kr. með ákvæði til bráðabirgða hinn 1. júlí 2008 og aftur 1. janúar 2009 um 9,6% í samræmi við hækkanir á bótum almannatrygginga. Frítekjumörk hafa almennt ekki hækkað frá árinu 2009 en bráðabirgðaákvæðið hefur verið framlengt árlega og fjárhæð þess því haldist óbreytt frá árinu 2009.
    Verði bráðabirgðaákvæðið ekki framlengt mun frítekjumark örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna lækka úr 1.315.200 kr. á ári í 328.800 kr. og leiða til lækkunar bóta hjá þeim örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum sem hafa atvinnutekjur yfir frítekjumarkinu.


Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 100/2007,
um almannatryggingar, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lagt til að bráðabirgðaákvæði um fjárhæð frítekjumarks vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega verði framlengt til loka ársins 2013.
    Í gildandi lögum er kveðið á um að frítekjumark örorkulífeyrisþega sé 300 þús. kr. á ári en sú fjárhæð var hækkuð um 9,6% 1. janúar 2009 í samræmi við hækkanir á bótum almannatrygginga. Frítekjumarkið nemur því um 329 þús. kr. á ári eða sem nemur rúmum 27 þús. kr. á mánuði. Hins vegar var frítekjumarkið hækkað með bráða-birgðaákvæði sem tók gildi 1. júlí 2008 í 1,2 m.kr. á ári eða sem nemur 100 þús. kr. á mánuði. Sú fjárhæð var einnig hækkuð um 9,6% 1. janúar 2009 og nemur í dag um 1.315 þús. kr. á ári eða 110 þús. kr. á mánuði. Að óbreyttu mun það frítekjumark falla niður í árslok 2012.
    Að óbreyttum lagaákvæðum og óbreyttri atvinnuþátttöku öryrkja er áætlað að útgjöld ríkissjóðs mundu lækka um 1 mia. kr. með lækkun frítekjumarksins við næstu áramót og mun lögfesting frumvarpsins því leiða til þess að útgjöldin verða meiri sem þessu nemur. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2013 hefur hins vegar ekki verið gert ráð fyrir að fyrrgreint bráðabirgðaákvæði falli úr gildi og verða útgjöldin þar með ekki hærri en þar er gert ráð fyrir með lögfestingu þessa frumvarps í óbreyttri mynd.