Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 230. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 649  —  230. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur um áhrif
Evrópusambandsaðildar á virðisaukaskattskerfið.


     1.      Hvaða áhrif hefði Evrópusambandsaðild á íslenska virðisaukaskattskerfið en í samningsafstöðu íslenskra stjórnvalda varðandi 16. samningskafla um skattamál kemur fram að aðild muni hafa umtalsverð áhrif?
    Aðild Íslands hefði ekki í för með sér kröfu um að breyta þurfi hinu íslenska skattkerfi í grundvallaratriðum, enda fara aðildarríkin sjálf með valdheimildir í skattamálum. Markmið með skattastefnu sambandsins er að efla virkni innri markaðarins, einstaklingum og fyrirtækjum til hagsbóta. Það er gert með því að draga úr skattaundirboðum á milli aðildarríkja og með því að útrýma skattahindrunum, eins og tvísköttun, mismunun eftir þjóðerni og erfiðleikum með að sækja um réttmætar endurgreiðslur á skatti til aðildarríkja eða nálgast upplýsingar um þær skattareglur sem þar gilda.
    Aðild Íslands að ESB mundi einkum hafa eftirfarandi áhrif á íslenska virðisaukaskattskerfið:
     a.      Sterkari samsvörun við innri markaðinn þar sem viðskipti milli aðildarríkja eru skilgreind sem viðskipti innan sambandsins en ekki sem utanríkisviðskipti. Við aðild mundu tollar og sambærileg gjöld á vöruviðskipti milli Íslands og Evrópusambandsríkjanna falla niður sem leitt getur til lægra vöruverðs fyrir neytendur og aukins framboðs.
     b.      Það hefur m.a. áhrif á stað og stund virðisaukaskattsskila enda eru vörur í frjálsu flæði á innri markaðinum, og engar tafir eða umsýsla með vörusendingum á innri landamærum. Innflytjandi vöru gerir upp skattinn við hefðbundin virðisaukaskattsskil en ekki í tolli.
     c.      Fyrir Ísland mundi slík full þátttaka í innri markaðnum geta eflt sýn og traust erlendra viðskiptaaðila á íslenskum fyrirtækjum og þar með liðkað fyrir viðskiptum og skapað viðskiptatækifæri.
     d.      Sú breyting verður á að neytendur þurfa ekki að standa skil á skatti né greiða umsýslugjald á landamærum vegna vara sem keyptar eru í fjarsölu frá ESB. Virðisaukaskatturinn yrði innifalinn í söluverðinu. Þetta er til hagræðis fyrir neytendur og mun liðka fyrir viðskiptum á netinu og gegnum síma, og á það bæði við um innflutning og útflutning frá Íslandi.
     e.      Í greinargerð samningahópsins kemur fram að aðild mundi kalla á aukin upplýsingaskipti rekstraraðila gagnvart skattyfirvöldum og á milli skattyfirvalda aðildarríkjanna. Það kallar á uppbyggingu nauðsynlegra tölvukerfa. Slík fjárfesting skilar sér til baka í ávinningi af stærra viðskiptasvæði án hindrana og jafnari samkeppnisstöðu gagnvart okkar helstu viðskiptalöndum til lengra tíma litið.
     f.      Ríkissjóður ætti ekki að verða af tekjum vegna innheimtu virðisaukaskatts.

     2.      Þarf að breyta lagaumhverfi virðisaukaskattskerfisins hér á landi vegna þessa?
    Þó að 16. kafli samningaviðræðna um skattamál heyri ekki undir EES-samninginn eru íslensku virðisaukaskattslögin, nr. 50/1988, að miklu leyti í samræmi við virðisaukaskattslöggjöf ESB. Af þeim tæplega eitt hundrað gerðum sem snúa að virðisaukaskatti eru um 20 tilskipanir og reglugerðir Evrópusambandsins sem munu hafa bein áhrif á innlenda löggjöf og á framkvæmd hennar. Starfshópur um endurskoðun laga um virðisaukaskatt verður skipaður á vegum fjármálaráðuneytisins og mun hann hafa það hlutverk að undirbúa nauðsynlega löggjöf sem kæmi til framkvæmda við aðild. Breytingarnar snúa einkum að tæknilegum atriðum en einnig að takmörkuðum tilfærslum á milli þrepa og eftir atvikum breytingum á undanþágum frá greiðslu virðisaukaskatts. Starfshópurinn mun skoða áhrif slíkra breytinga á viðkomandi starfsemi og mögulegar annars konar stuðningsaðgerðir, eftir því sem þörf er á.
    Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili skýrslu til fjármálaráðherra fyrir lok árs 2013 ásamt tíma- og aðgerðaáætlun.

     3.      Þarf að samræma skattþrep hér á landi vegna þessa?
    Nei. Virðisaukaskattsþrep á Íslandi eru í samræmi við virðisaukaskattstilskipunina að því leyti að almennt þrep virðisaukaskatts er yfir 15% og skattur í lægra þrepi er yfir 5%.

     4.      Hver er skattprósenta virðisaukaskatts í ríkjum Evrópusambandsins? Hver er skattprósentan í Noregi?
         
Lönd Evrópusambandsins Almennur VSK Lægra þrep VSK
Austurríki 20% 10%, 12%
Belgía 21% 6%, 12%
Bretland 20% 5%
Búlgaría 20% 9%
Danmörk 25%
Eistland 20% 9%
Finnland 23% 9%, 13%
Frakkland 19,6% 7%, 5,5%, 2,1%*
Grikkland 23% 6.5%, 13%
Holland 21% 6%
Írland 23% 13,5%, 9%, 4,8%*
Ítalía 21% 10%, 4%*
Kýpur 17% 5%, 8%
Lettland 21% 12%
Litháen 21% 5%, 9%
Lúxemborg 15% 3%, 6%, 12%
Malta 18% 5%, 7%
Portúgal 23% 6%, 13%
Pólland 23% 5%, 8%
Rúmenía 24% 5%, 9%
Slóvakía 20% 10%
Slóvenía 20% 8,5%
Spánn 21% 10%, 4%*
Svíþjóð 25% 6%, 12%
Tékkland 20% 14%
Ungverjaland 27% 18%, 5%
Þýskaland 19% 7%
Noregur 25% 15%, 8%

* Í þeim tilvikum þar sem aðildarríki eru með í gildi skattþrep undir 5% er um að ræða undanþágur frá 1. janúar 1991. Stefnt er að því að fella þessar undanþágur niður.