Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 509. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 669  —  509. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um þriðja stjórnsýslustigið með svæðisþingum.

Flm.: Lilja Mósesdóttir.


    Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að setja á stofn nefnd sem kanni kosti og galla þess að koma á þriðja stjórnsýslustiginu með svæðisþingum. Einn fulltrúi verði tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, annar af Lagastofnun Háskóla Íslands og sá þriðji sem jafnframt verði formaður nefndarinnar af innanríkisráðherra. Nefndin skili niðurstöðum eigi síðar en í árslok 2013.

Greinargerð.


    Sveitarfélögum á Íslandi eru falin ýmis verkefni. Sjálf hafa þau einnig tekið sig saman um ýmis verkefni, bæði stór og smá, þrátt fyrir að þriðja stjórnsýslustigið sé ekki skilgreint sérstaklega hérlendis. Um það hefur verið rætt að best færi á því að sveitarfélögin tækju yfir fleiri verkefni. Svæðisþing geti stutt við uppbyggingu innviða á landsbyggðinni: atvinnusköpun, þróunarstarf og nýsköpun. Ekki sé skortur á duglegu, vel menntuðu fólki á landsbyggðinni sem gætu tekið jafn vel ef ekki betur á staðbundnum vandamálum og fundið þeim farsælli lausnir en ríkisstofnanir á höfuðborgarsvæðinu. Aukið sjálfstæði landshluta gæti jafnframt stuðlað að því að fundnar yrðu fjölbreyttari lausnir sem hentuðu betur á hverjum stað. Það yrði án efa einnig kappsmál hvers landshluta að nýta sem best það fjármagn sem þar yrði til ráðstöfunar.
    Þó þarf að huga vel að því hvernig sveitarfélög taka við verkefnum ríkisins og vinna þarf áætlanir sem tryggja að þjónusta raskist ekki. Því er lagt til að stofnuð verði nefnd sem kanni kosti þess og galla að koma á þriðja stjórnsýslustiginu með svæðisþingum. Nefndinni verði falið að meta nauðsynlegar lagabreytingar og stjórnarskrárbreytingar ásamt því að koma með tillögur um tekjustofna og verkefni sem fallið geta undir svæðisþingin eins og úthlutun veiðigjalds á viðkomandi svæði, svæðisbundnar atvinnuþróunarstofnanir og velferðarmál, svo sem ákvarðanatöku um málefni sem færð hafa verið til sveitarfélaga og nauðsynlegt er að taka á svæðisbundið. Það síðastnefnda á sérstaklega við um málefni aldraðra og fatlaðra.
Einnig þyrfti nefndin að kanna fyrirkomulag í nágrannalöndunum og geri grein fyrir hvernig tekjum og verkefnum þeirra er háttað.