Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 278. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 704  —  278. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit



um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2012 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir
og vottun) við EES-samninginn.


Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergþór Magnússon og Jóhönnu Bryndísi Bjarnadóttur frá utanríkisráðuneyti og Björn Frey Björnsson frá innanríkisráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 158/2012, frá 28. september 2012, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1007/ 2011 frá 27. september 2011 um heiti textíltrefja og viðkomandi merkimiða og merkingar varðandi trefjasamsetningu textílvara og um niðurfellingu á tilskipun ráðsins 73/44/EBE og tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 96/73/EB og 2008/121/EB. Sex mánaða frestur, samkvæmt EES- samningnum, til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara er veittur til 28. mars 2013. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála frá 1. október 2010.
    Markmið reglugerðarinnar er að greiða fyrir þróun á sviði textíliðnaðar. Í henni er kveðið á um það skilyrði markaðssetningar textílvara að trefjasamsetning viðkomandi vöru hafi verið merkt í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar. Í reglugerðinni er jafnframt kveðið á um skyldu eftirlitsaðila á markaði í einstökum aðildarríkjum til að framkvæma prófanir til að staðreyna hvort trefjasamsetning textílvara á markaði sé í samræmi við upplýsingar á merkimiða vöru.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að það er talið valda hindrunum á starfsemi innri markaðar Evrópusambandsins að ákvæði aðildarríkjanna um heiti, samsetningu og merkingu textílvara eru breytileg frá einu aðildarríki til annars.
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi en óvíst er hvenær fyrirhugað frumvarp innanríkisráðherra til nýrra laga um textílheiti, textílmerkingar o.fl. verður lagt fram. Eftir framlagningu mun frumvarpið að líkindum koma til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd.
    Hvorki er gert ráð fyrir að innleiðing reglugerðarinnar muni hafa í för með sér fjárhagslegar né stjórnsýslulegar afleiðingar.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Árni Páll Árnason, Bjarni Benediktsson, Helgi Hjörvar og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 28. nóvember 2012.



Árni Þór Sigurðsson,


form.


Jón Bjarnason,


frsm.


Gunnar Bragi Sveinsson.



Mörður Árnason.


Ragnheiður E. Árnadóttir.