Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 215. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Prentað upp.

Þingskjal 710  —  215. mál.
Viðbót.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til upplýsingalaga.

Frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Pál Þórhallsson og Unu Björk Ómarsdóttur frá forsætisráðuneyti, Trausta Fannar Valsson og Hervöru Pálsdóttur frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál, Kristin Má Ársælsson og Björn Þorsteinsson frá Öldu – félagi um lýðræði og sjálfbærni, Hjálmar Jónsson og Sigurð Má Jónsson frá Blaðamannafélagi Íslands, Kristínu Þóru Harðardóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Gústaf A. Skúlason frá Samorku og Tryggva Þórhallsson og Pálma Þór Másson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Umsagnir um málið bárust frá Öldu – félagi um lýðræði og sjálfbærni, Alþýðusambandi Íslands, Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, Bandalagi háskólamanna, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bankasýslu ríkisins, Blaðamannafélagi Íslands, Félagi forstöðumanna ríkisstofnana, Fjármálaeftirlitinu, Hagstofu Íslands, Héraðsskjalasafni Kópavogs, ISAVIA ohf., Kennarasambandi Íslands, Landsbankanum hf., Orkusölunni ehf., Persónuvernd, Sagnfræðingafélagi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fjármálafyrirtækja, Seðlabanka Íslands, Stéttarfélagi bókasafns- og upplýsingafræðinga, Þjóðskjalasafni Íslands og Borgarskjalasafni Reykjavíkur.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á gildandi upplýsingalögum með það að markmiði að auka gagnsæi í stjórnsýslunni og aðgengi almennings að upplýsingum, m.a. með því að auðvelda borgurunum að leggja fram beiðnir um upplýsingar, víkka gildissvið þannig að upplýsingalög taki einnig til lögaðila sem eru að 51% eða meira í eigu hins opinbera og skerpa ákvæði um rétt til upplýsinga um málefni starfsmanna og vinnugögn stjórnvalds.
    Frumvarp til nýrra upplýsingalaga hefur verið til meðferðar á síðustu tveimur löggjafarþingum og hefur í þessu frumvarpi verið tekið tillit til flestra breytinga sem lagðar voru til í álitum meiri hluta allsherjarnefndar á 139. þingi (þskj. 1870, 381. mál) og meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á 140. þingi (þskj. 1277, 366. mál) um málin.

Gildissvið.
    Nefndin fjallaði um gildissvið frumvarpsins sem felur í sér útvíkkun á gildissviði upplýsingalaga en í 2. mgr. 2. gr. er lagt til að kveðið verði á um að lögin taki til allrar starfsemi lögaðila sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að sum þeirra fyrirtækja sem munu falla undir gildissvið laganna séu í samkeppni á markaði við einkafyrirtæki sem falli ekki undir lögin. Með því sé jafnræði þeirra ekki tryggt þar sem um þau gildi ekki sömu reglur og um einkafyrirtæki á sama samkeppnismarkaði sem grundvallist einungis á ólíku eignarhaldi fyrirtækjanna. Komu fram sjónarmið um að það geti m.a. komið niður á hagsmunum eigenda þessara fyrirtækja, þ.e. almennings, ef aðgangur að upplýsingum hjá þeim á grundvelli upplýsingalaga geti haft áhrif á verðmat þeirra og verðgildi á markaði og geti auk þess leitt til minni áhuga á eignaraðild að þessum fyrirtækjum. Meiri hlutinn telur að þær takmarkanir á upplýsingarétti almennings sem lagðar eru til í 4. tölul. 10. gr. um að unnt sé að undanþiggja upplýsingar aðgangi almennings sem varða viðskipti stofnana og fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga að því leyti sem þau eru í samkeppni við aðra séu nægjanlegar til þess að vernda hagsmuni þeirra. Meiri hlutinn telur engu síður að mikilvægi þess að auka aðgengi almennings að upplýsingum sé grundvöllur þess að þeir sem fara með opinbert vald og fjármuni úr sjóðum almennings fái nægilegt aðhald frá almenningi.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að gildissvið frumvarpsins væri ekki nægilega skýrt varðandi aðgang að gögnum starfsmanna sem starfa hjá einkaaðilum sem falla undir 3. gr. frumvarpsins, þ.e. þeim sem hefur með lögum eða með ákvörðun eða með samningi sem byggist á heimild í lögum verið falið að taka stjórnvaldsákvörðun eða sinna þjónustu sem kveðið er á um í lögum að stjórnvald skuli sinna eða telst að öðru leyti liður í opinberu hlutverki stjórnvalds. Meiri hlutinn tekur í því sambandi fram að skv. 7. gr. frumvarpsins er lagt til að réttur almennings nái til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna sem starfa hjá aðilum sem lög þessi taka til, sbr. 2. gr. Meiri hlutinn telur að nákvæmara sé að nota orðið „samkvæmt“ þar sem ákvæðið er ekki tæmandi og leggur því til þá breytingu á frumvarpinu að í stað orðanna „sbr. 2. gr.“ í 1. mgr. 7. gr. komi „skv. 2. gr.“.
    Í 2. mgr. 7. gr. er auk þess lagt til að þegar aðrar takmarkanir eiga ekki við skuli veita tilteknar upplýsingar um opinbera starfsmenn sem varða nöfn, starfsheiti umsækjenda um starf, nöfn starfsmanna og starfssvið, föst launakjör annarra starfsmanna en æðstu stjórnenda, launakjör æðstu stjórnenda o.fl. Meiri hlutinn tekur fram að með opinberum starfsmönnum er vísað til þeirra er falla undir lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem og starfsmenn sveitarfélaga. Þá er í 4. mgr. 7. gr. tekið fram að með sama hætti beri að veita almenningi upplýsingar um starfsmenn lögaðila sem falla undir lög þessi skv. 1. málsl. 2. mgr. 2. gr., þ.e. þeirra sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera.

Undanþáguheimild forsætisráðherra.
    Fyrir nefndinni komu einnig fram sjónarmið um að upplýsingalög ættu ekki að taka til aðila á markaði og að óheppilegt væri að ákvörðun um hvort undanþiggja eigi aðila á markaði gildissviði laganna og afturköllun slíkrar ákvörðunar yrði matskennd og pólitísk. Þá voru einnig gerðar athugasemdir við að ekki væri hægt að skjóta slíkum ákvörðunum til dómstóla. Meiri hlutinn tekur í því sambandi fram að við beitingu undanþágu eða afturköllunar hennar sé forsætisráðherra, en undir hann heyra upplýsingalög, bundinn af reglum stjórnsýsluréttarins, m.a. um málsmeðferð, og að gera megi ráð fyrir að bera megi ákvörðun ráðherra undir dómstóla samkvæmt almennum reglum, þ.m.t. skilyrðum um lögvarða hagsmuni. Tillaga um undanþágu sem og um að draga slíka undanþágu til baka þarf að koma frá hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn og umsögn Samkeppniseftirlitsins. Meiri hlutinn tekur fram að slík beiðni þarf að vera ítarlega rökstudd og verði hún samþykkt þarf að birta hana B-deild Stjórnartíðinda. Þá er í frumvarpinu enn fremur lagt til að haldin verði opinber skrá yfir þá lögaðila sem hafa fengið undanþágur en með birtingu slíkrar skrár felst ákveðið aðhald gagnvart stjórnvöldum.

Gögn undanþegin upplýsingarétti.
    Nefndin fjallaði um ákvæði 6. gr. frumvarpsins um gögn sem lagt er til að verði undanþegin upplýsingarétti almennings. Þau gögn eru m.a. fundargerðir ríkisráðs og ríkisstjórnar, bréfaskipti við sérfróða aðila til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað, vinnugögn o.fl. Í 4. tölul. greinarinnar er lagt til að gögn sem ráðherra aflar frá sérfróðum aðilum vegna undirbúnings lagafrumvarpa verði undanþegin upplýsingarétti. Fyrir nefndinni komu fram ábendingar um að sömu hagsmunir og ákvæðið verndar virðast nægjanlega verndaðir með 1. tölul. 6. gr. og 10. gr. frumvarpsins. Þar er um að ræða gögn sem tekin hafa verið saman fyrir ríkisstjórnar- og ráðherrafundi og gögn sem heimilt er að undanþiggja aðgangi almennings og varða mikilvæga almannahagsmuni. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið sem komu fram um að það væri vandséð hvers vegna eigi að hafa sérstakt undantekningarákvæði um ráðgjöf utanaðkomandi sérfræðinga en ekki önnur gögn vegna undirbúnings lagafrumvarpa, svo sem gögn er tengjast undirbúningi fjárlaga og send eru á milli stjórnvalda. Meiri hlutinn leggur því til að 4. tölul. 6. gr. falli brott sem leiðir til þess að 2. tölul. 12. gr. verður óþarfur og því einnig lagt til að hann falli brott.

Vinnugögn.
    Nefndin fjallaði sérstaklega um hugtakið vinnugagn en með 8. gr. frumvarpsins eru lagðar til nokkrar breytingar frá gildandi lögum sem hafa sætt nokkurri gagnrýni. Umfjöllun nefndarinnar snerist að miklu leyti um hver þörfin væri á þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu og hvaða áhrif þær hefðu. Kom formaður úrskurðarnefndar um upplýsingamál m.a. fyrir nefndina til að svara þeim álitaefnum.
    Til þess að skjal geti fallið undir hugtakið vinnuskjal stjórnvalds þurfa samkvæmt gildandi lögum að vera þrjú skilyrði fyrir hendi, þ.e. að það sé undirbúningsgagn, það sé í reynd vinnuskjal, það sé ritað af stjórnvaldinu sjálfu og sé einvörðungu ætlað til eigin afnota þess. Fyrir nefndinni kom fram að ef skjal er ritað af aðila sem starfar utan stjórnvalds svo sem sjálfstæðum ráðgjafa eða verktaka, þá er einu af þremur skilyrðum ekki fullnægt og hefur í úrskurðarframkvæmd ekki verið fallist á að slík skjöl séu lengur undanþegin upplýsingarétti á grundvelli ákvæðis um vinnuskjöl. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þessir meginþættir ráði. Það verður ófrávíkjanlegt skilyrði að skjal sé í reynd vinnugagn, þ.e. undirbúningsgagn. Á það líka við um þau gögn sem falla undir 2., 3. og 4. tölul. 2. mgr. en með þeim er lagt til að kveðið verði á um nokkuð þrönga undantekningu frá því skilyrði að skjal sé ritað af stjórnvaldinu sjálfu og einvörðungu til eigin afnota þess.
    Ákvæðum 2. og 3. tölul. 2. mgr. 8. gr. frumvarpsins er ætlað að auka möguleika stjórnvalda til að vinna saman að hugmyndum, stefnumörkun eða tilteknum viðlögum við yfirvofandi vá eða sambærilegum þáttum. Fyrir nefndinni kom fram að á slíku er sífellt ríkari þörf í nútíma stjórnsýslu. Samkvæmt gildandi upplýsingalögum geta undirbúningsgögn nær aldrei talist vinnuskjöl ef þeim er miðlað á milli stjórnvalda eða frá og til sameiginlegra starfshópa stjórnvalda. Í 2. tölul. 2. mgr. 8. gr. er lagt til að gögn sem unnin eru af nefndum eða starfshópum sem stjórnvöld hafa sett á fót með formlegri ákvörðun og fastmótuðu hlutverki falli undir hugtakið vinnugagn og í 3. tölul. sömu málsgreinar að gögn sem send eru milli aðila skv. 2. tölul. og annarra stjórnvalda þegar starfsmenn þeirra eiga þar sæti fallið einnig undir hugtakið vinnugögn. Með þessum töluliðum er því lagt til það skilyrði að samvinnan sem um ræðir sé í formi starfshóps eða nefndar sem sett hafi verið á fót með formlegri ákvörðun og fastmótuðu hlutverki. Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að samvinna stjórnvalda verði markviss en ekki óformleg og tilviljanakennd.
    Nefndin fjallaði einnig um 4. tölul. 2. mgr. 8. gr. en þar er lagt til að einnig teljist til vinnugagna gögn vegna ráðgjafar sem ráðuneyti aflar hjá öðru ráðuneyti eða stjórnvaldi sem heyrir undir yfirstjórn þess. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að á þessum tölulið væri sá galli að hann vinni að nokkru marki gegn því markmiði 2. og 3. tölul. 2. mgr. 8. gr. að þrýsta á að samvinna stjórnvalda sé almennt séð formföst og fastmótuð. Í greinargerð koma fram þær röksemdir að nauðsynlegt þyki að kveða á um slíka reglu í lögum til að stuðla að virku samstarfi milli ráðuneyta og stjórnvalda sem heyra undir yfirstjórn þeirra svo nýta megi með sem virkustum hætti þá sérþekkingu sem til staðar er á hverjum stað. Rökin séu að mestu þau sömu og búi að baki 2. og 3. tölul. enda hætt við að samstarf þeirra stjórnvalda mundi ekki ná tilgangi sínum nyti þessarar undantekningar ekki við. Meiri hlutinn fellst ekki á þau sjónarmið og telur að með 4. tölul. málsgreinarinnar sé verið að þrengja um of að rétti almennings til aðgangs að gögnum hjá stjórnsýslunni frá gildandi rétti og að það sé í reynd ekki í anda frumvarpsins. Meiri hlutinn tekur fram nauðsyn þess að samvinna stjórnvalda sé formföst og rekjanleg og telur að með öðrum takmörkunum sem lagðar eru til í frumvarpinu á upplýsingarétti almennings séu starfsskilyrði stjórnvalda nægjanlega tryggð og leggur því til að 4. tölul. 2. mgr. 8. gr. falli brott.

Málsmeðferð úrskurðarnefndarinnar.
    Í 4. mgr. 22. gr. er kveðið á um málsmeðferð úrskurðarnefndar um upplýsingamál ef stjórnvald hefur ekki tekið rökstudda afstöðu til þess, þegar það synjar um aðgang að umbeðnum gögnum, af hverju það telur ekki rétt að beita heimildinni til að veita aðgang að gögnum umfram skyldur sínar samkvæmt lögunum. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að það væri skref í átt til aukins upplýsingaréttar að kveða í lögum á um skyldu stjórnvalda til að taka afstöðu til þess hvort veita eigi aukinn aðgang að gögnum, umfram skyldu. Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og telur að með því að lögfesta þá reglu aukist líkur til að stjórnvöld spyrji þeirrar almennu spurningar hvort raunverulegir hagsmunir standi í vegi fyrir því að aðgangur sé veittur, fremur en að leitað sé beint í þær heimildir sem til staðar eru til að takmarka upplýsingarétt. Einnig megi færa rök fyrir því að ef stjórnvöld temja sér almennt þessa beitingu upplýsingalaga verði vinna þeirra við úrvinnslu beiðna um aðgang að gögnum einfaldari og skilvirkari hjá þeim. Meiri hlutinn telur slíka reglu vera til hagsbóta fyrir þá sem vilja nálgast upplýsingar og fækki jafnvel kærum til úrskurðarnefndarinnar. Kom fram að úrskurðarnefndin virðist ekki hafa beitt þessari heimild til heimvísunar í úrskurðarframkvæmd þrátt fyrir að upphafleg úrlausn sé augljóslega haldin verulegum annmörkum og er meginástæða þess sú að heimvísun er almennt fallin til að lengja heildartímann þar til viðkomandi borgari fær endanlega niðurstöðu um beiðni sína um aðgang að gögnum. Meiri hlutinn telur þó engu síður nauðsynlegt að úrskurðarnefndin hafi áfram almenna heimild til heimvísunar og geti þannig vísað málum heim til nýrrar og lögmætrar málsmeðferðar ef sérstakar ástæður koma til.
    Í 4. mgr. er lagt til að kveðið verði á um að ef stjórnvald sinnir ekki skyldu sinni skv. 2. mgr. 11. gr. frumvarpsins um að útskýra eða taka afstöðu til þess af hverju heimildinni til að veita aukinn aðgang var ekki beitt, þá skuli vísa málinu heim um þann þátt þess. Kom fram að skilja mætti ákvæðið þannig að ekki mætti heimvísa í öðrum tilvikum. Meiri hlutinn tekur undir að þetta er ekki heppilegt og fellst á tillögur um að ákvæði 4. mgr. 22. gr. falli brott. Meiri hlutinn tekur undir að það sé úrskurðarnefndar um upplýsingamál að móta þá framkvæmd á grundvelli almennra óskráðra réttarheimilda að leysa almennt úr málum á grundvelli þeirrar hugmyndar sem ákvæði 4. mgr. 22. gr. byggist á, og er lýst í greinargerð með frumvarpinu, að heimvísa málum til réttrar og lögmætrar meðferðar.

Tilgreiningarreglan.
    Nefndin fjallaði einnig um rýmkun tilgreiningarreglunnar en með frumvarpinu er lagt til að nægilegt sé að tilgreina beiðni við efni máls en ekki einstakt mál í stjórnsýslunni. Nefndin telur að þetta geti haft í för með sér meiri vinnu við upplýsingabeiðnir og leiðbeiningar fyrir almenning. Meiri hlutinn telur þó að með markvissri skráningu mála í málaskrár á vef og þar með auknu aðgengi almennings að þeim verði hægt að nálgast gögn með mun einfaldari hætti án þess að leita þurfi til stjórnsýslunnar.

Gögn hjá sveitarfélögum.
    Nefndin ræddi einnig nokkuð um hvort stjórnsýslan væri nægilega vel í stakk búin til að geta tekið við og afgreitt beiðnir um aðgang að gögnum og upplýsingum. Kom fram að sveitarfélögin sem eru 75 talsins séu misjafnlega vel undir það búin að sinna þeim skyldum sem felast í frumvarpinu bæði með tilliti til mannafla og skjalavörslu, m.a. ef yfirgripsmiklar beiðnir um upplýsingar berast þeim. Komu fram sjónarmið um að það gæti verið rétt að veita minnstu sveitarfélögunum einhvern aðlögunartíma áður en lögin taki að fullu gildi gagnvart þeim. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið og telur rétt að gefa minnstu sveitarfélögunum sem eru með íbúa undir 1.000 manns við gildistöku laganna aðlögunartíma fram til ársloka 2015 og leggur til breytingartillögu við frumvarpið þess efnis. Fram að því gilda ákvæði upplýsingalaga, nr. 50/1996, og samkvæmt þeim lögum og frumvarpi þessu geta sveitarfélögin ætíð veitt aukinn aðgang að gögnum.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að gjaldskrárákvæði verði að endurspegla þann kostnað sem þeir sem falla undir lögin muni hafa af framkvæmd þeirra og að kostnaður milli sveitarfélaga getur verið mismunandi. Meiri hlutinn tekur í því sambandi fram að það er almenn regla að þjónustugjöld þurfa að endurspegla þann kostnað sem af þjónustunni hlýst þó að gjaldskráin verði að vera almenn.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
    Á fundum nefndarinnar var einnig fjallað um verkefni úrskurðarnefndar um upplýsingamál en fyrir nefndinni kom fram að fyrirséð er að málafjöldi muni aukast hjá nefndinni með gildistöku nýrra laga þar sem margir aðilar munu láta reyna á rétt sinn fyrir nefndinni á grundvelli þeirra. Samkvæmt frumvarpinu verður einnig unnt að kæra ákvarðanir á grundvelli breytingar á lögum um Þjóðskjalasafn sem er nýmæli. Kom fram að taka mun tíma hjá nefndinni að túlka ný viðfangsefni samkvæmt breyttum lögum. Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að bregðast við því með því að styrkja nefndina þannig að málsmeðferðartími hjá henni haldist innan viðunandi marka.
    Nefndin fjallaði einnig um starfsskilyrði nefndarinnar sem er rekin í samstarfi við forsætisráðuneytið og með starfsmann þess í hlutastarfi fyrir nefndina. Meiri hlutinn telur það umhugsunarvert hvort það fyrirkomulag gangi þegar litið er til þess að nefndin þarf m.a. að úrskurða í kærumálum á hendur forsætisráðuneyti en tekur fram að miðað við úrskurði nefndarinnar hefur það ekki haft áhrif á niðurstöður hennar.

Skilaskylda til Þjóðskjalasafns.
    Nefndin fjallaði einnig um þær breytingar sem lagðar eru til á lögum um Þjóðskjalasafn í frumvarpinu en fyrir nefndinni kom fram að einnig hefur verið unnið að heildarendurskoðun þeirra laga eins og upplýsingalaga og að nokkur samvinna hefði verið hjá þessum tveimur starfshópum. Frumvarp til breytingar á lögum um Þjóðskjalasafn hefur þó ekki verið lagt fram á Alþingi. Meiri hlutinn telur að þegar litið er til þess að upplýsingaréttur í framtíðinni muni byggjast á þessum tveimur lagabálkum hefði verið rétt að vinna þessi mál í samvinnu og leggja samhliða fram á Alþingi.
    Í frumvarpinu er lagt til að þjóðskjalavörður setji reglur um hvernig skjalavörslu eigi að vera háttað hjá þeim sem falla undir gildissvið laganna. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að þau kerfi sem fyrirtæki eru með séu sniðin að þeirra þörfum með hagkvæmni og gæði að leiðarljósi og að verið geti mjög kostnaðarsamt að þurfa að gera breytingar á þeim kerfum. Meiri hlutinn tekur í því sambandi fram að með greininni er lagt til að þjóðskjalavörður setji leiðbeinandi reglur um skjalavörslu og skjalaskráningu og er það nauðsynlegt til að málsgögn séu vistuð með skipulegum hætti þannig að aðgengi að gögnum verði raunhæft.
    Meiri hlutinn telur ljóst að með samþykkt þessa frumvarps mun vinna við að gera gögn aðgengileg aukast, m.a. með því að færa þau á vefinn, en telur að sú vinna muni skila sér í auknu aðgengi að upplýsingum og opnara samfélagi.
    Meiri hlutinn bendir á að í d-lið V. kafla almennra athugasemda við frumvarpið, í umfjöllun um brottfall takmarkana á upplýsingarétti, kemur fram að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hafi lagt til að tímamark er varðar aðgang að upptökum og endurritum af fundum ríkisstjórnar yrði stytt. Við meðferð frumvarpsins voru ekki lagðar til breytingar á 4. mgr. 7. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, en þar er kveðið á um upptökur, endurrit og aðgang að þeim. Sú grein hefur nú verið felld brott með nýsamþykktum lögum um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2012, en þar er kveðið á um skriflega framlagningu mála fyrir ríkisstjórn í stað hljóðupptaka af ríkisstjórnarfundum. Til samræmis við þá lagabreytingu leggur meiri hlutinn til smávægilegar orðalagsbreytingar á 1. tölul. 6. gr. og að 3. tölul. 36. gr. frumvarpsins falli brott. Meiri hlutinn leggur auk þess til smávægilega tæknilega lagfæringu á 3. gr. frumvarpsins.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



     1.      Í stað orðanna „undanþágu skv. 3. mgr.“ í 3. mgr. 2. gr. komi: undanþágu samkvæmt málsgreininni.
     2.      Við 6. gr.
              a.      Orðin „upptaka eða endurrita af fundum ríkisstjórnar“ í 1. tölul. falli brott.
              b.      4. tölul. falli brott.
     3.      Í stað orðanna „sbr. 2. gr.“ í 1. mgr. 7. gr. komi: skv. 2. gr.
     4.      4. tölul. 2. mgr. 8. gr. falli brott.
     5.      Við 12. gr.
                  a.      Orðin „sbr. þó ákvæði 4. mgr. 7. gr. laga um Stjórnarráð Íslands“ í 1. tölul. 1. mgr. falli brott.
                  b.      2. tölul. 1. mgr. falli brott.
     6.      4. mgr. 22. gr. falli brott.
     7.      Við 35. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skulu ákvæði upplýsingalaga, nr. 50/1996, halda gildi sínu til 1. janúar 2016 gagnvart sveitarfélögum með íbúa undir 1.000 manns við gildistöku þessara laga.
     8.      3. tölul. 36. gr. falli brott.

Alþingi, 11. desember 2012.



Valgerður Bjarnadóttir,


form.


Róbert Marshall,


frsm.


Álfheiður Ingadóttir.



Lúðvík Geirsson.


Skúli Helgason.


Margrét Tryggvadóttir.