Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 416. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 734  —  416. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um breytingu á lögum um rannsóknarnefndir, nr. 68/2011.

Frá minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórhall Vilhjálmsson aðallögfræðing Alþingis. Umsögn barst frá Alþýðusambandi Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til þrenns konar breytingar á lögum um rannsóknarnefndir sem varða í fyrsta lagi skipun nefndarmanna, í öðru lagi kostnað vegna upplýsingaöflunar og í þriðja lagi skaðleysi nefndarmanna.

Skipun rannsóknarnefndarmanna.
    Sú breyting sem lögð er til á 2. gr. laganna felur m.a. í sér að héraðsdómurum sem skipaðir eru til setu í rannsóknarnefnd er veitt leyfi frá störfum dóms meðan nefnd starfar. Samkvæmt dómstólalögum er óheimilt að veita héraðsdómara leyfi frá störfum í lengri tíma en ár nema um veikindi sé að ræða. Að óbreyttu gæti dómari því ekki unnið lengur en í eitt ár fyrir rannsóknarnefnd en gera verður ráð fyrir því að störf nefnda geti tekið lengri tíma. Ákvæðið gengur því framar ákvæði dómstólalaga og skapar festu í störfum þeirra rannsóknarnefnda sem þurfa að starfa lengur en í ár.
    Þá er lögð til sú breyting á 2. gr. laganna að þar verði kveðið á um að ríkisstarfsmenn sem skipaðir eru í rannsóknarnefnd eigi rétt á launalausu leyfi þann tíma sem nefndin starfar. Slíkt leyfi hefur þá ekki áhrif á önnur starfsréttindi, þar á meðal aðild að lífeyrissjóði. Sambærilegt ákvæði er að finna í 10. gr. laga nr. 73/2007, um íslensku friðargæsluna og þátttöku hennar í alþjóðlegri friðargæslu. Þeim sjónarmiðum var komið á framfæri við nefndina að með ákvæðinu væri einstaklingum mismunað eftir því hvort þeir störfuðu á almennum markaði eða hjá ríkinu enda tæki ákvæðið eingöngu til ríkisstarfsmanna og þeim væri veittur betri réttur en öðrum. Minni hlutinn áréttar að starfsumhverfi ríkisstarfsmanna er í grundvallaratriðum frábrugðið því sem gerist á almennum markaði. Þannig eru ríkisstarfsmenn ráðnir í þjónustu ríkisins í þágu opinbers verkefnis þar sem samfélagsleg sjónarmið eru höfð að leiðarljósi en ráðningarsamningur vinnuveitenda og starfsmanna á almennum vinnumarkaði byggist á samningsfrelsi þar sem almennt er stefnt að fjárhagslegum ávinningi. Í ljósi þessa verður almennt að treysta því að einstaklingar sem starfa á almennum vinnumarkaði og veljast til setu í rannsóknarnefndum semji við vinnuveitendur sína um leyfi vegna þess.
    Að síðustu er lögð til sú breyting á 2. gr. laganna að forsætisnefnd geti skipað annan mann til að taka sæti í rannsóknarnefnd ef nefndarmaður forfallast. Um er að ræða heimildarákvæði en ekki skyldu til handa forsætisnefnd enda ljóst að meta þarf hverju sinni nauðsyn þess að skipa nýjan nefndarmann með hliðsjón af stöðu rannsóknar og þeirri vinnu sem ólokið er. Minni hlutinn telur þó eðlilegt að samræmis sé gætt við önnur ákvæði laganna um skipun nefndarmanna og bendir á að skv. 1. gr. laganna er það forseti Alþingis sem skipar rannsóknarnefnd og skv. 1. mgr. 2. gr. velur hann formann nefndar eins og þar er nánar lýst. Því leggur minni hlutinn til þá breytingu að það verði hlutverk forseta Alþingis en ekki forsætisnefndar að skipa nefndarmenn í forföllum.

Kostnaður við gagnaöflun rannsóknarnefndar.
    Í 2. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 7. gr. laganna um upplýsingaöflun. Samkvæmt gildandi ákvæði er þeim aðila sem rannsóknarnefnd beinir kröfu sinni að skylt að láta í té gögn sem nefndin fer fram á. Á fundi nefndarinnar kom fram að í flestum tilfellum væri þeirri kröfu beint að þeim sem hefði útbúið gögnin eða fengið þau í tengslum við starfsemi sína. Þó gætu komið upp tilvik þar sem gögnin væru í vörslu þriðja aðila. Þetta ætti til að mynda við um gögn margra sparisjóða sem nú væru ekki lengur til en rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna stendur nú yfir samkvæmt ályktun Alþingis nr. 42/139.
    Almennt er gert ráð fyrir því að sá sem hefur gögn undir höndum beri kostnað af því að taka þau saman og koma þeim til rannsóknarnefndar en dæmi eru um að þeir aðilar sem rannsóknarnefndin hefur krafið um gögn hafi óskað eftir því að nefnin beri þennan kostnað. Með ákvæðinu er sú meginregla því fest í sessi að sá sem hefur gögn undir höndum beri kostnaðinn. Í einstökum tilfellum getur þó verið álitamál hvort eðlilegt sé að þriðji aðili beri kostnað af því að taka saman gögn og koma þeim til rannsóknarnefndar. Í athugasemdum við ákvæðið kemur fram að þetta geti t.d. átt við þegar gögn eru vistuð með rafrænum hætti hjá þriðja aðila og sérhæfðan búnað eða kunnáttu þarf til þess að nálgast þau eða þegar afhending þeirra krefst augljóslega kostnaðar umfram það sem almennt má gera ráð fyrir. Í ljósi þessa er því lögð til heimild fyrir rannsóknarnefnd til að ákveða að kostnaður umfram það sem eðlilegt má teljast greiðist af nefndinni.
    Þá er lagt til í ákvæðinu að ef um er að ræða einstakling, lögaðila eða opinbera starfsmenn sem til rannsóknar eru, sbr. 3. og 5. mgr. 5. gr. laganna, beri rannsóknarnefnd almennt kostnað af afhendingu og vinnslu gagnanna eftir því sem við á.

Skaðleysi rannsóknarnefndarmanna.
    Með 3. gr. frumvarpsins er lagt til að við lögin bætist nýtt ákvæði um skaðleysi nefndarmanna rannsóknarnefndar. Samhljóða ákvæði var í lögum um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, nr. 142/2008. Ákvæðinu er ætlað að tryggja að ekki sé unnt að fara í mál við nefndarmenn rannsóknarnefndar vegna atriða sem koma fram í skýrslum rannsóknarnefndar, skýrslum eða frásögnum í tengslum við rannsókn eða málsmeðferð í tilefni af henni. Ákvæði af þessu tagi er jafnframt að finna í öðrum lögum. Þannig er alþingismönnum tryggð ákveðin friðhelgi út af því sem þeir hafa sagt á Alþingi í 2. mgr. 49. gr. stjórnarskrárinnar, en leyfi Alþingis þarf fyrir málsókn af því tagi. Kröfum í tilefni af álitum umboðsmanns Alþingis ber enn fremur að vísa frá dómi, sbr. 16. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, komi fram krafa um það af hálfu umboðsmanns. Þá er málsókn gegn dómurum útilokuð skv. 2. mgr. 32. gr. laga nr. 15/1998, um dómstóla, og ber ríkið skaðabótaábyrgð á gerðum þeirra í samræmi við almennar reglur.
    Með ákvæðinu er vernd nefndarmanna tryggð sem og hlutleysi þeirra. Að auki kemur ákvæðið í veg fyrir að þess verði freistað að hafa áhrif á rannsókn eða tefja hana með málarekstri á hendur rannsóknarnefndarmönnum.
    Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað orðsins „forsætisnefnd“ í 2. efnismgr. 1. gr. komi: forseti Alþingis.

    Valgerður Bjarnadóttir og Vigdís Hauksdóttur voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 14. desember 2012.



Álfheiður Ingadóttir,


frsm.


Oddný Harðardóttir.


Margrét Tryggvadóttir.



Lúðvík Geirsson.