Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 446. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 751  —  446. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um breytingu á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands,
nr. 121/2008, með síðari breytingum (hlutverk Þróunarsamvinnunefndar).


Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hauk Má Haraldsson, Maríönnu Traustadóttur og Guðrúnu Ögmundsdóttur frá Þróunarsamvinnunefnd, Maríu Erlu Marelsdóttur og Helgu Hauksdóttur frá utanríkisráðuneyti og Engilbert Guðmundsson og Þórdísi Sigurðardóttur frá Þróunarsamvinnustofnun Íslands.
    Markmið frumvarpsins er að skýra hlutverk Þróunarsamvinnunefndar skv. 2. gr. laga um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Þannig verði tekinn af allur vafi um aðkomu Alþingis og fulltrúa þingflokkanna að stefnumarkandi umræðu og ákvörðunum ráðherra um málefni alþjóðlegrar þróunarsamvinnu, tvíhliða sem marghliða.
    Í frumvarpinu er hlutverk Þróunarsamvinnunefndar skilgreint nánar en nú er skv. 2. gr. laga um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Kveðið er á um þau efnisatriði sem Þróunarsamvinnunefnd skuli fjalla um, reglubundin störf, aðstöðu, greiðslu kostnaðar vegna starfsemi og reglubundna upplýsingagjöf til utanríkismálanefndar.
    Umsagnaraðilar voru afar jákvæðir í garð frumvarpsins og fögnuðu markmiði þess um að skýra störf og hlutverk nefndarinnar. Helstu athugasemdir umsagnaraðila lutu að mikilvægi þverpólitísks samstarfs og samstöðu, einnig að því hverjum mætti fela að leggja nefndinni til aðstöðu og greiða kostnað vegna starfsemi hennar. Þá var bent á að tryggja mætti samræmi í umfjöllun Þróunarsamvinnunefndar svo að hún fjalli einnig um starfsáætlanir sem unnar eru í ráðuneytinu, til jafns við þær sem unnar eru í Þróunarsamvinnustofnun.
    Nefndin leggur áherslu á að Alþingi hafi skýra aðkomu í ljósi þeirra miklu fjármuna sem veittir eru til þróunarsamvinnu nú þegar og ætlunin er að auka á næstu árum. Þróunarsamvinnunefnd er mikilvæg í því tilliti. Utanríkismálanefnd telur rétt að fela Þróunarsamvinnustofnun að leggja Þróunarsamvinnunefnd til aðstöðu og greiða kostnað vegna starfsemi hennar. Þá telur nefndin rétt að bæta við ákvæðið að nefndin fjalli um starfsáætlanir Þróunarsamvinnustofnunar Íslands svo að hún fjalli einnig um starfsáætlanir utanríkisráðuneytisins á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. Utanríkismálanefnd leggur til að ákvæðið verði almennt og vísi til starfsáætlana á sviði þróunarsamvinnu, svo sem marghliða samvinnu á vegum ráðuneytisins og tvíhliða samvinnu á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.
    Þrátt fyrir nánari skilgreiningu á hlutverki Þróunarsamvinnunefndar tekur nefndin fram að utanríkismálanefnd fer með hið þinglega eftirlitshlutverk varðandi þróunarsamvinnu. Í því sambandi er hin reglubundna upplýsingagjöf Þróunarsamvinnunefndar til utanríkismálanefndar lykilatriði, til viðbótar við skýrslur ráðherra og upplýsingagjöf til Alþingis skv. 9. gr. laganna.
    Hvað varðar ákvæði um reglubundin störf Þróunarsamvinnunefndar, sem komi að jafnaði mánaðarlega saman til fundar, ítrekar utanríkismálanefnd þann skilning að stundum liggi meira af verkefnum fyrir og þá kunni Þróunarsamvinnunefnd að þurfa að funda oftar. Eðlilegt má telja að Þróunarsamvinnunefnd fundi svo oft sem þörf krefur að mati forustu nefndarinnar. Þannig skal formaður, eða varaformaður í forföllum hans, boða til funda í Þróunarsamvinnunefnd, ákveða dagskrá og stýra fundum nefndarinnar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    6. málsl. 1. gr. orðist svo: Enn fremur fjallar nefndin um starfsáætlanir á sviði þróunarsamvinnu, svo sem marghliða samvinnu á vegum ráðuneytisins og tvíhliða samvinnu á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.

Alþingi, 17. desember 2012.



Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Árni Páll Árnason.


Mörður Árnason.



Helgi Hjörvar.


Bjarni Benediktsson.


Ragnheiður E. Árnadóttir.



Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.


Gunnar Bragi Sveinsson.


Álfheiður Ingadóttir.