Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 416. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 771  —  416. mál.

2. umræða.


Framhaldsnefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um breytingu á lögum um rannsóknarnefndir nr. 68/2011.

Frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið að nýju og fengið á sinn fund Róbert R. Spanó, prófessor við Háskóla Íslands.

Skaðleysi nefndarmanna.
    Nefndin fjallaði á fundi sínum að nýju um 3. gr. frumvarpsins um skaðleysi nefndarmanna og gildissvið þeirrar greinar. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að gildissviðið væri mjög rúmt þar sem það er ekki takmarkað við nefndarmenn sem skipaðir hafa verið til starfans en nær til allra einstaklinga sem unnið hafa að rannsókninni. Meiri hlutinn tekur fram að fyrirmynd ákvæðisins er fengin úr lögum um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, nr. 142/2008, með síðari breytingum, sem voru sett til að bregðast við mjög sérstökum aðstæðum. Meiri hlutinn telur ekki þörf á að ákvæðið nái til einstaklinga sem unnið hafa að viðkomandi rannsókn eins og segir í greininni heldur eingöngu til þeirra sem skipaðir hafa verið til starfans, þ.e. nefndarmanna. Meiri hlutinn telur jafnframt rétt að ákvæðið um skaðleysi nái til þeirra sem áður hafa verið skipaðir á grundvelli laga um rannsóknarnefndir og leggur til breytingu á gildistökugreininni því til samræmis.
    Nefndin fjallaði einnig um þau gögn sem ákvæði 3. gr. er ætlað að ná yfir en samkvæmt greininni er lagt til að kröfum út af atriðum sem koma fram í skýrslu rannsóknarnefndar eða öðrum skýrslum eða frásögnum í tengslum við rannsóknina verði ekki beint að þeim sem unnið hafa að rannsókninni. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að með þessu sé einnig kveðið á um mjög rúmt gildissvið. Meiri hlutinn telur nægilegt að takmarka verndina við rannsóknarskýrslu nefndarinnar og aðrar skýrslur í tengslum við rannsóknina og leggur því til breytingu á frumvarpinu í þá veru.
    Fyrir nefndinni komu einnig fram sjónarmið um að í nefndaráliti 1. minni hluta um málið (þskj. 734) séu nefnd dæmi um ákvæði um skaðleysi sem séu í reynd ekki að fullu sambærileg, þ.e. ákvæði um friðhelgi alþingismanna og um dómara.
    Fyrir nefndinni kom fram að ákvæði um skaðleysi umboðsmanns Alþingis, sbr. 16. gr. laga um umboðsmann Alþingis, nr. 85/1997, sé í reynd það ákvæði sem er sambærilegt við ákvæði 3. gr. frumvarpsins um skaðleysi nefndarmanna og tekur nefndin undir það. Á það má benda að umboðsmaður er kosinn af Alþingi og rannsóknarnefnd er skipuð af forseta Alþingis ef samþykkt er þingsályktun um slíka rannsókn. Rannsóknarheimildir umboðsmanns eru nánast sambærilegar við rannsóknarheimildir sem rannsóknarnefnd hefur gagnvart opinberum aðilum en rannsóknarnefnd hefur rýmri rannsóknarheimildir en umboðsmaður þar sem sérhverjum, jafnt einstaklingum og stofnunum sem lögaðilum, er skylt að verða við kröfu rannsóknarnefndarinnar um að láta í té gögn sem hún fer fram á, sbr. ákvæði 7. gr. laga um rannsóknarnefndir, nr. 68/2011.
    Meiri hlutinn telur að verði breytingartillögur nefndarinnar samþykktar nái vernd skv. 3. gr. frumvarpsins ekki til munnlegrar frásagnar heldur einungis til skriflegrar framsetningar í skýrslu og beri nefndarmenn því t.d. ábyrgð á yfirlýsingum sínum í fjölmiðlum varðandi rannsóknir sem þeir hafa unnið að.

Endurskoðun laganna.
    Á fundi nefndarinnar var einnig fjallað um þörf á endurskoðun laga um rannsóknarnefndir í ljósi þeirrar reynslu sem komin er á framkvæmd þeirra. Nú þegar hafa tvær rannsóknarnefndir verið skipaðar á grundvelli laganna og samþykkt hefur verið að skipa þá þriðju. Meiri hlutinn telur mikilvægt að sú endurskoðun fari fram sem fyrst og að í þeirri vinnu verði litið til þess hvaða reglur gilda um sambærilegar rannsóknarnefndir annars staðar á Norðurlöndunum, sérstaklega í Noregi og Danmörku. Meiri hlutinn beinir þeim tilmælum til forsætisnefndar að hún skipi vinnuhóp sem taki til starfa eigi síðar en 1. febrúar nk. þannig að vinnuhópurinn hafi greiðan aðgang að upplýsingum og reynslu nefndarmanna í þeim nefndum sem nú eru starfandi.
    Meiri hlutinn leggur til þær breytingar á 3. gr. að skaðleysi verði takmarkað við nefndarmenn, þ.e. þá sem hafa verið skipaðir til starfans frá gildistöku laga um rannsóknarnefndir og bera ábyrgð á verkinu, en ekki við einstaklinga sem koma að verkinu. Þá er einnig lagt til að skaðleysi nefndarmanna takmarkist við þau atriði sem koma fram í skýrslu rannsóknarnefndar og öðrum skýrslum tengdum rannsókninni, svo sem áfangaskýrslum eða hlutaskýrslum.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:


     1.      Við 3. gr.
                  a.      Orðin „eða frásögnum“ í 1. málsl. falli brott.
                  b.      Í stað orðanna „þeim einstaklingum“ í 1. málsl. komi: nefndarmönnum.
     2.      Við 4. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvæði 3. gr. (13. gr. a) tekur jafnframt til þeirra nefndarmanna sem skipaðir hafa verið fyrir gildistöku laga þessara á grundvelli laga um rannsóknarnefndir.


Alþingi, 19. desember 2012.



Álfheiður Ingadóttir,


frsm.


Ólína Þorvarðardóttir.


Lúðvík Geirsson.



Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.


Margrét Tryggvadóttir.