Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 473. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Prentað upp.

Þingskjal 794  —  473. mál.
Leiðrétting.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vörugjald, nr. 97/1987,
og tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á almennum vörugjöldum sem lögð eru á samkvæmt lögum nr. 97/1987, um vörugjald. Yfirlýst markmið þess er tvíþætt, annars vegar að gera álagningu vörugjalda skilvirkari og einfaldari, auk þess að sníða af agnúa og misræmi, en hins vegar að færa álagningu vörugjalda í það horf að gefa skýrari hagræn skilaboð til þess að færa neyslu matvæla í átt til aukinnar hollustu með svokölluðum sykurskatti. Auk þess er því ætlað að auka tekjur ríkissjóðs um 800 millj. kr. á árinu 2013 eða 960 millj. kr. á ársgrundvelli.
    Offita hefur aukist gífurlega um heim allan og er hún nú talin eitt stærsta heilsufarsvandamálið. Rannsóknir sýna að þróunin hér á landi er svipuð og í Ameríku og Evrópu. Orsakir aukinnar offitu eru taldar vera samspil mataræðis, erfða, umhverfis og hreyfingarleysis. Afleiðingar offitu eru fjölmargar, en ekki hvað síst lífshættulegir sjúkdómar á borð við sykursýki 2, háþrýstingur, hjarta- og æðasjúkdómar, blóðfituröskun, efnaskiptavilla, kæfisvefn og nokkrar tegundir krabbameins, auk þess sem sýnt hefur verið fram á tengsl við margvísleg sálræn og félagsleg vandamál. Aukin offita barna og unglinga hefur verið sérstakt áhyggjuefni.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í greininni „Offita – Hvað er til ráða“ (Elva Gísladóttir og Hólmfríður Þorgeirsdóttir), sem rituð er af tveimur starfsmönnum embættis landlæknis, er bent á að offita og ofneysla er samfélagslegur vandi og bregðast verði við honum á fjölþættan máta. Þar er nefnd heildræn heilsustefnu fyrir börn, þar sem sveitarfélög, skólar og íþróttafélög tækju höndum saman til að hvetja til hreyfingar og heilsusamlegs fæðis. Stjórnvöld og matvælaframleiðendur styðja svo við það starf með upptöku Skráargatsins, samnorræns hollustumerkis, en Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, átti frumkvæði að því að Alþingi ályktaði um upptöku þess. Með því geta neytendur á auðveldari og myndrænan hátt valið hollari matvöru með tilliti til mettaðrar fitu, salts, viðbætts sykurs og trefja. Höfundar benda einnig á verðstýringu með sköttum eða vörugjöldum með sérstakri áherslu á sykraða gos- og svaladrykki. Þar segir: „Í grein sem birtist í New England Journal of Medicine á árinu 2009 er talað um að aukin neysla sykraðra gos- og svaladrykkja geti verið ein helsta orsök offitufaraldursins. Þar er talað um að verðstýring með sköttum eða vörugjöldum á sykraða gosdrykki geti verið áhrifarík leið til að minnka neyslu á slíkum vörum og að slík verðhækkun gæti haft áhrif þar sem þörfin er brýnust, þ.e. hjá börnum og ungmennum og öðrum þeim sem drekka mest gos.“
    Því hefði mátt ætla að embætti landlæknis mundi fagna frumvarpinu og styðja það heils hugar. Það gerir embættið ekki í umsögn sinni og bendir á að markmið þess um manneldissjónarmið muni ekki nást með fram komnum tillögum. Vörugjald á gosdrykki mun einungis hækka lítillega, eða um 5 kr. á lítra eða 2,5 kr. á hálfan lítra. Vörugjöld á súkkulaði lækkar hins vegar um 16 kr. á kíló, einnig á ýmsu öðru sælgæti og kexi. Niðurstaðan verður því lítil breyting á neyslu gosdrykkja en gæti aukið neyslu á sælgæti, sem flestir telja víst vera næga fyrir.
    Embætti landlæknis bendir á að bein hækkun vörugjalda á gosdrykki og sælgæti gæti verið árangursríkari leið til að draga úr sykurneyslu landsmanna. Aðrir hafa velt upp hugmyndum um að færa þessar vörur upp í hærra þrep virðisaukaskattsins.
    Rannsóknir um verðteygni neytenda við kaup á matvælum styðja þetta, en hún er frekar lítil, þ.e. verðbreytingar hafa lítil áhrif á eftirspurn. Hún er þó meiri í vörum sem teljast ekki nauðsynjavörur og hjá börnum og unglingum.
    Mjög brýnt er að dregið verði úr þyngdaraukningu þjóðarinnar. Ekki er þar aðeins um að ræða skert lífsgæði og ótímabæra dauða þeirra einstaklinga sem berjast við offitu heldur gífurlegan kostnað fyrir samfélagið. Tinna Laufey Ásgeirsdóttir hagfræðingur áætlaði að ef landsmenn héldu áfram að þyngjast mundi það kosta þjóðarbúið um 2–4 milljarða kr. í auknum útgjöldum bara í heilbrigðiskerfinu.
    Annar minni hluti tekur undir þessar athugasemdir embættis landlæknis og telur ljóst að meginmarkmið frumvarpsins séu tekjuöflun, en ekki yfirlýst manneldis- eða lýðheilsusjónarmið, og getur því ekki stutt frumvarpið. 2. minni hluti gerir einnig athugasemd við að ekki virðist gert ráð fyrir að nýta auknar tekjur af vörugjöldum í lýðheilsuverkefni gegn offitu, svo sem að tryggja skólabörnum hollari mat eða til að auka fræðslu um mikilvægi hollrar fæðu og hreyfingar.

Alþingi, 19. desember 2012.



Eygló Harðardóttir,


frsm.


Lilja Mósesdóttir.