Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 151. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 827  —  151. mál.

3. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.


    Málinu var vísað aftur til nefndarinnar á milli 2. og 3. umræðu. Nefndin fjallaði um þær athugasemdir og ábendingar sem fram komu við 2. umræðu málsins í þinginu. Fram kom í umræðunni að heiti frumvarpsins væri ekki lýsandi fyrir innihald þess þar sem frumvarpið miðaði ekki að því að selja eignarhluti ríkisins heldur miklu fremur hvernig söluferli hlutanna yrði háttað ef til sölu á þeim kæmi og að ekki skuli seldur 70% eignarhlutur í Landsbanka Íslands. Minni hlutanum þykir rétt að taka tillit til þessara ábendinga.
    Einnig kom fram í umræðunni að Alþingi hefði ákveðið að hefja rannsókn á einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. Ekki væri ólíklegt að draga mætti nokkurn lærdóm af niðurstöðu þeirrar rannsóknar sem gæti jafnvel haft áhrif á söluferli og meðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Minni hlutanum þykir rétt að bregðast við þessu með sérstöku bráðabirgðaákvæði í frumvarpinu.
    Vegna umræðunnar telur minni hlutinn rétt að vekja athygli á því að í athugasemdum við frumvarpið er sérstaklega vitnað til eigendastefnu ríkisins um meðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Í henni eru sett skýr markmið með eignarhaldi ríkisins í fjármálafyrirtækjum, skipulag og ábyrgð á eignarhaldi ríkisins sem frumvarpið tekur mið af, m.a. um dreifða eignaraðild sem eitt af undirmarkmiðum eigendastefnunnar.
    Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                      Alþingi hefur ályktað að skipa rannsóknarnefnd um einkavæðingu þriggja banka á tímabilinu 1998–2003. Þegar niðurstöður þeirrar rannsóknar liggja fyrir skal fjármála- og efnahagsráðherra endurskoða einstök ákvæði þessara laga til samræmis við ábendingar rannsóknarnefndarinnar ef tilefni þykir til.
     2.      Fyrirsögn frumvarpsins verði: Frumvarp til laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

Alþingi, 21. desember 2012.



Björn Valur Gíslason,


form., frsm.


Sigmundur Ernir Rúnarsson.


Lúðvík Geirsson.



Valgerður Bjarnadóttir.