Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 151. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 846  —  151. mál.

3. umræða.


Breytingartillaga



við frumvarp til laga um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

Frá Lilju Mósesdóttur.


    Við 4. gr.
     1.      Í stað síðari málsliðar 2. mgr. komi fjórir nýir málsliðir, svohljóðandi: Tilboðsmatinu skal fylgja mat Fjármálaeftirlitsins á hæfi tilboðsgjafa til að fara með eignarhlut í fjármálafyrirtæki. Vegna undirbúnings hæfismatsins er tilboðsgjafa skylt að upplýsa Fjármálaeftirlitið um hver raunverulegur eigandi eignarhlutarins verði. Til raunverulegs eiganda telst einstaklingur, einn eða fleiri, sem í raun eignast hlut í fjármálafyrirtæki eða stýrir viðskiptamanni, lögaðila eða einstaklingi sem það gerir. Raunverulegur eigandi telst m.a. vera:
                  a.      einstaklingur eða einstaklingar sem í raun eiga eða stjórna lögaðila í gegnum beina eða óbeina eignaraðild í lögaðilanum, eða teljast á annan hátt hafa yfirráð yfir lögaðila,
                  b.      einstaklingur eða einstaklingar sem eru framtíðareigendur fjárvörslusjóðs eða svipaðs löglegs fyrirkomulags, eða hafa yfirráð yfir eignum hans; í tilvikum þar sem ekki hefur enn verið ákveðið hverjir muni njóta góðs af slíkum fjárvörslusjóði telst raunverulegur eigandi vera sá eða þeir sem sjóðurinn er stofnaður fyrir eða starfar fyrir.
     2.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Ráðherra er aðeins heimilt að taka tilboði um kaup eignarhlutarins og undirrita samninga þess efnis fyrir hönd ríkisins að:
                  a.      Alþingi hafi veitt honum slíka heimild með samþykkt þingsályktunar. Slíka tillögu til þingsályktunar skal ráðherra þó aðeins leggja fram að heildarfjárhæð tilboðsins sé hærra en verðmat óvilhalls matsmanns gefur til kynna. Verðmatið skal fylgja þingsályktunartillögunni við framlagningu hennar,
                  b.      tilboðið feli ekki í sér að greiðsla kaupverðs fari fram, að hluta eða heild, með aflandskrónum, verðmætum í innlendum gjaldeyri í eigu eða vörslu erlendra aðila, eða ávísun á slík verðmæti, sem lúta sérstökum takmörkunum samkvæmt reglum um gjaldeyrismál.