Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 410. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 901  —  410. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um Reykjanesbraut.


     1.      Hvaða áætlanir eru uppi um að ljúka við tvöföldun Reykjanesbrautar til beggja enda?
    Í samgönguáætlun 2011–2022 eru áætlaðar 1.800 millj. kr. til Reykjanesbrautar á 2. tímabili, 2015–2018, og 4.200 millj. kr. á 3. tímabili, 2019–2022. Samanlagðar fjárveitingar eru því 6.000 millj. kr. Þar með verður lokið tvöföldun Reykjanesbrautar Hafnarfjarðarmegin, en kaflinn er um 8 km að lengd. Ekki liggja fyrir tímasettar áætlanir um tvöföldun frá Fitjum í Innri-Njarðvík að Flugstöð Leifs Eiríkssonar, en umferð minnkar verulega vestan við Fitjar, kaflinn frá Fitjum að flugstöð er um 6 km að lengd.

     2.      Hver er kostnaðurinn við þá tvöföldun sem lokið er, reiknað til núvirðis?
    Kostnaðurinn við tvöföldun á 24 km kafla frá sveitarfélagamörkum Hafnarfjarðar og Sveitarfélagsins Voga að Fitjum í Innri-Njarðvík er u.þ.b. 6.300 millj. kr. reiknað til verðlags í nóvember 2012.

     3.      Hvaða áætlanir eru um að ljúka framkvæmdum við þann hluta sem þegar hefur verið tvöfaldaður, annars vegar vegrið í miðju og á hættulegum stöðum til hliðar við veginn og hins vegar ljósastaura sem ekki eru af viðurkenndri gerð og einungis öðrum megin?
    Á undanförnum árum hafa verið sett upp vegrið á milli akbrauta á höfuðborgarsvæðinu þar sem umferðarhraði er mestur. Á þetta við um Vesturlandsveg frá Skarhólabraut að vegamótum við Suðurlandsveg og áfram niður Ártúnsbrekku að Reykjanesbraut, Miklubraut frá Lönguhlíð vestur fyrir Snorrabraut, Hafnarfjarðarveg frá Listabraut að Vífilsstaðavegi og á Reykjanesbraut frá Bústaðavegi að Vífilsstaðavegamótum og einnig frá Kaplakrika suður fyrir Kaldárselsveg.
    Áætlanir Vegagerðarinnar miðast við að ljúka uppsetningu vegriða á Reykjanesbraut í Garðabæ á árinu 2013 og hefja það ár uppsetningu á Reykjanesbraut sunnan Straumsvíkur. Miðað við fjárveitingar má gera ráð fyrir að lokið verði uppsetningu vegriðs í vegmiðju suður að Fitjum á árunum 2015–2016.
    Kostnaðaráætlun miðast við einfalt víravegrið að mestu leyti. Einstaka kafli gæti þó verið með tvöföldu vegriði vegna hæðarmunar á milli akbrauta. Laga þarf innri fláa á nokkrum köflum.
    Heildarkostnaður við uppsetningu vegriðsins er áætlaður um 350 millj. kr.
    Vegagerðin hefur ekki áætlað að setja upp sérstaka veglýsingu við syðri akbraut Reykjanesbrautar. Ekki hefur heldur verið áætlað að skipta út ljósastaurum við nyrðri akbraut. Ljósastaurarnir eru eftirgefanlegir af viðurkenndri amerískri gerð. Þeir voru settir upp eftir útboð árið 1995. Elstu staurarnir eru frá árinu 1996 og er algengur endingartími slíkra staura um 30–40 ár.
    Ekið hefur verið á um 150–200 staura. Alvarleg slys eru fá.

     4.      Hver er kostnaðurinn við að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar?
    Sjá svar við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.