Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 389. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 906  —  389. mál.




Svar



atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar
um stærstu eigendur Íslandsbanka og Arion banka.


     1.      Hverjir eru 50 stærstu kröfuhafar Glitnis og Kaupþings og þar með 50 stærstu eigendur Íslandsbanka og Arion banka miðað við nýjustu stöðu?
    Samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, getur alþingismaður óskað upplýsinga eða svars frá ráðherra um opinbert málefni. Í 3. mgr. 49. gr. laga nr. 55/ 1991, um þingsköp Alþingis, segir: „Með opinberu málefni er átt við sérhvert málefni er tengist hlutverki og starfsemi ríkisins og stofnana þess, svo og félaga og annarra lögaðila sem eru að hálfu eða meira í eigu ríkisins og annast stjórnsýslu eða veita almenningi opinbera þjónustu á grundvelli laga, stjórnvaldsfyrirmæla eða samnings.“
    Fyrir liggur að þrotabú Glitnis og Kaupþings eru ekki ríkisstofnanir eða félög sem annast stjórnsýslu eða veita opinbera þjónustu. Slitastjórnir starfa samkvæmt lögum, eru skipaðar af dómstólum og starfa í þágu og á ábyrgð kröfuhafa, auk þess að sæta tilteknu eftirliti af hálfu Fjármálaeftirlitsins. Með vísan til 3. mgr. 49. gr. þingskapalaga er, að mati ráðuneytisins, ljóst að þær upplýsingar sem um er beðið eru ekki „opinbert málefni“ á sviði ráðuneytisins. Ráðuneytið er því ekki í aðstöðu til að krefjast þess að slitastjórnir Glitnis og Kaupþings veiti þær upplýsingar sem óskað er eftir.
    Hins vegar býr ráðuneytið yfir upplýsingum um nöfn og þjóðerni þeirra sem eiga 1% eða hærra hlutfall krafna í þrotabú Glitnis og Kaupþings eins og fram kemur í meðfylgjandi töflu og að beiðni þess hafa slitastjórnirnar veitt samþykki sitt fyrir því að þær upplýsingar séu birtar opinberlega. Töflurnar eru í viðauka.

     2.      Liggur fyrir mat á hæfi þessara hluthafa til þess að fara með ráðandi hlut í bönkunum tveimur?

    Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, fer Fjármálaeftirlitið með eftirlit á rekstri fjármálafyrirtækis sem stýrt er af slitastjórn, óháð því hvort viðkomandi fyrirtæki hafi starfsleyfi eða starfsleyfi hafi verið afturkallað.
    Jafnframt segir í sama ákvæði að dótturfélög fjármálafyrirtækis í slitameðferð sem heldur utan um eignir þess skuli jafnframt heyra undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins. Kaupskil ehf. og ISB Holding ehf. falla undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins samkvæmt þessari skilgreiningu. Innan framangreinds eftirlits fellur einnig eftirlit með meðferð virks eignarhlutar gömlu bankanna í nýju bönkunum þremur, þ.e. Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankanum.

Arion banki hf.
    Arion banki hf. var stofnaður á grunni neyðarlaganna í október 2008 til þess að halda utan um innlendar innstæður og meiri hluta íslenskra eigna forvera síns, Kaupþings hf. Bankinn var stofnaður af íslenska ríkinu sem lagði fram það lágmarksframlag er til þurfti til að stofna fjármálafyrirtæki. Stóð svo fram í nóvembermánuð árið 2009 er íslenska ríkið komst að samkomulagi við kröfuhafa Kaupþings hf. um að þeir fjármögnuðu 87% eignarhlut í bankanum. Bankasýsla ríkisins fer með 13% eignarhlut íslenska ríkisins. Bankasýsla ríkisins starfar á grundvelli laga nr. 88/2009, um Bankasýslu ríkisins.
    Kaupskil ehf. heldur utan um eignarhaldshlut þrotabús Kaupþings hf. í Arion banka hf. þar sem Fjármálaeftirlitið taldi Kaupþing hf., sem var á þeim tíma í greiðslustöðvun og slitameðferð, ekki hæft til þess að fara með virkan eignarhlut í Arion banka hf. Kaupskil ehf. lýtur stjórn sem er að meiri hluta skipuð stjórnarmönnum óháðum Kaupþingi hf., kröfuhöfum eða Arion banka sjálfum. Kaupþing hf. tilnefnir einn stjórnarmann í stjórn Kaupskila hf. og um hæfi stjórnarmanna fer eftir lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Aðrir stjórnarmenn mega hvorki starfa í umboði einstakra eigenda eða kröfuhafa og mega ekki vera bundnir þeim eða bankanum sjálfum nokkrum hagsmunatengslum. Í sérstökum umboðssamningi milli Kaupskila og Kaupþings tekst Kaupþing á hendur að virða sjálfstæði stjórnar Kaupskila og skyldur félagsins til að stuðla að heilbrigðum og traustum rekstri Arion banka án utanaðkomandi íhlutunar. Hvorki Kaupþing hf. né kröfuhafar Kaupþings fara því með stjórn á málefnum Arion banka hf.
    Fjármálaeftirlitið hefur bæði metið Bankasýslu ríkisins og Kaupskil ehf. hæf til þess að fara með hluti sína í Arion banka hf.

Íslandsbanki hf.
    Íslandsbanki hf. var stofnaður í kjölfar neyðarlaganna hinn 8. október 2008 til þess að halda utan um innlendar innstæður og meiri hluta íslenskra eigna forvera síns Glitnis banka hf. Íslandsbanki hf. var stofnaður af íslenska ríkinu sem lagði fram það lágmarksframlag sem til þurfti til að stofna fjármálafyrirtæki. Stóð svo fram í októbermánuð árið 2009 er ríkið komst að samkomulagi við kröfuhafa Glitnis banka hf. um að þeir fjármögnuðu 95% eignarhlut í bankanum. Eftir samkomulagið heldur Bankasýsla ríkisins 5% eignarhlut í bankanum fyrir hönd íslenska ríkisins.
    ISB Holding ehf. heldur utan um eignarhaldshlut Glitnis hf. í Íslandsbanka hf. þar sem Fjármálaeftirlitið taldi Glitni hf., sem var á þeim tíma í greiðslustöðvun og slitameðferð, ekki hæft til þess að fara með virkan eignarhlut í Íslandsbanka hf.
    ISB Holding ehf. lýtur stjórn sem er að meiri hluta skipuð stjórnarmönnum óháðum Glitni banka hf., kröfuhöfum eða Íslandsbanka sjálfum. Glitnir hf. tilnefnir einn stjórnarmann í stjórn ISB Holding hf. og um hæfi stjórnarmanna fer eftir lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Aðrir stjórnarmenn mega hvorki starfa í umboði einstakra eigenda eða kröfuhafa og mega ekki vera bundnir þeim eða bankanum sjálfum nokkrum hagsmunatengslum. Í sérstökum umboðssamning milli ISB Holding og Glitnis tekst Glitnir á hendur að virða sjálfstæði stjórnar ISB Holding og skyldur félagsins til að stuðla að heilbrigðum og traustum rekstri Íslandsbanka án utanaðkomandi íhlutunar. Hvorki Glitnir hf. né kröfuhafar Glitnis fara því með stjórn á málefnum Íslandsbanka hf.
    Fjármálaeftirlitið hefur bæði metið Bankasýslu ríkisins og ISB Holding ehf. hæf til þess að fara með hluti sína í Íslandsbanka hf. Viðauki.

Nöfn og þjóðerni þeirra sem eiga 1% eða hærra hlutfall krafna í þrotabú Glitnis.


Nafn Land Hlutfall
Burlington Loan Management Limited Bretland (GB) 8,46%
Landsbanki Íslands hf. Ísland 4,95%
CCP Credit Acquisition Holdings Luxco, S.A.R.L. Bandaríkin (US) 4,61%
The Royal Bank of Scotland PLC Bretland (GB) 4,23%
Silver Point Luxemburg Platform Sarl Bandaríkin (US) 4,14%
Deka Bank Deutsche Girozentrale Þýskaland (DE) 3,61%
Owl Creek Investments I, LLC Bandaríkin (US) 3,08%
Deutsche Bank AG, London Branch Bretland (GB) 2,92%
SPB hf. (áður Sparisjóðabanki Íslands hf.) Ísland 2,84%
ACMO S.a.r.l. Bandaríkin (US) 2,79%
Barclays Bank PLC Bretland (GB) 2,70%
Max Participations II S.a.r.l. Lúxemborg (LU) 2,66%
Kaupþing banki hf. Ísland 2,03%
Perry Luxco S.A.R.L. Lúxemborg (LU) 1,98%
Leonardo L.P. Bandaríkin (US) 1,84%
Botticelli, L.L.C. Bandaríkin (US) 1,69%
Thingvellir S.a.r.l. Bretland (GB) 1,67%
Morgan Stanley Bank International Limited Bretland (GB) 1,65%
CSCP Credit Acquisition Holdings Luxco, S.A.R.L. Bandaríkin (US) 1,60%
Credit Agricole Vita S.p.A. Ítalía (IT) 1,57%
Serengeti Manyara Cooperatief U.A. Bandaríkin (US) 1,56%
TCA Opportunity Investment S.A.R.L. Bandaríkin (US) 1,52%
Goldman Sachs Lending Partners LLC Bretland (GB) 1,21%
Gardur Partners S.A.R.L. Lúxemborg (LU) 1,14%

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.