Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 415. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 959  —  415. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

Frá 2. minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.


    Annar minni hluti harmar tilraunir ríkisstjórnarinnar til að setja landinu nýja stjórnarskrá í krafti lítils meiri hluta alþingismanna. Hingað til hafa breytingar á stjórnarskrá verið lagðar fram og samþykktar í sátt í þinginu. Komið hefur glöggt í ljós að stjórnskipun ríkisins er í föstum farvegi og byggist á traustum grunni. Komin er góð dómaframkvæmd á réttindi borgaranna sem bundin eru í stjórnarskránni gagnvart ríkisvaldinu. Réttarstaðan er því skýr.
    Annar minni hluti telur að nokkrar nauðsynlegar breytingar þurfi að gera á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, sem mikil sátt mundi nást um væri vilji til þess hjá stjórnvöldum, nú í lok þessa kjörtímabils. Hér er nefnt að binda auðlindaákvæði í stjórnarskrá, ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur og ákvæði um fullveldisframsal. Hefur Björg Thorarensen lagaprófessor ráðlagt utanríkismálanefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í þeim efnum varðandi minni háttar og meiri háttar fullveldisframsal.
    Annar minni hluti telur þetta þingmannafrumvarp til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands svo gallað að ekki sé gerlegt að leggja fram breytingartillögur við það án þess í raun að skrifa nýtt frumvarp með fullbúinni greinargerð. Þá eru þær breytingartillögur sem lagðar hafa verið fram af meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar ekki til bóta og geta í raun leitt til réttindamissis borgaranna gagnvart ríkisvaldinu. Þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í þessu máli eru óásættanleg og íslenska löggjafanum til minnkunar. 2. minni hluti varar við að frumvarpið verði samþykkt og tekur þar undir með aðilum úr fræðasamfélaginu og sérfræðingum sem hafa tjáð sig í ræðu og riti. Einnig bendir 2. minni hluti á þá staðreynd að þrátt fyrir að frumvarpið verði samþykkt með naumum meiri hluta á þessu þingi þá þarf nýtt þing að samþykkja frumvarpið óbreytt eftir kosningar til að ný stjórnarskipunarlög taki gildi. Þess vegna er brýnt að mikil sátt ríki um breytingar á stjórnarskrá. Verði frumvarpið fellt á nýju þingi væri það í fyrsta sinn í lýðveldissögunni sem nýkjörnir þingmenn þyrftu að grípa til þess neyðarúrræðis, vegna ofríkis fyrri stjórnvalda.
    Annar minni hluti ítrekar þá skoðun sína og vilja að til að ná sátt sé ráðlegt að fulltrúar allra flokka flytji þingsályktunartillögu fyrir þinglok sem tryggi áframhaldandi vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar á komandi kjörtímabili.

Alþingi, 29. janúar 2013.

Vigdís Hauksdóttir.