Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 572. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 970  —  572. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir árið 2012.


1. Inngangur.
    Meðal þeirra mála sem mest var fjallað um á vettvangi Vestnorræna ráðsins á árinu 2012 var staða Vestur-Norðurlanda í málefnum norðurslóða, sjálfbær nýting auðlinda í Norður- Atlantshafi, vestnorrænt mennta- og menningarsamstarf og frjáls flutningur á matvælum til einkanota á milli vestnorrænu landanna þriggja.
    Þemaráðstefna ráðsins fór fram á Grænlandi í mars og fjallaði hún um stöðu Vestur- Norðurlanda í alþjóðakerfinu, með áherslu á norðurslóðir. Umræðuefni fyrirlesara voru af þrennum toga; ávörp áheyrnarfulltrúa annarra þingmannasamtaka, þáttur Vestur-Norðurlanda í ákvarðanatöku um norðurslóðir og rannsóknir á lífsskilyrðum íbúa og umhverfisskilyrðum á norðurslóðum.
    Ársfundur ráðsins var haldinn í Færeyjum í byrjun september. Fundurinn samþykkti tvær ályktanir, annars vegar um sameiginlega ráðstefnu fyrir rithöfunda vestnorrænu ríkjanna, og hins vegar ályktun sem hvetur utanríkisráðherra ríkjanna þriggja til að styrkja samstarf sitt um málefni norðurskautsins. Ákveðið var að þemaráðstefna ráðsins árið 2013 yrði tileinkuð tækifærum og möguleikum í heilbrigðisþjónustu á Vestur-Norðurlöndum.
    Forsætisnefnd ráðsins fundaði þá með Evrópuþinginu á meðan á ársfundi stóð. Meðal helstu umræðuefna var sjálfbær nýting auðlinda sjávar, með sérstakri áherslu á sel- og hvalveiðar, og fiskveiðistefna ESB. Á fundinum gagnrýndi forsætisnefndin Evrópusambandið harðlega fyrir skort á samningsvilja í tengslum við makríldeiluna og mótmælti fyrirhuguðum refsiaðgerðum sambandsins. Þá lýsti hún einnig yfir áhyggjum sínum af áhrifum banns ESB við innflutningi á selaafurðum sem hefði alvarleg áhrif á grænlenska veiðimenn. Einnig voru til umræðu loftslagsbreytingar og opnun nýrra siglingarleiða, ásamt olíu- og málmvinnslu á norðurslóðum.
    Vestnorræni dagurinn var haldinn í fyrsta sinn í Reykjavík 7.–9. september, og þótti takast mjög vel til. Gert er ráð fyrir að vestnorrænir dagar verði haldnir næst á Grænlandi árið 2013 og í Færeyjum árið 2014.
    Forsætisnefnd ráðsins tók þátt í þingi Norðurlandaráðs í Helsinki 29. október til 1. nóvember 2012. Auk fundar forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins og þátttöku í Norðurlandaráðsþingi átti forsætisnefnd fundi með forsætisnefnd Norðurlandaráðs sem og vestnorrænum mennta- og menningarmálaráðherrum, samstarfsráðherrum og utanríkisráðherrum. Í ræðu sinni á þinginu hvatti Ólína Þorvarðardóttir, formaður Íslandsdeildar, Norðurlandaráð til að horfa til hagsmuna Vestur-Norðurlanda í nýrri norðurskautsstefnu sinni. Í máli hennar kom einnig fram að makríldeilan væri farin að hafa áhrif á andrúmsloftið í norrænu samstarfi eins og glögglega hefði komið í ljós í stjórnmálaumræðum á Norðurlandaráðsþinginu í Helsinki. Hún lagði til að Norðurlandaráð ætti frumkvæðið að því að gerð yrði alþjóðleg rannsókn á hegðun makrílsins svo að deiluaðilar gætu byggt kröfur sínar á vísindalegum rökum.
    Loks tók formaður landsdeildar Færeyja, Henrik Old, þátt í fundi þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál í Inari í Finnlandi í nóvember fyrir hönd Vestnorræna ráðsins. Á fundinum lagði hann sérstaka áherslu á samstarf Vestur-Norðurlanda varðandi málefni norðurskautsins og eins á sviði heilbrigðismála.
    
2. Almennt um Vestnorræna ráðið.
    Þjóðþing Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga stofnuðu Vestnorræna þingmannaráðið í höfuðstað Grænlands, Nuuk, 24. september 1985. Með því var formfest samstarf landanna þriggja sem oft ganga undir nafninu Vestur-Norðurlönd (Vestnorden). Á ársfundi ráðsins árið 1997 var nafninu breytt í Vestnorræna ráðið þegar samþykktur var nýr stofnsamningur í þjóðþingum aðildarlandanna. Við þær breytingar voru einnig samþykktar nýjar vinnureglur og markmið samstarfsins skerpt.
    Í Vestnorræna ráðinu sitja átján þingmenn, sex frá hverju aðildarríki. Vestnorræna ráðið kemur reglulega saman, tvisvar á ári, til ársfundar og þemaráðstefnu. Ársfundur fer með æðsta ákvörðunarvald ráðsins. Þriggja manna forsætisnefnd, skipuð formanni landsdeildar hvers aðildarríkis, stýrir starfi ráðsins á milli ársfunda. Ráðið heldur síðan árlega þemaráðstefnu þar sem sérstakt málefni er tekið fyrir. Auk þess getur ráðið skipað vinnunefndir um tiltekin mál.
    Markmið Vestnorræna ráðsins eru að starfa að hagsmunum Vestur-Norðurlanda, vernda auðlindir og menningararfleið Norður-Atlantshafssvæðisins, stuðla að samvinnu ríkisstjórna og landsstjórna Vestur-Norðurlanda um mikilvæg mál og vera þingræðislegur tengiliður milli vestnorrænna samstarfsaðila. Í starfi sínu í Vestnorræna ráðinu leitast þingmenn við að ná fram markmiðum ráðsins með ályktunum og tilmælum til ríkisstjórna og landsstjórna sem samþykkt eru á ársfundi. Vestnorræna ráðið hefur ályktað um ýmis mál, þar á meðal umhverfismál, auðlinda- og samgöngumál, björgunar- og öryggismál, menningarmál og íþrótta- og æskulýðsmál, svo að fátt eitt sé nefnt. Jafnframt vinnur Vestnorræna ráðið að framgöngu sinna markmiða með virkri þátttöku í norrænu og evrópsku samstarfi og norðurskautssamstarfi.
    Undanfarin ár hefur ráðið lagt aukna áherslu á að formgera slíkt samstarf. Árið 2002 var undirritaður samningur um samstarf Vestnorræna ráðsins og ríkisstjórna Vestur-Norðurlanda og árið 2006 var undirritaður samstarfssamningur Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs. Síðarnefndi samningurinn veitir Vestnorræna ráðinu aukinn tillögu- og málflutningsrétt á vettvangi Norðurlandaráðs og gerir mögulegt að ályktanir Vestnorræna ráðsins séu teknar til umfjöllunar í Norðurlandaráði. Árið 2008 varð að samkomulagi milli Vestnorræna ráðsins og Evrópuþingsins að halda reglubundna upplýsinga- og samráðsfundi. Auk þess hefur Vestnorræna ráðið áheyrnaraðild að þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál.

3. Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.
    Í upphafi ársins skipuðu Íslandsdeildina þingmennirnir Ólína Þorvarðardóttir, formaður, þingflokki Samfylkingarinnar, Lilja Rafney Magnúsdóttir, varaformaður, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Árni Johnsen, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Sigurður Ingi Jóhannsson, þingflokki Framsóknarflokks, og Þór Saari, þingflokki Hreyfingarinnar. Varamenn voru Kristján L. Möller, þingflokki Samfylkingarinnar, Ásbjörn Óttarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Álfheiður Ingadóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Ásmundur Einar Daðason, þingflokki Framsóknarflokks, Jónína Rós Guðmundsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar og Margrét Tryggvadóttir, þingflokki Hreyfingarinnar. Hinn 17. september tók Jónína Rós Guðmundsdóttir sæti Sigmundar Ernis Rúnarssonar sem aðalmaður Íslandsdeildar en Sigmundur tók sæti Jónínu sem varamaður. Kjartan Fjeldsted gegndi starfi ritara Íslandsdeildar þar til í febrúar 2012 þegar Lárus Valgarðsson tók við til 24. september þegar Vilborg Ása Guðjónsdóttir tók við starfi ritara.
    Íslandsdeild hélt þrjá fundi á árinu þar sem þátttaka í starfsemi ráðsins var undirbúin. Á vettvangi ráðsins lagði Íslandsdeild m.a. fram tillögu að ályktun sem hvetur utanríkisráðherra ríkjanna þriggja til að styrkja samstarf sitt um málefni norðurskautsins, sem síðan var samþykkt á ársfundi, og hafði einnig frumkvæði að því að heilbrigðismál yrðu viðfangsefni þemaráðstefnu ársins 2013.

4. Fundir Vestnorræna ráðsins 2012.
    Þemaráðstefna ársins, sem fjallaði um stöðu Vestur-Norðurlanda í alþjóðakerfinu, með áherslu á norðurslóðir, fór fram í Ilulissat í mars en ársfundurinn í Gjógv í Færeyjum í september. Forsætisnefnd ráðsins kom fjórum sinnum saman á árinu auk þess sem hún átti fundi með forsætisnefnd Norðurlandaráðs og ráðherrum vestnorrænu landanna á sviði mennta- og menningarmála, utanríkismála og norræns samstarfs í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Helsinki. Þá átti forsætisnefnd fund með Evrópuþinginu í tengslum við ársfund ráðsins og loks tók formaður landsdeildar Færeyja þátt í fundi þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál í nóvember fyrir hönd ráðsins.

Þemaráðstefna í Ilulissat í Grænlandi 27.–30. mars 2012.
    Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sóttu ráðstefnuna Ólína Þorvarðardóttir, formaður, Lilja Rafney Magnúsdóttir, varaformaður, Árni Johnsen, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Sigurður Ingi Jóhannsson og Þór Saari, auk Lárusar Valgarðssonar ritara. Umræðuefni fyrirlesara voru af þrennum toga; ávörp áheyrnarfulltrúa annarra þingmannasamtaka, þáttur Vestur-Norðurlanda í ákvarðanatöku um norðurslóðir og rannsóknir á lífsskilyrðum íbúa og umhverfisskilyrðum á norðurslóðum.
    Ráðstefnan var sett af Henrik Old, formanni Vestnorræna ráðsins, og að því loknu bauð Josef Motzfeldt, formaður Grænlandsdeildar Vestnorræna ráðsins, ráðstefnugesti velkomna. Motzfeldt sagði við það tilefni að Vestur-Norðurlönd þyrftu að tryggja sér hlutverk í ákvarðanatökuferli um norðurslóðir.
    Ávörp áheyrnarfulltrúa voru flutt af Torfinn Opheim, áheyrnarfulltrúa Norðurlandaráðs, og Söru Olsvig, áheyrnarfulltrúa stjórnarnefndar þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál. Opheim kynnti tíu ný tilmæli til norrænna ríkisstjórna og Norrænu ráðherranefndarinnar sem Norðurlandaráð samþykkti í Reykjavík fyrr í sama mánuði, þar á meðal tilmæli til ríkisstjórna Norðurlanda um sameiginlega stefnumörkun um málefni Norðurskautsins, sem Opheim sagði til þess fallna að auka áhrif Norðurlanda í Norðurskautsráðinu.
    Olsvig kynnti þau mál sem voru efst á baugi hjá þingmannaráðstefnunni um norðurskautsmál og Norðurskautsráðinu: alþjóðlegan áhuga á norðurslóðum, samninga um málefni norðurslóða og styrkingu Norðurskautsráðsins. Olsvig sagði að alþjóðlegur áhugi á norðurslóðum hefði aukist til muna og sex lönd og þrenn samtök sótt um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu, en skiptar skoðanir væru innan ráðsins um þær umsóknir. Olsvig sagði eina af áskorununum við mikinn áhuga felast í að ákveða heppilegt hlutfall milli aðildarríkja og fastra þátttakenda, þ.e. samtaka frumbyggja annars vegar og áheyrnarfulltrúa hins vegar. Eftir undirritun samnings aðildarríkja Norðurskautsráðsins í Nuuk árið 2011 um leit og björgun væri nú í bígerð samningur milli sömu aðila um björgunarviðbúnað við olíuslys og stefnt að undirritun hans í Kiruna árið 2013. Varðandi styrkingu Norðurskautsráðsins greindi Olsvig frá umfjöllun um skýrslu um það efni sem síðar var tekið fyrir á þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál á Akureyri 5.–7. september 2012.
    Þáttur Vestur-Norðurlanda í ákvarðanatöku um norðurslóðir var til umfjöllunar frá sértækum og heildrænum sjónarmiðum. Sven-Roald Nystø, með meistarapróf í heimskautafræðum frá háskólanum í Cambridge, fjallaði um hvernig tengsl Færeyja, Grænlands og Íslands við Danmörku og tengsl Sama við stjórnvöld í Noregi hafa haft áhrif á stjórnmál þeirra og að þessi lönd verði að ávinna sér stöðu í ákvarðanatökuferli um norðurslóðir með sérþekkingu, framgöngu og samningatækni að vopni.
    Jens Christian Justinussen, aðjunkt í félagsvísindum við háskólann í Færeyjum, fjallaði um þrjá megináhrifavalda í færeyskum stjórnmálum: togstreitu milli þéttbýlis og dreifbýlis, milli stefnu í stjórnmálum til hægri og vinstri, og loks togstreitu milli sambandssinna og sjálfstæðissinna. Hann gerði einnig að umræðuefni sameiginlega hagsmuni Vestur-Norðurlanda af tengslaneti háskóla þeirra.
    Alyson Bailes, fræðimaður og aðjunkt í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, fór yfir stöðu norðurskautsins í alþjóðastjórnmálum í sögulegu samhengi og hvaða teikn væru á lofti við breytingar vegna bráðnandi íss á svæðinu. Hún sagði að samstarf Vestur-Norðurlanda um málefni norðurslóða væri skynsamlegt, að Norðurskautsráðið væri ekki heppilegur vettvangur fyrir hernaðarsamninga og að hún væri fylgjandi því að margir áheyrnarfulltrúar væru í ráðinu.
    Ágúst Þór Árnason, fræðimaður, aðjunkt og deildarformaður lagadeildar Háskólans á Akureyri, fjallaði um þátttöku Vestur-Norðurlanda í alþjóðlegu samstarfi um málefni norðurslóða með hliðsjón af þjóðréttarlegri stöðu. Hann sagði að í samstarfi Norðurlanda um norðurslóðir hefðu aðilar mismunandi hagsmuni og mismunandi stöðu þar sem sumir þeirra væru ekki sjálfstæð ríki og að áhrifamáttur þeirra myndi aukast ef þeir yrðu það.
    Margrét Cela, sérfræðingur í alþjóðastjórnmálum og doktorsnemi við Háskólann í Lapplandi, fjallaði um hnattvæðingu, loftslagsbreytingar og aukinn alþjóðlegan áhuga sem birtingarmyndir breytinga á norðurslóðum og þýðingu þeirra fyrir Vestur-Norðurlönd. Hún sagði að fyrir lítil lönd á borð við Vestur-Norðurlönd væri samstarf á alþjóðavettvangi mikilvægt til að tryggja hagsmuni sína, að þau ættu að leitast við að eiga frumkvæði í stað þess að bregðast við aðstæðum og að þau ættu að skilgreina styrkleika sína og sérþekkingu til að leggja fram sem sinn skerf í samstarfinu.
    Kuupik Kleist, leiðtogi Naalakkersuisut, landsstjórnar Grænlands, og ráðherra utanríkismála, fjallaði um áherslumál Grænlands í norðurslóðaáætlun konungsríkisins Danmerkur. Hann sagði meginatriðin þau að norðurskautið væri ólíkt suðurskautinu að því leyti að um það væri ekki sérstakur samningur og að þar væru milljónir íbúa og að svæðið hefði þörf fyrir framþróun hvað varðaði mannauð, lýðræði og alþjóðlega stjórn. Kleist sagði enn fremur að svo gæti farið að Grænland mundi á nýjan leik, líkt og í kalda stríðinu, gegna mikilvægu hlutverki í efnahagslegu og stjórnmálalegu tilliti.
    Rannsóknir á lífsskilyrðum íbúa og umhverfisskilyrðum á norðurslóðum voru kynntar og settar í samhengi við stjórnmálalega og efnahagslega þróun svæðisins. Lene Kielsen Holm, verkefnisstjóri hjá loftslagsmiðstöð grænlensku náttúrufræðistofnunarinnar, fjallaði um rannsóknir meðal íbúa á Suður- og Norður-Grænlandi um reynslu þeirra af breytingum á umhverfi vegna loftslagsbreytinga. Hún sagði að ís hefði minnkað, sérstaklega eftir mikinn ísavetur á Suður-Grænlandi árið 1984, og að óveður stæðu nú lengur og hegðun vinda væri ófyrirsjáanlegri.
    Birger Poppel, sem leiðir rannsóknarverkefni um lífsskilyrði á norðurslóðum við háskólann á Grænlandi, fjallaði um mælikvarða á lífsskilyrði íbúa á norðurslóðum, samfélagsleg markmið og lýðræðislega þátttöku íbúa í borgaralegu samfélagi. Hann sagði fjölmargar rannsóknir sýna að jafnræði í samfélögum bættu lífsskilyrði, að meðal íbúa Grænlands væri mikill áhugi á stjórnmálum en minni þekking, sérstaklega meðal kvenna og í dreifbýli, að þróa mætti með lýðræðislegum hætti mælikvarða á lífsskilyrði og að velta mætti fyrir sér hver lýðræðisleg þátttaka íbúa í opinberri stefnumótun væri í raun.
    Rasmus Ole Rasmussen, lektor við háskólann í Hróarskeldu, fjallaði um lýðfræðilega, efnahagslega og umhverfislega ramma breytinga á norðurslóðum og sagði að Vestur-Norðurlönd væru nokkurs konar rannsóknarstofa til skilnings á þeim breytingum.
    Níels Einarsson, forstöðumaður stofnunar Vilhjálms Stefánssonar, fjallaði um nýtingu auðlinda á norðurslóðum í hugmyndafræðilegum og efnahagslegum skilningi. Hann sagði að greina mætti tvo strauma í þeim efnum. Annars vegar nýtingu einkafyrirtækja á auðlindum, grundvallaða á hugmyndinni um að skynsamleg nýting krefðist einkaframtaks. Hins vegar aðlögun hnattrænnar umhverfishugmyndafræði að norðurslóðum, sem byggðist á hugmyndinni um verndun og réttindi dýra.
    Á ráðstefnunni spannst umræða um hversu mikið væri að marka hefðbundna þekkingu íbúa á norðurslóðum varðandi umhverfisskilyrði á tímum mikilla breytinga. Justinussen og Rasmussen sögðu ekki hægt að byggja á henni lengur en Níels var því ósammála.
    Við pallborðsumræður undir stjórn Ólínu Þorvarðardóttur kom fram að gera þyrfti norðurslóðir áhugaverðar fyrir ungt fólk af báðum kynjum, að þjóðernishópar í útlegð (diaspora) væru raunverulegir og sem dæmi nefnt að fimmti hver Grænlendingur byggi í Danmörku, að útbreiða þyrfti sameiginlegar forsendur um norðurslóðir með þátttöku stórþjóða, að sjálfbærni í víðum skilningi væri stór áskorun, og að menntun og rannsóknir væru mikilvægar Vestur-Norðurlöndum.
    
Forsætisnefndarfundur á meðan á þemaráðstefnu stóð.
    Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins fundaði í Ilulissat 27. mars 2012 í tengslum við þemaráðstefnu ráðsins. Af hálfu Íslandsdeildar sótti fundinn Ólína Þorvarðardóttir, formaður, auk Lárusar Valgarðssonar ritara. Helstu mál á dagskrá voru samstarf Vestnorræna ráðsins og vestnorrænna ráðherra, ástand bygginga í Bröttuhlíð, ársfundur Vestnorræna ráðsins 2012 og vestnorræn menningarhátíð og dagur Vestur-Norðurlanda 2012.
    Forsætisnefnd fjallaði um þátttöku vestnorrænna ráðherra í þemaráðstefnum Vestnorræna ráðsins. Ráðið undirritaði árið 2002 samstarfssamning við stjórnir vestnorrænu landanna sem felur í sér að þeir fagráðherrar landanna sem málefnið varðar sæki þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins, svo framarlega sem þeir eigi þess kost. Sú hefð hefur skapast að ef einstakir ráðherrar hafa ekki haft tök á að sækja ráðstefnuna hafa oftast aðrir ráðherrar tekið þátt í staðinn. Í ár brá svo við að einungis ráðherra frá einu vestnorrænu landanna tók þátt í þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins. Forsætisnefnd ákvað af því tilefni að rita bréf til stjórna Færeyja, Íslands og Grænlands og benda góðfúslega á ákvæði samstarfssamningsins um þátttöku ráðherranna.
    Forsætisnefnd hélt áfram umfjöllun sinni um ástand bygginga í Bröttuhlíð. Vestnorræna ráðið hefur á ársfundi sínum árið 2010 og á fundi forsætisnefndar með vestnorrænum mennta- og menningarmálaráðherrum árið 2011 lýst yfir áhyggjum af viðhaldi endurgerðra bygginga í Bröttuhlíð, bæ Eiríks rauða og Þjóðhildarkirkju. Til að fylgja málinu eftir samþykkti forsætisnefnd drög að bréfi til Mimi Karlsen, ráðherra fjölskyldu-, menningar, kirkju- og jafnréttismála í Naalakkersuisut, landsstjórn Grænlands, með ósk um að hún aðhefðist í málinu til að tryggja viðhald bygginganna.
    Forsætisnefnd ákvað að ársfundur Vestnorræna ráðsins 2012 yrði í Gjógv og Þórshöfn í Færeyjum 3.–7. september.
    Þá fjallaði forsætisnefnd um þátttöku ráðsins í vestnorrænni menningarhátíð og degi Vestur-Norðurlanda sem haldinn var í Norræna húsinu í Reykjavík 7.–9. september. Ákveðið var að afhenda barnabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins við það tilefni.

Ársfundur í Gjógv í Færeyjum 3.–7. september 2012.
    Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sóttu ársfundinn Ólína Þorvarðardóttir, formaður, Lilja Rafney Magnúsdóttir, varaformaður, Árni Johnsen, Sigurður Ingi Jóhannsson og Björgvin G. Sigurðsson sem sótti fundinn í forföllum Sigmundar Ernis Rúnarssonar, auk Jörundar Kristjánssonar, starfandi ritara Íslandsdeildar. Fjölmörg efnisatriði voru á dagskrá fundar, meðal annars: dagskrá þemaráðstefnu sem haldin skyldi á Íslandi í nk. janúar, samstarf í menningar- og menntamálum, samstarf um heilbrigðisþjónustu, orkumál, nýting auðlinda sjávar, staða kvenna, ferðamál o.fl.
    Henrik Old, formaður Vestnorræna ráðsins, setti ársfundinn og bauð fundargesti velkomna. Hann fagnaði því að vestnorrænn dagur skyldi nú haldinn í fyrsta sinn en lýsti ákveðnum áhyggjum af því að hægt væri að halda hann árlega með svo myndarlegum hætti sem í stefndi á Íslandi, en dagurinn var haldinn hátíðlegur í Reykjavík 7.–9. september 2012.
    Að loknu ávarpi formanns gerði framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins grein fyrir starfsemi liðins árs og ársreikningum áranna 2010 og 2011. Stakk hann upp á að ársfundir yrðu haldnir fyrr á árinu og þemaráðstefna síðar, til að hægt væri að leggja fram ályktanir fyrr en nú er. Þá lagði hann til að landsdeildarmenn skiptu með sér verkum þannig að hver hefði ákveðnar ályktanir á sinni könnu; fylgdi þeim eftir og þrýsti á samþykkt þeirra. Fundur samþykkti ársreikninga.
    Því næst gerðu formenn landsdeilda grein fyrir starfinu á liðnu ári. Fram kom í máli Ólínu Þorvarðardóttur, formanns Íslandsdeildar, að allar tillögur ráðsins hefðu hlotið brautargengi á Alþingi utan ályktunar um að vestnorrænir ríkisborgarar mættu flytja með sér mat til einkanota milli landa. Gerði hún grein fyrir að ekki hefði náðst að afgreiða tillöguna úr utanríkismálanefnd. Nokkur umræða spannst um þetta atriði, einkum meðal grænlenskra þingmanna sem lýstu óánægju sinni. Sigurður Ingi Jóhannsson taldi að hægt væri að finna lausn á þessu máli og voru þau Ólína, ásamt öðrum í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins, einhuga um að unnið skyldi að lausn á komandi þingi. Þá vakti Ólína athygli á því að í samningsafstöðu Íslands varðandi kaflann um utanríkismál í aðildarviðræðum við Evrópusambandið væri lögð áhersla á að viðhalda Hoyvíkursamningnum þótt til aðildar kæmi.
    Rigmor Andersen, áheyrnarfulltrúi norska Stórþingsins, flutti kveðju Stórþingsforseta og gerði grein fyrir Breivik-skýrslunni og viðbrögðum við henni. Þá tók Björn Kalsø, menningarmálaráðherra Færeyja, til máls og lagði hann m.a. í máli sínu áherslu á mikilvægi vinabæjarsambanda og starf norrænu félaganna til að efla sambandið milli íbúa landanna í norðvestri.
    Í umræðum um málefni norðurheimskautsins og loftlagsbreytingar lagði formaður Íslandsdeildar ríka áherslu á að Ísland ætti ávallt aðild að ákvörðunum um málefni norðurslóða. Ítrekaði hún óánægju með að fulltrúa frá Íslandi hefði ekki verið boðið til sérstaks fundar norðurskautsstrandríkja sem haldinn var í Ilulissat árið 2008. Voru fundarmenn sammála um að eðlilegt væri að Ísland ætti aðild að öllum ákvörðunum er varða svæðið.
    Þá kynnti formaður Íslandsdeildar tillögu að efni þemaráðstefnu ársins 2013. Þema ráðstefnunnar verður „tækifæri og möguleikar í heilbrigðisþjónustu á Vestur-Norðurlöndum“. Lagði hún til að ræddir yrðu möguleikar á að skilgreina svæðið sem eitt heilbrigðisþjónustusvæði og möguleikar á sameiginlegum opinberum innkaupum á heilbrigðisvörum yrðu kannaðir. Tveir þátttakendur á fundinum, þau Bill Justinussen frá Færeyjum og Ruth Helmann frá Grænlandi, voru heilbrigðisráðherrar þegar síðasta þemaráðstefna um svipað efni var haldin í Ilulissat. Voru þau sammála um að tímabært væri að fjalla um þetta efni á nýjan leik. Jozef Motzfeldt, formaður grænlensku landsdeildarinnar, sagði brýnt að skilgreina heilbrigðisþjónustu vítt í þessu samhengi, þannig að hugtakið næði einnig yfir fyrirbyggjandi aðgerðir og lýðheilsumál. Var forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins falið að undirbúa þemaráðstefnu á grundvelli umræðna á fundi.
    Við umræður um nýtingu auðlinda sjávar komu fram áhyggjur hjá bæði nefndarmönnum í Íslandsdeild og landsdeild Færeyja vegna yfirvofandi þvingunaraðgerða Evrópusambandsins og Noregs í makríldeilunni.
    Fundarmenn lýstu almennri ánægju með vestnorrænan dag, menningarhátíð Vestur- Norðurlanda, sem haldinn var eftir ársfundinn í fyrsta sinn í Reykjavík 7.–9. september. Þá kom fram í umræðum um viðgerðir á endurbyggðum bæ Eiríks rauða í Bröttuhlíð og Þjóðhildarkirkju að það væri nú sveitarfélagið sem bæri ábyrgð á byggingunum, ekki landsstjórnin. Tóku fundarmenn almennt vel í að sami aðili og hlóð byggingarnar kæmi að viðhaldi, því hann hefði verkþekkingu og reynslu til starfans.
    Rætt var um fríverslun á Vestur-Norðurlöndum og lýstu Grænlendingar áhuga á að gerast aðildar að Hoyvíkursamningnum. Benti Gunnvör Ballvör, fulltrúi í færeysku landsdeildinni og fyrrverandi aðalræðismaður Færeyja í Reykjavík, á mikilvægi þess að opna sendiskrifstofu í öðrum Vestur-Norðurlöndum samtímis, eða áður en Grænlendingar gerðust aðildar að samningnum.
    Í umræðum um störf Vestnorræna ráðsins og skipulag kynnti formaður Íslandsdeildar hugmynd um að landsdeildir fundi samtímis að vori og hausti til að samræma betur starfið og deila hugmyndum. Var vel tekið í þá tillögu. Rætt var um hugmyndir um að heimila þátttöku áheyrnarfulltrúa á fundi. Var samþykkt að það skyldi ekki heimilt nema í undantekningartilfellum og þá að undangengnu samþykki forsætisnefndar.
    Samþykktar voru tvær nýjar tillögur á ársfundi. Sú fyrri hvetur til samstarfs milli Vestnorrænu landanna til að standa að námskeiðum fyrir rithöfunda. Sú síðari er hvatning til utanríkisráðherra landanna að styrkja samstarf um málefni norðurheimskautsins. Þá voru samþykktar 9 tillögur um innri málefni Vestnorræna ráðsins, m.a. tillaga Ólínu Þorvarðardóttur og Íslandsdeildar að efni þemaráðstefnu, sem fjallað var um hér að framan, og tillaga um hækkun framlags þjóðþinganna til barnabókaverðlauna til að auðvelda útgáfu vinningsbókar á öðrum Vestur-Norðurlöndum.
    Að lyktum var samþykkt að ríkisendurskoðun skyldi áfram vera endurskoðandi reikninga Vestnorræna ráðsins. Var Josef Motzfeldt einróma kjörinn formaður ráðsins fram að næsta aðalfundi.
    Samhliða ársfundi fór fram fundur í forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins og þingmannanefnd um Hoyvíkursamninginn. Á fundi sínum samþykkti forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins tillögu að dagskrá fundar og fjallaði um framkomnar tillögur. Þingmannanefnd um Hoyvíkursamninginn hélt stuttan fund þar sem tillaga formanns um að fresta umræðu um skýrslu utanríkisráðuneyta landanna var samþykkt þar sem skýrslan barst seint. Ákveðið var að boðað skyldi til fundar í tengslum við þemaráðstefnu á Íslandi þar sem fjallað yrði um skýrsluna. Lagði formaður til að færeyska sendinefndin kæmi degi fyrr til að ljúka fundi fyrir þemaráðstefnu. Í lok fundar var Ólína Þorvarðardóttir kosin formaður þingmannanefndar um Hoyvíkursamninginn og Brandur Sandoy varaformaður.

Fundir forsætisnefndar á 64. Norðurlandaráðsþingi í Helsinki 29. október til 1. nóvember 2012.
    Af hálfu Íslandsdeildar sóttu þingið Ólína Þorvarðardóttir, formaður, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur, ritara. Auk fundar forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins og þátttöku á Norðurlandaráðsþingi átti forsætisnefnd fundi með forsætisnefnd Norðurlandaráðs sem og vestnorrænum mennta- og menningarmálaráðherrum, samstarfsráðherrum og utanríkisráðherrum.
    Meðal helstu mála á dagskrá fundar forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins voru dagsetningar og staðsetning þemaráðstefnu ársins 2013, fundur ráðsins með Evrópuþinginu árið 2013, vestnorræni dagurinn, þátttaka ráðsins í þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál og árleg heimsókn formanns ráðsins í vestnorræn ráðuneyti.
    Samkvæmt tillögu Ólínu Þorvarðardóttur, formanns íslensku landsdeildarinnar, ákvað forsætisnefnd að þemaráðstefna ársins 2013 yrði haldin 14.–17. janúar á Ísafirði. Jafnframt lagði hún til að næsti ársfundur ráðsins yrði haldinn í Igaliku á Suður-Grænlandi í lok ágúst 2013. Forsætisnefndin ákvað að leggja til við Evrópuþingið að næsti fundur forsætisnefndar með Evrópuþinginu yrði haldinn á fyrri hluta ársins 2013. Fjallað var um vel lukkaðan vestnorrænan dag í Reykjavík 7.–9. september 2012, og tilhögun vestnorræns dags á Grænlandi 2013 og í Færeyjum árið 2014. Þátttaka Vestnorræna ráðsins í þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál var einnig til umræðu, en Henrik Old, formaður færeysku landsnefndarinnar, tók þátt í fundinum fyrir hönd ráðsins. Loks var ákveðið að Josef Motzfeldt, formaður ráðsins, mundi reyna að koma árlegri heimsókn til vestnorrænna ráðherra fyrir í tengslum við þemaráðstefnuna á Íslandi í janúar 2013.
    Formenn landsdeilda Vestnorræna ráðsins fluttu allir ræður í umræðum um utanríkismál á Norðurlandaráðsþinginu. Ólína Þorvarðardóttir hvatti í ræðu sinni Norðurlandaráð til að horfa til hagsmuna Vestur-Norðurlanda í nýrri norðurskautsstefnu sinni. „Eftir því sem löndunum fjölgar sem eiga hagsmuna að gæta á norðurskautssvæðinu og sýna því áhuga, þeim mun mikilvægara verður það fyrir Norðurlöndin að efla samstarf sitt um sameiginlega hagsmuni og efla þannig áhrif sín,“ sagði Ólína og benti á að hagsmunir Íslands, Færeyja og Grænlands væru miklir á svæðinu. Hún vísaði til þess að meginniðurstaða þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins, sem haldin var á Grænlandi í mars 2012, hefði verið að samstarf landanna þriggja um sameiginlega hagsmuni væri lykilatriði ætluðu þau að efla áhrif sín á norðurskautssvæðinu. Í máli Ólínu kom einnig fram að makríldeilan væri farin að hafa áhrif á andrúmsloftið í norrænu samstarfi eins og glögglega hefði komið í ljós í stjórnmálaumræðum á Norðurlandaráðsþinginu í Helsinki. Hún lagði til að Norðurlandaráð ætti frumkvæðið að því að gerð yrði alþjóðleg rannsókn á hegðun makrílsins svo að deiluaðilar gætu byggt kröfur sínar á vísindalegum rökum. Í ræðu sinni tók Josef Motzfeldt undir að mikilvægt væri fyrir Norðurlandaráð að eiga frumkvæði að rannsóknum um nýtingu Vestur- Norðurlanda á lifandi auðlindum hafsins svo auka mætti skilning Norðurlanda á aðstæðum Færeyja, Íslands og Grænlands. Loks gagnrýndi Henrik Old í ræðu sinni afstöðu Evrópusambandsins og Noregs í makríldeilunni.
    Norska þingkonan Rigmor Andersen Eide stýrði fundi forsætisnefnda Norðurlandaráðs og Vestnorræna ráðsins. Hún byrjaði fundinn á að gera grein fyrir helstu áherslum 64. þings Norðurlandaráðs á velferðamál, utanríkisstefnu ráðsins og sameiginlega stefnu gagnvart norðurskautinu. Josef Motzfeldt greindi frá ánægju Vestnorræna ráðsins með aukna áherslu Norðurlandaráðs á málefni norðurskautsins og aukið samstarf á svæðinu. Því næst greindi Henrik Old frá fundi forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins með Evrópuþinginu í byrjun september 2012, en á fundinum gagnrýndi forsætisnefndin Evrópusambandið harðlega fyrir skort á samningsvilja í tengslum við makríldeiluna og mótmælti fyrirhuguðum refsiaðgerðum sambandsins. Þá lýsti hún einnig yfir áhyggjum sínum af áhrifum banns ESB við innflutningi á selaafurðum sem hefði alvarleg áhrif á grænlenska veiðimenn. Ólína Þorvarðardóttir kynnti því næst þemaráðstefnu ársins 2013 og bauð Norðurlandaráði að taka þátt. Þá lýsti forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins yfir áhuga ráðsins á að halda sameiginlega ráðstefnu með Norðurlandaráði með áherslu á málefni norðurskautsins.
    Á fundi forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins með samstarfsráðherrunum Katrínu Jakobsdóttur, Anniku Olsen frá Færeyjum og Palle Christiansen frá Grænlandi, kynnti forsætisnefndin ályktun nr. 5/2011 um frjálsan flutning á matvöru til einkanota. Katrín Jakobsdóttir skýrði frá því að á Íslandi væru mjög strangar reglur í þessu sambandi til að koma í veg fyrir útbreiðslu dýrasjúkdóma. Búið væri að breyta reglunum til að bregðast við kröfum um aukið frelsi, en ennþá væru hindranir til staðar sem stæði til að taka á. Ólína Þorvarðardóttir kynnti því næst þemaráðstefnu ráðsins 2013 og lagði áherslu á mikilvægi þess að heilbrigðisráðherrar landanna tækju þátt í ráðstefnunni. Lögð var áhersla á að aðrir ráðherrar landanna tækju þátt sem fulltrúar ríkisstjórnar ef heilbrigðisráðherra forfallaðist. Ráðherrarnir tóku undir það.
    Forsætisnefndin fundaði einnig með lögmanni Færeyja, Kaj Leo Johannesen, sem fer með utanríkismál, varaformanni sjálfsstjórnar Grænlands, Jens B. Frederiksen, sem jafnframt fer með utanríkismál, og Hermanni Erni Ingólfssyni, sviðsstjóra Alþjóða- og öryggissviðs utanríkisráðuneytis Íslands, sem sótti fundinn í forföllum Össurar Skarphéðinssonar. Ólína Þorvarðardóttir kynnti ályktun Vestnorræna ráðsins nr. 2/2012 sem hvetur utanríkisráðherra ríkjanna þriggja til að styrkja samstarf sitt um málefni norðurskautsins, þar á meðal með því að mynda sameiginlega stefnu á þeim sviðum þar sem hagsmunir fara saman og hægt væri að ná samkomulagi um. Jens B. Frederiksen sagði að þó hann væri fylgjandi sameiginlegri stefnu ríkjanna þriggja þá hefði hann áhyggjur af því að þær kynnu að stangast á við aðrar fyrirliggjandi stefnur. Til að mynda hefði Grænland nú þegar myndað stefnu með Danmörku og eins væri unnið að sameiginlegri stefnu á ýmsum sviðum innan Norðurskautsráðsins. Ólína Þorvarðardóttir benti á að hagsmunirnir væru gríðarlegir og að tilgangurinn væri að hefja greiningu á þeim. Aðrar stefnur ríkjanna gagnvart málefnum norðurskautsins þyrftu ekki að stangast á við sameiginlega stefnu vestnorrænu ríkjanna. Loks ræddi Josef Motzfeldt um ályktun nr. 5/2011 um frjálsan flutning á matvöru. Hermann Örn Ingólfsson sagði að málið væri í skoðun og hann mundi ræða það frekar við utanríkisráðherra.
    Loks hitti forsætisnefndin mennta- og menningarmálaráðherra Færeyja, Bjørn Kalsø, og Íslands, Katrínu Jakobsdóttur, auk menntamálaráðherra Grænlands, Palle Christiansen, og menningarmálaráðherra Grænlands Mimi Karlsen. Á fundinum kynnti Ólína Þorvarðardóttir ályktun Vestnorræna ráðsins nr. 1/2012 sem hvetur menntamálaráðherra ríkjanna þriggja til að skipuleggja sameiginlega ráðstefnu fyrir rithöfunda. Ráðherrarnir tóku vel í það. Henrik Old ræddi þá um ályktun frá árinu 2007 um gerð námsefnis um aðstæður kvenna á norðurskautssvæðinu og í vestnorrænu ríkjunum, og um mannréttindi. Katrín Jakobsdóttir sagði að sér hefði þótt vanta upplýsingar um verkefnið. Hún tók fram að mikilvægt væri að nýta það efni sem framleitt væri og að það mætti ef til vill bæta þessu efni við það námsefni sem notað er í dag. Rætt var um að gera efnið í sameiningu til að draga úr kostnaði. Einnig var rætt um ályktun nr. 2/2011, um samvinnu á sviði kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerðar, og forsætisnefnd lagði til að fyrsta skrefið yrði að halda ráðstefnu í nánustu framtíð fyrir fólk sem starfar í kvikmynda- og sjónvarpsgeiranum í ríkjunum þremur. Katrín Jakobsdóttir greindi frá því að Kvikmyndamiðstöð Íslands hefði tekið vel í málið og líklegt væri að hún gæti komið að því. Josef Motzfeldt greindi frá því að grænlenska útvarpið væri mjög jákvætt gagnvart frekara samstarfi. Loks voru ræddar ályktanir nr. 3/2011 um listamannagistingu og nr. 6/2011 um ráðstefnu um tónlistarhefðir vestnorrænu landanna. Ráðherrarnir tóku allir vel í fyrri ályktunina og sögðu að ekkert væri verkefninu til fyrirstöðu. Varðandi síðari ályktunina sagði Mimi Karlsen að samstarf á sviði tónlistar yrði mjög mikil hvatning fyrir grænlenska tónlistarmenn og tók Bjørn Kalsø undir það hvað varðaði færeyska tónlistarmenn.

5. Ályktanir Vestnorræna ráðsins sem voru samþykktar á ársfundi í Gjógv 3.–7. september 2012:

– Ályktun nr. 1/2012 um sameiginlega ráðstefnu fyrir rithöfunda vestnorrænu ríkjanna.
– Ályktun nr. 2/2012 sem hvetur utanríkisráðherra ríkjanna þriggja til að styrkja samstarf sitt um málefni norðurskautsins.


Alþingi, 31. jan. 2013.



Ólína Þorvarðardóttir,


form.


Lilja Rafney Magnúsdóttir,


varaform.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.



Árni Johnsen.


Sigurður Ingi Jóhannsson.