Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 576. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 975  —  576. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 2012.

1. Inngangur.
    Af þeim fjölmörgu og margþættu málum sem fjallað var um á vettvangi Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) á árinu 2012 eru nokkur atriði sem Íslandsdeildinni þykir standa upp úr með tilliti til markmiða sambandsins, en þau eru að vinna að friði og samstarfi meðal þjóða og treysta lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing í sessi.
    Fyrst ber að nefna ástandið í Sýrlandi og þau mannréttindabrot sem þar eru framin og nauðsyn þess að tryggja aðgang nauðstaddra að hjálparstofnunum. IPU sendi frá sér ályktun um ástandið þar sem m.a. var lögð áhersla á að stöðva blóðsúthellingarnar í Sýrlandi og lýst yfir stuðningi við friðarumleitanir og framkvæmd ályktana Arababandalagsins og Sameinuðu þjóðanna. Jafnframt fór fram utandagskrárumræða á haustþingi IPU um alvarlegt öryggisástand í Malí. Þar lýstu þingmenn yfir miklum áhyggjum af ástandinu og í umræðum um neyðarályktun um málið fordæmdu þingmenn morð, misnotkun og brot gegn óbreyttum borgurum, sérstaklega konum og börnum. Þá var bent á alvarleg mannréttindabrot sem framin hafa verið og hroðalega grimmd sem er beitt í norðurhluta landsins.
    Enn fremur ber að nefna umræðu um skort á trausti á þjóðþingum og var m.a. rætt um mikilvægi þess að jafnréttis væri gætt og allir þjóðfélagshópar hefðu rétt til þátttöku í samfélögum. Þá fór fram umræða á haustþingi IPU um ríkisfang, kennimark, tungumál og menningarmun í hnattrænum heimi. Voru þingmenn sammála um mikilvægi þess að vernda fjölbreytni samfélaga og var lagt til að sáttmálar og lög sem vernda mannréttindi og fjölbreytni væru staðfestir og fullgiltir.
    Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar á þingum IPU árið 2012 má nefna hlutverk þjóðþinga við að tryggja réttarríkið og þann lærdóm sem draga má af atburðum síðasta árs í Miðausturlöndum og Norður-Afríku, eflingu aðgangs að heilbrigðisþjónustu og dreifingu valds en ekki eingöngu auðs í heiminum. Enn fremur var rætt um sanngjörn viðskipti og nýbreytni við fjármögnun fyrir sjálfbæra þróun og hlutverk fjölmiðla, þ.m.t. samskiptavefja á internetinu.
    Að venju kynnti nefnd um mannréttindi þingmanna skýrslur um brot gegn mannréttindum þingmanna og samþykkti ráð IPU fjölmargar ályktanir á grundvelli þeirra. Mál Birgittu Jónsdóttur þingmanns, um rannsókn og dómsmál bandarískra yfirvalda gegn henni, var til umræðu hjá nefndinni á árinu. Jafnframt hafði hópur norrænna þingmanna forgöngu um að mál samkynhneigðra í Úganda voru rædd á fundum Tólfplús-landfræðihópsins í ljósi frumvarps til laga þar sem lögð er til dauðarefsing og bann við samkynhneigð.
    Þá ber að nefna mikilvægt starf IPU til að efla lýðræði en mörg aðildarþing sambandsins eru ekki lýðræðislega kjörin og í sumum fer ekkert eiginlegt löggjafarstarf fram. Sem dæmi um slíkt starf árið 2012 má nefna svæðisbundna málstofu um góða starfshætti í stjórnmálum með áherslu á svæðið við Karabíahafið og ráðstefnu um baráttuna gegn mansali á börnum og vinnuþrælkun sem haldin var í Nígeríu. Enn fremur gefur Alþjóðaþingmannasambandið út handbækur og skýrslur fyrir þingmenn til að hjálpa þeim að hafa áhrif í ólíkum málaflokkum. Á árinu 2012 voru m.a. gefnar út skýrslur um samband þings og þjóðar hjá aðildarríkjum IPU og notkun internetsins í störfum þjóðþinga heims.

2. Almennt um IPU.
    Aðild að IPU eiga nú 162 þjóðþing en aukaaðild að sambandinu eiga tíu svæðisbundin þingmannasamtök. Markmið IPU er að stuðla að skoðanaskiptum þingmanna frá öllum heimshornum um alþjóðleg málefni, vinna að friði og samstarfi meðal þjóða og treysta lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing í sessi. Áhersla er lögð á að standa vörð um mannréttindi í heiminum sem eins grundvallarþáttar lýðræðis og þingræðis. Þá vinnur IPU að styrkingu þjóðþinga og aðstoðar við þróun lýðræðislegra vinnubragða innan þeirra. Sambandið styður starfsemi Sameinuðu þjóðanna og á margvíslegt samstarf við stofnanir þeirra. Höfuðstöðvar sambandsins eru í Genf, en sambandið rekur jafnframt skrifstofu í New York.
    IPU heldur tvö þing á ári, stórt þing að vori er haldið í einu af aðildarríkjum sambandsins og minna þing að hausti er haldið í Genf, nema annað sé ákveðið sérstaklega. Auk þess heldur sambandið alþjóðlegar ráðstefnur og málstofur á ári hverju, oft um málefni sem eru efst á baugi innan Sameinuðu þjóðanna hverju sinni og þá gjarnan í tengslum við tiltekna ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Þá eru haldnar námstefnur fyrir þjóðþing sem óska eftir slíku um ýmsa þætti löggjafarstarfsins og eflingu lýðræðis.
    Þrjár fastanefndir starfa innan Alþjóðaþingmannasambandsins:
     1.      nefnd um friðar- og öryggismál,
     2.      nefnd um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál,
     3.      nefnd um lýðræði og mannréttindamál.
    Ráð IPU, sem í eiga sæti þrír fulltrúar frá hverri landsdeild (fulltrúum fækkar í tvo ef sendinefnd samanstendur ekki af fulltrúum beggja kynja í fleiri en þrjú þing í röð), markar stefnu samtakanna og hefur umsjón með starfi nefnda og vinnuhópa. Á milli funda hefur sautján manna framkvæmdastjórn umsjón með daglegum rekstri samtakanna, undirbýr fundi ráðsins og fylgir eftir ákvörðunum þess. Auk fastanefnda sambandsins skila aðrar nefndir og vinnuhópar sem starfa innan sambandsins skýrslum til ráðsins til afgreiðslu, en um er að ræða nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna, nefnd um mannréttindi þingmanna, nefnd um málefni Miðausturlanda, vinnuhóp um málefni Kýpur, nefnd til að auka virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum, undirbúningsnefnd kvennafundar IPU og vinnuhóp um samstarf kynjanna. Nefnd um mannréttindi þingmanna vinnur mikið starf á milli þinga og gefur út skýrslu fyrir hvert þing IPU þar sem hún fer yfir mál þingmanna sem mannréttindi hafa verið brotin á, hvort sem um er að ræða fangelsun, hótanir, barsmíðar, mannshvarf eða dauðsfall. Nefndin heimsækir viðkomandi ríki, ræðir við málsaðila og aflar gagna. Málum er fylgt eftir, oft árum saman, þar til niðurstaða fæst. Ráð IPU samþykkir á hverju þingi ályktanir sem grundvallast á skýrslu nefndarinnar.
    Ályktanir IPU eru ekki bindandi fyrir þjóðþing aðildarríkjanna. Þær endurspegla hins vegar umræðu um mikilvæg málefni sem hinar ýmsu þjóðir glíma við. Vegna virkrar þátttöku þingmanna í umræðum á þingum IPU og ólíkra sjónarmiða þeirra hafa alþjóðastofnanir lagt áherslu á að fylgjast vel með ályktunum IPU, enda hafa þær iðulega bent á nýjar leiðir og hugmyndir að lausn mála.

3. Skipan og starfsemi Íslandsdeildar.
    Í byrjun árs skipuðu Íslandsdeildina þau Þuríður Backman formaður, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Árni Páll Árnason varaformaður, þingflokki Samfylkingarinnar og Einar K. Guðfinnsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Ólöf Nordal, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Arna Gerður Bang var ritari deildarinnar. Íslandsdeildin hélt fimm fundi á árinu, en á þeim fór aðallega fram undirbúningur fyrir þátttöku í þingum IPU.

4. Yfirlit yfir fundi.
    Íslandsdeildin var venju samkvæmt virk í starfi IPU á árinu 2012 og lét að sér kveða í öllum helstu málum sem komu til umræðu í nefndum og á þingum sambandsins. Starfsemi Íslandsdeildar var með hefðbundnum hætti. Hér á eftir verður gerð grein fyrir því sem fram fór á fundunum á árinu og öðrum störfum Íslandsdeildar.

Norrænt samstarf.
    Tveir norrænir samráðsfundir eru haldnir árlega til að fara yfir málefni komandi þings og samræma afstöðu Norðurlanda eins og hægt er. Norðurlönd skiptast á að fara með formennsku í norræna hópnum og gegndi Ísland formennsku á árinu. Fundirnir voru báðir haldnir í Reykjavík, sá fyrri 15. mars og sá síðari 20. september 2012.
    Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fyrri norræna samráðsfundinn Þuríður Backman formaður og Árni Páll Árnason varaformaður auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Fundurinn var haldinn á nefndasviði Alþingis til undirbúnings þátttöku í 126. þingi IPU í Kampala 31. mars til 5. apríl 2012. Hér á eftir fer stutt yfirlit yfir helstu málefni sem voru til umræðu á fundinum.
    Þuríður Backman, formaður Íslandsdeildar, stýrði fundinum. Fyrsta mál á dagskrá var umræða um niðurstöður haustþings IPU sem haldið var í Bern 16. –19. október 2011. Þuríður sagði nefndarmönnum frá ályktun sem samþykkt var á þinginu um mál Birgittu Jónsdóttur, sem hefur verið til umfjöllunar hjá mannréttindanefnd IPU. Nefndin hefur m.a. fjallað um málið út frá tjáningarfrelsi sem hornsteini lýðræðis.
    Þá kynnti Krister Örnfjäder, norrænn fulltrúi í framkvæmdastjórn IPU, áhersluatriði framkvæmdastjórnarinnar og það sem helst var til umræðu á stjórnarnefndarfundi Tólfplús- hópsins í París 4.–5. mars 2012. Hann sagði fjármál IPU hafa verið aðalumræðuefni fundarins í París og leiðir til að minnka kostnað enn frekar. Þá var haldinn sérstakur fundur undirnefndar um fjármál, þar sem Örnfjäder gegnir formennsku, hinn 28. mars til undirbúnings fundum framkvæmdastjórnar í Kampala. Örnfjäder sagðist hafa lagt fram tillögu á síðasta ári um að fækka þingum IPU úr tveimur í eitt en það hafi ekki fallið í góðan jarðveg. Nefndarmenn tóku undir með Örnfjäder, að skoða yrði alla möguleika til að minnka kostnað við rekstur sambandsins og hugmyndin um að fækka þingum væri nauðsynlegur hluti í því ferli. Skuldbindingar varðandi lífeyrisgreiðslur og laun hafa m.a. hækkað en IPU er skuldbundið samningsbundnum launakjörum Sameinuðu þjóðanna. Þá sagði Örnfjäder mikilvægt að auka frjáls fjárframlög til sambandsins en þau hafa ekki skilað sér í þeim mæli sem vonast var eftir. Leiðir til að ná því markmiði verða ræddar í Kampala og athyglinni beint að fyrirtækjum, stofnunum og ríkjum. Hann upplýsti nefndarmenn um að hann væri í sambandi við IKEA og vonaðist til að fyrirtækið væri tilbúið til að styrkja IPU í framtíðinni. Þá sagði hann mikilvægt að fulltrúar aðildarríkjanna hjálpuðu starfsfólki IPU við verkefnið. Hann sagði jafnframt að eins og staðan væri í dag vissu fáir utan þinga aðildarríkja IPU um tilvist sambandsins og þörf væri á að breyta því með breyttri stefnu varðandi ímynd og markaðssetningu.
    Þuríður Backman lýsti yfir vonbrigðum með það að ekki hafi tekist að klára að kostnaðargreina og sundurliða þau verkefni sem IPU ynni að. Hún sagði að mikilvægt væri að tölurnar lægju fyrir og út frá þeim væri hægt að skera niður þau verkefni sem ekki væru líkleg til árangurs. Nefndarmenn þökkuðu Örnfjäder fyrir mikið og gott starf varðandi fjármál sambandsins og voru sammála um að þörf væri á frekari stuðningi frá þingmönnum Tólfplús- hópsins við vinnu undirnefndar um fjármál IPU. Nefndarmenn lögðu enn fremur áherslu á að með niðurskurði fjármagns til IPU yrði sambandið að takmarka starfsemi sína við helstu forgangsverkefni.
    Þá var rætt um lausar stöður fyrir fulltrúa Tólfplús-hópsins í embætti á vegum IPU og var áhugi nefndarmanna mikill. Katri Komi frá Finnlandi mun sækjast eftir endurkjöri í ráðgjafarnefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna, Truls Wickholm frá Noregi mun sækjast eftir sæti í nefnd um Miðausturlönd auk þess sem tveir fulltrúar frá Svíþjóð munu líklega sækjast eftir embættum í Kampala. Einnig hafa Úkraína og Aserbaídsjan, sem bæði eru aðilar að Evrópuráðinu, sótt um aðild að Tólfplús-hópnum en hvorugt landið tilheyrir landfræðihópi innan IPU. Umsóknirnar voru ræddar í Kampala.
     Farið var yfir helstu umræðuefni vorþingsins og skiptingu þingmanna í fastanefndir. Sænska landsdeildin kynnti breytingartillögur við ályktun 3. nefndar, sem fjallar um aðgengi að heilbrigðisþjónustu með áherslu á konur og börn, og voru þær sendar norrænu landsdeildunum til upplýsingar fyrir fundinn í Kampala. Þá sagðist Þuríður Backman hafa vonast til þess að málsgrein um málefni staðgöngumæðra hefði verið bætt inn í skýrslu og ályktun 3. nefndar eftir umræður nefndarinnar á haustþinginu í Bern, þar sem hún hefði vakið athygli á málinu, en svo væri ekki. Nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna fundar í tengslum við þingið auk þess sem fyrirhugað var að halda árlegan kvennafundur IPU 31. mars í Kampala. Þá var rætt um hugsanlegar tillögur að neyðarályktun og þótti líklegt að tillaga um ástandið í Sýrlandi verði fyrir valinu.
    Því næst var rætt um málefni samkynhneigðra í Úganda og frumvarp til laga sem vakið hefur hörð viðbrögð um allan heim þar sem lögð er til dauðarefsing við samkynhneigð. Nefndarmenn voru sammála um mikilvægi þess að norræni hópurinn veki athygli á málinu á þinginu í Kampala án þess þó að móðga gestgjafana alvarlega. Málið er viðkvæmt en nauðsynlegt að sýna fram á að óásættanlegt sé að mismuna minnihlutahópum á þennan hátt. Tekin var ákvörðun um að finnska landsdeildin gerði drög að yfirlýsingu fyrir hönd norræna hópsins og hún yrði send norrænu landsdeildunum fyrir þingið í Kampala til umsagnar. Einnig yrði Tólfplús-hópurinn látinn vita af fyrirhugaðri yfirlýsingu. Þá var ákveðið að bjóða einum af forystumönnum samtaka samkynhneigðra til norræns hádegisverðar sem fyrirhugað var að halda 2. apríl í boð Íslandsdeildar IPU.
    Jafnframt var rætt um framtíðarfyrirkomulag norrænu samráðsfundanna sem haldnir hafa verið tvisvar á ári, til skiptis í norrænu ríkjunum, til undirbúnings fyrir vor- og haustþing IPU. Formaður norsku landsdeildarinnar sendi norrænu landsdeildunum bréf í október 2011 þar sem lagt var til að annar fundurinn yrði haldinn á fundarstað þings IPU og hinn jafnvel lengdur og bætt við þemadegi. Þuríður Backman óskaði eftir því að heyra skoðun Kristers Örnfjäders á málinu þar sem hann væri fulltrúi norræna hópsins í framkvæmdastjórn IPU og markmið fundanna hefði upprunalega verið að upplýsa norræna fulltrúann um skoðanir norræna hópsins og veita honum stuðning fyrir fundi framkvæmdastjórnarinnar. Örnfjäder sagði núverandi fyrirkomulag hafa hentað vel og ekki gangi upp að halda norrænan samráðsfund á fundarstað þings IPU þar sem hann sé á fundum framkvæmdastjórnar þrjá daga fyrir opnun þings og norrænu fundina verði að halda áður en þeir fundir eiga sér stað. Hann gerði ekki ráð fyrir að norrænu landsdeildirnar hefðu tök á að ferðast á fundarstað svo mörgum dögum fyrir setningu þings. Hann sagði að eftir mikla umhugsun teldi hann núverandi skipulag það ákjósanlegasta og lagði áherslu á mikilvægi fundanna fyrir starf hans í framkvæmdastjórninni. Maria Lohela, formaður finnsku landsdeildarinnar, tók undir orð Örnfjäders en bætti við að hægt væri að spara bæði peninga og tíma með því að halda báða fundina í höfuðborgum norrænu landanna en hefðin hefur verið að annar fundurinn er haldinn í höfuðborginni og hinn gjarnan á landsbyggðinni. Voru nefndarmenn sammála þeirri tillögu og var tekin ákvörðun um að halda óbreyttu fyrirkomulagi með það að leiðarljósi að halda báða fundina í höfuðborgunum. Þá var jafnframt ákveðið að halda næsta norræna undirbúningsfund í Reykjavík í september 2012.
    Síðari norræni samráðsfundurinn var haldinn í fundarherbergi forsætisnefndar 15. september og sótti hann af hálfu Íslandsdeildar Þuríður Backman formaður auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Fundurinn var haldinn til undirbúnings þátttöku í 127. þingi IPU í Québec 21.–26. október 2012. Hér á eftir fer stutt yfirlit yfir helstu málefni sem voru til umræðu á fundinum.
    Þuríður Backman, formaður Íslandeildar, stýrði fundinum. Fyrsta mál á dagskrá var umræða um niðurstöður vorþings IPU sem haldið var í Kampala 31. mars til 5. apríl 2012. Þá kynnti Krister Örnfjäder, norrænn fulltrúi í framkvæmdastjórn IPU, áhersluatriði framkvæmdastjórnarinnar og það sem helst hefði verið til umræðu á stjórnarnefndarfundi Tólfplús-hópsins í París 28.–30. september og fundi undirnefndar um fjármál IPU. Hann sagði fjármál IPU hafa verið aðalumræðuefni fundarins í París og fjárhagsáætlun fyrir árið 2013. Tekist hefði að leggja fram áætlun sem minnkaði kostnað enn frekar fyrir árið 2013. Þá var haldinn sérstakur fundur undirnefndar um fjármál 28. ágúst sl. til að ræða fjárhagsáætlun IPU fyrir árið 2013. Auk þess hittist nefndin á fundi í Genf 14.–15. maí 2012 og hefur haldið þrjá símafundi á árinu. Örnfjäder gegnir formennsku í undirnefndinni og sagði hann að skoðaðir hefðu verið ýmsir möguleikar til að minnka kostnað við rekstur sambandsins og þeir hefðu verið settir fram í skýrslu sem kynnt var á stjórnarnefndarfundi Tólfplús-hópsins við góðar undirtektir.
    Örnfjäder lagði í máli sínu áherslu á mikilvægi þess að auka frjáls fjárframlög til sambandsins en þau hafa ekki skilað sér í þeim mæli sem vonast var eftir. Þuríður spurði Örnfjäder hvort frjálsu framlögin væru eyrnarmerkt sérstökum verkefnum hjá IPU eða hvort sambandið hefði frjálsar hendur um það hvernig þeim væri varið. Örnfjäder svaraði því til að hægt væri að skilgreina í hvaða málaflokk fjárframlagið yrði notað væri þess óskað. Hann nefndi í því sambandi IKEA, en hann vonast til að fyrirtækið sé tilbúið til að styrkja IPU í framtíðinni, og þá sé líklegt að það vilji styrkja verkefni sem tengjast málefnum barna. Hann sagði nauðsynlegt að fulltrúar aðildarríkjanna legðust á eitt og hjálpuðu starfsfólki IPU við verkefnið, bentu á hugsanlega styrktaraðila og aðstoðuðu við upplýsingaöflun. Þá vakti Þuríður athygli á nýju útliti á vefsvæði IPU og sagði það til mikilla bóta varðandi aðgengi og ímynd sambandsins. Vefsvæðið verður uppfært enn frekar á næstu mánuðum. Jafnframt var rætt um skuldbindingar varðandi lífeyrisgreiðslur og laun en IPU er skuldbundið samningsbundnum launakjörum Sameinuðu þjóðanna. Örnfjäder lagði áherslu á að á meðan ekki væri til staðar betra launakerfi en það sem Sameinuðu þjóðirnar halda úti sé ekki skynsamlegt að gera breytingar. Nefndarmenn þökkuðu Örnfjäder fyrir mikið og gott starf varðandi fjármál sambandsins og í framkvæmdastjórn og lögðu áherslu á að með niðurskurði fjármagns til IPU yrði sambandið að takmarka starfsemi sína við helstu forgangsverkefni sem skilgreind eru í stefnumörkun sambandsins fyrir árin 2012–2017.
    Þá var rætt um lausar stöður fyrir fulltrúa Tólfplús-hópsins í embætti á vegum IPU og mun Katri Komi frá Finnlandi m.a. sækjast eftir endurkjöri í ráðgjafarnefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna. Þá skapaðist umræða um að staða Kristers Örnfjäders sem eins af fjórum fulltrúum Tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn IPU, væri laus á haustþingi 2013 og því mikilvægt að norrænu landsdeildirnar skoðuðu hvort þau hefðu fulltrúa sem hefðu áhuga á að sækjast eftir því embætti. Tekin var ákvörðun um að ræða málið frekar í Québec og voru nefndarmenn sammála um mikilvægi þess að hafa norrænan fulltrúa í framkvæmdastjórn IPU.
    Enn fremur var farið yfir helstu umræðuefni haustþingsins og skiptingu þingmanna í fastanefndir. Umræðuefni fastanefndanna eru m.a. hlutverk þjóðþinga við vernd almennings, sanngjörn viðskipti og nýbreytni við fjármögnun fyrir sjálfbæra þróun og hlutverk fjölmiðla, þ.m.t. samskiptavefja á internetinu, við að stuðla að þátttöku borgaranna og lýðræði. Jafnframt fer fram sérstök umræða sem ber yfirskriftina: Ríkisfang, kennimark, tungumál og menningarmunur í hnattrænum heimi. Nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna mun funda í tengslum við þingið auk þess sem haldin verður málstofa um jafnréttismál. Þá var rætt um hugsanlegar tillögur að neyðarályktun og þykir líklegt að tillaga um ástandið í Sýrlandi verði fyrir valinu.
    Þuríður sagði nefndarmönnum frá ályktun sem samþykkt var á haustþingi IPU í Bern 16.–19. október 2011 um mál Birgittu Jónsdóttur. Málið hefur verið til umfjöllunar hjá mannréttindanefnd IPU en nefndin hefur m.a. fjallað um það út frá tjáningarfrelsi sem hornsteini lýðræðis. Á þinginu í Québec mun nefndin fjalla enn frekar um málið. Þá bauð Þuríður Backman fyrir hönd Íslandsdeildar IPU norrænu landsdeildunum til norræns hádegisverðar mánudaginn 22. október í Québec. Jafnframt var rætt um framtíðarfyrirkomulag norrænu samráðsfundanna sem haldnir hafa verið tvisvar á ári, til skiptis í norrænu ríkjunum, til undirbúnings fyrir vor- og haustþing IPU. Voru nefndarmenn sammála um að núverandi fyrirkomulag væri ákjósanlegt, þar sem fundirnir væru haldnir í höfuðborgum viðkomandi formennskuríkis. Þá var jafnframt ákveðið að halda næsta norræna undirbúningsfund í Svíþjóð 7. mars 2013 til undirbúnings 128. vorþings IPU í Quito 21.–27. mars 2013.
    
126. þing IPU í Kampala 31. mars til 5. apríl.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar IPU sóttu fundinn Þuríður Backman formaður, Árni Páll Árnason varaformaður og Einar K. Guðfinnsson auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Helstu mál á dagskrá voru aðgengi að heilbrigðisþjónustu með áherslu á konur og börn, dreifing valds en ekki eingöngu auðs í heiminum og lærdómur sem draga mætti af atburðum síðasta árs í Miðausturlöndum og Norður-Afríku. Þá fór fram almenn umræða um hvernig brúa mætti það bil sem oft myndast milli þings og þjóðar. Auk þess fór fram utandagskrárumræða um ástandið í Sýrlandi. Um 600 þingmenn frá 120 ríkjum sóttu þingið, þar af 40 þingforsetar.
    Tólfplús-hópurinn, sem er samstarfsvettvangur vestrænna lýðræðisríkja, hittist flesta morgna meðan á þinginu stóð en þar er farið yfir helstu mál þingsins og afstaða sendinefnda samræmd eins og hægt er. Formaður hópsins, Robert del Picchia frá Frakklandi, stýrði fundunum. Fulltrúar Tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn IPU kynntu niðurstöður funda stjórnarinnar og gafst fundargestum kostur á að spyrja út í starf hennar. Jafnframt upplýsti Michèle André frá Frakklandi fundargesti um helstu niðurstöður árlegs kvennafundar IPU sem haldinn var 31. mars í Kampala. Þuríður Backman tók þátt í fundinum ásamt um 100 þingmönnum. Næsti kvennafundur verður haldinn á vorþingi samtakanna 2013. Þá sótti Einar K. Guðfinnsson fund með fulltrúum stjórnarandstöðuflokks í Úganda sem skipulagður var í tengslum við IPU-þingið og kynnti fulltrúum Tólfplús-hópsins efni hans. Eftir fundinn var einn flokkur stjórnarandstöðunnar í Úganda bannaður sem aukið hefur enn frekar á spennuna milli stjórnar og stjórnarandstöðu.
    Hópur norrænu þingmannanna hafði forgöngu um að mál samkynhneigðra í Úganda voru rædd á fundum Tólfplús-hópsins í tilefni af frumvarpi til laga þar sem lögð er til dauðarefsing og bann við samkynhneigð. Tekin var ákvörðun um að Tólfplús-hópurinn sendi bréf til forseta Úganda og þingforseta þar sem hvatt væri til þess að lagafrumvarpið yrði endurskoðað og efni þess gagnrýnt. Árni Páll Árnason lagði til að einnig yrðu send bréf sama efnis til allra þingflokksformanna á úgandska þinginu þar sem a.m.k. hluti stjórnarandstöðunnar er hlynntur frumvarpinu. Var það samþykkt einróma af nefndarmönnum. Norræni hópurinn bauð jafnframt einum af forustumönnum samtaka samkynhneigðra í Úganda til norræns hádegisverðar þar sem hann kynnti baráttumála samtakanna og svaraði spurningum þingmannanna.
    Við setningu 126. þings IPU flutti forseti þingsins í Kampala, Yoweri Kaguta Museveni, ávarp þar sem hann bauð þátttakendur velkomna og kynnti dagskrá þingsins. Aðrir sem tóku til máls við setninguna voru Rebecca Kadaga, forseti þingsins í Úganda, Zachary Mburi- Muita, framkvæmdastjóri skrifstofu Sameinuðu þjóðanna sem fer með málefni Afríkusambandsins, og Abdelwahad Radi, forseti IPU. Á fyrsta degi þingfundar var opin samræða við dr. Anthony Lake, framkvæmdastjóra Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), og dr. Babatunde Osotimehin, framkvæmdastjóra Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA).
    Almenn umræða fór fram um stjórnmálalegt, efnahagslegt og félagslegt ástand í heiminum með áherslu á það hvernig brúa mætti það bil sem oft myndast milli þings og þjóðar og tóku 104 sendinefndir þátt í umræðunni, þar á meðal Þuríður Backman fyrir hönd Íslandsdeildar. Hún fjallaði um mikilvægi gagnsærra og lýðræðislegra kosninga, þar sem allir þjóðfélagshópar hefðu kosningarrétt, og styrkingu þjóðþinga. Þá sagði hún að í ljósi loftslagsbreytinga og auðlindamála væri nauðsynlegt að huga að visfræðilegri stjórnun og jafnrétti kynjanna. Hverfa þyrfti frá þeim mælikvörðum sem mæla eingöngu hagvöxt og horfa í auknu mæli til heilsufars, líðanar fólks og umhverfisáhrifa. Þá ræddi Þuríður um ástandið í Sýrlandi og gagnrýndi kínversk og rússnesk stjórnvöld fyrir að beita neitunarvaldi við afgreiðslu ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna varðandi málefni landsins. Að endingu sagði Þuríður að ekki væri mögulegt að brúa bilið milli þings og þjóðar nema jafnréttis væri gætt og allir þjóðfélagshópar hefðu rétt til jafnrar þátttöku í samfélaginu.
    Tillögur um utandagskrárefni voru lagðar fram fyrir upphaf þingsins, en aðeins er hægt að taka fyrir eitt mál utan dagskrár á hverju þingi. Lagðar voru fram sjö tillögur en landsdeildir Kanada, Egyptalands, Frakklands, Sameinuðu arabísku furstadæmanna og Bretlands tóku ákvörðun um að sameinast um eina tillögu sem bar yfirskriftina: Framtak Alþjóðaþingmannasambandsins til að stöðva tafarlaust blóðsúthellingar og mannréttindabrot sem framin eru í Sýrlandi og nauðsyn þess að tryggja aðgang nauðstaddra að hjálparstofnunum og styðja friðarumleitanir og framkvæmd ályktana Arababandalagsins og Sameinuðu þjóðanna. Í ljósi mikilvægis sameiginlegu tillögunnar dró Argentína tillögu sína til baka áður en umræður hófust. Valið stóð því á milli framangreindrar tillögu og tillögu Írans um nauðsyn þess að styðja við þjóðarsátt um uppbyggingu lýðræðisstofnana í þeim ríkjum þar sem umbrot og ófriður er, sérstaklega í Sýrlandi og Barein. Eftir að hafa kynnt tillögu Írans fyrir þinginu dró fulltrúi írönsku landsdeildarinnar hana til baka og studdi sameiginlega tillögu ríkjanna fimm. Þingið samþykkti tillöguna sem utandagskrárumræðuefni og var það tekið til umræðu og ályktunar. Ályktun þingsins endurspeglaði málefni umræðunnar og var samþykkt. Landsdeildir Chile, Kúbu, Suður-Afríku, Úganda og Víetnam lýstu yfir fyrirvara við málsgrein 12 í ályktuninni sem fjallaði um efnahagslegar refsiaðgerðir en Sýrland, Íran, Kórea og Venesúela höfnuðu ályktuninni í heild sinni.
    Fastanefndirnar þrjár tóku fyrir fram ákveðin mál til umfjöllunar. Ályktanir nefndanna voru síðan afgreiddar á þingfundi. Einar K. Guðfinnsson tók þátt í störfum 1. nefndar, um frið og alþjóðleg öryggismál, en þar var rætt um þann lærdóm sem draga mætti af atburðum síðasta árs í Miðausturlöndum og Norður-Afríku. Einar tók þátt í umræðum nefndarinnar og gagnrýndi m.a. stjórnvöld í Sýrlandi harðlega fyrir einræði og hrottalegar árásir gegn andspyrnumönnum í landinu. Þá sagði hann miður að alþjóðasamfélagið hefði ekki brugðist við ástandinu af festu. Rússar og Kínverjar hefðu brugðist sýrlensku þjóðinni með því að standa í vegi fyrir aðgerðum Sameinuðu þjóðanna vegna efnahagslegra og hernaðarlegra hagsmuna sinna. Tekin var ákvörðun um að næsta umræðuefni nefndarinnar yrði Ábyrgð til varnar: Hlutverk þjóðþinga við vernd almennings.
    Árni Páll Árnason tók þátt í störfum 2. nefndar, um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál, en þar var rætt og ályktað um dreifingu valds en ekki eingöngu auðs í heiminum. Þá var tekin ákvörðun um að næsta umræðuefni nefndarinnar yrði sanngjörn viðskipti og nýbreytni við fjármögnun fyrir sjálfbæra þróun. Þuríður Backman tók þátt í störfum 3. nefndar, um lýðræði og mannréttindi, en hún fjallaði og ályktaði um aðgengi að heilbrigðisþjónustu með áherslu á konur og börn. Næsta umræðuefni nefndarinnar verður hlutverk fjölmiðla, þ.m.t. samskiptavefja á internetinu, við að stuðla að þátttöku borgaranna og lýðræði.
    Forseti þingsins sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann lýsti yfir áhyggjum af ástandinu í Malí þar sem uppreisnarmenn úr röðum stjórnarhersins tóku völdin af lögmætum stjórnvöldum 22. mars 2012. Þá var kynnt skýrsla sem unnin var í samvinnu við þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna (UNDP) og rannsakaði samband þings og þjóðar hjá aðildarríkjum IPU.
    Ráð IPU kom tvisvar sinnum saman á þinginu og afgreiddi fjölda mála. Haíti og Búrma fengu aftur inngöngu í sambandið og eru aðildarríkin nú 162. Nefnd um mannréttindi þingmanna kynnti skýrslur um brot gegn mannréttindum þingmanna og samþykkti ráð IPU fjölmargar ályktanir á grundvelli þeirra. Að lokum fagnaði ráð IPU boði Ekvador um að halda 128. vorþing IPU í Quito 22.–27. mars 2013. Þess má geta að 29,7% þingfulltrúa á 126. þinginu voru konur, 180 talsins.
    Íslandsdeild IPU fékk jafnframt kynningu á verkefnum Þróunarsamvinnustofnunar í Kalangala héraði í Úganda en þar er m.a. unnið að stuðningi við verkefni um gæðavottun fyrir markaðssetningu fiskafurða. Auk þess heimsótti Íslandsdeild skóla ABC barnahjálpar í Kitetika í úthverfi Kampala og kynnti sér starfsemina. ABC barnahjálp rekur alls níu skóla í Úganda auk þess að styðja 600 börn til náms í almennum skólum í Gulu-héraði.

127. þing IPU í Québec 21.–27. október.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar IPU sótti fundinn Þuríður Backman formaður og Einar K. Guðfinnsson, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Helstu mál á dagskrá voru hlutverk þjóðþinga við vernd almennings, sanngjörn viðskipti og nýbreytni við fjármögnun fyrir sjálfbæra þróun og hlutverk fjölmiðla, þ.m.t. samskiptavefja á internetinu, við að stuðla að þátttöku borgaranna og lýðræði. Jafnframt fór fram sérstök umræða sem bar yfirskriftina Ríkisfang, kennimark, tungumál og menningarmunur í hnattrænum heimi. Auk þess fór fram utandagskrárumræða um ástandið í Malí. Um 1.250 þátttakendur sóttu þingið, þar af um 700 þingmenn frá 129 ríkjum og 42 þingforsetar.
    Tólfplús-hópurinn, sem er samstarfsvettvangur vestrænna lýðræðisríkja, hittist að venju flesta morgna meðan á þinginu stóð. Formaður hópsins, Robert del Picchia frá Frakklandi, stýrði fundunum og var jafnframt endurkjörinn í embætti sitt til næstu tveggja ára. Fulltrúar Tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn IPU kynntu helstu niðurstöður funda stjórnarinnar sem haldnir voru 18. og 19. október í Québec og fundar stjórnarnefndar Tólfplús-hópsins sem haldinn var í París 28.–30. september sl. Drög að fjárhagsáætlun IPU fyrir árið 2013 var meðal aðalumræðuefna fundanna og sagði Krister Örnfjäder, norrænn fulltrúi í framkvæmdastjórn IPU, frá árangursríku starfi nefndar um fjármál IPU, en þar gegnir hann formennsku. Þá var rætt um umsókn Úkraínu og Aserbaídsjans að Tólfplús-hópnum, en hvorugt landið tilheyrir landfræðihópi innan IPU. Tekin var ákvörðun um að bíða með að kjósa um aðild Úkraínu að Tólfplús-hópnum þar til eftir þingkosningar í landinu sem fyrirhugaðar voru 28. október 2012. Þá kynnti Fuad Muradov frá Aserbaídsjan umsókn þjóðþings Aserbaídsjans fyrir nefndarmönnum og svaraði spurningum þeirra. Þuríður Backman spurði um núverandi stöðu pólitískra fanga í landinu og svaraði hann því til að samkvæmt skilgreiningum hans væru engir slíkir fangar í Aserbaídsjan. Tillaga um inngöngu Aserbaídsjans í landfræðihópinn var felld með naumum meiri hluta. Þá var rætt um nýtt merki IPU og voru nefndarmenn ósammála um nauðsyn þess. Tvær tillögur voru kynntar auk þess sem rætt var um nýja vefsíðu sambandsins og samræmt útlit á útgefnu efni.
    Við setningu 127. þingsins flutti forseti IPU, Abdelwahad Radi, ávarp þar sem hann bauð þátttakendur velkomna og kynnti dagskrá þingsins. Hann lagði í máli sínu áherslu á mikilvægi skilnings og virðingar fyrir fjölbreytileika mannlífs, ekki síst á erfiðum tímum. Þá tók David Johnston, landstjóri Kanada, til máls og sagði þjóðþing æðstu framsetningu á lýðræðislegum gildum en að enginn hefði sagt að það yrði auðvelt að framfylgja þeim. Fyrir hönd aðalritara Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, flutti framkvæmdastjóri opinberra samskipta hjá Sameinuðu þjóðunum, Peter Launsky-Tieffenthal, ávarp. Aðrir sem ávörpuðu þingið voru Noel A. Kinsella, forseti neðri deildar kanadíska þingsins, og Konrad Sioui, höfðingi þjóðarráðs Huron-Wendat frumbyggja, sem blessaði fundargesti við upphaf þings að hætti þjóðflokksins.
    Fjórar tillögur að neyðarályktun voru lagðar fram við upphaf þingsins og fjölluðu tvær þeirra um ástandið í Sýrlandi. Hinar tvær fjölluðu annars vegar um ástandið í Malí og hins vegar um glæpavæðingu ærumeiðinga varðandi trúarbrögð. Aðeins er hægt að taka fyrir eitt mál utan dagskrár á hverju þingi samkvæmt reglum IPU. Tillaga Malí um ástandið þar í landi var samþykkt með naumum meiri hluta af þinginu. Yfirskrift tillögunnar var: Stofnana- og öryggisástand í Malí. Í umræðum um neyðarályktunina fordæmdu þingmenn morð, misnotkun og brot gegn óbreyttum borgurum, sérstaklega konum og börnum. Framangreint, taumlaus ránskapur og eyðilegging trúar- og menningararfleifðar í Malí, hefur sannfært fulltrúa IPU um réttmæti samþykktar öryggisráðsins þar sem gefið er umboð til hernaðaríhlutunar takist ekki að stilla til friðar með pólitískum hætti í ríkinu. Ályktun þingsins endurspeglaði málefni umræðunnar og var hún samþykkt einróma.
    Segja má að ástandið í Malí hafi verið eitt af þremur helstu viðfangsefnum þingsins. Í öðru lagi var áhersla lögð á ráðstefnuyfirlýsingu þar sem sjónum er beint að ríkisfangi, kennimarki, tungumálum og menningarmun í hnattrænum heimi. Í yfirlýsingunni er kallað eftir aðgerðum þjóðþinga til að vernda fjölbreytni samfélaga. Þá er lagt til að sáttmálar og lög sem vernda mannréttindi og fjölbreytni séu staðfest og fullgilt. Yfirlýsingin staðfestir hollustu sambandsins við tjáningar- og skoðanafrelsi og fordæmir þá sem kúga og egna til ofstækis, haturs, kynþáttafordóma og ofbeldis. Í þriðja lagi var rík áhersla lögð á stöðu kvenna á þjóðþingum heims og fór fram sérstök umræða um málaflokkinn. Við lok þingsins var samþykkt aðgerðaáætlun um kynbundið jafnvægi fyrir aðildarríki IPU en konur sitja aðeins í 20% af 46.000 þingsætum heims og því brýnt að bregðast markvisst við ástandinu.
    Umræður um skýrslur fastanefndanna þriggja fóru fram sem pallborðsumræður þar sem efni skýrslnanna var kynnt af skýrsluhöfundum og sérfræðingum og í framhaldinu tóku þingmenn þátt í umræðum. Í 1. nefnd, um frið og alþjóðleg öryggismál, var umræðuefnið hlutverk þjóðþinga við vernd almennings. Skýrsluhöfundar skýrðu fundargestum frá framgangi vinnu nefndarinnar við undirbúning skýrslunnar sem flutt verður á vorþinginu í Quito í Ekvador. Þuríður Backman tók þátt í störfum nefndarinnar. Í 2. nefnd, um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál, var fjallað um sanngjörn viðskipti og nýbreytni við fjármögnun fyrir sjálfbæra þróun. Einar K. Guðfinnsson tók þátt í störfum nefndarinnar. Í 3. nefnd, um lýðræði og mannréttindi, var fjallaði um hlutverk fjölmiðla, þ.m.t. samskiptavefja á internetinu, við að stuðla að þátttöku borgaranna og lýðræði.
    Nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna fundaði í tengslum við þingið og fjallaði m.a. um samstarfið milli Sameinuðu þjóðanna, þjóðþinga og IPU og það hvort Sameinuðu þjóðirnar tækju „lýðræðið“ nægilega alvarlega. Þá gaf nefndin út handbók um stuðning við takmörkun á útbreiðslu kjarnorkuvopna og afvopnun. Fjórar málstofur fóru fram, um eftirfarandi efni: Að skapa tækifæri fyrir ungmenni í núverandi efnahagsumhverfi heims, friðaruppbyggingu eftir átök, horfur varðandi orkuöryggi heims og þinghelgi – ávinningur eða byrði?
    Ráð IPU kom tvisvar saman á þinginu og afgreiddi fjölda mála. Aðildarríki IPU eru nú 162. Samþykkt var fjárhagsáætlun fyrir árið 2013 og yfirlit yfir skipulagða fundi og framkvæmdir fyrir 2013–2014. Tekin var ákvörðun um að halda áfram að lækka útgjöld sambandsins í ljósi bágrar fjárhagsstöðu margra aðildarríkja og var samþykkt að útgöld yrðu óbreytt frá árinu 2012 í fjárhagsáætlun fyrir árið 2013. Katri Komi frá Finnlandi var endurkjörin í ráðgjafanefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna og Truls Wickholm frá Noregi tók sæti í nefnd um Miðausturlönd. Þá fékk þingið í Lesotho inngöngu í IPU og ákveðið var að haustþing sambandsins verði að staðaldri haldin í Genf og vorþingin í einu aðildarríkja IPU.
    Nefnd um mannréttindi þingmanna kynnti skýrslur um brot gegn mannréttindum þingmanna og samþykkti ráð IPU fjölmargar ályktanir á grundvelli þeirra. Þess má geta að 175 þingfulltrúar á 127. þingi IPU voru konur (28%), sem er lakari árangur en náðist á síðasta þingi (29%). Vorþingið 2013 verður haldið í Quito í Ekvador 21.–27. mars og haustþingið í Genf í október. Þá hafa Kólumbía, Vítenam og Mongólía sýnt því áhuga að halda vorþing 2014.

5. Ályktanir og yfirlýsingar IPU árið 2012.
    Ályktanir 126. þings IPU vörðuðu eftirfarandi efni:
     1.      Þann lærdóm sem draga má af nýlegum atburðum í Miðausturlöndum og Norður-Afríku: Að styðja við og stunda góða stjórnarhætti með það að markmiði að stuðla að friði og öryggi.
     2.      Dreifingu valds en ekki eingöngu auðs í heiminum: Eignarhald á alþjóðlegu viðhorfi.
     3.      Aðgengi að heilbrigðisþjónustu sem mannréttindi: Hlutverk þjóðþinga við að takast á við lykil áskoranir til að tryggja heilbrigði kvenna og barna.
     4.      Framtak Alþjóðaþingmannasambandsins til að stöðva tafarlaust blóðsúthellingar og mannréttindabrot sem framin eru í Sýrlandi og nauðsyn þess að tryggja aðgang nauðstaddra að hjálparstofnunum og styðja friðarumleitanir og framkvæmd ályktana Arababandalagsins og Sameinuðu þjóðanna.

    Yfirlýsing forseta Alþjóðaþingmannasambandsins á 126. þingi:
    Um alvarlegt öryggisástand í Malí.

    Ályktun 127. þings IPU varðaði eftirfarandi efni:
    Stofnana- og öryggisástand í Malí.

    Ráðstefnuyfirlýsing 127. þings IPU:
    Ríkisfang, kennimark, tungumál og menningarmunur í hnattrænum heimi.

Alþingi, 31. janúar 2013.



Þuríður Backman,


form.


Árni Páll Árnason.


Einar K. Guðfinnsson.