Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 578. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 986  —  578. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf árið 2012.


1. Inngangur.
    Helstu málefni til umfjöllunar í Norðurlandaráði 2012 voru norðurslóðir, stjórnsýsluhindranir og utanríkis- og öryggismál. Norðurlandaráð átti 60 ára afmæli á árinu. Finnar fóru með formennsku og forseti ráðsins var Kimmo Sasi og varaforseti Silvia Modig.
    Norðurslóðir voru í brennidepli á þingfundi Norðurlandaráðs í Reykjavík 23. mars 2012, fyrsta þingfundi ráðsins sem haldinn hefur verið í Alþingishúsinu, í tilefni af 50 ára afmæli undirritunar Helsinki-samningsins. Samþykkt voru tíu tilmæli um norðurslóðir á fundinum, þar á meðal um fjármögnun björgunarviðbúnaðar, umhverfisvernd og olíu- og gasvinnslu, réttindi frumbyggja, innviði rannsókna og tengslanet vísindamanna og sameiginlega stefnumörkun Norðurlandanna um málefni norðurskautsins.
    Stjórnsýsluhindranir milli Norðurlanda voru efni sérstakra umræðna sem fóru fram samtímis í norrænu þjóðþingunum dagana 11.–25. apríl, en þær eru kerfisbundnar hindranir yfir landamæri Norðurlanda vegna mismunandi reglna hjá hinu opinbera í löndunum, sem torvelda flutninga eða möguleika einstaklinga á að nýta sér réttindi sín milli Norðurlanda eða hamla viðskiptum fyrirtækja og einstaklinga. Á Alþingi fór umræðan fram 20. apríl. Form umræðnanna var með ólíku sniði eftir þingum og þátttaka ráðherra mismunandi, allt frá einum ráðherra til þriggja. Einnig voru efni umræðunnar í hverju landi af ýmsum toga, en rauður þráður í umræðunum í heild var hvernig koma mætti í veg fyrir myndun stjórnsýsluhindrana á milli Norðurlanda við lagasetningu og innleiðingu ESB-gerða. Í kjölfar umræðnanna samþykkti Norðurlandaráð tilmæli um Norðurlönd án landamæra og tilmæli um skipan umboðsmanns stjórnsýsluhindrana.
    Utanríkis- og öryggismál voru í sviðsljósinu á þingi Norðurlandaráðs í Helsinki 30. október til 1. nóvember. Þar skapaðist mikil umræða um þátttöku Finna og Svía, ásamt Norðmönnum, í loftrýmisgæslu við Ísland, að ósk Íslendinga, á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2014. Tillaga um þátttöku Finna og Svía var fyrst sett fram í Stoltenberg-skýrslunni svokölluðu um norræna samvinnu á sviði utanríkis- og öryggismála. Þá fjallaði forsætisnefnd um fjögur mál á sviði utanríkismála, þar á meðal um sjálfstæði Palestínu og um aukið norrænt samstarf gegn tölvuógnum og stafrænum árásum.

2. Almennt um Norðurlandaráð.
    Norðurlandaráð var stofnað árið 1952 og er samstarfsvettvangur þjóðþinga á Norðurlöndum. Álandseyjar, Færeyjar og Grænland taka þátt í samstarfinu. Alþingi hefur átt aðild að ráðinu frá stofnun þess. Norðurlandaráð kemur saman til þingfundar tvisvar sinnum á ári og ræðir og ályktar um norræn málefni á eins dags þingfundi að vori og á hefðbundnu margra daga þingi að hausti. Auk þess kemur Norðurlandaráð saman til nefndafunda þrisvar sinnum á ári. Á vegum Norðurlandaráðs er unnið að margvíslegum norrænum verkefnum sem þingmenn, nefndir, flokkahópar eða landsdeildir ráðsins hafa átt frumkvæði að. Norðurlandaráð hefur tillögu- og umsagnarrétt um fjármagn sem er veitt til norrænnar samvinnu árlega. Norræna ráðherranefndin tekur verulegt tillit til þeirra ábendinga.
    Í Norðurlandaráði sitja 87 þingmenn, þar af sjö alþingismenn. Hvert hinna ríkjanna fjögurra, ásamt Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi, á 20 þingmenn í Norðurlandaráði. Forseti Norðurlandaráðs kemur frá hverju ríki á fimm ára fresti. Á hefðbundnu þingi Norðurlandaráðs, sem stendur í þrjá til fjóra daga í senn um mánaðamótin október/nóvember, er fjallað um fram komnar tillögur og beinir þingið tilmælum til ríkisstjórna landanna eða Norrænu ráðherranefndarinnar. Forsætisráðherrar og utanríkisráðherrar Norðurlanda gefa Norðurlandaráðsþinginu skýrslu og samstarfsráðherrar svara fyrirspurnum í sérstökum fyrirspurnatíma. Fjárlög komandi starfsárs eru jafnframt ákveðin á þinginu og skipað er í nefndir og trúnaðarstöður. Á stuttum þingfundi Norðurlandaráðs að vori er lögð sérstök áhersla á ákveðið málefni. Árið 2012 voru það norðurslóðir. Í Norðurlandaráði starfa fjórir flokkahópar: jafnaðarmenn, miðjumenn, hægri menn og vinstri sósíalistar og grænir. Flokkahóparnir móta sameiginlega afstöðu til einstakra mála og velja þingmenn í nefndir. Að öðru leyti byggist starf Norðurlandaráðs á landsdeildum aðildarríkjanna.
    Málefnastarf Norðurlandaráðs fer að mestu fram í fimm fagnefndum auk forsætisnefndar. Á milli þinga stýrir forsætisnefnd starfi ráðsins, vísar tillögum til nefnda eða afgreiðir þær. Forsætisnefnd fer jafnframt með utanríkis- og öryggismál svo og samskipti Norðurlandaráðs við aðrar alþjóðastofnanir. Þá fer eftirlitsnefnd yfir ársreikninga ráðsins og stofnana sem starfa innan Norðurlandastarfsins. Loks kemur kjörnefnd saman til að gera tillögu að skipan í nefndir og trúnaðarstöður á vegum Norðurlandaráðs.

3. Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
Skipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Í byrjun árs 2012 skipuðu Íslandsdeild Helgi Hjörvar, formaður, þingflokki Samfylkingarinnar, Álfheiður Ingadóttir, varaformaður, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Illugi Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Lúðvík Geirsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Siv Friðleifsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, Árni Þór Sigurðsson, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og Bjarni Benediktsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Björn Valur Gíslason, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Ólöf Nordal, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Margrét Tryggvadóttir, þingflokki Hreyfingarinnar, Höskuldur Þórhallsson, þingflokki Framsóknarflokks, Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og Jón Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks.
    Breyting varð á Íslandsdeild 13. september 2012. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, varð aðalmaður í stað Bjarna Benediktssonar, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, varð aðalmaður í stað Lúðvíks Geirssonar, þingflokki Samfylkingarinnar. Þá varð Jónína Rós Guðmundsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, varamaður í stað Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og Lúðvík Geirsson, þingflokki Samfylkingarinnar, varð varamaður í stað Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, þingflokki Samfylkingarinnar.
    Ritari Íslandsdeildar árið 2012 var Lárus Valgarðsson alþjóðaritari.

Nefndaskipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Kosið var í embætti og nefndir fyrir starfsárið 2012 á 63. þingi Norðurlandaráðs sem fram fór í Kaupmannahöfn 1.–3. nóvember 2011. Eftir kosningarnar var nefndaseta fulltrúa Íslandsdeildar Norðurlandaráðs árið 2012 sem hér segir: Helgi Hjörvar sat áfram í forsætisnefnd og tók sæti í fjárlagahópi nefndarinnar, Siv Friðleifsdóttir var áfram formaður velferðarnefndar og sat áfram í kjörnefnd, Álfheiður Ingadóttir sat áfram í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd, Bjarni Benediktsson sat áfram í efnahags- og viðskiptanefnd og eftirlitsnefnd, Lúðvík Geirsson sat áfram í velferðarnefnd og Árni Þór Sigurðsson sat áfram í menningar- og menntamálanefnd og kjörnefnd og varð formaður menningar- og menntamálanefndar. Eftir áðurnefndar breytingar á Íslandsdeild 13. september tók Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sæti Lúðvíks Geirssonar í velferðarnefnd og Ragnheiður Ríkharðsdóttir sæti Bjarna Benediktssonar í efnahags- og viðskiptanefnd og eftirlitsnefnd. Siv Friðleifsdóttir hætti í kjörnefnd 27. september.
    Fulltrúar Íslandsdeildar sátu auk þess á vegum Norðurlandaráðs í stjórnum norrænna stofnana og voru fulltrúar þess út á við. Siv Friðleifsdóttir, varamaður í stjórn Norræna menningarsjóðsins, tók þátt í störfum hennar í stað Helga Hjörvar aðalmanns og Ragnheiður Ríkharðsdóttir átti sæti í stjórn eftirlitsnefndar Norræna fjárfestingarbankans.

Starfsemi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs fundaði sex sinnum á árinu. Undirbúin var þátttaka í fundum og þingfundum Norðurlandaráðs og fjallað um einstök mál til meðferðar í nefndum og starfshópum ráðsins.
    Íslandsdeild fjallaði um stjórnsýsluhindranir, þar sem Ole Norrback, formaður nefndar um afnám stjórnsýsluhindrana á Norðurlöndum, og Guðríður Sigurðardóttir, fulltrúi Íslands í nefndinni, voru gestir fundarins. Einnig var fjallað um fréttamannastyrki Norðurlandaráðs og eftirfylgni þingmanna við tilmæli Norðurlandaráðs. Eftirtaldir hlutu fréttamannastyrk: Birgir Guðmundsson, Guðrún Gunnarsdóttir, Sari Peltonen, Sigríður Björg Tómasdóttir, Sveinn H. Guðmarsson og Þorbjörn Þórðarson.

4. Starfsemi nefnda Norðurlandaráðs.
Forsætisnefnd.
    Forsætisnefnd Norðurlandaráðs er æðsta ákvörðunarvald milli þingfunda ráðsins og getur tekið ákvarðanir fyrir hönd þess. Hún stýrir og samræmir starf nefnda Norðurlandaráðs, ber ábyrgð á heildrænum pólitískum og stjórnsýslulegum áherslum, utanríkis- og varnarmálum og gerir framkvæmda- og fjárhagsáætlanir ráðsins. Forsætisnefnd er skipuð forseta, varaforseta og allt að 11 fulltrúum sem kosnir eru á þingi Norðurlandaráðs. Forsetinn og varaforsetinn eru frá því landi sem verður gestgjafi hefðbundins þingfundar að hausti á því ári sem þeir sinna starfinu. Allar landsdeildir á Norðurlöndunum og allir flokkahópar eiga fulltrúa í forsætisnefnd.
    Forsætisnefnd getur skipað undirnefndir eða vinnuhópa, áheyrnarfulltrúa og eftirlitsaðila um sérstök málefni í afmarkaðan tíma, svo sem fjárlagahópinn sem ræðir við Norrænu ráðherranefndina um fjárhagsáætlun hennar. Forsætisnefnd ber einnig ábyrgð á samræmingu tengsla við þjóðþing og aðrar svæðisbundnar og alþjóðlegar stofnanir.
    Helgi Hjörvar sat í forsætisnefnd á starfsárinu 2012 og í fjárlagahópi nefndarinnar. Nefndin fundaði sex sinnum á árinu. Helstu mál til umfjöllunar í nefndinni voru norðurslóðir, stjórnsýsluhindranir og utanríkismál.
    Norðurlandaráð samþykkti á þingfundi 23. mars 10 tilmæli um norðurslóðir, en 2 þeirra voru afgreidd úr forsætisnefnd. Í heild hefur ráðið haft um 25 mál til umfjöllunar um norðurslóðir frá árinu 1992 þegar ákveðin straumhvörf urðu þegar ráðið samþykkti að standa fyrir alþjóðlegri ráðstefnu í Reykjavík 1993, sem síðan þróaðist í þingmannaráðstefnu norðurskautssvæðisins, og mæltist til þess að Norræna ráðherranefndin stuðlaði að heildarsamstarfi ríkisstjórna á norðurslóðum, sem átti þátt í myndun Norðurskautsráðsins.
    Af þeim málum sem voru afgreidd úr forsætisnefnd um norðurslóðir má nefna tillögu um sameiginlega stefnumörkun um málefni norðurskautsins og tillögu um fjármögnun björgunarviðbúnaðar á norðurskautssvæðum. Hið fyrra fjallar um að Norðurlöndin marki sér sameiginlega sýn í málefnum norðurslóða. Norðurlöndin hafa öll myndað eigin stefnu um norðurslóðir svo markmið ráðsins er ekki að mynduð verði ný sameiginleg stefna allra landanna, heldur að stuðla að því að Norðurlöndin beri betur saman bækur sínar um norðurslóðir og vinni saman á þeim sviðum sem þau eru í meginatriðum sama sinnis um. Í síðara málinu, sem er upprunalega tillaga Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, er þeim tilmælum beint til Norrænu ráðherranefndarinnar að norrænir fjármálaráðherrarnir (MR-FINANS) skipi starfshóp til að leita hugsanlegra leiða til fjármögnunar útgjalda við eftirlit, leitar- og björgunarstarf vegna samkomulags aðildarríkja Norðurskautsráðsins um samstarf um leit og björgun á norðurslóðum.
    Forsætisnefnd undirbjó sérstakar umræður um stjórnsýsluhindranir milli Norðurlanda sem fram fóru samtímis í norrænu þjóðþingunum dagana 11.–25. apríl. Stjórnsýsluhindranir eru kerfisbundnar hindranir yfir landamæri Norðurlanda vegna mismunandi reglna hjá hinu opinbera í löndunum sem torvelda flutninga eða möguleika einstaklinga til að nýta sér réttindi sín milli Norðurlanda eða hamla viðskiptum fyrirtækja og einstaklinga. Á Alþingi fór umræðan fram 20. apríl. Form umræðnanna var með ólíku sniði eftir þingum og þátttaka þarlendra ráðherra mismunandi, allt frá einum ráðherra til þriggja. Einnig voru efni umræðunnar í hverju landi af ýmsum toga, en rauður þráður í umræðunum í heild var hvernig koma mætti í veg fyrir myndun stjórnsýsluhindrana við lagasetningu og innleiðingu ESB-gerða. Í forsætisnefnd var ánægja með þingsályktun sem samþykkt var í danska þjóðþinginu í tengslum við umræðuna þar, þar sem danska ríkisstjórnin er hvött til þess að hefja viðræður við þingflokkana um samkomulag um að ryðja úr vegi eins mörgum stjórnsýsluhindrunum og hægt er á vegi einstaklinga og fyrirtækja milli Norðurlanda. Meðal þess sem slíkt samkomulag skal fela í sér eru fastar vinnureglur sem tryggja að við vinnu lagafrumvarpa í þeim málaflokkum sem stjórnsýsluhindranir eru algengar skal bera þau saman við lög á öðrum Norðurlöndum, auk þess að hafa eins náið samstarf og mögulegt er við önnur norræn þjóðþing við undirbúning innleiðingu ESB-gerða.
    Þá fjallaði forsætisnefnd um tillögu um umboðsmann vegna stjórnsýsluhindrana á Norðurlöndum. Samkvæmt tillögunni skyldi tilmælum beint til norrænu ríkisstjórnanna að undirrita samkomulag um styrkingu lagalegrar stöðu norrænna borgara samkvæmt norrænum samningum varðandi búsetu, menntun, atvinnu og þess háttar. Það sé hægt að gera með því að annaðhvort koma á fót embætti norræns umboðsmanns hjá Norrænu ráðherranefndinni eða með því að gera hlutverk núverandi umboðsmanna norrænu þjóðþinganna víðfeðmara. Ætlast er til að norrænir borgarar sem telja sig rekast á stjórnsýsluhindranir milli Norðurlanda geti leitað til umboðsmanns, auk þess sem hann ráðlegði Norrænu ráðherranefndinni, norrænum ríkisstjórnum og norrænum þjóðþingum um hvernig komast megi hjá myndun nýrra stjórnsýsluhindrana við lagasetningu og innleiðingu ESB-gerða.
    Á sviði utanríkismála fjallaði forsætisnefnd um fjögur mál. Í fyrsta lagi afgreiddi hún úr nefnd tillögu um árlega ESB-greinargerð Norrænu ráðherranefndarinnar. Í tillögunni segir að greinargerðin skuli vera skrifleg og að hún skuli lögð fram á þingi Norðurlandaráðs. Í henni skuli vera fjallað um aðgerðir norrænu ríkisstjórnanna varðandi sameiginlega norræna hagsmuni gagnvart Evrópusambandinu, sem og aðgerðir Norrænu ráðherranefndarinnar í sama tilgangi.
    Í öðru lagi var fjallað um sjálfstæði Palestínu í tilefni af tillögu flokkahóps vinstri sósíalista og grænna um tilmæli til Norrænu ráðherranefndarinnar, annars vegar um að norrænu þjóðþingin viðurkenndu sjálfstæði Palestínu og hins vegar um að Ísraelsmenn og Palestínumenn skyldu hvattir til að vinna að friði. Fulltrúar annarra flokkahópa en vinstri sósíalista og grænna í forsætisnefnd studdu ekki tillöguna. Þau sjónarmið komu fram að Norðurlandaráð væri ekki rétti vettvangurinn fyrir samþykkt um málið, heldur Sameinuðu þjóðirnar, og að Norræna ráðherranefndin væri ekki rétta boðleiðin til að koma hvatningu til Ísraelsmanna og Palestínumanna um friðarumleitanir, þar sem Norræna ráðherranefndin skorti vettvang til þess.
    Í þriðja lagi var tekin til umræðu tillaga flokkahóps hægri manna um aukið norrænt samstarf gegn tölvuógnum og stafrænum árásum. Tillagan byggist á sjöundu tillögu Stoltenberg-skýrslunnar og lýtur að samstarfi á mörkum hernaðarlegs- og samfélagslegs öryggis. Við umræðu í nefndinni var óskað eftir meiri skírskotun í nefndaráliti til umræðu um öryggi borgara og lýðræði varðandi eftirlit með borgurum.
    Í fjórða lagi var rædd tillaga skrifstofu Norðurlandaráðs um að ráðið mæltist til þess við Norrænu ráðherranefndina að sett yrði á fót ráðherranefnd um utanríkis- og varnarmál, í samræmi við umfjöllun í CENS-skýrslunni, Centrum för Norden-studier við Háskólann í Helsinki, um framtíð norræns samstarfs sem gefin var út í tengslum við Norðurlandaráðsþing í Helsinki. Tillagan var felld í atkvæðagreiðslu með sjö atkvæðum gegn fjórum þar sem hún þótti ekki tímabær, sérstaklega í ljósi þess að bæði forsætis- og utanríkisráðherrar Norðurlandanna höfnuðu hugmyndinni á fundum forætisnefndar með þeim samhliða þingi Norðurlandaráðs í Helsinki. Í umræðunni töldu Helgi Hjörvar og fleiri að Norðurlandaráð ætti frekar sjálft að setja á fót eigin utanríkis- og varnarmálanefnd en Kimmo Sasi, forseti Norðurlandaráðs, minnti á að utanríkis- og varnarmál tilheyrðu málefnasviði forsætisnefndar. Þess má geta að forsætisnefnd reifaði árið 2009 hvort ráðið ætti að stofna utanríkis- og öryggismálanefnd og komst þá að niðurstöðu um að gera það ekki og Norðurlandaráð stakk upp á stofnun ráðherranefndar um utanríkismál árið 2010 án þess að það hlyti hljómgrunn hjá Norrænu ráðherranefndinni. Forseti Norðurlandaráðs 2013, Marit Nybakk, benti á að utanríkis- og öryggismál væru eitt af þremur áhersluatriðum í formennskuáætlun Norðmanna fyrir árið 2013 og boðaði að Norðurlandaráð mundi gefa út yfirlýsingu um þau efni. Þess má einnig geta að varnar- og öryggismál verða þema þingfundar Norðurlandaráðs í apríl 2013 í Stokkhólmi og að sumarfundur forsætisnefndar 2013 verður haldinn í Bodø í Noregi þar sem er að finna aðalherflugvöll landsins.
    Forsætisnefnd samþykkti á tímabilinu janúar til desember 2012 tvenn tilmæli af hálfu Norðurlandaráðs, um árlega ESB-skýrslu (tilmæli 13/2012) og um sjálfsstjórn á Norðurlöndum (tilmæli 40/2012).
    Átta tillögur forsætisnefndar voru samþykktar sem tilmæli Norðurlandaráðs á árinu. Tilmælin voru um norræna velferðarstefnu í hnattvæddum heimi (tilmæli 1/2012), um að ýta stefnuskrá og framkvæmdaáætlun úr vör til að bregðast við viðfangsefnum í velferðarmálum sem blasa við Norðurlöndum (tilmæli 2/2012), sameiginlega stefnumörkun um málefni norðurskautsins (tilmæli 3/2012), fjármögnun björgunarviðbúnaðar á norðurslóðum (tilmæli 4/2012), fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2013 (tilmæli 14/2012), Norðurlönd án landamæra (tilmæli 15/2012), skipan umboðsmanns stjórnsýsluhindrana (tilmæli 16/2012) og breytingar á verðlaunum Norðurlandaráðs (tilmæli 21/2012).
    Þá varð ein tillaga forsætisnefndar að ákvörðun um innri málefni, forsætisnefndartillaga um alþjóðaáætlun (ákvörðun 1/2012).

Menningar- og menntamálanefnd.
    Menningar- og menntamálanefnd Norðurlandaráðs fer með málefni menningar, kennslu og menntunar. Nefndin fjallar um eftirfarandi svið: almenna menningu og listir á Norðurlöndum og á alþjóðavísu, fjölmenningarleg og fjölþjóðleg Norðurlönd, kvikmyndir og fjölmiðla, tungumál, íþróttir, norrænu félögin og frjáls félagasamtök, barna- og unglingamenningu, grunn- og framhaldsskóla, menntunarframboð á Norðurlöndum, almennings- og fullorðinsfræðslu og símenntun.
    Árni Þór Sigurðsson sat í menningar- og menntamálanefnd árið 2012 og var formaður nefndarinnar. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.
    Helstu málefni til umfjöllunar í menningar- og menntamálanefnd á árinu voru tungumál og stjórnsýsluhindranir. Nefndin afgreiddi úr nefnd tillögu um tungumál og menntun á norðurslóðum þar sem Norðurlandaráð beindi tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar um að annars vegar yrði hugað að grænlensku á Grænlandi og samísku í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð, sem samkvæmt yfirlýsingu um málstefnu Norðurlanda eru tungumál frumbyggja á heimskautasvæðum Norðurlanda og notuð eru í öllu samfélaginu. á tímabilinu 2013–2018 í samræmi við markmið Tungumálayfirlýsingarinnar og hins vegar að fylgst verði með starfi Norðurskautsráðs að Assessing, Monitoring, and Promoting Arctic Indigenous Languages og það samræmt norrænum aðgerðum og metið hvort og þá til hvaða aðgerða norrænu löndin eigi að grípa til sem eru í samræmi við tungumálayfirlýsinguna og hugsanleg meðmæli Norðurskautsráðsins.
    Þá afgreiddi mennta- og menningarmálanefnd úr nefnd tillögu um gagnkvæma viðurkenningu á starfsmenntun á Norðurlöndum. Í tillögunni er beint tilmælum til ríkisstjórna norrænu landanna um að gera samkomulag þess efnis eða að stuðla að því að norrænt samstarf um gagnkvæma viðurkenningu verði auðveldað. Í nefndaráliti menningar- og menntamálanefndar segir að í grundvallaratriðum ætti að vera hægt sjálfkrafa að viðurkenna starfsnám gagnkvæmt milli Norðurlanda og að langur biðtími eftir starfsréttindum hamli frjálsri för vinnuafls. Meira ætti að vera um sveigjanleika í kerfinu og minna um skrifræði. Nefndin geldur varhuga við almennri lausn um að krefjast viðbótarmenntunar til að öðlast starfsréttindi í öðru norrænu landi en áréttar jafnframt að það geti verið nauðsynlegt í undantekningartilvikum, af faglegum ástæðum, og vill frekar að komið verði á viðbótarþjálfun á vinnustað eftir að einstaklingur hefur hafið störf.
    Í heild urðu átta tillögur menningar- og menntamálanefndar að tilmælum Norðurlandaráðs á árinu. Tilmælin voru um tungumál og menntun á norðurskautslóðum (tilmæli 11/2012), gagnkvæma viðurkenningu á verkmenntun (tilmæli 17/2012), kortlagningu á verkmenntun þar sem viðurkenningu skortir (tilmæli 18/2012), stefnumótun í norrænu menningarsamstarfi (tilmæli 20/2012), lyftistöng fyrir norrænar barna- og unglingabókmenntir (tilmæli 22/2012), norrænan leiðtogafund um menntamál (tilmæli 23/2012), norræna vefgátt um kvikmyndir (tilmæli 24/2012) og norrænar björgunaraðgerðir vegna atvinnuleysis ungs fólks (tilmæli 38/2012).

Efnahags- og viðskiptanefnd.
    Efnahags- og viðskiptanefnd Norðurlandaráðs fjallar um efnahagsumhverfi, framleiðslu og verslun, þ.m.t. frelsi á markaði og atvinnumarkaði á Norðurlöndum. Hún fjallar m.a. um atvinnulíf/iðnað, innri markað, frjálsa för fólks, afnám stjórnsýsluhindrana, viðskipti, svæði og byggðaþróunarstyrki, atvinnumál og vinnumarkað, vinnuumhverfi, innviði/samgöngur, fjarskipti og upplýsingatækni.
    Bjarni Benediktsson sat í efnahags- og viðskiptanefnd frá 1. janúar til 13. september 2012 og Ragnheiður Ríkharðsdóttir frá 13. september til 31. desember. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.
    Helstu málefni til umfjöllunar hjá efnahags- og viðskiptanefnd voru stjórnsýsluhindranir í viðskiptalífinu, innviðir/samgöngur/siglingar/orka, grænn hagvöxtur og efnahagslíf á þekkingargrunni. Nefndin afgreiddi úr nefnd tvær tillögur um norðurslóðir. Fyrri tillagan fjallaði um innviði rannsókna og tengslanet vísindamanna á norðurslóðum, en í henni var beint tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar um að eiga frumkvæði að framkvæmdaáætlun um aukið norrænt samstarf um innviði rannsókna um málefni norðurslóða og að hvetja til þverfaglegra/vísindalegra tengslaneta um rannsóknir og rannsóknamenntun sem ná einnig til Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands og Evrópusambandsríkja. Seinni tillagan fjallaði um efnahagslegt samstarf á norðurslóðum, þar sem tilmælum var beint til Norrænu ráðherranefndarinnar um að kanna möguleika á auknu samstarfi um orkumál við lönd sem eiga hagsmuna að gæta varðandi framboð á gasi frá Barentshafi til Norðurlanda og að kanna forsendur og þörf á sameiginlegum aðgerðum um námurekstur á norðurslóðum, þar á meðal á Grænlandi og í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð þar sem einnig er tekið mið af umhverfis- og sjálfbærnisjónarmiðum.
    Þrjár tillögur efnahags- og viðskiptanefndar urðu að tilmælum Norðurlandaráðs á árinu. Þau voru um innviði rannsókna og tengslanet vísindamanna á norðurslóðum (tilmæli 12/ 2012), nýja norræna tísku (tilmæli 25/2012), norræn upplýsingaskipti um dýraræktendur (tilmæli 26/2012), efnahagslegt samstarf á norðurslóðum (tilmæli 30/2012), samstarfsáætlun í byggðamálum 2013–16 (tilmæli 31/2012) og nýja samstarfsáætlun ráðherranefndarinnar um vinnumál (MRA) (tilmæli 35/2012).

Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd.
    Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd Norðurlandaráðs vinnur að umhverfis- og náttúruvernd og nýtingu náttúruauðlinda innan landbúnaðar, fiskveiða og skógræktar og skógnýtingar. Enn fremur vinnur nefndin að orku- og samgöngustefnu í samstarfi við efnahags- og viðskiptanefnd. Nefndin vinnur jafnt að norrænum sem og alþjóðlegum úrlausnarefnum. Enn fremur tekur nefndin upp mál við Evrópusambandið á fyrrgreindum sviðum sem mikilvæg eru fyrir Norðurlönd. Nefndin fjallar um efni á borð við endurnýjanlega orku og norrænan raforkumarkað, loftslagsbreytingar og aðgerðir til að minnka losun skaðlegra gróðurhúsalofttegunda, kjarnorkuöryggi, fiskveiðistjórnun, landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins, matvælaframleiðslu og matvælaöryggi, stjórnun stórra rándýrastofna á Norðurlöndum, verndun líffræðilegs fjölbreytileika, siglingaöryggi og umhverfisvernd á norðurslóðum.
    Álfheiður Ingadóttir sat í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd á árinu 2012. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu. Meðal helstu málefna sem nefndin lagði áherslu á árinu voru loftslagsmál, orkumál og norðurslóðir.
    Helsta tillagan sem nefndin afgreiddi úr nefnd var um umhverfisvernd og olíu- og gasvinnslu á norðurslóðum. Í henni var beint tilmælum til norrænu ríkisstjórnanna um að efna til nánara samstarfs á norðurslóðum um viðbúnað og leiðir til að hreinsa upp eftir olíuleka, að koma á nánu samstarfi um þróun nýrrar og öruggari tækni við olíu- og gasvinnslu á hafi úti á norðurslóðum og að koma á lagalega bindandi samkomulagi allra norðurskautsríkjanna sem tryggi að við olíu- og gasvinnslu á hafi úti sé ævinlega notuð besta fáanlega tækni og vinnsluferli sem byggi á grundvallarreglunni um sjálfbæra þróun.
    Norðurlandaráð samþykkti í heild sjö tillögur umhverfis- og náttúruauðlindanefndar á árinu 2012 sem tilmæli. Tilmælin voru um norrænt samstarf um umhverfisvernd og olíu- og gasvinnsla á norðurslóðum (tilmæli 5/2012), málþing um umhverfisáskoranir á norðurslóðum (tilmæli 6/2012), aðgerðir til að efla norrænt samgöngumálasamstarf um innviði og umhverfismál (tilmæli 27/2012), NIB, NEFCO og NDF sem tæki í loftslagsstarfi (tilmæli 28/ 2012), nýsköpun og fjárfestingar á vegum Norræna umhverfisfjármögnunarfélagsins (NEFCO) (tilmæli 29/2012), rammaáætlun um norrænt samstarf um sjávarútveg, fiskeldi, landbúnað, matvæli og skógrækt 2013–2016 (tilmæli 32/2012), norræna áætlun um sjálfbæra þróun (tilmæli 33/2012) og framkvæmdaáætlun í umhverfismálum (tilmæli 34/2012).

Velferðarnefnd.
    Velferðarnefnd Norðurlandaráðs vinnur með norræna velferðarlíkanið, velferð og heilbrigðis- og félagsmálastefnu. Hún fjallar um velferðar- og tryggingamál, félagsþjónustu og heilbrigðismál, málefni fatlaðra, byggingar- og húsnæðismál, fjölskyldumál, börn og unglinga, fíkniefni, áfengi og annan ofneysluvanda.
    Siv Friðleifsdóttir var formaður velferðarnefndar á starfsárinu 2012. Lúðvík Geirsson sat í velferðarnefnd frá 1. janúar til 13. september og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir frá 13. september til 31. desember. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.
    Velferðarnefnd lagði á árinu 2012 megináherslu á lýðheilsusjónarmið í áfengis- og tóbaksmálum. Nefndin afgreiddi úr nefnd eftir töluverða umfjöllun og umræður tillögu um norræna stefnu í áfengis- og tóbaksmálum frá sjónarhóli lýðheilsu. Tillagan beindi tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar í 12 liðum. Þar á meðal má nefna að hafin verði vinna við að mynda sjálfbæra norræna stefnu í áfengis- og tóbaksmálum 2014–2040, að fjallað verði um hvort banna eigi alveg auglýsingar og markaðssetningu áfengis sem beint er til ungs fólks, að alþjóðlegt samstarf um aðgerðir til að styrkja lýðheilsu með forvörnum gegn áfengi og tóbaki verði aukið, að Norræna ráðherranefndin leggi til að Norðurlöndin verði tóbakslaus árið 2040, að gerð verði áætlun um norrænt framlag til alþjóðlegs samstarfs um aðgerðir til að minnka neyslu áfengis í heiminum, um 10% fyrir árið 2025, og að stuðlað verði að því að leyfileg mörk áfengismagns í blóði verði 0,2 prómill við notkun vélknúinna farartækja á Norðurlöndum. Fulltrúar norska Framfaraflokksins, finnska flokksins Sannra Finna og danska Einingarlistans skiluðu séráliti varðandi síðasttöldu þrjá liðina.
    Í heild urðu fjórar tillögur velferðarnefndar að tilmælum Norðurlandaráðs á árinu 2012. Tilmælin voru um samstarf Norðurlandaráðs við Norðurskautsráð (tilmæli 7/2012), gerð aðgerðaáætlunar til að bregðast við úrlausnarefnum norðurslóða til framtíðar (tilmæli 8/2012), norræna lýðheilsustefnu í áfengis- og tóbaksmálum (tilmæli 36/2012), greiningu á athyglisbresti og lyfjagjöf barna og ungmenna á Norðurlöndum (tilmæli 37/2012), og menningu og heilsu í norrænu samstarfi (tilmæli 39/2012).

Borgara- og neytendanefnd.
    Borgara- og neytendanefnd Norðurlandaráðs fjallar um málefni sem snerta réttindi borgara og neytenda auk meginþátta sem snerta lýðræði, mannréttindi, jafnrétti o.fl. og tengjast starfsvettvangi hennar. Nefndin fjallar um lýðræði, mannréttindi, réttindi borgaranna, jafnrétti, neytendamál, matvælaöryggi, baráttu gegn glæpum, þar á meðal alþjóðlegri glæpastarfsemi og hryðjuverkastarfsemi, löggjöf, innflytjendur og flóttafólk og samstarf gegn kynþáttafordómum.
    Illugi Gunnarsson sat í borgara- og neytendanefnd Norðurlandaráðs á starfsárinu 2012. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.
    Borgara- og neytendanefnd lagði á árinu 2012 megináherslu á málefni frumbyggja og sjálfsstjórn á Norðurlöndum. Nefndin afgreiddi úr nefnd tillögu um réttindi frumbyggja á norðurslóðum þar sem beint var tilmælum til ríkisstjórna Danmerkur, Noregs, Finnlands og Svíþjóðar um að tryggja að ekki sé brotið á réttindum frumbyggja þegar náttúruauðlindir svæðisins eru nýttar, m.a. með því að byggja á grundvallarreglum Sameinuðu þjóðanna um atvinnumál og mannréttindi ásamt starfsreglum Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) fyrir alþjóðleg fyrirtæki.
    Varðandi sjálfsstjórn á Norðurlöndum afgreiddi borgara- og neytendanefnd tillögu þar sem beint er tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar í tveimur liðum. Í fyrsta lagi um að gefa út rit þar sem borið er saman form sjálfsstjórnar á Norðurlöndum með tilvísun í reynslu Grænlendinga, Færeyinga og Álandseyinga. Markmið útgáfunnar skal vera að varpa ljósi á sjálfsstjórn á Norðurlöndum sem friðsamlega aðferð við að leysa svæðisbundin ágreiningsefni og taka tillit til réttinda minnihlutahópa. Í öðru lagi að efna til ráðstefnu við útgáfu ritsins til að kynna það og ræða form sjálfsstjórnar á Norðurlöndum.
    Þrjár tillögur borgara- og neytendanefndar urðu að tilmælum Norðurlandaráðs árið 2012. Tilmælin voru um réttindi frumbyggja á norðurslóðum (tilmæli 9/2012), lok samningaviðræðna um Samasáttmálann (tilmæli 10/2012), og sjálfsstjórn á Norðurlöndum (tilmæli 40/ 2012).

Eftirlitsnefnd.
    Eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs fylgist fyrir hönd ráðsins með starfsemi sem fjármögnuð er úr sameiginlegum sjóðum Norðurlandanna. Nefndin hefur einnig umsjón með málefnum sem snerta túlkun samninga um norræna samvinnu, vinnutilhögun Norðurlandaráðs og önnur innri málefni.
    Bjarni Benediktsson var fulltrúi Íslandsdeildar í eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs frá 1. janúar til 13. september 2012 og Ragnheiður Ríkharðsdóttir frá 13. september til 31. desember. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.
    Helstu umfjöllunarefni eftirlitsnefndar á árinu 2012 voru eftirfylgni tilmæla Norðurlandaráðs og styrkir Norðurlandaráðs til flokkahópa.
    Ein tillaga eftirlitsnefndar var samþykkt sem tilmæli Norðurlandaráðs á árinu, um aukna skilvirkni við afgreiðslu tilmæla Norðurlandaráðs (tilmæli 19/2012).
    Þá varð ein tillaga eftirlitsnefndar að ákvörðun um innri málefni, um eftirfylgni tilmæla Norðurlandaráðs (ákvörðun 2/2012).

Kjörnefnd.
    Kjörnefnd Norðurlandaráðs undirbýr og gerir tillögur að kjöri sem fram fer á þingfundum og aukakosningum í forsætisnefnd.
    Siv Friðleifsdóttir og Árni Þór Sigurðsson sátu í kjörnefnd á starfsárinu 2012. Siv var formaður nefndarinnar frá janúar til september. Nefndin fundaði tvisvar á árinu.

5. Verðlaun Norðurlandaráðs.
    Verðlaun Norðurlandaráðs eru fern, þ.e. bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun, náttúru- og umhverfisverðlaun og kvikmyndaverðlaun. Þau eru að upphæð 350 þús. dkr.
    Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2012 voru afhent við hátíðlega athöfn í hátíðarsal Háskóla Íslands 22. mars í tengslum við vorþing ráðsins í Reykjavík. Þess má geta að þegar þing Norðurlandaráðs var haldið í fyrsta skipti á Íslandi, árið 1960, var það haldið á sama stað. Bókmenntaverðlaunin, sem voru fyrst veitt árið 1962, voru fyrstu verðlaun Norðurlandaráðs, en síðan hafa bæst í hópinn tónlistarverðlaun, umhverfisverðlaun og kvikmyndaverðlaun. Verðlaunin hafa verið afhent sameiginlega en í ár var ákveðið að bregða út af vananum og afhenda bókmenntaverðlaunin ein og sér í tilefni 50 ára afmælis þeirra. Einnig var ákveðið að halda nafni verðlaunahafans leyndu þar til við afhendinguna, sem einnig var nýlunda.
    Tónlistarverðlaunin, náttúru- og umhverfisverðlaunin og kvikmyndaverðlaunin fyrir árið 2012 voru afhent við hátíðlega athöfn í Finlandia-húsinu í Helsinki 30. október í tengslum við 64. þing Norðurlandaráðs.

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.
    Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs hefur verið úthlutað á hverju ári frá 1962. Þau eru veitt fyrir fagurbókmenntir sem skrifaðar eru á einu af norrænu tungumálunum. Til greina koma skáldsögur, leikrit, ljóða-, smásagna- eða ritgerðasöfn og önnur bókmenntaverk. Verðlaunaverkin skulu hafa til að bera mikið listrænt og bókmenntalegt gildi. Markmið verðlaunaveitingarinnar er að auka áhuga Norðurlandabúa á bókmenntum og tungumáli nágrannalandanna og á sameiginlegri menningararfleifð Norðurlanda.
    Bókmenntaverðlaunin hlaut norski rithöfundurinn Merethe Lindstrøm fyrir skáldsöguna „Dagar í sögu kyrrðar“ (Dager i stillhetens historie). Í rökstuðningi dómnefndar segir: „Í rólegum, hnitmiðuðum og íhugulum prósa segir Lindstrøm frá því hvernig dramatísk fortíð brýst smám saman inn í líf og vitund eldri konu.“

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs.
    Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 1965. Fram til ársins 1988 voru þau afhent annað hvert ár en frá 1990 hafa þau verið veitt á ári hverju, annað árið til tónskálds og hitt árið til tónlistarflytjenda. Tónlistarverðlaununum er ætlað að vekja athygli á tónlistarsköpun og tónlistarflutningi sem telst hafa mikið listrænt gildi. Þema verðlaunanna árið 2012 var að verðlaunin skyldu veitt núlifandi tónskáldi, en engar reglur voru um tegund tónverksins. Verkið varð hins vegar að uppfylla listrænar kröfur og vera einstakt innan sinnar tegundar.
    Anna Þorvaldsdóttir tónskáld hlaut tónlistar verðlaun Norðurlandaráðs 2012 fyrir verk sitt Dreymi. Aðrir Íslendingar sem hafa hlotið verðlaunin eru Atli Heimir Sveinsson 1976, Hafliði Hallgrímsson 1986, Björk Guðmundsdóttir 1997 og Haukur Tómasson 2004. Anna er fjórða konan sem hlýtur verðlaunin. Í rökstuðningi dómnefndar segir: „Dreymi opnar veröld sinfóníunnar á óvenjulegan og nýskapandi hátt. Upphaf og lok verksins hljómar utan tíma og myndar hringrás sem minnir á norrænar goðsagnir og náttúrutrú. Með tónlistinni er reynt að skapa reynslu sem fær tímann til að hverfa – eins og í draumi.
    Í norrænum sögnum tengist maðurinn náttúrunni í gegnum drauma sína. Í draumum notum við annað tungumál og önnur skilningarvit. Draumarnir tengja nótt og dag, birtu og myrkur og það er í draumsýninni sem maðurinn kynnist dauðanum. Tónlistin er munaðarfull og róleg, en getur einnig komið á óvart og verið kraftfull og hrottaleg.
    Með verkinu Dreymi verður Anna Þorvaldsdóttir þátttakandi í norrænni hljómsveitarhefð sem sækir tóna sína bæði í raftónlist og náttúruhljóma norrænnar þjóðlagatónlistar. Hljómarnir eru gerðir jafn nákvæmlega og fínlegur útsaumur. En verkið er ef til vill einstakt vegna þess í því nær höfundurinn að byggja upp og þróa mikla tónlist á tíma sem virðist standa í stað. Verkið vex við hverja hlustun og vekur forvitni okkar og löngun til að heyra meira.“

Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs.
    Náttúru- og umhverfisverðlaunum Norðurlandaráðs var komið á fót árið 1995. Verðlaunin eru veitt fyrirtæki, stofnun, samtökum eða einstaklingi sem skilað hefur sérstöku framlagi til náttúru- og umhverfisverndar. Við veitingu verðlaunanna árið 2012 var lögð áhersla á að þau skyldu veitt norrænu fyrirtæki, samtökum eða einstaklingi sem hefði með góðu fordæmi og á árangursríkan hátt unnið að því að efla líffræðilega fjölbreytni í nærumhverfi sínu eða á alþjóðavettvangi og/eða aukið þekkingu almennings á því sviði.
    Finnski umhverfissinninn Olli Manninen hlaut umhverfisverðlaunin árið 2012. Verðlaunin voru veitt fyrir framlag hans til varðveislu skóga á Norðurlöndum og uppbyggingu tengslanets á Norðurlöndum til að virkja grasrótarsamtök á umhverfissviði. Manninen er virkur í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð og hefur m.a. sett á stofn vefsetrið nordicforests.org. Í Finnlandi hefur hann verið hvatamaður að friðun meira en 100.000 hektara skóglendis og tekið þátt í að safna meira en 100.000 undirskriftum frá finnskum borgurum með það að markmiði að hvetja stjórnmálamenn til að efla friðunaraðgerðir. Í rökstuðningi dómnefndar segir: „Olli Manninen hefur með framlagi sínu sem skrásetjari og upphafsmaður tengslaneta verið hvatamaður að friðun tugþúsunda hektara skóglendis í Finnlandi, Svíþjóð og Noregi. Hann hefur þróað einstakt kerfi til að kortleggja tegundir í útrýmingarhættu og verið drifkrafturinn í herferðum sem hafa aukið þekkingu almennings á líffræðilegum fjölbreytileika skóga.“

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs.
    Norðurlandaráð veitti kvikmyndaverðlaun í fyrsta sinn á 50 ára afmælisþingi þess árið 2002. Frá 2005 hafa þau verið veitt árlega til handritshöfunda, leikstjóra og framleiðenda og skipst jafnt milli þeirra. Til þess að hljóta verðlaunin verða þau að hafa gert kvikmynd sem á rætur í norrænni menningu og hefur til að bera listrænan frumleika í heilsteyptu verki.
    Á 60 ára afmælisþingi Norðurlandaráðs í Helsinki 2012 fengu Ruben Östlund, leikstjóri og handritshöfundur, og Erik Hemmendorff framleiðandi kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir kvikmyndina „Leikur“ (Play), sem er athugun á raunverulegum dæmum um einelti. Hemmendorff fékk hugmyndina að Play eftir að hafa lesið blaðagrein um röð smáþjófnaða sem framdir voru af ungum drengjum á aldrinum 12–14 ára í Gautaborg á tímabilinu 2006–2008. Unglingarnir sem höfðu lagt önnur börn á sama aldri í einelti og rænt þau höfðu notað flókna aðferð sem nefndist „bróðurbragðið“ sem fólst í flóknum hlutverkaleik og gengjamáli frekar en líkamlegu ofbeldi. Östlund skoðaði tilfellið, tók viðtöl við fórnarlömb, gerendur og lögreglu og skrifaði handritið með það fyrir augum að rannsaka félagsleg hlutverk og hóphegðun. Hann réð átta áhugaleikara, unga drengi, og kvikmyndaði þá í röð langra atriða til þess að efla þá upplifun að um rauntíma væri að ræða.

6. Fundir Norðurlandaráðs.
    Norðurlandaráð kom saman til nefndafunda þrisvar sinnum árið 2012, í janúar, mars og september. Á fundunum voru unnar þær tillögur og þau mál sem lögð eru fyrir þingfundi Norðurlandaráðs eða fyrir forsætisnefnd milli þinga.

Janúarfundir Norðurlandaráðs í Ósló.
    Janúarfundir Norðurlandaráðs voru haldnir í Ósló 24.–25. janúar 2012. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu fundina Helgi Hjörvar, formaður, Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Bjarni Benediktsson, Jón Gunnarsson, Lúðvík Geirsson og Siv Friðleifsdóttir, auk Lárusar Valgarðssonar ritara. Helstu mál á dagskrá voru árleg ESB-greinargerð Norrænu ráðherranefndarinnar, þingfundur Norðurlandaráðs á Alþingi, stjórnsýsluhindranir, velferðarkerfi framtíðarinnar og leiðtogahlutverk Norðurlanda í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.
    Samhliða janúarfundunum var haldið málþing um velferð framtíðarinnar á Norðurlöndum þar sem fjallað var um samspil hins opinbera, einkaaðila og frjálsra félagasamtaka í velferðarmálum. Fjöldi sérfræðinga frá hinu opinbera og einkafyrirtækjum tóku til máls um þróun velferðargeirans, og þá sérstaklega þörfina á velferðartækni, en samstarf hefur aukist um þróun nýrra og nýskapandi lausna fyrir velferðargeirann milli hins opinbera og einkafyrirtækja á Norðurlöndum. Aukin samkeppni einkafyrirtækja í heilbrigðisgreinum um verkefni fyrir hið opinbera eykur jafnframt þrýsting á frjáls félagasamtök sem hafa í gegnum tíðina lagt mikið af mörkum í umönnunarverkefnum. Gediminas Navaitis, formaður velferðarnefndar Eystrasaltsþingsins, lýsti reynslu Eystrasaltsríkjanna af samstarfi í heilbrigðismálum. Meðal þess sem samstarfið tekur til er innkaup á lyfjum sem sparar ríkjunum háar upphæðir. Siv Friðleifsdóttir, formaður velferðarnefndar, sagði að norrænu löndin hefðu margt gott fram að færa hvert fyrir sig og hægt væri að styrkja samstarf landanna frekar sem og samstarf Norðurlanda við Eystrasaltsríkin.
    Þá var einnig haldið málþing um leiðtogahlutverk Norðurlanda í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Aðalfyrirlesari var Yvo de Boer, fyrrverandi yfirmaður loftslagsmála hjá Sameinuðu þjóðunum. Hann var ekki sérlega vongóður um framtíðina og sagði lítið hafa breyst í baráttunni gegn loftslagsbreytingunum frá því á loftslagsráðstefnunni í Ríó árið 1992. Boer taldi þó að alþjóðlegur sáttmáli í loftslagsmálum væri eina leiðin til framfara. Þar sem meira en 85% af fjárfestingum í orkuiðnaði væri í einkageiranum, þá hefðu fyrirtækin þörf fyrir stöðugt rekstrarumhverfi í formi sáttmála til að gera langtímaáætlanir. Einnig þyrfti að færa rök fyrir því í hverju landi fyrir sig hvernig grænar fjárfestingar borguðu sig. Hér væri, að áliti Boer, þörf fyrir að Norðurlöndin tækju að sér leiðtogahlutverk.

Marsfundir Norðurlandaráðs í Reykjavík.
    Marsfundir Norðurlandaráðs og vorþingfundur þess voru haldnir í Reykjavík 21.–23. mars 2012. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu fundina Helgi Hjörvar, formaður, Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Bjarni Benediktsson, Illugi Gunnarsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Siv Friðleifsdóttir, auk Lárusar Valgarðssonar ritara. Helstu mál á dagskrá voru velferðarmál, norræna velferðarlíkanið og norðurslóðir.
    Forseti Alþingis, Ásta R. Jóhannesdóttir, bauð þátttakendur velkomna til þingfundarins. Hún greindi frá því að norrænir þingmenn hefðu einu sinni áður fundað í þingsal Alþingis, árið 1947, þegar Norræna þingmannasambandið hélt þar fund.
    Þingfundur Norðurlandaráðs 23. mars var fyrsti þingfundur Norðurlandaráðs á Alþingi. Ástæðan er sú að sá þingfundur var minni í sniðum en hefðbundin þing og rúmaðist því innan veggja Alþingishússins. Þingfundurinn var haldinn 23. mars í tilefni af því að á þeim degi voru 50 ár liðin frá undirritun Helsinki-samningsins, grundvallarsamnings um norræna samvinnu.
    Norðurlandaráð hefur yfirleitt komið saman til þingfundar einu sinni á ári frá stofnun þess 1952. Á árunum 1953–1995 voru þing Norðurlandaráðs að jafnaði haldin á vorin, í febrúar og mars, en á árunum 1996–2011 hafa þau að jafnaði verið haldin á haustin, í október og nóvember. Í ár kom Norðurlandaráð saman til þingfundar í tvö skipti, í mars og í nóvember, en fyrir því eru fordæmi þar sem ráðið hefur áður annaðhvort frestað þingfundi að vori og haldið áfram að hausti, komið saman til aukaþingfunda eða haldið tvö þing sama árið.
    Á þingfundinum í mars urðu velferðarmál tilefni snarpra umræðna. Tekist var á um tillögur um velferð til framtíðar á Norðurlöndum með hliðsjón af lýðfræðilegum breytingum og áskorunum hnattvæðingar. Flokkahópar jafnaðarmanna og vinstri sósíalista og grænna voru mótfallnir aðgerðamálsgrein í tillögunum um að auðvelda frjálsa för eldri borgara innan Norðurlanda með auknu valfrelsi í heilbrigðisþjónustu, umönnun og hjúkrun í löndunum sjálfum en einnig milli þeirra. Við atkvæðagreiðslu var málsgreinin samþykkt með 36 atkvæðum gegn 31 og einn sat hjá. Þá var deilt um aðgerðamálsgrein í tillögunum um velferðarmál um að norrænu ríkisstjórnirnar vinni sameiginlega framkvæmdaáætlun varðandi viðfangsefni í velferðarmálum framtíðarinnar til að efla stöðu Norðurlanda sem svæðis gagnvart áskorunum hnattvæðingar. Flokkahópur hægri manna var mótfallinn málsgreininni. Málsgreinin var samþykkt við atkvæðagreiðslu með 54 atkvæðum gegn 13.
    Við umræðurnar um velferðarmál komu einnig fram andstæð sjónarmið um að sænska einkaleyfastofan hefði í desember 2011 skráð norræna líkanið (s. nordiska modellen) sem skráð vörumerki sænska jafnaðarmannaflokksins. Fulltrúar flokkahópa hægri manna, miðjumanna og vinstri sósíalista og grænna lýstu sig andsnúna skráningunni en jafnaðarmenn vörðu hana. Framkvæmdastjórar Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs rituðu í byrjun mars 2012 bréf til sænsku einkaleyfastofunnar og andmæltu skráningu sænska jafnaðarmannaflokksins á norræna líkaninu sem vörumerki. Í bréfinu kemur fram að norræna líkanið sé sameiginlegur arfur allra Norðurlandabúa og að hugtakið hafi verið notað áratugum saman á vettvangi norrænnar samvinnu, sem og í ritum á hennar vegum. Enn fremur kemur fram að það virðist óframkvæmanlegt og lagalega rangt að norræna líkanið tilheyri einni stjórnmálahreyfingu í einu Norðurlandanna. Fjölmiðlar á Norðurlöndum, sérstaklega í Svíþjóð og Finnlandi, sem og alþjóðlegir fjölmiðlar, hafa fjallað um skráningu norræna líkansins sem vörumerki. Vegna mikillar umfjöllunar birti sænska einkaleyfastofan um miðjan mars tilkynningu á vef sínum þar sem fram kemur að skráning ákveðins orðalags sem vörumerkis útiloki ekki notkun þess af öðrum, til að mynda í pólitískri umræðu, og að skráning orðalags sem vörumerkis taki ekki til hvaða hugmyndafræðilegar ástæður liggi að baki skráningunni.
    Sérstök umræða var á þingfundinum um málefni norðurslóða og voru samþykkt 10 tilmæli um þau á grundvelli tillagna sem höfðu verið afgreiddar út úr nefndum daginn áður á nefndafundum á Radisson Blu Hótel Sögu. Samþykkt voru tilmæli um mótun sameiginlegrar stefnu um norrænt samstarf um brýn viðfangsefni á norðurslóðum. Þar sem norðurslóðaáætlanir norrænu ríkjanna innihalda svipaða sýn í mörgum málaflokkum er lagt til að byggt sé á sameiginlegum áherslum og mótuð sameiginleg sýn til framtíðar á þeim sviðum þar sem það er mögulegt með því að skilgreina markmið og leiðir að þeim markmiðum. Norræn ríki, Noregur, Danmörk og Svíþjóð, hafa leitt starfið í Norðurskautsráðinu á grundvelli sameiginlegra áherslna á samfelldum formennskutímabilum þeirra á árunum 2007 til 2013. Horft er til þess að viðhalda frumkvæði Norðurlanda á vettvangi ráðsins með samtaka framgöngu án þess að mynda norræna blokk.
    Því tengt voru samþykkt tilmæli um að Norræna ráðherranefndin beiti sér fyrir því að hinar tíu grunnreglur Sameinuðu þjóðanna um hnattræn áhrif (e. Global Compact) verði hluti af samfélagsábyrgð og ímynd atvinnulífsins á norðurslóðum og styðji við starf Norðurskautsráðsins að gerð grundvallarreglna fyrir Cooperative Social Responsibility (CSR) á norðurslóðum.
    Einnig voru samþykkt tilmæli um fjármögnun björgunarviðbúnaðar á norðurslóðum á grundvelli tillögu frá Íslandsdeild Norðurlandaráðs. Mælst var til að ráðherranefnd norrænu fjármálaráðherranna geri á Norðurlandaráðsþingi grein fyrir leiðum til að fjármagna björgunarviðbúnað á norðurslóðum í kjölfar samnings aðildarríkja norðurskautsríkjanna um leit og björgun á norðurslóðum frá árinu 2011.
    Þá voru samþykkt tilmæli um umhverfisvernd og olíu- og gasvinnslu á norðurslóðum. Norðurskautsráðið vinnur að lagalega bindandi samningi um hreinsun vegna umhverfisslysa á norðurslóðum en tilmæli Norðurlandaráðs taka til þess að tryggja að nægilega örugg tækni sé notuð við boranir, til að fyrirbyggja slys, með því að nota bestu fáanlegu tækni og vinnsluaðferðir, og að norrænu ríkisstjórnirnar hefji samstarf um þróun nýrrar og öruggari tækni.
    Enn fremur voru samþykkt tilmæli um að tryggt verði að ekki sé brotið á réttindum frumbyggja þegar náttúruauðlindir norðurskautssvæðisins eru nýttar.
    Önnur tilmæli um norðurslóðir sem voru samþykkt á vorþinginu voru um tungumál og menntun á norðurslóðum, um málþing um áskoranir í umhverfismálum á norðurslóðum, um aðgerðaáætlun um viðbrögð við úrlausnarefnum á norðurslóðum til framtíðar, um lok samningaviðræðna um Norræna samasáttmálann og um innviði rannsókna og tengslanet vísindamanna á norðurslóðum.

Septemberfundir Norðurlandaráðs í Gautaborg.
    Septemberfundir Norðurlandaráðs voru haldnir í Gautaborg 25.–27. september 2012. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu fundina Helgi Hjörvar, formaður, Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Illugi Gunnarsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Siv Friðleifsdóttir, auk Lárusar Valgarðssonar ritara. Helstu mál á dagskrá voru tillaga um umboðsmann vegna stjórnsýsluhindrana á Norðurlöndum, tillaga um norræna stefnu í áfengis- og tóbaksmálum í tengslum við lýðheilsu og tillaga um gagnkvæma viðurkenningu á starfsmenntun á Norðurlöndum.
         
64. þing Norðurlandaráðs í Helsinki.
    Þing Norðurlandaráðs var haldið í Helsinki dagana 30. október til 1. nóvember 2012. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu þingið Helgi Hjörvar, formaður, Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Illugi Gunnarsson og Siv Friðleifsdóttir, auk Lárusar Valgarðssonar ritara. Helstu mál á dagskrá voru áskoranir norræna velferðarríkisins, stjórnsýsluhindranir, alþjóðamál, öryggis- og varnarmál og lýðheilsusjónarmið í áfengis- og tóbaksmálum.
    Á fyrsta degi Norðurlandaráðsþingsins var setningarathöfn og norrænn leiðtogafundur með þátttöku norrænu forsætisráðherranna og leiðtoga stjórna Færeyja, Grænlands og Álandseyja. Þar sem Norðurlandaráð átti 60 ára afmæli 2012 var fyrrverandi forsetum ráðsins boðið til þingsins. Frá Íslandi tóku þátt Ragnhildur Helgadóttir, forseti árið 1975, Geir H. Haarde, forseti árið 1995, Sigríður Anna Þórðardóttir, forseti árið 2000, Rannveig Guðmundsdóttir, forseti árið 2005, og Helgi Hjörvar, forseti árið 2010.
    Norræni leiðtogafundurinn fjallaði um áskoranir norrænna velferðarríkisins. Við umræðuna kom fram að norrænu velferðarríkin stæðu nokkuð sterkt þrátt fyrir efnahagskreppur og hefðu flest spjarað sig vel á krepputímum, og að þau ríki sem hefðu átt í alvarlegum erfiðleikum hefðu unnið sig fljótt út úr þeim og væru að ná sér á strik. Helstu áskoranir norræna velferðarríkisins sem nefndar voru til sögunnar voru sístækkandi hluti eldri borgara sem fylgdi álag á velferðarkerfið, atvinnuleysi ungs fólks og harðnandi hnattræn samkeppni og óvissa í alþjóðahagkerfinu. Þá spannst nokkur umræða um einkarekstur í velferðarþjónustu og um eignarhald á nátttúruauðlindum. Helgi Hjörvar, formaður flokkahóps jafnaðarmanna, var talsmaður flokkahópsins við umræðuna. Hann varpaði m.a. fram þeirri spurningu til forsætisráðherra Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands um hvers vegna lán landanna til Íslands fyrir fjórum árum hefðu enn hærri vexti, 2,75%, en lán landanna til Írlands, sem hefðu 1% vexti. Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, svaraði og sagði vextina ákvarðast af samningum og byggðust á mati á lánshæfni á hverjum tíma.
    Stjórnsýsluhindranir, reglur og venjur innan stjórnsýslunnar sem hindra för og starf einstaklinga og fyrirtækja milli Norðurlanda samkvæmt norrænum samningum voru á dagskrá á öðrum degi þingsins. Helgi Hjörvar mælti fyrir tillögu forsætisnefndar um norrænan umboðsmann vegna stjórnsýsluhindrana á Norðurlöndum. Tillagan var samþykkt, ásamt tillögu um gagnkvæma viðurkenningu á verkmenntun á Norðurlöndum og tillögu um Norðurlönd án landamæra. Í síðastnefndu tillögunni var m.a. beint tilmælum til norrænu ríkisstjórnanna um að norrænir borgarar sem ekki eiga kost á að kjósa í almennum kosningum vegna reglna í ríkisfangslandinu fái þau réttindi í búsetulandinu, að samræma reglur um endurhæfingu öryrkja þannig að starfsfólk með skerta starfsgetu missi ekki bótarétt við að nýta rétt sinn til frjálsrar farar, að reglur einstakra landa um veitingu og útgreiðslu opinbers rannsóknarfjármagns verði leiðréttar á þann hátt að nota megi fjármagnið í sameiginleg verkefni sem ná yfir landamæri milli Norðurlanda, að vinna saman að því að setja nauðsynlega staðla sem Evrópusambandslöggjöf lætur löndunum eftir að innleiða, einkum staðla og kröfur í bygginga- og mannvirkjageira, að koma á fót verklagi í ráðuneytum á Norðurlöndum sem tryggir að ný löggjöf í löndunum skapi ekki nýjar stjórnsýsluhindranir og að hefja árlega skýrslugerð í norrænu þjóðþingunum um stöðuna í starfi sem lýtur að stjórnsýsluhindrunum.
    Í fyrirspurnatíma samstarfsráðherra norrænna samstarfsmála beindi Siv Friðleifsdóttir tveimur spurningum til danska samstarfsráðherrans, Manu Sareen, annars vegar hvers vegna reglum hefði verið breytt í Danmörku á þá leið að nú þyrftu Íslendingar sem flyttu til Danmerkur að bíða í tvö ár eftir að fá barnabætur og hins vegar hvort hann gæti leitt norrænt samstarf um að loka vefsíðum með grófu klámi og kynferðislegu ofbeldi gagnvart konum. Sareen sagðist ætla láta skoða hvort orðið hefði verið til stjórnsýsluhindrun varðandi barnabæturnar og að ofbeldið á klámsíðunum væri málefni sem norrænt samstarf ætti að láta sig varða því það tengdist jafnrétti kynjanna. Grænlenski samstarfsráðherrann, Palle Christiansen, benti á að verið væri að vinna í sama vandamáli með barnabætur til Grænlendinga sem flytja til Danmerkur og aðrir samstarfsráðherrar, þar á meðal Katrín Jakobsdóttir, tóku undir með Sareen varðandi klámsíðurnar, m.a. að þær tengdust mansali og spurningunni um hvaða aðili eigi að stýra aðgangi að vefsíðum.
    Alþjóðamál og öryggis- og varnarmál voru næst á dagskrá. Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Noregs, gaf skýrslu fyrir hönd norrænu utanríkisráðherranna og Villy Søvndal, utanríkisráðherra Danmerkur, gaf skýrslu fyrir hönd norrænu varnarmálaráðherranna í fjarveru danska varnarmálaráðherrans, Nick Hækkerup. Mikil umræða skapaðist um þátttöku Finna og Svía í loftrýmisgæslu við Ísland ásamt Noregi á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2014, en tillaga um þátttöku Finna og Svía var fyrst sett fram í Stoltenberg-skýrslunni. Eide sagði að loftrýmisgæsla Finna og Svía, að frumkvæði Íslendinga, væri gott dæmi um styrkt norrænt samstarf í öryggis- og varnarmálum, birtingarmynd samstöðu, sem og eðlilegt framhald af því nána samstarfi á sviði æfinga sem Svíþjóð, Noregur og Finnland hafi átt með sér í norðurhluta landa sinna. Endanleg ákvörðun í Finnlandi og Svíþjóð, með þátttöku þjóðþinga landanna, yrði hins vegar ekki tekin fyrr en eftir Atlantshafsbandalagið hafi fjallað um málið. Árni Þór Sigurðsson sagði við umræðuna að Finnar og Svíar væru þar með að taka þátt í verkefnum Atlantshafsbandalagsins og spurði hvort um væri að ræða breytingu á hlutleysisstefnu landanna en Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, og Erkki Tuomioja, utanríkisráðherra Finnlands, undirstrikuðu að svo væri ekki og að um eðlilegt framhald samstarfs Noregs, Svíþjóðar og Finnlands væri um að ræða.
    Norski utanríkisráðherrann, Espen Barth Eide, gerði einnig grein fyrir auknu norrænu samstarfi um sendiskrifstofur, en áformað er að Danmörk, Noregur og Svíþjóð opni sameiginlegar sendiskrifstofur í Rangoon í Búrma og Dhaka í Bangladess, að Svíþjóð, Noregur og Finnland opni sameiginlega sendiskrifstofu í Hanoi í Víetnam, að Noregur og Danmörk opni sameiginlega sendiskrifstofu í Islamabad í Pakistan og að Danmörk, Noregur, Svíþjóð og Finnland opni sameiginlega sendiskrifstofu í Reykjavík.
    Í umræðunni um alþjóðamál var einnig rætt um öryggismál á norðurslóðum, Norðurskautsráðið, málefni Palestínu, makríldeiluna og að formgera þyrfti norrænt samstarf á sviði utanríkismála og varnarmála, en sú hugmynd að formgera það samstarf innan Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs var einnig til umfjöllunar á málþingi um framtíð norræns samstarfs sem haldið var daginn fyrir setningu Norðurlandaráðsþingsins. Tillaga um það er ein af 12 tillögum sem settar eru fram í skýrslu Johan Strang hjá Miðstöð um Norðurlandarannsóknir hjá Helsinkiháskóla, en skýrslan var tilefni málþingsins.
    Tillaga um að efla samstarf um innviði og umhverfi í samgöngumálum var til umfjöllunar undir dagskrárliðnum sjálfbær þróun. Álfheiður Ingadóttir, sem var talsmaður flokkahóps vinstri sósíalista og grænna við umræðuna, lýsti yfir stuðningi við tillöguna og sagði að það vantaði norræna ráðherranefnd um samgöngumál og innviði samfélaga.
    Þá mælti Siv Friðleifsdóttir, formaður velferðarnefndar, fyrir tillögu nefndarinnar um lýðheilsusjónarmið í áfengis- og tóbaksmálum. Tillagan felur í sér tilmæli til Norrænu ráðherranefndarinnar í 12 liðum. Hún var samþykkt eftir atkvæðagreiðslur um fimm breytingartillögur danska Einingarlistans, norska Framfaraflokksins og finnska flokksins, Sannra Finna. Breytingartillögurnar sneru að liðum um vinnu við að Norðurlöndin verði tóbakslaus árið 2040, um gerð áætlunar um norrænt framlag til alþjóðlegs samstarfs um aðgerðir til að minnka neyslu áfengis í heiminum um 10% fyrir árið 2025 og um að stuðlað verði að því að leyfileg mörk áfengismagns í blóði verði 0,2 prómill við notkun vélknúinna farartækja á Norðurlöndum.

Aðrir fundir.
    Helgi Hjörvar var fulltrúi Norðurlandaráðs á málþingi þingmanna um stöðugleika og tengsl fjármálamarkaða í Eystrasaltsríkjunum og á Norðurlöndum 9.–10. febrúar 2012 í Vilníus. Hann var einnig áheyrnarfulltrúi ráðsins á stjórnarfundi þingmannaráðstefnu norðurskautssvæðisins 13.–15. febrúar í Stokkhólmi, á ráðstefnu um Alþjóðaheimskautaárið í Montreal 21.–24. apríl, á stjórnarfundi þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál 4.–6. júní í Nuuk og á þingmannaráðstefnunni um norðurskautsmál á Akureyri 5.–7. september.
    Siv Friðleifsdóttir og Árni Þór Sigurðsson áttu sæti í sendinefnd Norðurlandaráðs til Nenets í Rússlandi 13.–15. mars og Helgi Hjörvar, Siv Friðleifsdóttir og Árni Þór Sigurðsson funduðu með sendinefnd rússneskra þingmanna í Reykjavík 16.–19. apríl, auk þess sem Helgi Hjörvar tók þátt í hringborðsumræðum með rússneskum þingmönnum 14.–15. maí í Helsinki.
    Álfheiður Ingadóttir átti sæti í sendinefnd umhverfis- og auðlindanefndar til Sellafield 30. maí til 2. júní 2012. Siv Friðleifsdóttir var fulltrúi velferðarnefndar Norðurlandaráðs á þríhliða ráðstefnu Norðurlandaráðs, Eystrasaltsþingsins og Benelux-þingsins um svindl á skatti og félagslegri þjónustu 20. apríl í Haag, á ráðstefnu NordAN (The Nordic Alcohol and Drug Policy Network) í Málmey 19.–21. október og átti sæti í sendinefnd Norðurlandaráðs á Eystrasaltsþinginu 8.–9. nóvember í Vilníus.
    Þá átti Helgi Hjörvar sæti í sendinefnd Norðurlandaráðs á Þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins í Pétursborg 26.–28. ágúst.

7. Þingmannaráðstefna Eystrasaltssvæðisins.
    Þingmannaráðstefna Eystrasaltssvæðisins, Baltic Sea Parliamentary Conference, BSPC, var haldin í Pétursborg 26.–28. ágúst 2012 undir yfirskriftinni „Orka, vistfræði og félagsleg velferð: Samstarf um sjálfbæra þróun á Eystrasaltssvæðinu.“ Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu ráðstefnuna Helgi Hjörvar, formaður, og Álfheiður Ingadóttir, auk Lárusar Valgarðssonar ritara. Helstu mál til umfjöllunar voru grænn hagvöxtur, mansal og ástand Eystrasaltsins. Þá urðu einnig umræður um ávarp hvítrússnesks þingmanns og um Pussy Riot- málið, eins og nánar er fjallað um síðar, þó hvorugt hafi verið á dagskrá ráðstefnunnar.
    Sænski þingmaðurinn Cecilie Tentefjord-Toftby kynnti áfangaskýrslu starfshóps um grænan hagvöxt og orkusparnað. Starfshópurinn, sem tók til starfa árið 2011, hefur að markmiði að leggja fram tillögur um aðgerðir á Eystrasaltssvæðinu sem fella má inn í ályktanir ráðstefnunnar árið 2012 og 2013. Að þessu sinni lagði starfshópurinn fram sex tillögur, þar á meðal um aukið samstarf orkumálaráðherra Eystrasaltssvæðisins, um bindandi markmið ríkja í orkusparnaði, um græn innkaup opinbera geirans og um fjármögnun frumkvöðlastarfsemi um grænan hagvöxt og orkusparnað.
    Þá kynnti annar sænskur þingmaður, Johan Linander, skýrslugjafi um mansal, ásamt norska þingmanninum André Oktay Dahl, áfangaskýrslu þeirra, en þeirra vinna fylgir í kjölfarið á framlagi starfshóps um mansal á árunum 2010–2011. Í skýrslu tvímenninganna kom fram að þeir hafi ritað bréf og fengið svör ríkisstjórna Eystrasaltssvæðisins til að fylgja eftir ályktunum ráðstefna síðustu tveggja ára varðandi mansal og átt fund með sérstökum samræmingarfulltrúa Svíþjóðar í baráttunni gegn mansali, Kajsa Wahlberg. Í svörum ríkisstjórnanna kom m.a. fram að ríkin halda skrár yfir mansalsmál, að löggjöf ríkjanna um mansal er víða í endurskoðun eða hefur nýlega verið endurbætt og að áhersla sé lögð á að rekja slóð hagnaðar af mansali til bakhjarla þess og gera hagnaðinn upptækan. Einnig upplýsti Kajsa Wahlberg skýrslugjafana um nýjar hliðar mansals, þar á meðal stuld á persónuupplýsingum í því formi að skrá fyrirtæki, stofna bankareikninga, kaupa vörur, skrá símaáskrift eða sækja um styrki í annars nafni, til viðbótar við auknar þvinganir til þjófnaðar, svika og betls.
    Margir liðir ályktunar þingmannaráðstefnunnar fjölluðu með beinum hætti um ástand Eystrasalts, umferð um það, byggt á umfjöllun ráðstefnunnar. Meðal þess sem kallað var eftir hjá ríkisstjórnum Eystrasaltssvæðisins og öðrum hagsmunaaðilum var vinna við að uppræta frárennslismengun, þróun rauntímaupplýsingagjafar um sjóferðir og þróun rafrænnar siglingatækni með það að markmiði að auðvelda stjórnun siglinga og auka viðbragðshæfni við óhöppum, aukið samstarf sjóflutningsfyrirtækja til að fyrirbyggja og minnka líkur á óhöppum og skipstrandi og auknar aðgerðir til að stuðla að sameiginlegri svæðisbundinni nálgun við að fyrirbyggja og bregðast við hættum og neyðartilvikum á sjó og á landi, sem og stuðla að rannsóknum og þróun tækni varðandi olíumengun.
    Í einum af liðum ályktunarinnar var kallað eftir stuðningi við og vernd umburðarlyndis, gagnkvæmrar virðingar og málfrelsis og bættrar stöðu mannréttinda á Eystrasaltssvæðinu og nágrenni þess, en nokkrar umræður urðu á ráðstefnunni um málfrelsi með skírskotun til Pussy Riot-málsins. Við umræðuna undirstrikuðu norrænir og þýskir þingmenn mikilvægi málfrelsis sem hluta af lýðræðislegum leikreglum. Kimmo Sasi, forseti Norðurlandaráðs, og Silvia Modig varaforseti, voru þar á meðal. Bent var á að skylda þingmanna væri að verja málfrelsið sem grundvallarmannréttindi og að tveggja ára fangelsisdómur yfir meðlimum rússnesku hljómsveitarinnar Pussy Riot fyrir andófsgjörning sinn gegn Pútín í rússneskri kirkju fyrr á árinu væri úr samhengi við það. Álfheiður Ingadóttir sagði við umræðuna að þó flestir teldu að helsta samtímaógnin væri hryðjuverkastarfsemi þá ættu borgaraleg réttindi undir vök að verjast og óvægin viðbrögð hins opinbera við gagnrýni og umræðu væru bein ógn við lýðræðið. Valentina Pivnenko, forseti þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins og þingmaður í rússnesku Dúmunni, svaraði því til að rússneskir dómstólar væru sjálfstæðir og að Pussy Riot hefði hlotið dóm fyrir andmenningarlegt athæfi og óspektir.
    Þá urðu einnig snörp orðaskipti í upphafi ráðstefnunnar um dagskrá hennar, af því tilefni að stuttu fyrir ráðstefnuna var Mikhail Orda, þingmanni þjóðþings Hvíta-Rússlands, bætt á skrá frummælenda. Sænskir og danskir þingmenn gerðu athugasemd við síðbúnar breytingar á dagskrá en féllust á þær með því skilyrði að Orda mundi aðeins tala um dagskrárefnið, orkunýtingu og grænan hagvöxt. Þýskir og pólskir þingmenn aftóku með öllu að Orda tæki til máls og Álfheiður Ingadóttir, sem benti líka á að dagskrá hefði verið breytt mjög seint, tók undir sjónarmið um að ekki væri hægt að ganga til dagskrár fyrr en hún hefði verið endanlega ákveðin. Valentina Pivnenko sagði í því sambandi að Rússland sem gestgjafi réði hverjum það byði á ráðstefnuna og að þinginu í Hvíta-Rússlandi hefði verið boðið á hana. Fulltrúi Póllands lagði til að gengið yrði til atkvæða um dagskrárbreytinguna og var það gert. Í henni studdu aðeins rússnesku þingmennirnir dagskrárbreytinguna og var fulltrúi hvítrússneska þingsins tekinn af mælendaskrá. Við svo búið spurði Pivnenko hvort andstaða ráðstefnugesta snerist gegn þingmanninum Orda eða öllum fulltrúum þjóðþings Hvíta-Rússlands og var svarað að hún sneri að öllum fulltrúum þess þings. Að því loknu var gengið til dagskrár.
    Næsta þingmannaráðstefna Eystrasaltssvæðisins verður í Pärnu í Eistlandi 25.–27. ágúst 2013.

8. Starfsáætlun og áherslur Norðurlandaráðs árið 2013.
    Norðurlandaráð hefur gert rammaáætlun, „Norðurlönd í heiminum – heimurinn á Norðurlöndum“, til lengri tíma. Að auki gerir formennskuland ráðsins áætlun fyrir hvert ár í senn og fagnefndir gera einnig sínar starfsáætlanir fyrir hvert ár. Samkvæmt rammaáætlun ráðsins eru markmið þess að styrkja norræna velferð, að hafa áhrif á hnattvæðinguna, að auka hreyfanleika á Norðurlöndum, að bæta hafsumhverfi, að móta viðfangsefni Norðlægu víddarinnar og að stuðla að skilvirkara norrænu tungumálasamstarfi.
    Noregur fer með formennsku í Norðurlandaráði árið 2013. Forseti ráðsins er Marit Nybakk og varaforseti Per-Kristian Foss. 65. þing Norðurlandaráðs verður haldið í Ósló 29.–31. október 2013 og þingfundur verður að vori í Stokkhólmi 10.–11. apríl með áherslu á öryggis- og varnarmál.
    Formennskuáætlun Norðmanna árið 2013 hefur þrjár megináherslur; skilvirk Norðurlönd, samstarf á norðurslóðum og norræn utanríkis- og öryggismálapólitík ásamt samfélagsöryggi.
Varðandi skilvirk Norðurlönd leggja Norðmenn áherslu á traust velferðarríki, aðgerðir gegn atvinnuleysi ungs fólks, aukið samstarf á heilbrigðissviði og aðgerðir gegn stjórnsýsluhindrunum.
    Á sviði samstarfs á norðurslóðum leggja Norðmenn áherslu á að kanna aukið efnahagslegt samstarf á Barentssvæðinu, fylgja eftir samstarfi um Norðlægu víddina og auka tengsl við Vestnorræna ráðið.
    Hvað utanríkis- og öryggismál varðar leggja Norðmenn áherslu á að skýrsla norrænu ríkisstjórnanna um utanríkismál verði lögð fram eigi síðar en 1. september ár hvert í aðdraganda Norðurlandaráðsþings, að kanna hvort norræna björgunarsamstarfið í NORDRED beri hag af því að ná einnig til samstarfs um samfélagsöryggi og viðbragðsáætlanir almennt, að þróa frekar samstarf Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins og auka samstarf gegn skipulagðri glæpastarfsemi á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjum.

Alþingi, 7. febrúar 2013.

Helgi Hjörvar,
form.
Álfheiður Ingadóttir,
varaform.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.

Árni Þór Sigurðsson.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir.
Illugi Gunnarsson.

Siv Friðleifsdóttir.




Fylgiskjal.


Tilmæli Norðurlandaráðs og ákvarðanir um innri málefni árið 2012.


Tilmæli samþykkt á þingfundi 23. mars 2012.
          Tilmæli 1/2012: Norræn velferðarstefna í hnattvæddum heimi (A 1511/presidiet).
          Tilmæli 2/2012: Ýta stefnuskrá og framkvæmdaáætlun úr vör til að bregðast við viðfangsefnum í velferðarmálum sem blasa við Norðurlöndum (A 1511/presidiet).
          Tilmæli 3/2012: Sameiginleg stefnumörkun um málefni norðurskautsins (A 1550/presidiet).
          Tilmæli 4/2012: Fjármögnun björgunarviðbúnaðar á norðurslóðum (A 1549/presidiet).
          Tilmæli 5/2012: Umhverfisvernd og olíu- og gasvinnsla á norðurslóðum (A 1552/miljø).
          Tilmæli 6/2012: Málþing um umhverfisáskoranir á norðurslóðum (A 1552/miljø).
          Tilmæli 7/2012: Samstarf Norðurlandaráðs við Norðurskautsráð (A 1556/velferd).
          Tilmæli 8/2012: Gerð aðgerðaáætlunar til að bregðast við úrlausnarefnum norðurslóða til framtíðar (A 1556/velferd).
          Tilmæli 9/2012: Réttindi frumbyggja á norðurslóðum (A 1554/medborger).
          Tilmæli 10/2012: Lok samningaviðræðna um Samasáttmálann (A 1554/medborger).
          Tilmæli 11/2012: Tungumál og menntun á norðurslóðum (A 1557/kultur).
          Tilmæli 12/2012: Innviðir rannsókna og tengslanet vísindamanna á norðurslóðum (A 1555/näring).

Tilmæli samþykkt í forsætisnefnd.
          Tilmæli 13/2012: Árleg ESB-skýrsla (A 1544/præsidiet).
          Tilmæli 40/2012: Sjálfsstjórn á Norðurlöndum (A 1577/medborger).

Tilmæli samþykkt á þingfundi 30. október til 1. nóvember 2012.
          Tilmæli 14/2012: Fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2013 (B 280/ presidiet).
          Tilmæli 15/2012: Norðurlönd án landamæra (A 1565/præsidiet).
          Tilmæli 16/2012: Skipan umboðsmanns stjórnsýsluhindrana (A 1558/præsidiet).
          Tilmæli 17/2012: Gagnkvæm viðurkenning á verkmenntun (A 1559/kultur).
          Tilmæli 18/2012: Kortlagning á verkmenntun þar sem viðurkenningu skortir (A 1559/ kultur).
          Tilmæli 19/2012: Aukin skilvirkni við afgreiðslu tilmæla Norðurlandaráðs (A 1575/kk).
          Tilmæli 20/2012: Stefnumótun í norrænu menningarsamstarfi (B 276/kultur).
          Tilmæli 21/2012: Breytingar á verðlaunum Norðurlandaráðs (A 1574/præsidiet).
          Tilmæli 22/2012: Lyftistöng fyrir norrænar barna- og unglingabókmenntir (B 282/kultur).
          Tilmæli 23/2012: Norrænn leiðtogafundur um menntamál (A 1564/kultur).
          Tilmæli 24/2012: Norræn vefgátt um kvikmyndir (A 1573/kultur).
          Tilmæli 25/2012: Ný norræn tíska (A 1563/næring).
          Tilmæli 26/2012: Norræn upplýsingaskipti um dýraræktendur (A 1531/näring).
          Tilmæli 27/2012: Aðgerðir til að efla norrænt samgöngumálasamstarf um innviði og umhverfismál (A 1568/miljø).
          Tilmæli 28/2012: NIB, NEFCO og NDF sem tæki í loftslagsstarfi (A 1569/miljø).
          Tilmæli 29/2012: Nýsköpun og fjárfestingar á vegum Norræna umhverfisfjármögnunarfélagsins (NEFCO) (A 1569/miljø).
          Tilmæli 30/2012: Efnahagslegt samstarf á norðurslóðum (A 1553/näring).
          Tilmæli 31/2012: Samstarfsáætlun í byggðamálum 2013–16 (B 279/næring).
          Tilmæli 32/2012: Rammaáætlun um norrænt samstarf um sjávarútveg, fiskeldi, landbúnað, matvæli og skógrækt 2013–2016 (B 277/miljö).
          Tilmæli 33/2012: Norræn áætlun um sjálfbæra þróun (B 284/miljö).
          Tilmæli 34/2012: Framkvæmdaáætlun í umhverfismálum (B 281/miljø).
          Tilmæli 35/2012: Ný samstarfsáætlun ráðherranefndarinnar um vinnumál (MRA) (B 278/næring).
          Tilmæli 36/2012: Norræn lýðheilsustefna í áfengis- og tóbaksmálum (A 1566/velferd).
          Tilmæli 37/2012: Greining á athyglisbresti og lyfjagjöf barna og ungmenna á Norðurlöndum (A 1551/velferd).
          Tilmæli 38/2012: Norrænar björgunaraðgerðir vegna atvinnuleysis ungs fólks (A 1572/ kultur).
          Tilmæli 39/2012: Menning og heilsa í norrænu samstarfi (A 1545/velferd).

Ákvarðanir um innri málefni:
          Ákvörðun 1/2012: Forsætisnefndartillaga um alþjóðaáætlun (A 1571/presidiet).
          Ákvörðun 2/2012: Eftirfylgni tilmæla Norðurlandaráðs (A 1575/kk).