Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 584. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 997  —  584. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2012.

1. Inngangur.
    Efnahags- og fjármálakreppan, ástandið í Sýrlandi, almenn viðmið við skilgreiningu á pólitískum fanga, skuldbindingar Rússlands gagnvart Evrópuráðinu og þátttaka kvenna í stjórnmálum settu mestan svip á starfsemi Evrópuráðsþingsins á árinu 2012. Þá var mál Geirs H. Haarde fyrir landsdómi tekið til umfjöllunar í laga- og mannréttindanefnd þingsins, sjá nánar í fimmta kafla skýrslunnar.
    Ýmsar hliðar efnahags- og fjármálakreppunnar voru til umræðu á þinginu. Í ályktun sinni um skattaskjól krafðist Evrópuráðsþingið m.a. þess að gripið yrði til aðgerða til að sporna við skattasniðgöngu og skattsvikum, sem skattaskjól og aflandsmiðstöðvar liðkuðu fyrir að væru stunduð. Vandamál tengd miklum niðurskurði og aðhaldsaðgerðum víðsvegar í álfunni voru einnig til umræðu, einkum hvað varðaði áhrif á félags- og lýðræðisleg viðmið. Í ályktun sinni um málefnið hvatti þingið aðildarríki Evrópuráðsins meðal annars til að koma í veg fyrir að grafið yrði undan lýðræðislegum viðmiðum við ákvarðanatöku sem tengdist skuldakreppunni og hugsanlegum sameiginlegum aðgerðum Evrópusambandsríkja, með því að sjá til þess að ákvarðanafrelsi ríkisstjórna og lýðræðislega lögmætra stofnana, sérstaklega þjóðþinga, yrði virt. Áhrif aðhaldsaðgerða á ungt fólk í Evrópu og á sveitarstjórnir voru einnig rædd og tilmælum beint til aðildarríkja.
    Ástandið í Sýrlandi var í brennidepli á þinginu meiri hluta árs. Á fundi sínum í mars fordæmdi stjórnarnefnd þingsins aðgerðaleysi alþjóðasamfélagsins í málefnum landsins. Þar var fordæmd sérstaklega ákvörðun Rússlands að beita neitunarvaldi á vettvangi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna gegn því að ráðið ályktaði að Assad Sýrlandsforseti segði af sér. Í yfirlýsingunni voru Rússar hvattir til að beita ekki neitunarvaldi gegn frekari ályktunum öryggisráðsins í málefnum Sýrlands. Á fundi sínum í apríl fordæmdi Evrópuráðsþingið stórfelld mannréttindabrot sem framin höfðu verið af hálfu sýrlenska hersins og harmaði ítrekuð vopnahlésbrot. Á þinginu í október var fordæming á mannréttindabrotum í Sýrlandi ítrekuð og þau sögð jaðra við að vera glæpir gegn mannkyni. Þingið kallaði jafnframt eftir því að Evrópa sýndi samstöðu með fórnarlömbum átakanna sem og nágrannaríkjum Sýrlands og að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna stæði fyrir lokun á lofthelgi Sýrlands, að aðgengi hjálparstarfsmanna inn í Sýrland yrði tryggt og að vopnahléi yrði komið á. Forseti þingsins fordæmdi einnig morð á tyrkneskum borgurum af völdum sprengikúlna sýrlenska hersins við landamæri ríkjanna tveggja, hvatti til stillingar og að alþjóðalögum yrði fylgt.
    Þingið staðfesti stuðning sinn við almenna skilgreiningu á pólitískum föngum sem var sett fram af óháðum sérfræðingum árið 2001. Af þessu tilefni kallaði þingið jafnframt eftir því að öll aðildarríki þess endurmætu mál meintra pólitískra fanga, beittu við það nýju viðmiðununum og létu viðkomandi fanga lausa eða færu með mál þeirra aftur fyrir dóm, eftir því sem ætti við. Samkvæmt viðmiðununum skal manneskja, sem svipt hefur verið sínu persónulega frelsi, skilgreind sem pólitískur fangi ef fangavistin brýtur í bága við eina af grunntryggingum mannréttindasáttmála Evrópu og bókanir hans, einkum þá er varðar hugsanafrelsi. Það sama eigi við ef fangavistin kemur einungis til af pólitískum ástæðum, lengd eða forsendur fangavistar eru bersýnilega ekki í samræmi við brotið sem manneskjan hefur verið sakfelld fyrir eða er grunuð um, og ef fangavistin er afleiðing málaferla sem voru bersýnilega ósanngjörn og virtust sprottin af pólitískum hvötum stjórnvalda.
    Umræða um eftirfylgni Rússlands við aðildarskuldbindingar sínar var fyrirferðarmikil á októberfundi þingsins. Í ályktun sinni um málið lýsti þingið yfir áhyggjum sínum af nýlegri löggjöf þar í landi sem herðir verulega refsingar vegna meiðyrða og eins löggjöf sem gefur ríkinu aukna stjórn á aðgengi almennings að upplýsingum á internetinu. Þá voru gerðar athugasemdir við breytingar á lögum um fundafrelsi og lögum um frjáls félagasamtök. Tveggja ára fangelsisdómur meðlima Pussy Riot-hópsins var harðlega gagnrýndur og kallaði þingið eftir því að hópurinn yrði tafarlaust leystur úr haldi. Önnur áhyggjuefni voru meðal annars annmarkar við tvennar þingkosningar og tvennar forsetakosningar í landinu síðastliðin fimm ár, skortur á frelsi fjölmiðla, árásir á stjórnarandstæðinga, ósjálfstæði dómstóla, staða mála í Norður-Kákasus og árásir á samkynhneigða, tvíkynhneigða og transfólk.
    Loks fjallaði þingið um lágt hlutfall kvenna meðal þingmanna aðilarríkjanna og samþykkti ályktun sem hvetur aðildarríki til að ráða bót á ójafnvæginu. Meðal þess sem þingið lagði til var að ríkin tryggðu að framboðslistar stjórnmálaflokka hefðu viðunandi hlutfall frambjóðenda af hvoru kyni, að lágmark 40% af því kyni sem væri í minni hluta væri í stjórnunarstöðum á öllum stigum stjórnkerfisins og að fjölmiðlar gættu kynjajafnræðis við úthlutun á tíma til frambjóðenda fyrir kosningar. Loks hvatti þingið til að kynjajafnræðis væri gætt innan sjálfs þingsins, bæði innan framkvæmdastjórnar þess og nefnda, sem og innan flokkahópa.

2. Almennt um Evrópuráðið og Evrópuráðsþingið.
    Hlutverk Evrópuráðsins er að standa vörð um grundvallarhugsjónir aðildarríkjanna um mannréttindi, lýðræði og réttarríkið, auk þess að stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum. Til þess beitir ráðið sér m.a. fyrir gerð og samþykkt bindandi fjölþjóðasáttmála.
    Ályktanir og fjölþjóðasáttmálar Evrópuráðsins hafa haft víðtæk áhrif í álfunni allri. Fjölmargir sáttmálar ráðsins á ýmsum sviðum þjóðlífsins eru mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir sem eru að koma á lýðræði og réttarríki, en mælistikur Evrópuráðsins gilda einnig fyrir aðrar fjölþjóðastofnanir og alþjóðleg samtök. Þar ber hæst mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og félagsmálasáttmála Evrópu.
    Frá lokum kalda stríðsins hefur Evrópuráðið m.a. gegnt því veigamikla hlutverki að styðja við lýðræðisþróun í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, m.a. með tæknilegri aðstoð á sviði laga og stjórnsýsluuppbyggingar auk kosningaeftirlits. Aðildarríkjum ráðsins hefur fjölgað ört síðan Berlínarmúrinn féll og eru þau nú 47 talsins. Svartfjallaland er nýjasta aðildarríkið en það sleit ríkjasambandi við Serbíu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í maí 2006 og varð aðili að Evrópuráðinu í maí 2007. Þar með mynda ríki Evrópuráðsins eina órofa landfræðilega heild í álfunni, að Hvíta-Rússlandi undanskildu.
    Evrópuráðsþingið er vettvangur fulltrúa þjóðþinga 47 aðildarríkja Evrópuráðsins. Á þinginu sitja 318 fulltrúar og jafnmargir til vara. Ólíkt ráðherranefnd Evrópuráðsins þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði fer fjöldi fulltrúa á þinginu eftir stærð þjóðar. Frá 2011 starfar þingið í átta fastanefndum en einnig starfa á þinginu fimm flokkahópar. Þá sitja forseti, 20 varaforsetar, formenn fastanefnda og flokkahópa í framkvæmdastjórn þingsins, sem hefur umsjón með innri málefnum þess. Sami hópur skipar stjórnarnefnd þingsins ásamt formönnum landsdeilda. Þingið kemur saman ársfjórðungslega, eina viku í senn, að jafnaði í janúar, apríl, júní og október. Stjórnarnefnd fundar þrisvar á milli þingfunda. Loks kemur sameiginleg nefnd þingsins með ráðherranefnd Evrópuráðsins saman í hvert sinn sem Evrópuráðsþingið kemur saman.
    Evrópuráðsþingið er nokkurs konar hugmyndabanki Evrópuráðsins um stjórnmál, efnahagsmál, félagsmál, mannréttindamál, umhverfis- og orkumál og menningar- og menntamál.
    Mikilvægi þingsins felst einkum í því að:
          eiga frumkvæði að aðgerðum og beina tillögum til ráðherranefndarinnar,
          hafa eftirlit með efndum fjölþjóðlegra skuldbindinga og þrýsta á um skjótar aðgerðir í þeim tilvikum sem misbrestur er þar á, og
          vera vettvangur fyrir skoðanaskipti og samráð þingmanna aðildarríkjanna og styrkja þannig lýðræðismenningu og efla tengsl þjóðþinga.
    Á þingfundum Evrópuráðsþingsins eru skýrslur nefnda ræddar og ályktað á grundvelli þeirra. Þingið getur beint tilmælum og álitum til ráðherranefndarinnar sem fjallar um þau og bregst við eftir atvikum með beinum aðgerðum. Evrópuráðsþingið á þannig oft frumkvæði að gerð fjölþjóðlegra sáttmála sem eru lagalega bindandi fyrir aðildarríkin. Sem dæmi má nefna að Evrópusáttmálinn um aðgerðir gegn mansali, sem tók gildi árið 2008, á rætur sínar að rekja til ályktana Evrópuráðsþingsins frá 1997 og 2002. Þar eru stjórnvöld hvött til þess að grípa til samstilltra aðgerða til að stemma stigu við þeirri skipulögðu glæpastarfsemi sem mansal er. Á árinu 2011 lauk einnig vinnu við gerð samnings sem tekur á ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi en gerð hans er einnig í samræmi við ályktun Evrópuráðsþingsins.
    Evrópuráðsþingið er fjölþjóðastofnun þar sem þingmenn frá öllum ríkjum Evrópu, að Hvíta-Rússlandi undanskildu, starfa saman á jafnréttisgrundvelli. Jafnframt hafa störf Evrópuráðsþingsins bein áhrif á störf þjóðþinganna þar sem fulltrúar á Evrópuráðsþinginu eru þingmenn í heimalöndum sínum, ólíkt því sem á t.d. við um Evrópuþingið. Þingfundir Evrópuráðsþingsins þar sem þingmenn bera saman bækur sínar og skiptast á hugmyndum eru því afar mikilvægt framlag til löggjafarstarfs heima fyrir og hafa þeir hraðað mjög og stutt við þá öru lýðræðisþróun sem átt hefur sér stað í Evrópu eftir lok kalda stríðsins. Þá hefur reynslan sýnt að þjóðir sem hafa skýr markmið í störfum sínum innan þingsins og kappkosta að ná þeim fram geta haft áhrif langt umfram stærð og pólitískt bolmagn. Sú staðreynd varpar skýru ljósi á mikilvægi og ekki síður möguleika Evrópuráðsþingsins fyrir íslenska hagsmuni.

3. Skipan Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins.
    Árið 2012 voru aðalmenn Íslandsdeildar Þuríður Backman, formaður, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Mörður Árnason, varaformaður, þingflokki Samfylkingarinnar, og Birkir Jón Jónsson, þingflokki Framsóknarflokksins. Varamenn voru Álfheiður Ingadóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Magnús Orri Schram, þingflokki Samfylkingar, og Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokki Framsóknarflokks. Kjartan Fjeldsted var ritari Íslandsdeildar fram í febrúar 2012, þá tók Sigrún Brynja Einarsdóttir tímabundið við þar til Vilborg Ása Guðjónsdóttir tók við starfi ritara 24. september.
    Skipan Íslandsdeildarinnar í nefndir Evrópuráðsþingsins í lok árs 2012 var sem hér segir:
Sameiginleg nefnd með ráðherranefnd: Þuríður Backman.
Stjórnarnefnd: Þuríður Backman.
Stjórnmála- og lýðræðisnefnd: Mörður Árnason.
Undirnefnd um málefni Mið-Austurlanda: Mörður Árnason.
Laga- og mannréttindanefnd: Þuríður Backman.
Undirnefnd um val á dómurum við Mannréttindadómstól Evrópu:
Þuríður Backman.
Nefnd um félagsmál, heilbrigðismál og sjálfbæra þróun:
Þuríður Backman.
Nefnd um fólksflutninga og málefni flóttamanna:
Mörður Árnason.
Nefnd um menningar- og menntamál, fjölmiðla og vísindi:
Birkir Jón Jónsson.
Jafnréttisnefnd: Birkir Jón Jónsson.
Reglunefnd: Mörður Árnason.

4. Starfsemi Íslandsdeildar 2012.
    Íslandsdeild hélt fjóra fundi á árinu. Á fyrstu þremur fundunum var þátttaka í þingfundum Evrópuráðsþingsins undirbúin. Á fjórða og síðasta fundi ársins voru viðbrögð Íslandsdeildar við minnisblaði hollenska Evrópuráðsþingmannsins Pieter Omtzigt um mál Geirs H. Haarde fyrir landsdómi rædd, en minnisblaðið er grunnur að skýrslu sem Omtzigt mun skila til laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins í fyllingu tímans til frekari umræðu á Evrópuráðsþinginu. Sjá nánar hér að neðan. Einnig gerði formaður grein fyrir bréfi sem barst frá forseta Evrópuráðsþingsins um val á dómurum við Mannréttindadómstól Evrópu.

5. Skýrsla Evrópuráðsþingsins um mál Geirs H. Haarde fyrir landsdómi.
    Í desember 2011 var hollenski þingmaðurinn Pieter Omtzigt úr flokki kristilegra demókrata skipaður framsögumaður skýrslu um aðgreiningu pólitískrar ábyrgðar og refsiábyrgðar fyrir hönd laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins. Í skýrslunni verður meðal annars tekin sérstök hliðsjón af landsdómsmálinu, og kom Omtzigt til Íslands í byrjun maí 2012 til að afla sér gagna um málið. Málið var síðan fyrst rætt á fundi nefndarinnar í þeim sama mánuði. Í umræðum sagði Omtzigt m.a. að yfir mörgum aðildarríkjum Evrópuráðsins vofðu nú stórar efnahagslegar ákvarðanir og velti upp ábyrgð stjórnmálamanna í því samhengi. Þeir tækju pólitískar ákvarðanir sem fælu í sér efnahagslega áhættu. Oft væru það líka fleiri en einn aðili sem tæki ákvörðun sem ríkisstjórn eða ráðherra framkvæmdi. Þuríður Backman tók einnig til máls og greindi frá því að það hefði verið til skoðunar á Íslandi að breyta landsdómslögunum þegar bankakerfið hrundi í október 2008, en þá hefði það verið orðið of seint. Íslenska kerfið væri mjög svipað því danska og athyglisvert að bera þau tvö saman, sem og kerfin á hinum Norðurlöndunum. Íslendingar hefðu við meðferð máls GeirsH. Haarde farið í öllu eftir stjórnarskrá og lögum og málsmeðferðin hefði verið samkvæmt því. Nú, eftir að dómur er fallinn í málinu, hefði nær öll umræða um það fallið niður. Þuríður kvaðst vona að skýrslan mundi hjálpa Íslendingum við að endurbæta íslensku stjórnarskrána og landsdómslögin og jafnframt að önnur lönd gætu lært af reynslu Íslendinga.
    Á fundi nefndarinnar í október kynnti Omtzigt þá minnisblað um rannsókn sína, en í því kemur fram sú skoðun hans að stjórnmálamenn eigi einungis að sæta refsiábyrgð ef aðgerðir þeirra falla utan gildissviðs eðlilegrar pólitískrar ákvarðanatöku. Að hans mati átti það ekki við um aðgerðir Geirs H. Haarde í aðdraganda efnahagshrunsins. Þá sagði hann einnig ákæruna gegn Geir hafa verið pólitísk ákvörðun sem hefði eitrað hið pólitíska andrúmsloft án þess að efla málstað réttlætis. Eðlileg pólitísk ákvarðanataka ætti einungis að sæta dómi kjósenda í næstu kosningum. Loks dró Omtzigt í efa að þjóðþing væri rétta stofnunin til að starfa sem ákæruvald, og lýsti yfir efasemdum um stofnanafyrirkomulag landsdóms og málaferlið sjálft. Þuríður Backman tók til máls og vakti athygli á því að landsdómsferlið væri byggt á lögum frá 1963 og að Alþingi hefði fylgt lögunum af nákvæmni og gætt þess að gera aðeins nauðsynlegar ráðstafanir. Mál Geirs H. Haarde hefði verið fyrsta mál landsdóms og Alþingi hefði tekið hlutverk sitt mjög alvarlega. Nokkrar umræður fóru fram um málið og sagði Þuríður að hún mundi koma athugasemdum sínum á framfæri við framsögumann áður en skýrslan yrði fullunnin og lögð fyrir þingið.
    Í lok árs 2012 var áætlað að skýrsla Omtzigt yrði lögð fyrir laga- og mannréttindanefnd á meðan á fundi þingsins í apríl 2013 stæði og loks lögð fyrir þingið sjálft á fundi þess í október 2013.

6. Fundir Evrópuráðsþingsins 2012.
    Þingfundir Evrópuráðsþingsins fara fram í Evrópuhöllinni í Strassborg og eru þeir haldnir fjórum sinnum á ári, að jafnaði í janúar, apríl, júní og október. Auk þess koma framkvæmdastjórn og stjórnarnefnd Evrópuráðsþingsins saman til funda á milli þinga og afgreiða mál sem æðsta vald þingsins.

Fyrsti fundur Evrópuráðsþingsins 23.–27. janúar.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Þuríður Backman, formaður, Mörður Árnason, varaformaður, og Birkir Jón Jónsson, auk Kjartans Fjeldsted, ritara. Meðal helstu mála á dagskrá voru umbætur á starfsemi Mannréttindadómstóls Evrópu, virkni lýðræðisstofnana í Bosníu og Hersegóvínu og Úkraínu, staða mála í Hvíta-Rússlandi, aðgangur allra að þátttöku í menningarlífi, þvingaðir fólksflutningar sem brot á mannréttindum, og Evrópuráðssamningur um varnir gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi.
    Að venju hófst fyrsti þingfundur ársins á kjöri forseta þingsins en Mevlüt Çavusoglu, sem þegar hafði setið tvö eins árs kjörtímabil, var ekki kjörgengur. Var franski þingmaðurinn Jean-Claude Mignon útnefndur forseti en hann var einn í framboði. Að kosningu varaforseta lokinni flutti Çavusoglu fundinum skýrslu um starfsemi framkvæmdastjórnar þingsins frá síðasta þingfundi. Einnig fluttu formenn sendinefnda Evrópuráðsþingsins vegna kosningaeftirlits í Rússlandi og Marokkó skýrslur sínar.
    David Lidington, Evrópumálaráðherra Bretlands, ávarpaði því næst fundinn og gerði grein fyrir áhersluatriðum bresku formennskunnar í Evrópuráðinu. Fjallaði hann um áætlanir Breta um umbætur á starfsemi Mannréttindadómstólsins og lýsti sem fyrr stuðningi við það umbótaferli á starfsemi Evrópuráðsins sem framkvæmdastjóri ráðsins, Thorbjørn Jagland, hefði staðið fyrir. Þá lýsti hann nýrri áætlun á sviði tjáningarfrelsis á netinu, sem ætlað er að sameina ýmis verkefni Evrópuráðsins á því sviði. Þá gerði hann grein fyrir starfi ráðherranefndarinnar og fagnaði því m.a. að pólitíska þráteflinu í Bosníu og Hersegóvínu virtist nú lokið að sinni með myndun nýrrar ríkisstjórnar þar í landi.
    Mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins, Thomas Hammarberg, flutti þinginu árlega skýrslu sína um stöðu mannréttinda í Evrópu en skýrslan er sú síðasta sem Hammarberg flytur þinginu þar sem kjörtímabili hans lauk 31. mars. Í máli hans kom fram að Evrópa þyrfti að hverfa frá tómri orðræðu um mannréttindi og gera betur í að tryggja mannréttindi í verki. Réttarkerfið í allmörgum aðildarríkjum virkaði illa og spilling og pólitísk afskipti væru of útbreidd. Pólitísk afskipti af fjölmiðlum og takmarkanir á fjölmiðlafrelsi viðgengjust enn víða. Þá harmaði hann að viðhorf gagnvart flóttamönnum og innflytjendum yrðu sífellt neikvæðari í álfunni.
    Fram fór kosning í embætti mannréttindafulltrúa í stað Hammarbergs og var Lettinn Nils Muiznieks kjörinn til að gegna embættinu til sex ára frá og með 1. apríl. Muiznieks hefur m.a. starfað að félagslegri aðlögun minnihlutahópa sem ráðherra í ríkisstjórn Lettlands og verið meðlimur og formaður í nefnd Evrópuráðsins um baráttu gegn kynþáttafordómum (ECRI, European Commission against Racism and Intolerance).
    Í ályktun þingsins um að tryggja virðingu fyrir og skilvirkni mannréttindasáttmála Evrópu var áréttað að það væru aðildarríkin sjálf sem bæru mesta ábyrgð á að framfylgja sáttmálanum, ekki Mannréttindadómstóllinn í Strassborg. Sjötíu prósent af þeim kærum sem bærust dómstólnum væru frá aðeins sex ríkjum: Ítalíu, Póllandi, Rúmeníu, Rússlandi, Tyrklandi og Úkraínu. Kerfislæg vandamál í þessum ríkjum væru meginástæða þess mikla fjölda mála sem biði afgreiðslu hjá dómstólnum og ekki væri nóg að gert til að bregðast við þeim vandamálum.
    Forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, ávarpaði þingið og gerði umbætur þær á Mannréttindadómstólnum sem Bretar hafa lagt til í tengslum við formennsku sína í Evrópuráðinu að meginumtalsefni. Í máli hans kom fram að hann teldi þrjú meginatriði þurfa athugunar við í starfsemi dómstólsins. Í fyrsta lagi væri ætlast til of mikils af dómstólnum. Fyrstu fjörutíu árin hefði heildarfjöldi kæra verið 45 þúsund, en aðeins á árinu 2010 hefðu hins vegar 61.300 kærur borist dómstólnum. Í öðru lagi væri rík tilhneiging til að líta á dómstólinn sem eins konar áfrýjunarrétt þangað sem hægt væri að áfrýja málum jafnvel þó að úrlausn dómstóla í heimalandinu hefði verið í samræmi við mannréttindasáttmálann og því væri mikilvægt að dómstóllinn hefði fullt vald til að ákveða hvaða mál hann kysi að taka til umfjöllunar. Og í þriðja lagi tæki dómstóllinn ekki nóg tillit til þjóðþinga og seildist of langt inn á valdsvið þeirra. Þetta hefði gert dómstólinn umdeildari í aðildarríkjunum og grafið undan virðingu hans.
    Meðal annarra tignargesta sem ávörpuðu þingið má nefna Törju Halonen, forseta Finnlands, Grigol Vashadze, utanríkisráðherra Georgíu, og Michelle Bachelet, varaframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og framkvæmdastjóra UN Women.
    Þuríður Backman tók til máls í umræðu um rétt allra til að taka þátt í menningarlífi. Í máli hennar kom fram að mikilvægt væri að fatlaðir gætu tekið virkan þátt í menningarlífi, en mörg Evrópuríki ættu langt í land með að tryggja fötluðum fullan aðgang að menningarviðburðum. Þá tálmuðu viðhorf og fordómar gagnvart fötluðum ekki síður þátttöku þeirra en efnislegar hindranir. Þegar kæmi að hönnun bygginga væri mikilvægt að taka tillit til þarfa fatlaðra, en einnig til annarra hópa, svo sem eldri borgara. Hönnunarstefnan „Design for all“ væri eftirtektarvert framtak sem rétt væri að vinna fylgi sem víðast. Sagði Þuríður að styrkja ætti menningarþátttöku fatlaðra og annarra minnihlutahópa á sama hátt og aðra menningarviðburði. Þá ættu fjölmiðlar að endurspegla mannlífið í allri sinni fjölbreytni, þ.m.t. listsköpun fatlaðra og annarra minnihlutahópa.
    Fram fór utandagskrárumræða um stöðu mála í Rússlandi eftir þingkosningarnar þar í landi í nóvember 2011 og þá mótmælaöldu sem spratt upp í kjölfar þeirra. Í framsögu sinni sagði Andreas Gross, formaður flokkahóps jafnaðarmanna, að enginn drægi lengur í efa að umfangsmikið kosningasvindl hefði átt sér stað í þágu Sameinaðs Rússlands, flokks Pútíns, forsætisráðherra. Þau mótmæli sem sprottið hefðu upp hefðu þó leitt til eins konar samskipta milli mótmælenda og yfirvalda. Tiny Kox, formaður flokkahóps vinstri manna, sagði að Rússlandsforseti hefði lagt til að gera skráningu stjórnmálaafla auðveldari og kallað eftir sjálfstæðum opinberum fjölmiðli. Pútín forsætisráðherra hefði einnig lagt til að myndavélar yrðu settar upp á öllum talningarstöðum. Ljóst væri að breytingar ættu sér stað í Rússlandi en ekki væri ljóst að svo stöddu hvort þær yrðu jákvæðar eða neikvæðar. Nokkrir rússneskir þingmenn höfnuðu því að kosningasvindl hefði átt sér stað og bentu á að stjórnarandstaðan hefði aukið þingstyrk sinn umtalsvert og Sameinað Rússland tapað meira en 100 þingsætum.
    Fundurinn fjallaði um skýrslu eftirlitsnefndar þingsins um eftirfylgni við aðildarskuldbindingar Serbíu. Í ályktun þingsins kom fram að umtalsverðar framfarir hefðu orðið í landinu frá því að þingið hefði síðast fjallað um málið árið 2009. Tekist hefði að koma á pólitískum stöðugleika, samvinna við stríðsglæpadómstólinn í Haag væri betri, landið léki nú uppbyggilegt hlutverk á Balkanskaga og hefði færst nær aðild að Evrópusambandinu. Þó væri þörf á frekari umbótum á réttarkerfinu, virkari aðgerðum gegn spillingu, sjálfstæðari fjölmiðlum og betra umhverfi fyrir minnihlutahópa, sérstaklega sígauna.
    Þá afgreiddi þingið ályktun um vernd mannréttinda með því að taka tillit til áður tilgreindra óska sjúklinga, en í henni eru aðildarríki ráðsins hvött til að fullgilda Ovíedo-sáttmálann, sem snýr að réttindum sjúklinga. Í ályktuninni er m.a. bent á að sáttmálar Evrópuráðsins tryggi rétt sjúklinga til að hafna því að undirgangast læknismeðferð, kjósi þeir það.
    Hvað varðar stöðu mála í Hvíta-Rússlandi harmaði þingið að stjórnvöld í landinu virtust vera að snúa baki við Evrópu, með áframhaldandi áreiti gagnvart stjórnarandstöðunni og frjálsum félagasamtökum og atlögu gegn sjálfstæði fjölmiðla. Harmaði þingið sérstaklega að dauðadómum yfir Aleh Hryshkautsou og Andrei Burdyka skyldi hafa verið framfylgt sem og nýlega dauðadóma yfir Dmitry Konovalov og Vladislav Kovalev í kjölfar réttarhalda sem einkenndust af alvarlegum mannréttindabrotum.

Fundur stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í París 9. mars.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sótti fundinn Þuríður Backman, formaður, auk Kjartans Fjeldsted, ritara. Meðal helstu mála á dagskrá var staða mála í Sýrlandi og Úkraínu, þörf á nýjum viðauka um þjóðernisminnihluta við mannréttindasáttmála Evrópu, Evrópuráðið og samstarfsvettvangur Evrópusambandsins og nágrannaríkja þess í austri, og alþjóðasamningur um vernd allra gegn þvinguðum mannshvörfum.
    Fundurinn hófst á samþykkt sérstakrar yfirlýsingar um ástandið í Sýrlandi, en þar er aðgerðaleysi alþjóðasamfélagsins í málefnum Sýrlands fordæmt og sérstaklega sú ákvörðun Rússlands að beita neitunarvaldi á vettvangi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna gegn því að ráðið ályktaði að Assad Sýrlandsforseti segði af sér. Í yfirlýsingunni eru Rússar hvattir til að beita ekki neitunarvaldi sínu gegn frekari ályktunum öryggisráðsins í málefnum Sýrlands. Fulltrúar rússnesku sendinefndarinnar í stjórnarnefndinni lögðust gegn samþykkt yfirlýsingarinnar og bentu m.a. á að engan veginn væri ljóst hverjir það væru sem stæðu að baki uppreisninni né hvað tæki við ef Assad færi frá völdum. Því væri rétt að fara að öllu með gát.
    Fundurinn sendi einnig frá sér yfirlýsingu um stöðu mála í Úkraínu og harmaði að hegningarlöggjöf landsins, sem gerði yfirvöldum kleift að gera hefðbundna pólitíska ákvarðanatöku refsiverða, hefði ekki verið breytt eins og Evrópuráðsþingið hefði krafist með ályktun sinni nr. 1862 (2012). Einnig var harmað að fyrrverandi innanríkisráðherra landsins, Júrí Lútsjenkó, hefði verið dæmdur til fjögurra ára fangavistar vegna meintra brota, sem væru ekki þess eðlis að réttlæta fangelsisvist og að Júlía Tímósjenkó væri enn bak við lás og slá. Í yfirlýsingunni er kallað eftir því að yfirvöld í Úkraínu láti alla ráðherra í fyrrverandi ríkisstjórn landsins lausa og tryggi að þeir geti tekið þátt í næstu kosningum.
    Hvað varðar samstarfsvettvang Evrópusambandsins og nágrannaríkja þess í austri (e. Eastern Partnership) lýsti fundurinn yfir áhyggjum af því að hlutverk Evrópuráðsins væri ekki nægilega afmarkað í grunnskjölum samstarfsins og pólitískum yfirlýsingum, sem og af því að ráðið hefði ekki komið með nokkru móti að nýlegum fundi samstarfsins í Varsjá. Ályktaði fundurinn að minnisblað Evrópuráðsins og Evrópusambandsins frá 2007 ætti að gilda um samstarfið og að besta leið samstarfsríkjanna til að ná fram umbótum á sviði lýðræðis og mannréttinda væri að vinna að því að uppfylla þær skyldur sem aðild þeirra að Evrópuráðinu hefði í för með sér. Þá er í ályktuninni áréttað að eftirlitshlutverk Evrópuráðsins á þessu sviði væri grundvöllur þess að meta hvort ríkin uppfylltu skyldur sínar á ofangreindum sviðum. Í ályktuninni er jafnframt bent á að í svokallaðri Stokkhólmsáætlun Evrópusambandsins sé gert ráð fyrir að forðast skörun við annað eftirlitsfyrirkomulag en leita þess í stað samvirkni, svo sem við Evrópuráðið. Kallaði fundurinn eftir því að gerðar yrðu viðeigandi umbætur hið fyrsta.
    Í ályktun þingsins nr. 1866, sem samþykkt var á fundinum, er hvatt til þess að hafin verði vinna að nýjum viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu um þjóðernisminnihluta. Þetta sé nauðsynlegt í ljósi þess að sáttmálar Evrópuráðsins á þessu sviði, svo sem rammasamningur um verndun þjóðarbrota (SES 157) og sáttmáli um svæðisbundin tungumál og tungumál minni hluta (SES 148), hafi ekki verið fullgiltir af nægilega mörgum aðildarríkjum Evrópuráðsins. Hið sama á við um viðauka 12 við Mannréttindasáttmálann sem bannar hvers kyns mismunun á grundvelli þess að einstaklingur tilheyri þjóðernisminnihluta. Slíkur viðauki gæti byggst á Kaupmannahafnarskjali Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) frá 1990 sem og viðeigandi sáttmálum Evrópuráðsins. Viðaukinn þyrfti að tryggja ákveðin lágmarksréttindi, svo sem pólitísk og menningarleg réttindi, rétt til ákvarðanatöku um mismunandi tegundir sjálfræðis og rétt til að nota minnihlutatungumál, sérstaklega í samskiptum við yfirvöld á þeim svæðum þar sem viðkomandi þjóðernisminnihluti er umtalsverður hluti íbúafjölda.
    Þá ályktaði fundurinn um mikilvægi þess að tryggja sjálfstæði og trúverðugleika sérfræðilegs mats á sviði heilbrigðismála, umhverfismála, orkumála, fjármála og almannaöryggis. Of oft væri slíkt mat byggt á kenningum sem ekki væri ljóst hvaða afleiðingar hefðu og niðurstöður væru oft ólíkar eftir því hvernig mat væri fjármagnað, sem og í þeim tilfellum sem niðurstöður mats gætu haft pólitísk, efnahagsleg eða fjárhagsleg áhrif. Til að mynda hefðu efnahagslegir hagsmunir og skortur á gegnsæi haft í för með sér ýmis hneyksli á heilbrigðissviðinu. Því væri nauðsynlegt að setja skýran lagaramma utan um sérfræðilegt mat. Í ályktuninni er hvatt til þess að aðildarríki Evrópuráðsins komi í veg fyrir hagsmunaárekstra, setji upp opinberan sjóð til að fjármagna sérfræðilegt mat á viðkvæmum sviðum, og setji vinnureglur til að tryggja gegnsæi og aðgang að upplýsingum.
    Í ályktun um alþjóðasamning um vernd allra gegn þvinguðum mannshvörfum benti fundurinn á að mörg þúsund manns væri enn saknað víðs vegar í álfunni, þar á meðal 14 þúsund á vestanverðum Balkanskaga, 2.300 í norðanverðum Kákasusfjöllum og 2.000 á Kýpur. Í ljósi þessa fagnaði þingið gildistöku sáttmála Sameinuðu þjóðanna, í desember 2010, um vernd allra gegn þvinguðum mannshvörfum, sem Evrópuráðsþingið hefði kallað eftir með ályktun sinni nr. 1463 (2005). Þó vantaði í samninginn nokkur atriði sem í ályktuninni var lögð áhersla á. Til að mynda væru ekki settar takmarkanir á sakaruppgjöf og umboð nefndar um þvinguð mannshvörf væri takmarkað hvað varðar tíma. Í þessu ljósi hvatti fundurinn aðildarríki Evrópuráðsins til að athuga hvort ástæða væri til að semja sáttmála á vettvangi Evrópuráðsins um þvinguð mannshvörf sem byggst gæti á sáttmála SÞ og bætt úr þessum annmörkum.

Annar fundur Evrópuráðsþingsins 23.–27. apríl.
    Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundinn Þuríður Backman, formaður Íslandsdeildar, Mörður Árnason, varaformaður, og Gunnar Bragi Sveinsson auk Sigrúnar Brynju Einarsdóttur, ritara Íslandsdeildar.
    Í upphafi þingsins gerði Evrópuráðsþingmaðurinn Tiny Kox frá Hollandi grein fyrir skýrslu um kosningaeftirlit í forsetakosningunum í Rússlandi sem fram fóru í mars 2012. Meginniðurstaða skýrslunnar var sú að vel hefði verið staðið að kosningunum en meira þyrfti þó að koma til svo hægt væri að segja að um algjörlega réttmætar kosningar hefði verið að ræða. Framkvæmdin væri vissulega skref í rétta átt en vinna þyrfti að gagnsærra kosningaferli í Rússlandi. Meðal þess sem sett var út á í skýrslunni var að frambjóðendum var gert erfitt fyrir að skrá sig til framboðs og að talning hefði ekki alls staðar farið réttilega fram. Hins vegar var ekki gerð athugasemd við niðurstöður kosninganna sem slíkra. Fulltrúar Rússa á þinginu sögðu nauðsynlegt að gera frekari umbætur á kosningaframkvæmd í landinu þar sem enn væri nokkuð í að hún væri fullnægjandi.
    Sérstök umræða var haldin um framtíð Mannréttindadómstóls Evrópu og Brighton-yfirlýsinguna, en yfirlýsingin, sem er afrakstur umfangsmikilla samningaviðræðna milli aðildarríkja Evrópuráðsins, miðar að því að tryggja framtíð sáttmálans og dómstólsins. Markmiðið er að fækka þeim málum sem koma fyrir dómstólinn og fjalla aðeins um þau mál sem varða alvarleg brot á sáttmálanum eða meiri háttar túlkunaratriði þannig að mál komi til umfjöllunar án þeirra miklu tafa sem nú eru í starfsemi dómstólsins. Jafnframt kom fram að áfram yrði rætt um endurbótaferlið á ráðherrafundi í lok maí. Þá kom David Lidington, Evrópumálaráðherra Bretlands, fyrir þingið sem fulltrúi þáverandi formennsku Breta í Evrópuráðinu.Hann talaði m.a. fyrir því að ríkisstjórnir aðildarríkja ynnu saman að því að það samkomulag sem náðist á Brighton-ráðstefnunni um endurbætur á mannréttindasáttmála Evrópu og störf Mannréttindadómstólsins yrði fellt inn í sáttmálann eigi síðar en árið 2013. Þuríður Backman spurði Lidington um eftirfylgni ráðherranefndarinnar við brotum aðildarríkja á mannréttindum og lýðræðislegum grundvallarreglum, sérstaklega varðandi stöðu Kúrda í Tyrklandi. Lidington svaraði því til að öll aðildarríki ættu að virða mannréttindi borgara sinna og samkvæmt Brighton-yfirlýsingunni bæru ríkin sjálf ábyrgð á því að halda alþjóðlegum skuldbindingum sínum í heiðri gagnvart þeim.
    Á þinginu var rædd og síðan borin undir atkvæði skýrsla sem Evrópuráðsþingmaðurinn Tineke Strik frá Hollandi hafði forustu um að vinna, varðandi ábyrgð á því þegar 63 flóttamenn frá Líbýu fórust á Miðjarðarhafi vorið 2011 án þess að nokkur tilraun væri gerð til að koma þeim til bjargar, þrátt fyrir ítrekuð neyðarköll og samskipti bátsverja við skip og flugvélar. Niðurstaða skýrslunnar var sú að þarna hefði orðið röð grundvallarmistaka þar sem ekki var brugðist við neyðarköllum og menn virtust hafa talið sig vera í einhvers konar tómarúmi varðandi það að bera ábyrgð á því að koma flóttamönnunum til bjargar. Einkum voru leitar- og björgunaryfirvöld, Atlantshafsbandalagið, ríki sem áttu skip á sjó á svæðinu, yfirvöld í Líbýu og smyglarar talin bera ábyrgð á hvernig fór. Sérstaklega var tekið fram að Atlantshafsbandalagið hefði brugðist í málinu með því að svara ekki neyðarköllum. Töluverðar umræður spunnust um skýrsluna og töldu þingmenn margra ríkja sem liggja að Miðjarðarhafi að hart væri vegið að ríkjunum í henni. Evrópuráðsþingið samþykkti skýrsluna að loknum umræðum og ályktaði að Atlantshafsbandalaginu bæri að láta fara fram rannsókn á málinu og svara þeim spurningum sem enn væri ósvarað um atburðarásina. Þá ættu þjóðþing þeirra landa sem ættu hlut að máli einnig að láta fara fram rannsóknir auk þess sem Evrópuþingið ætti að afla frekari upplýsinga.
    Saad-Eddine El Othmani, utanríkisráðherra Marokkó, ávarpaði þingið og lagði í máli sínu áherslu á að Marokkó tæki fullan þátt í endurbótum á sviði mannréttinda og því að aðlaga samfélagið að nútímanum. Hann sagði mikilvægt að styrkja samband ríkisins við Evrópu og Evrópustofnanirnar og takast á við sameiginleg verkefni í pólitísku samhengi. Í því skyni hefði hann m.a. nýlega hitt Thorbjørn Jagland, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, og ynni nú að því að styrkja tengslin milli Marokkó og Evrópuráðsins.
    Zlatko Lagumdzija, utanríkisráðherra Bosníu og Hersegóvínu, ávarpaði þingið og svaraði að því loknu spurningum úr sal. Í máli hans kom m.a. fram að enn væri nokkuð í að Bosnía og Hersegóvína stæði jafnfætis mörgum aðildarríkjum Evrópuráðsins hvað varðaði mannréttindi og lýðræðislega mælikvarða, en mikill pólitískur vilji væri fyrir því að halda baráttunni áfram og að ná fram raunverulegum breytingum. Hann sagði aðild að Evrópuráðinu sl. tíu ár hafa haft mjög jákvæð áhrif á landið og evrópsk gildi og réttindi hefðu haft sérstaka þýðingu fyrir þegna landsins, auk þess sem þau hefðu veitt utanríkisstefnu þess allt aðra þýðingu.
    Umræða fór fram á þinginu um skýrslu um vernd tjáningarfrelsis og upplýsingafrelsis á netinu og í vefmiðlum. Evrópuráðsþingmaðurinn Sir Roger Gale hafði framsögu um skýrsluna, sem var unnin undir forustu Evrópuráðsþingmannsins Zaruhi Postanjyan frá Armeníu. Í máli hans kom fram að þótt auðvelt væri að halda því fram að allt ætti að vera frjálst og að arabíska vorið hefði margoft verið tekið sem dæmi um hvernig félagslegir miðlar hefðu verið notaðir lýðræðinu til framgangs, þá hefðu þessi sömu miðlar líka verið notaðir í glæpsamlegu skyni. Það hefði verið erfitt að finna hinn gullna milliveg á milli þessara tveggja póla og vinnan við skýrsluna hefði snúist um að draga úr spennu þarna á milli. Annars vegar væri um að ræða þau mannréttindi að allir hefðu aðgang að upplýsingum og til skoðanaskipta á netinu og hins vegar þyrfti að hafa í huga þörfina á að vernda fullveldisrétt einstakra þjóða og öryggi í heimi sem ógnað væri af hryðjuverkum. Samþykkt var ályktun þar sem m.a. kemur fram að þeir sem miðla upplýsingum á netinu beri ábyrgð á ólögmætu innihaldi, sérstaklega barnaklámi og efni sem stuðlar að kynþáttahatri og ofbeldi.
    Utandagskrárumræða fór fram um ástandið í Sýrlandi. Henni lauk með því að Evrópuráðsþingið fordæmdi stórfelld mannréttindabrot sem framin höfðu verið af hálfu sýrlenska hersins og harmaði ítrekuð vopnahlésbrot. Framkvæmd friðaráætlunar Kofi Annan var hins vegar talin líkleg til að skila breytingum í lýðræðisátt til lengri tíma litið, þannig að á endanum gætu pólitískar umbætur og frjálsar og sanngjarnar kosningar átt sér stað til að gera Sýrland að lýðræðisríki til frambúðar.
    Umræða fór fram um skýrslu um skattamál og sérstaklega skattaskjól. Mörður Árnason sagði í umræðunni að hann vildi að önnur aðildarríki Evrópuráðsins lærðu af reynslu Íslendinga sem hefðu brennt sig illa á því að ætla að skapa nokkurs konar skattaskjól á Íslandi. Hann sagði jafnframt að endurbætur á sviði skattamála á borð við þær sem skýrslan fjallar um væru nauðsynlegar til að bæta samfélagið og ná fram velsæld, réttlæti og lýðræði. Í ályktun sem samþykkt var í lok umræðunnar kom m.a. fram að Evrópuráðsþingið krefðist þess að gripið yrði til aðgerða til að sporna við skattasniðgöngu og skattsvikum, sem skattaskjól og aflandsmiðstöðvar liðkuðu fyrir að væru stunduð.
    Loks fór fram umræða um skýrslu um mannsæmandi lífeyrisréttindi öllum til handa. Þuríður Backman tók til máls í umræðunni og lagði m.a. áherslu á mikilvægi þess að ekki væri horft á almannatryggingahluta lífeyrisréttinda sem einhvers konar ölmusu. Öllu skipti að lífeyrir væri vel yfir fátæktarmörkum hvers samfélags. Þuríður benti einnig á hversu miklu það skipti að lífeyriskerfið refsaði ekki þeim um síðir sem hefðu tekið á sig þunga fjölskylduábyrgð og horfið þannig af vinnumarkaði um lengri eða skemmri tíma.
    Af öðru sem rætt var á þinginu má nefna skýrslu um málefni Norður-Kákasusbúa sem hafa neyðst til að leggja á flótta frá heimalandi sínu og málefni íþróttaheimsins, einkum stjórnun íþróttamála og siðferði í íþróttum.

Þriðji fundur Evrópuráðsþingsins 25.–29. júní.
    Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundinn Þuríður Backman, formaður Íslandsdeildar, og Mörður Árnason, varaformaður, auk Sigrúnar Brynju Einarsdóttur, ritara Íslandsdeildar.
    Í upphafi þingsins ávarpaði Sali Berisha, forsætisráðherra Albaníu, þingið, en Albanía tók við forystu í Evrópuráðinu 1. júní 2012. Hann sagði að Albanía virti nú mannréttindi og réttindi minnihlutahópa, öfugt við það sem hefði verið fyrir rúmum 20 árum. Ríkið hefði sótt um aðild að ESB og þótt ákveðin vandamál hefðu hægt á umsóknarferlinu um skeið væri allt á réttri leið nú. Evrópuráðið hefði alla tíð staðið með Albaníu frá því að einræðið leið undir lok þar og það væri þakkarvert. Spurningar úr sal sem Berisha svaraði vörðuðu meðal annars baráttu gegn spillingu, réttindi samkynhneigðra og efnahagsmál í Albaníu í ljósi fjármálakreppunnar í heiminum.
    Þrjár skýrslur sem varða fjármálakreppuna voru ræddar samhliða, um það hvort niðurskurður ríkisútgjalda fæli í sér ógn gagnvart lýðræði og félagslegum réttindum, hvort hagsmunir ungu kynslóðarinnar væru fyrir borð bornir félagslega, efnahagslega og pólitískt vegna fjármálakrísunnar og um áhrif kreppunnar á sveitarstjórnarmál í Evrópu. Í máli Andrejs Hunkos sem var framsögumaður fyrstu skýrslunnar kom fram að mikill niðurskurður víðsvegar í Evrópu hefði á nokkrum árum skapað verulegan vanda sem væri mikilvægt að rannsaka. Það væru gallar á grunnrökunum fyrir niðurskurðarstefnu, þar sem hún gengi út frá því að þjóðarskuldir væru afleiðing óábyrgrar stefnu í fjármálum hins opinbera og óhóflegrar velferðarþjónustu. Hins vegar væru skuldavandamálin afleiðing þess að bönkum víða um heim var bjargað eftir að kreppan skall á árið 2008 með upptök í Bandaríkjunum. Vandamálið væri þess vegna ekki eingöngu bankakreppan heldur það að niðurskurðaraðgerðir kæmu harðast niður á þeim sem minnst mættu sín. Hunko tók Ísland sem dæmi um land sem hefði þurft að glíma við mikla erfiðleika, en hefði tekist vel á við þá með blandaðri leið niðurskurðar og tekjuöflunar.
    Luca Volontè, framsögumaður skýrslunnar um hagsmuni ungu kynslóðarinnar, sagði að ungt fólk í Evrópu hefði þurft að þola mikla erfiðleika vegna óstöðugleika í efnahagsmálum. Atvinnuleysi, fátækt og félagslegt ójafnræði væru allt þættir sem hefðu mikil áhrif á ungu kynslóðina með tilliti til sjálfræðis, sjálfsvirðingar, velferðar og aðgangs að réttindum. Volontè sagði mikilvægt að veita ungu fólki sem stærst hlutverk við að hjálpa samfélaginu að sigrast á kreppunni og ríki Evrópu þyrftu að deila pólitísku, félagslegu og efnahagslegu valdi með ungu kynslóðinni. Mikilvægt væri að ráðast í aðgerðir til að svo gæti orðið.
    Sir Alan Meale hafði framsögu um áhrif fjármálakrísunnar á sveitarstjórnarmál í Evrópu. Hann sagði að stofnanir á sveitarstjórnarstiginu væru þær fyrstu sem liðu fyrir erfiða efnahagsstöðu. Mikið aðhald í opinberum fjármálum hefði bein áhrif á þegnana, en þeir ættu engan þátt í því að sú staða hefði skapast. Loks ávarpaði Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, þingið og greindi frá stefnumörkun og ráðstöfunum sem gripið hefði verið til hér á landi til að bregðast við fjármálahruninu og árangur í þeim efnum. Steingrímur fór yfir aðdraganda bankahrunsins og lýsti þeim aðgerðum sem íslensk stjórnvöld hefðu gripið til í framhaldinu. Hann sagði mega draga þann lærdóm af öllu ferlinu að mikilvægast væri að ganga strax í málin, það væri erfiðara að grípa til aðgerða eftir því sem lengri tími liði. Ef óska þyrfti utanaðkomandi aðstoðar væri mikilvægt að halda engu að síður í stjórnartaumana eftir föngum og taka þátt í slíkum aðgerðum á eigin forsendum. Þá þyrfti að vernda þá sem minna mættu sín umfram aðra og velja réttu blönduna af aðgerðum, þ.e. bæði niðurskurð og skatta. Loks væri mjög mikilvægt að almenningur skildi hvað stjórnvöld væru að fara með aðgerðum sínum og af hverju ráðist væri í þær og einnig þyrfti að endurskoða fjármálakerfið frá grunni. Aðallærdómurinn væri alltaf sá að gefast ekki upp. Miklar umræður sköpuðust á þinginu um framangreindar skýrslur og tóku hátt í 80 þingmenn til máls.
    Þá var jafnframt haldin sameiginleg umræða um tvær skýrslur um stöðu lýðræðis í Evrópu og hlutverk borgara og ríkis, annars vegar um lýðræðiskreppuna og hlutverk ríkisins í Evrópu nútímans og hins vegar um þá mynd sem væri dregin upp af flökkufólki (migrants) og flóttamönnum í kosningaslag. Í máli Andreasar Gross, framsögumanns fyrrnefndu skýrslunnar, kom fram að mörg lýðræðisríki í Evrópu hefðu verið varnarlaus gagnvart markaðsöflum eftir að kreppan skall á og þannig misst tiltrú af hálfu borgaranna. Mikilvægt væri að styrkja lýðræðið á nýjan leik og lyfta því upp á fjölþjóðlegt stig til að koma í veg fyrir að efnahagsöfl gætu beitt það kúgun. Daphné Dumery mælti fyrir síðarnefndu skýrslunni en í henni sagði m.a. að flökkufólk og flóttamenn hefðu orðið að kosningamáli hjá ákveðnum stjórnmálaflokkum sem hefði síðan haft þau áhrif að útlendingahatur hefði magnast. Neikvæð viðbrögð, sem væru tengd mörgum þáttum, svo sem ótta við að missa stjórn á fólksflutningum, ótta við það sem væri ólíkt því sem áður væri þekkt og fjármálakreppunni, endurspegluðust síðan í fjölmiðlum, á netinu og í samfélagsmiðlum. Nauðsynlegt væri að hvetja fjölmiðla til að setja staðreyndir fram á sanngjarnari og jafnari hátt og styrkja möguleika á að stjórnmálamönnum væri hegnt fyrir óviðurkvæmilega hegðun fyrir kosningar eða meðan á þeim stæði. Mörður Árnason tók til máls í umræðum um skýrslurnar og benti á að lýðræði væri ekki markmið sem hægt væri að ná í eitt skipti fyrir öll, heldur dýnamískur ferill sem alltaf væri í þróun, en væri líka alltaf í hættu. Við þróun lýðræðis – sem engin „prótótýpa“ væri til fyrir – væri eitt ráðið að byggja á þeim grunni samráðs og samræðu sem til væri í hverju samfélagi, en heilbrigt ríki væri grunnforsenda góðs lýðræðis. Hann sagði frá fjögurra stiga ferli að setningu nýrrar stjórnarskrár sem hefði hafist með þjóðfundi, síðan kosningu og störfum stjórnlagaráðs, því næst þinglegri meðferð og myndi ljúka með þjóðaratkvæðagreiðslu. Þótt ferlið hefði ekki verið yfir gagnrýni hafið hefði það engu að síður heppnast vel og yrði hluti af nauðsynlegri sátt eftir hrunið. Hann varaði jafnframt við því að menn tækju upp aðferðir hins beina lýðræðis án þess að hafa innihald og hugmyndafræði þess með í för og nefndi þjóðaratkvæðagreiðslurnar um Icesave sem dæmi, en þar hefði vantað bæði upplýsingar, tíma og peninga til að fá fram svör við hinum raunverulegu spurningum í málinu.
    Zoran Milanovic, forsætisráðherra Króatíu, ávarpaði þingið. Hann lýsti yfir stuðningi við aðgerðir Evrópuráðsins í suðausturhluta Evrópu og hét því að stuðla að samráði og draga úr átökum milli svæða þar og víðar. Hann sagði að fyrirhuguð aðild Króatíu að ESB á næsta ári þýddi ekki að landamæri landsins yrðu að línu sem skildi milli austurs og vesturs. Hann óskaði jafnframt eftir auknum aðgerðum Evrópuráðsins í Kosovo til að tryggja varanlegan frið og vænti þess einnig að Bosnía og Hersegóvína gæti breytt stjórnarskrá sinni þannig að hægt væri að uppfylla dóma Mannréttindadómstóls Evrópu, en það væri nauðsynlegur hluti endurbóta til að tryggja jafnræði þeirra hópa sem gætu sett stjórnlög í landinu.
    Af öðru sem rætt var á þinginu má nefna skýrslu um mismunun sem múslímskar konur verða fyrir í Evrópu, Evrópustofnanirnar og sérstaklega hvort þörf væri á sérstökum mannréttindafulltrúa ESB þegar slíkur fulltrúi væri þegar til staðar hjá Evrópuráðinu, stöðu þeirra sem verja mannréttindi í aðildarríkjum Evrópuráðsins og skýrslu um stöðu sígauna (Róma- fólks) í Evrópu. Þá fór fram umræða um stöðu lýðræðis í Egyptalandi og einnig var rædd skýrsla um hvernig Svartfjallaland uppfyllir skyldur sínar sem aðildarríki Evrópuráðsins.
    Loks má nefna að í skýrslu sem samþykkt var á þinginu var skorað á ýmis aðildarríki Evrópuráðsins, þar á meðal Ísland, að fullgilda ýmsa sáttmála og viðauka sem samþykktir hefðu verið á þinginu og virða þannig skuldbindingar sínar sem aðildarríki Evrópuráðsins, sjá nánar á vefslóðinni assembly.coe.int/ASP/Doc/XrefDocDetails_E.asp?FileID=18747.
    
Fjórði fundur Evrópuráðsþingsins 1.–5. október.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn þau Þuríður Backman, formaður, og Birkir Jón Jónsson, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur, ritara. Helstu mál á dagskrá voru almenn viðmið við skilgreiningu á pólitískum fanga, skuldbindingar Rússlands gagnvart Evrópuráðinu, tengslin milli utanríkisstefnu og mannréttindaverndar, þátttaka kvenna í stjórnmálum og árleg umræða um starfsemi Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD). Þá fóru fram utandagskrárumræður um ástandið í Sýrlandi.
    Í opnunarræðu sinni kallaði forseti þingsins, Jean-Claude Mignon, eftir frjálsum skoðanaskiptum við Rússa í tilefni af óróleika innan þingsins vegna skýrslu eftirlitsnefndar þess um það hvernig Rússland hefur staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Evrópuráðinu. Þá benti hann á brýna þörf fyrir viðbrögðum við þeim pólitíska og lýðræðislega óstöðugleika sem hefur skapast fyrir botni Miðjarðarhafs og í nágrenni þess, með sérstakri vísan í ástandið í Sýrlandi. Mignon ræddi einnig um arabíska vorið og benti á að nú þegar nýjar ríkisstjórnir í viðkomandi ríkjum stæðu í stórfelldum endurbótum þyrfti að huga betur að jafnrétti kynjanna, stöðu trúar innan ríkisins og virðingu fyrir mannréttindum og frelsi allra, án mismununar. Mignon varaði einnig við auknu umburðarleysi og útbreiðslu róttækra hugmynda sem væru raunveruleg ógn við lýðræðið. Í kjölfar opnunarræðu Mignon var franski þingmaðurinn René Rouquet útnefndur varaforseti þingsins, en hann var einn í framboði.
    Fundurinn samþykkti ályktun um það hvernig Rússland hefði staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Evrópuráðinu. Í ályktuninni var ákveðnum lýðræðisumbótum í Rússlandi fagnað en jafnframt var vakin athygli á ákvörðunum og aðgerðum sem Evrópuráðsþingið telur mjög varhugaverðar. Þar voru nefnd sérstaklega lög sem herða verulega refsingar vegna meiðyrða og lög sem gefa ríkinu aukna stjórn á aðgengi almennings að upplýsingum á internetinu, til viðbótar við breytingar á lögum um fundafrelsi og lögum um frjáls félagasamtök. Loks var tveggja ára fangelsisdómur meðlima Pussy Riot-hópsins harðlega gagnrýndur og kallaði þingið eftir því að hópurinn yrði tafarlaust leystur úr haldi. Önnur áhyggjuefni voru meðal annars annmarkar við tvennar þingkosningar og tvennar forsetakosningar í landinu síðastliðin fimm ár, skortur á frelsi fjölmiðla, árásir á stjórnarandstæðinga, ósjálfstæði dómstóla, staða mála í Norður-Kákasus, og árásir á samkynhneigða, tvíkynhneigða og transfólk. Þingið kallaði eftir því að rússnesk stjórnvöld gerðu ákveðnar ráðstafanir til að betrumbæta fjölflokkalýðræði, réttarreglur og stöðu mannréttinda í Rússlandi.
    Á fundi laga- og mannréttindanefndar þingsins kynnti hollenski þingmaðurinn Pieter Omtzigt úr flokki kristilegra demókrata minnisblað um mál Geirs H. Haarde fyrir landsdómi, en Omtzigt var skipaður framsögumaður skýrslu um aðgreiningu pólitískrar ábyrgðar og refsiábyrgðar í desember 2011. Omtzigt dró í efa að þjóðþing væri rétta stofnunin til að starfa sem ákæruvald og lýsti yfir efasemdum um stofnanafyrirkomulag landsdóms og málaferlið sjálft. Þuríður Backman tók til máls og vakti athygli á því að landsdómsferlið væri byggt á lögum frá 1963 og að Alþingi hefði fylgt lögunum af nákvæmni og gætt þess að gera aðeins nauðsynlegar ráðstafanir. Mál Geirs H. Haarde hefði verið fyrsta mál landsdóms og Alþingi hefði tekið hlutverk sitt mjög alvarlega. Nokkrar umræður fóru fram um málið og sagði Þuríður að hún mundi koma athugasemdum sínum á framfæri við framsögumann áður en skýrslan yrði fullunnin og lögð fyrir þingið, sem áætlað er að verði í október 2013.
    Edmond Panariti, utanríkisráðherra Albaníu og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsþingsins, ávarpaði því næst fundinn og greindi frá þróun helstu áhersluatriða albönsku formennskunnar frá síðasta þingfundi. Forseti Albaníu, Bujar Nishani, ávarpaði einnig fundinn og lýsti meðal annars yfir stuðningi Albaníu við aðild Kósóvó að Evrópuráðinu.
    Þingið staðfesti stuðning sinn við almenna skilgreiningu á pólitískum fanga sem var sett fram af óháðum sérfræðingum árið 2001. Við það tilefni kallaði þingið jafnframt eftir því að öll aðildarríki þess endurmætu mál meintra pólitískra fanga, og beittu við það nýju viðmiðunum, og létu viðkomandi fanga lausa eða færu með mál þeirra aftur fyrir dóm, eftir því sem ætti við.
    Í ályktun sinni og tilmælum um tengslin milli utanríkisstefnu og mannréttindaverndar kallaði þingið eftir því að aðildarríki þess legðu sig fram við að tryggja að samræmi væri milli þeirra lögmála sem ríkin hafa einsett sér að fylgja á sviði mannréttinda og lýðræðis og framferðis þeirra við framkvæmd utanríkisstefnu og alþjóðlegra samskipta. Þingið kallaði einnig eftir því að þjóðþing hvettu til aukinnar þátttöku þingmanna í starfsemi alþjóðastofnana, og stofnuðu nefndir og undirnefndir á sviði mannréttindamála.
    Forseti Moldóvu, Nicolae Timofti, ávarpaði þingið og kallaði meðal annars eftir því að sjálfstjórnarhéraðið Transnistria yrði aftur sameinað Moldóvu. Hann sagði að átökin á svæðinu ógnuðu þjóðaröryggi Moldóva, drægu úr efnahagsþróun og sundruðu samfélaginu.
    Ángel Gurría, framkvæmdastjóri Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD), ávarpaði fundinn og varaði við því að lengd og dýpt efnahagskreppunnar ógnuðu félagslegri samheldni um allan heim. Hann lagði áherslu á nauðsyn þess að koma í framkvæmd kerfislægum endurbótum og að pólitísk stefnumótun næði til allra stefnuflokka. Í umræðu þingsins um starfsemi OECD lýsti það yfir stuðningi sínum við forgangsverkefni stofnunarinnar, og kallaði jafnframt eftir stefnum sem styddu við atvinnusköpun og hjálpuðu þeim varnarlausustu með markvissum áætlunum og fjárfestingu í kunnáttu og menntun. Þá kallaði þingið eftir því að regluverk ríkja, sem og alþjóðleg regluverk, tryggðu að starfsemi fjármálastofnana væri heiðarleg og réttmæt. Þingið fagnaði loks ákvörðun OECD um að auka samstarf sitt við þau arabaríki sem vinna nú að lýðræðisumbreytingum og lýsti yfir þeirri von sinni að í ferli Rússlands að fullri aðild að OECD yrði tekið á viðeigandi lýðræðisþáttum.
    Þingið fjallaði um lágt hlutfall kvenna meðal þingmanna aðildarríkja þess og samþykkti ályktun sem hvetur aðildarríki til að ráða bót á ójafnvæginu. Meðal þess sem þingið lagði til var að ríkin tryggðu að framboðslistar stjórnmálaflokka hefðu viðunandi hlutfall frambjóðenda af hvoru kyni, að lágmark 40% af því kyni sem væri í minni hluta væri í stjórnunarstöðum á öllum stigum stjórnkerfisins og að fjölmiðlar gættu kynjajafnræðis við úthlutun á tíma til frambjóðenda fyrir kosningar. Loks hvetur þingið til að kynjajafnræðis sé gætt innan sjálfs þingsins, bæði innan framkvæmdastjórnar þess og nefnda, sem og innan flokkahópa.
    Af öðru sem var samþykkt á þinginu má nefna ályktun um aukna þátttöku og aukið gegnsæi í kosningum og eftirlit með þeim í aðildarríkjum Evrópuráðsins, ályktun sem hvetur ríkisstjórnir Evrópu til að tryggja réttinn til að stofna og reka einkaskóla sem hluta af almenna menntakerfinu, ályktun sem styður tillögur Evrópusambandsins um skattlagningu fjármálaviðskipta og ályktun um frelsi háskóla til að stjórna sjálfir fyrirkomulagi náms ogrannsókna. Þá samþykkti þingið siðareglur fyrir þingmenn sem snúa einna helst að því að koma í veg fyrir pólitískt hygl og hagsmunaárekstra.
    Loks fordæmdi þingið mannréttindabrot í Sýrlandi sem að mati þess jaðra við að vera glæpir gegn mannkyni og kölluðu eftir því að Evrópa sýndi samstöðu með fórnarlömbum átakanna sem og nágrannaríkjum Sýrlands. Þingmenn kölluðu jafnframt eftir því að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna stæði fyrir lokun á lofthelgi Sýrlands, að aðgengi hjálparstarfsmanna inn í Sýrland yrði tryggt og að vopnahléi yrði komið á. Forseti þingsins fordæmdi einnig morð á tyrkneskum borgurum af völdum sprengikúlna sýrlenska hersins við landamæri ríkjanna tveggja, hvatti til stillingar og að alþjóðalögum yrði fylgt.

7. Nefndarfundir utan þinga.
    Formaður Íslandsdeildar, Þuríður Backman, sótti fund stjórnarnefndar þingsins í París í mars og fundi laga- og mannréttindanefndar í París í mars, maí og september, til viðbótar við fund undirnefndar um skipan dómara við Mannréttindadómstól Evrópu í júní. Varaformaður Íslandsdeildar, Mörður Árnason, sótti fundi stjórnmála- og lýðræðisnefndar þingsins í París í mars og í Torino á Ítalíu í desember. Birkir Jón Jónsson sótti fund mennta- og menningarmálanefndar í mars og fund jafnréttisnefndar í desember, báða í París.

Alþingi, 5. febrúar 2013.



Þuríður Backman,


formaður.


Mörður Árnason,


varaformaður.


Birkir Jón Jónsson.



Fylgiskjal.


Ályktanir, álit og tilmæli Evrópuráðsþingsins árið 2012.

    Eftirfarandi ályktanir, álit og tilmæli til ráðherranefndar Evrópuráðsins voru samþykkt á þingfundum og stjórnarnefndarfundum Evrópuráðsþingsins árið 2012:

Fyrsti hluti þingfundar 23.–27. janúar:

     *      Ályktun 1855 um virkni lýðræðisstofnana í Bosníu og Hersegóvínu.
     *      Ályktun 1856 um að tryggja virðingu fyrir og skilvirkni mannréttindasáttmála Evrópu.
     *      Ályktun 1857 um stöðu mála í Hvíta-Rússlandi.
     *      Ályktun 1858 um framfylgni við aðildarskuldbindingar Serbíu.
     *      Ályktun 1859 um vernd mannréttinda og mannlegrar reisnar með því að taka tillit til áður tilgreindra óska sjúklinga.
     *      Ályktun 1860 um að styðja við réttindabaráttu kvenna á alþjóðavettvangi.
     *      Ályktun 1861 um að vinna að framgangi Evrópuráðssamnings um varnir gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi.
     *      Ályktun 1862 um virkni lýðræðisstofnana í Úkraínu.
     *      Ályktun 1863 um þvingaða fólksflutninga sem brot á mannréttindum.
     *      Ályktun 1864 um fólksfjöldaþróun í Evrópu: að snúa áskorunum upp í tækifæri.
     *      Tilmæli 1990 um rétt allra til þátttöku í menningarlífi.
     *      Tilmæli 1991 um að tryggja virðingu fyrir og skilvirkni mannréttindasáttmála Evrópu.
     *      Tilmæli 1992 um stöðu mála í Hvíta-Rússlandi.
     *      Tilmæli 1993 um vernd mannréttinda og mannlegrar reisnar með því að taka tillit til áður tilgreindra óska sjúklinga.

Stjórnarnefndarfundur 9. mars:

     *      Ályktun 1865 um Evrópuráðið og samstarfsvettvang Evrópusambandsins og nágrannaríkja þess í austri (Eastern Partnership).
     *      Ályktun 1866 um nýjan viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu um þjóðernisminnihluta.
     *      Ályktun 1867 um stöðu grískra borgara af tyrkneskum uppruna á eyjunum Ródos og Kos.
     *      Ályktun 1868 um alþjóðasamning um vernd allra gegn þvinguðum mannshvörfum.
     *      Ályktun 1869 um umhverfisáhrif sokkinna skipa.
     *      Ályktun 1870 um þörf á sjálfstæðum og trúverðugum sérfræðiálitum.
     *      Ályktun 1871 um sjálfsmat af hálfu evrópskra þjóðþinga: leiðbeiningar til að bæta gæði þingstarfa.
     *      Tilmæli 1994 um nýjan viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu um þjóðernisminnihluta.
     *      Tilmæli 1995 um alþjóðasamning um vernd allra gegn þvinguðum mannshvörfum.

Annar hluti þingfundar 23.–27. apríl:
     *      Ályktun 1872 um dauðsföll í Miðjarðarhafi: Hver er ábyrgur?
     *      Ályktun 1873 um jafnrétti kynjanna: skilyrði fyrir velgengni arabíska vorsins.
     *      Ályktun 1874 um að stuðla að virkum þegnskap í Evrópu.
     *      Ályktun 1875 um góða stjórnunarhætti og siðferði í íþróttum.
     *      Ályktun 1876 um nauðsyn þess að vinna gegn fyrirfram ákveðnum úrslitum íþróttakeppna.
     *      Ályktun 1877 um vernd tjáningarfrelsis og upplýsinga á internetinu og veffréttamiðlum.
     *      Ályktun 1878 um ástandið í Sýrlandi.
     *      Ályktun 1879 um ástand Norður-Kákasusbúa sem hafa neyðst til að flýja heimkynni sín en búa ennþá innan landamæra síns ríkis, og þeirra sem hafa snúið aftur.
     *      Ályktun 1880 um eftirfylgni ráðherranefndarinnar við vinnu þingsins.
     *      Ályktun 1881 um að stuðla að viðeigandi stefnu gagnvart skattaskjólum.
     *      Ályktun 1882 um mannsæmandi lífeyri fyrir alla.
     *      Tilmæli 1996 um jafnrétti kynjanna: skilyrði fyrir velgengni arabíska vorsins.
     *      Tilmæli 1997 um nauðsyn þess að vinna gegn fyrirfram ákveðnum úrslitum íþróttakeppna.
     *      Tilmæli 1998 um vernd tjáningarfrelsis og upplýsinga á internetinu og veffréttamiðlum.
     *      Tilmæli 1999 um eftirfylgni ráðherranefndarinnar við vinnu þingsins.
     *      Tilmæli 2000 um mannsæmandi lífeyri fyrir alla.

Stjórnarnefndarfundur 22. maí:
     *      Ályktun 1883 um grafreiti gyðinga.
     *      Tilmæli 2001 um vernd og aðgang að menningararfi sem lýtur að sjón og heyrn (audiovisual cultural heritage).
     *      Álit 282 um að gera drög að fjórðu viðbótarbókun við Evrópusamning um framsal sakamanna.

Þriðji hluti þingfundar 25.-29. júní:
     *      Ályktun 1884 um aðhaldsaðgerðir – ógn við lýðræði og félagsleg réttindi.
     *      Ályktun 1885 um það hvernig ungu kynslóðinni er fórnað: félagslegar, efnahagslegar og pólitískar afleiðingar fjármálakreppunnar.
     *      Ályktun 1886 um áhrif efnahagskreppunnar á sveitarfélög og svæðisbundin yfirvöld.
     *      Ályktun 1887 um margfalda mismunum gegn múslímskum konum í Evrópu: stuðningur við jöfn tækifæri.
     *      Ályktun 1888 um lýðræðiskreppu og hlutverk ríkisins í Evrópu dagsins í dag.
     *      Ályktun 1889 um þá mynd sem er dregin upp af flökkufólki og flóttamönnum í kosningaslag.
     *      Ályktun 1890 um það hvernig Svartfjallaland hefur staðið við skuldbindingar sínar.
     *      Ályktun 1891 um stöðu þeirra sem verja mannréttindi í aðildarríkjum Evrópuráðsins.
     *      Ályktun 1892 um erfiðleika við umskipti til lýðræðis í Egyptalandi.
     *      Ályktun 1893 um pólitísk umskipti í Túnis.
     *      Ályktun 1894 um að ótækt sé að refsa fyrir stjórnmálastöðu fólks með því að setja hömlur á frjálsa för þess.
     *      Ályktun 1895 um árangur af eftirlitsferli þingsins (júní 2011–maí 2012).
     *      Tilmæli 2002 um það hvernig ungu kynslóðinni er fórnað: félagslegar, efnahagslegar og pólitískar afleiðingar fjármálakreppunnar.
     *      Tilmæli 2003 um búferlaflutninga sígauna (Róma-fólks) í Evrópu.

Fjórði hluti þingfundar 1.–5. október:
     *      Ályktun 1896 um eftirfylgni Rússlands við aðildarskuldbindingar sínar.
     *      Ályktun 1897 um að tryggja öflugra lýðræði við kosningar.
     *      Ályktun 1898 um stjórnmálaflokka og þátttöku kvenna í stjórnmálum.
     *      Ályktun 1899 um starfsemi Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) 2011– 2012.
     *      Ályktun 1900 um skilgreiningu á pólitískum fanga.
     *      Ályktun 1901 um mannréttindi og utanríkisstefnu.
     *      Ályktun 1902 um viðbrögð Evrópu við bágri stöðu mannúðarmála í Sýrlandi.
     *      Ályktun 1903 um siðareglur fyrir Evrópuráðsþingmenn: góðar venjur eða grunnskylda?
     *      Ályktun 1904 um réttinn til valfrelsis á sviði menntunar í Evrópu.
     *      Ályktun 1905 um að endurreisa félagslegt réttlæti með skatti á fjármálaviðskipti.
     *      Ályktun 1906 um styrkingu og alþjóðlegan aðgengileika Evrópska háskólasvæðisins (European Higher Education Area).
     *      Ályktun 1907 um stjórnun háskólastofnana innan Evrópska háskólasvæðisins.
     *      Tilmæli 2004 um mannréttindi og utanríkisstefnu.
     *      Tilmæli 2005 um styrkingu og alþjóðlegan aðgengileika Evrópska háskólasvæðisins.

Stjórnarnefndarfundur 30. nóvember:
     *      Ályktun 1908 um mannréttindi og fjölskyldudómstóla (family courts).
     *      Ályktun 1909 um ættleiðingar á milli ríkja: trygging þess að hagsmunir barnsins séu í hávegum hafðir.
     *      Ályktun 1910 um hlutverk óháðra samtaka í baráttunni gegn umburðarleysi, kynþáttafordómum og útlendingahatri.
     *      Ályktun 1911 um stöðu formanna flokkahópa í nefndum (regla 18.5 í starfsreglum þingsins).