Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 586. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 999  —  586. mál.


    

Skýrsla



Íslandsdeildar þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál fyrir árið 2012.

1. Inngangur.
    Af þeim málum sem fjallað var um á vettvangi þingmannanefndar um norðurskautsmál á árinu 2012 leggur Íslandsdeild áherslu á eftirfarandi atriði sem segja má að hafi helst verið í brennidepli.
    Fyrst ber að nefna tíundu þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin var á Akureyri í september þar sem Íslandsdeild var í gestgjafahlutverki. Á tveggja ára fresti heldur þingmannanefndin ráðstefnu um norðurskautsmál og var fyrsta þingmannaráðstefnan haldin í Reykjavík árið 1993. Síðan þá hafa öll aðildarríkin átta auk Evrópuþingsins verið í gestgjafahlutverki og má því segja að hringnum hafi verið lokað með ráðstefnunni á Akureyri. Á ráðstefnum þingmannanefndarinnar kemur saman stór hópur þingmanna og sérfræðinga frá ríkisstjórnum, háskólastofnunum og félagasamtökum er láta sig málefni norðurslóða varða. Eitt meginviðfangsefni þingmannanefndarinnar er jafnframt að fylgja eftir samþykktum þeirrar ráðstefnu.
    Nefndin lagði á árinu ríka áherslu á samstarf og stjórnskipulag á norðurslóðum og skýrslu um málið sem nefndin vann í samstarfi við Clifford Lincoln, fyrrverandi formann nefndarinnar. Í skýrslunni er m.a. lagt til að Norðurskautsráðið fái stöðu alþjóðastofnunar með gerð milliríkjasamnings, fjármagn til starfsemi ráðsins verði tryggt og komið verði á varanlegri skrifstofu, eins og samþykkt var af aðildarríkjum ráðsins 12. desember 2012. Jafnframt ber að nefna umræðu um viðskiptatækifæri á norðurslóðum þar sem nefndarmenn lögðu áherslu á að tryggt yrði að gengið væri fram með ábyrgð gagnvart umhverfinu og viðhöfð vönduð vinnubrögð. Vinna að stefnumótun í málaflokknum væri nauðsynleg og auka þyrfti yfirsýn og þekkingu til að sjálfbær þróun gæti átt sér stað og væri jafnframt til hagsbóta fyrir efnahagskerfi norðurskautsríkjanna.
    Í ráðstefnuyfirlýsingu tíundu ráðstefnunnar, sem er beint til ríkisstjórna á norðurskautssvæðinu, Norðurskautsráðsins og stofnana Evrópusambandsins, er m.a. kallað eftir enn frekari eflingu Norðurskautsráðsins með áherslu á mikilvægi þeirrar þróunar að Norðurskautsráðið verði í ríkari mæli vettvangur ákvarðanatöku og ekki eingöngu stefnumótandi. Einnig er sjónum beint að auknu samstarfi við Alþjóðasiglingamálastofnun varðandi siglingar um norðurheimskautssvæðið og aukinni viðleitni til að draga úr loftslagsbreytingum og afleiðingum þeirra fyrir íbúa norðurskautsins. Fulltrúar Íslandsdeildar lögðu m.a. áherslu á eflingu Norðurskautsráðsins, umhverfismál, sjálfbæra þróun, jafnrétti kynjanna og öryggis- og björgunarmál á hafi.
     Af öðrum málum, sem voru áberandi í umræðunni hjá nefndinni á árinu 2012, má nefna stefnu einstakra aðildarríkja í málefnum norðurskautsins, vistfræðilega stjórnun á norðurskautssvæðinu, áhersluatriði undir formennsku Svía í Norðurskautsráðinu og vinnu við aðra vísindaskýrslu um mannlífsþróun á norðurskautssvæðinu ( AHDR II) sem ráðgert er að komi út árið 2014. Jafnframt lýstu nefndarmenn yfir áhyggjum vegna aðgerða rússneskra yfirvalda gegn RAIPON ( Russian Association of Indigenous Peoples of the North) sem eru eins konar regnhlífarsamtök frumbyggja á norðurslóðum í Rússlandi en yfirvöld hafa fyrirskipað að starfsemi samtakanna verði hætt.
    
2. Almennt af þingmannaráðstefnum um norðurskautsmál.
    Fyrsta ráðstefna þingmanna og fulltrúa norðurskautssvæða var haldin í Reykjavík árið 1993, en nokkur samvinna norðurskautsríkja hófst þegar samþykkt var áætlun um umhverfisvernd á norðurslóðum í Rovaniemi í Finnlandi árið 1991. Ráðstefnan í Reykjavík árið 1993 markaði hins vegar upphafið að stofnun þingmannanefndar um norðurskautsmál sem sett var á laggirnar árið 1994. Nefndin er stjórnarnefnd þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin er á tveggja ára fresti. Meginviðfangsefni hennar er að skipuleggja þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál, fylgja eftir samþykktum hennar sem og að fylgjast grannt með störfum Norðurskautsráðsins. Á ráðstefnunni kemur saman stór hópur þingmanna frá ríkjunum við norðurskaut, sem og sérfræðingar frá ríkisstjórnum, háskólastofnunum og félagasamtökum er láta sig málefni norðursins varða. Þingmannanefndin fundar að jafnaði þrisvar á ári og einn þingmaður frá hverju aðildarríki situr í nefndinni. Þjóðþing Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands og Norðurlanda eiga fulltrúa í nefndinni og auk þess á Evrópuþingið fastan fulltrúa. Almennt má segja að helstu verkefni í norðurskautssamstarfi lúti að sjálfbærri þróun og umhverfismálum. Undanfarin ár hefur sérstök áhersla einnig verið lögð á varðveislu menningararfleifðar og lífshátta þeirra þjóðflokka er byggja landsvæðin við norðurskaut, sem og aukna efnahagslega og félagslega velferð og velmegun íbúa norðursins. Einnig hefur orkuöryggi og nýting orkuauðlinda á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt hlotið aukna athygli nefndarinnar síðustu ár.
    Í fyrstu sneru verkefni þingmannanefndarinnar aðallega að ýmsum málum sem snertu stofnun Norðurskautsráðsins árið 1996, en ráðið byggist á sameiginlegri yfirlýsingu og samstarfi ríkisstjórna aðildarríkjanna átta. Nokkur samtök frumbyggja og ólíkra þjóðarbrota á norðurslóðum eiga fasta fulltrúa í ráðinu. Auk þess eiga ýmis ríki, alþjóðasamtök og frjáls félagasamtök áheyrnaraðild að ráðinu. Jafnvel þótt samstarf norðurskautsríkja eigi sér fremur stutta sögu hefur það fætt af sér margvísleg sameiginleg verkefni og stofnanir. Eftirlit með og mat á umhverfi norðurskautssvæðanna hefur frá byrjun verið forgangsverkefni ráðsins. Fjölmargar vandaðar vísindalegar rannsóknir hafa verið gerðar á vegum vinnuhópa ráðsins, m.a. um mengunarhættu, áhrif mengunar á vistkerfi norðurslóða og varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika. Á síðari missirum hefur Norðurskautsráðið í auknum mæli sinnt verkefnum sem miða ekki eingöngu að því að vega og meta mengunarhættu, heldur leita leiða til þess að draga úr mengun á norðurslóðum. Þingmannanefndin hefur á undanförnum árum lagt sérstakan metnað í að hafa frumkvæði að mismunandi verkefnum sem hægt er að leggja fyrir Norðurskautsráðið til framkvæmda.
    Undir lok formennskutíðar Íslands árið 2004 var gefin út skýrsla um áhrif loftslagsbreytinga á norðurskautssvæðinu, Arctic Climate Impact Assessment (ACIA). Skýrslan er fyrsta svæðisbundna allsherjarrannsókn á loftslagsbreytingum sem birt hefur verið eftir að samningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar var gerður. Skýrslan vakti mikla athygli og hefur verið notuð sem eins konar grunnur að alþjóðlegri umræðu um loftslagsbreytingar á norðurslóðum. Allar spár skýrslunnar sýna að um næstu aldamót verði norðurskautshafsvæðið íslaust að sumarlagi. Plöntutegundir og annað gróðurlendi færist æ norðar með hlýnandi loftslagi og vor- og sumartími lengist. Áætlað er að þær loftslagsbreytingar sem eiga sér stað á 10 ára tímabili á norðurslóðum gerist á 25 ára tímabili annars staðar. Hitastig á norðurslóðum hækkar að jafnaði tvisvar sinnum hraðar en annars staðar í heiminum. Þótt hitastig sé að jafnaði að hækka á norðurslóðum sem og á jörðinni allri sýnir skýrslan hins vegar að loftslagsbreytingar hafa mismunandi og ójöfn áhrif á ólík svæði jarðar. Á sumum stöðum hlýnar til muna á meðan aðrir staðir kólna þótt meðaltal hitastigs jarðar fari hækkandi. Þessar víðtæku loftslagsbreytingar hafa margs konar afleiðingar, svo sem hækkun yfirborðs sjávar og breytingu sjávarfalla. Hlýnandi hafstraumar leiða svo til enn örari loftslagsbreytinga.

3. Skipan Íslandsdeildar.
    Aðalmenn Íslandsdeildar voru árið 2012 Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Jónína Rós Guðmundsdóttir, varaformaður, þingflokki Samfylkingarinnar, og Kristján Þór Júlíusson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Róbert Marshall, þingflokki Samfylkingarinnar, Margrét Tryggvadóttir, þingflokki Hreyfingarinnar, og Unnur Brá Konráðsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Ritari Íslandsdeildar var Arna Gerður Bang.
    Formaður situr fyrir hönd Íslandsdeildar í þingmannanefndinni, en í forföllum hans situr varaformaður fundi nefndarinnar. Öll Íslandsdeildin sækir ráðstefnu nefndarinnar sem haldin er á tveggja ára fresti. Íslandsdeild kemur saman eftir þörfum og þá gerir formaður grein fyrir starfi þingmannanefndarinnar og fær hún jafnframt upplýsingar um starf Norðurskautsráðsins.
    Á fundi þingmannanefndarinnar í september 2011 var Guðfríður Lilja Grétarsdóttir kjörin varaformaður þingmannanefndarinnar. Hún var endurkjörin í embættið á fundi þingmannanefndarinnar á Akureyri 7. september 2012. Guðfríður Lilja sótti þrjá fundi á árinu sem varaformaður nefndarinnar í fjarveru formanns. Hún sótti ráðstefnu Alþjóðaheimskautaársins í Montreal 21.–23. apríl, þar sem hún kynnti skýrslu þingmannanefndarinnar um stjórnskipulag á norðurslóðum. Jafnframt sótti hún fund aðstoðarráðherra Norðurskautsráðsins sem haldinn var 15. maí í Stokkhólmi og fund áheyrnaraðila að Norðurskautsráðinu 14. júní í Helsinki.

4. Fundir þingmannanefndar 2012.
    Þingmannanefndin hélt fimm fundi á árinu. Hér á eftir verður gerð stutt grein fyrir því sem fram fór á fundum þingmannanefndarinnar og þingmannaráðstefnunnar á Akureyri.

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál í Stokkhólmi 14. febrúar 2012.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar um norðurskautsmál sótti fundinn Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður, auk Örnu Gerðar Bang ritara. Helstu mál á dagskrá voru samstarf og stjórnskipulag á norðurslóðum, loftslagsbreytingar og heilsufar, áhersluatriði Svía í formennsku í Norðurskautsráðinu auk umræðu um skipulagningu ráðstefnu nefndarinnar sem haldin var á Akureyri í september 2012. Morten Høglund, formaður nefndarinnar, stýrði fundunum.
    Alf Håkon Hoel, svæðisstjóri hafrannsóknastofnunar Noregs, kynnti nefndarmönnum vistfræðilega stjórnun ( Ecosystem-Based Management (EBM)) á norðurskautssvæðinu með áherslu á skilgreiningu þess og hlutverk Norðurskautsráðsins. Hoel sagði vistfræðilega stjórnun vera í stöðugri þróun með hliðsjón af auknu álagi á umhverfið á norðurskautinu. Nauðsynlegt væri að skilja og vakta vistkerfin og rannsaka áhrif loftslagsbreytinga, efnahagslegra aðgerða, mengunar og nýrra tegunda á vistkerfin. Skilaboð Hoels til nefndarinnar voru þau að vistfræðileg vísindi séu nauðsynleg til að geta tekið vistfræðilegar ákvarðanir. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir ítrekaði mikilvægi þeirrar nálgunar og að taka þyrfti hana upp víðar með kerfisbundnum hætti. Hún sagði jafnframt að gagnlegt væri fyrir nefndarmenn að fá ítarlegri greiningu á því með hvaða hætti vistfræðileg stjórnun væri frábrugðin öðrum aðferðum, hvort vísindalegur ágreiningur væri til staðar og dæmi um þar sem vel hefði tekist til með aðferðina. Hoel fjallaði í framhaldinu nánar um hvernig vistfræðileg stjórnun byggðist á vistkerfinu sjálfu og að tekið væri tillit til þeirra umhverfisþátta og þarfa sem fyrir eru í vistkerfinu. Þá nefndi Noel tiltekin verkefni í samvinnu Noregs og Rússlands sem dæmi um alþjóðlegt samstarf um vistfræðilega stjórnun.
     Næstur tók til máls Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, og gerði á fundinum grein fyrir áhersluatriðum formennsku Svíþjóðar í Norðurskautsráðinu. Svíþjóð tók við formennsku í ráðinu í maí 2011. Bildt lagði áherslu á gott og mikilvægt samstarf vísindamanna, frumbyggja og stjórnmálamanna í Norðurskautsráðinu. Þá sagði hann ráðið hafa sýnt fram á með samningi aðildarríkjanna um leitar- og björgunarmál að það gæti náð raunverulegum árangri. Vinna við samning norðurskautsríkjanna um viðbúnað við olíumengun er í gangi og hefur miðað vel áfram. Þá sagði hann Svíþjóð stefna að því að opna skrifstofu Norðurskautsráðsins í Tromsø fljótlega. Sara Olsvig, fulltrúi Danmerkur/Grænlands í nefndinni, vakti athygli ráðherrans á banni Evrópusambandsins við sölu á selaafurðum og þau neikvæðu áhrif sem það hefði haft á sölu á skinnum frá frumbyggjum, þrátt fyrir að þau skinn væru undanþegin banninu. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir spurði Bildt m.a. um hvernig hann sæi fyrir sér að Norðurskautsráðið mundi bregðast við þeim miklu áskorunum sem fylgja viðskiptatækifærum á norðurskautssvæðinu í ljósi biturrar reynslu víða um heim þar sem ekki hefur gengið eftir að koma á sjálfbærum viðskiptum. Bildt sagði ólíklegt að aðildarríki Norðurskautsráðsins væru tilbúin til að veita Norðurskautsráðinu umboð til að taka ákvarðanir um réttindi þeirra. Hann sagði raunveruleikann vera þann að þingmenn norðurskautssvæðisins mundu ekki vilja að Norðurskautsráðið segði þeim fyrir verkum og því væri lögð áhersla innan ráðsins á að hafa áhrif á ákvarðanatöku með rökræðu en ekki frekara framsali á valdi.
    Enn fremur upplýsti Lars-Otto Reiersen, framkvæmdastjóri AMAP ( Artic Monitoring Assessment Program), um þróun mála varðandi olíu- og gasvinnslu á norðurskautssvæðinu. Hann kynnti nefndarmönnum lykilniðurstöður mats á olíu og gasi á norðurslóðum (OGA) og tók fram að erfitt hefði verið að nálgast þær upplýsingar sem nauðsynlegar voru. Hann sagði helstu niðurstöður m.a. hafa leitt í ljós aukna hættu á olíumengunarslysum á svæðinu og mikilvægt væri að forvarnarstarf yrði sett í forgang. Þá sagði hann innviði á svæðinu í betra ástandi en áður og lagði áherslu á mikilvægi alþjóðasamvinnu. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir spurði Reiersen hvernig þingmenn norðurskautsríkjanna gætu komið að gagni varðandi forvarnir og hvaða leiðir hann teldi færar til að bæta upplýsingaflæðið. Reiersen sagði það á ábyrgð hvers lands fyrir sig að tryggja lágmarksviðmiðunarreglur. Hann sagði vandann alvarlegan þegar kæmi að aðgangi að upplýsingum og Bandaríkin væru t.d. með mjög strangar reglur hvað það varðaði. Hann hefði einnig rekið sig á að stofnanir vildu halda upplýsingunum fyrir sig og það kæmi vísindasamfélaginu afar illa.
    Þá fræddi Birgitta Evengard, prófessor í smitsjúkdómum, nefndarmenn um áhrif loftslagsbreytinga á íbúa norðurskautsins. Hún sagði loftslagsbreytingar alla tíð hafa orðið en nú gerðust þær mun hraðar en áður. Hlýnunin væri mest á hærri breiddargráðum og ljóst væri að loftslagsbreytingarnar mundu hafa áhrif á heilsufar okkar. Þær breytingar sem sjást í samfélögum á norðurskautssvæðinu geta búið okkur undir þær breytingar sem munu eiga sér stað í öðrum heimshlutum. Hún sagði sjúkdóma fylgja nýjum plöntum og dýrum sem koma á norðurskautssvæðið með breyttu veðurfari. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir spurði Evengard hvort rannsóknir væru til um tengsl milli andlegrar heilsu og breyttra samfélagshátta vegna loftslagsbreytinga á norðurslóðum. Evengard sagði svo vera og nefndi sem dæmi aukna tíðni sjálfsmorða hjá frumbyggjum á norðurskautssvæðinu.
    Eftir hádegishlé var rætt um skipulagningu tíundu ráðstefnu nefndarinnar sem haldin yrði á Akureyri 5.–7. september 2012 og sagði Guðfríður Lilja nefndarmönnum frá undirbúningi hennar. Morten Høglund, formaður nefndarinnar, lagði til að hver landsdeild hefði a.m.k. einn ungan fulltrúa (undir 35 ára) sem þátttakanda í ráðstefnunni.
    Þá kynnti Morten Høglund uppfærð drög að skýrslu um stjórnskipulag á norðurslóðum og sagði frá tveimur málstofum þar sem hann kynnti tillögur skýrslunnar. Fyrri málstofan var um alþjóðalög og var haldin í Salekhard í Rússlandi í október 2011 og sú síðari um framtíðarhlutverk Norðurskautsráðsins varðandi stjórnskipulag norðurskautsins og var haldin í Toronto í janúar 2012. Tekin var ákvörðun um að Guðfríður Lilja Grétardsdóttir kynnti drög að skýrslunni ásamt Clifford Lincoln á ráðstefnu alþjóðlega norðurskautsársins í Montreal 22. apríl 2012.
    Næsti dagskrárliður fundarins fjallaði um starfsemi þingmannanefndarinnar og málefni norðurskautsins innan einstakra aðildarríkja hennar. Guðfríður Lilja sagði málefni norðurslóða vera forgangsverkefni hjá ríkisstjórn Íslands og stjórnvöld hefðu sýnt vilja sinn í verki með því að auka fjárframlög til málaflokksins þrátt fyrir miklar þrengingar. Þá greindi hún frá fundi Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra Íslands, og Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, þar sem þeir kynntu samstarfsverkefni um stofnun prófessorsstöðu í norðurslóðamálum við Háskólann á Akureyri. Jafnframt tók Guðfríður Lilja undir gagnrýni Söru Olsvig á bann ESB við innflutningi á selaafurðum. Henrik Old, formaður Vestnorræna ráðsins og þingmaður frá Færeyjum, lýsti einnig yfir stuðningi við gagnrýni Söru Olsvig. Hann kynnti jafnframt þemaráðstefnu ráðsins sem haldin yrði í Ilulissat í Grænlandi í lok mars 2012 sem fjalla mun um hagsmuni Vestur-Norðurlanda varðandi norðurskautið. Helgi Hjörvar, fulltrúi Norðurlandaráðs á fundinum, sagði nefndarmönnum frá þemaþingfundi Norðurlandaráðs sem síðan var haldinn 23. mars í Reykjavík með megináherslu á norðurskautsmál. Á fundinum skoðaði Norðurlandaráð möguleika þess að komið yrði á sameiginlegri norrænni stefnu fyrir norðurskautssvæðið.

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál í Nuuk 5.–6. júní.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar um norðurskautsmál sótti fundinn Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður, auk Örnu Gerðar Bang ritara. Helstu mál á dagskrá voru samstarf og stjórnskipulag á norðurslóðum, þróun mála varðandi náttúruauðlindir á Grænlandi og aukin sjálfstjórn Grænlendinga auk umræðu um skipulagningu tíundu ráðstefnu nefndarinnar sem fyrirhugað var að halda á Akureyri í september 2012.
    Fyrsta mál á dagskrá var kynning Mininnguaq Kleist, forstöðumanns utanríkisdeildar Grænlands, á sjálfstjórn Grænlands. Kleist byrjaði á því að gefa nefndarmönnum stutt yfirlit yfir sögu heimastjórnar Grænlands. Hann sagði Grænland hafa tekið yfir stjórn auðlinda í jörðu og þar lægju möguleikar á ríkistekjum sem gætu minnkað þá fjárstyrki sem Grænland þægi frá Danmörku (3,4 milljarðar danskra króna á ári). Sjálfstjórnin feldi líka í sér ákvæði sem opnaði fyrir mögulegt sjálfstæði Grænlands frá Danmörku. Grænlensk stjórnvöld gætu tekið yfir 33 málefnasvið og það mundi styrkja lýðræðið þar sem ákvarðanir yrðu teknar nær almenningi í landinu. Þá hefði Grænland einnig tekið sjálfstæðari afstöðu í utanríkismálum. Samkvæmt nýja samkomulaginu gæti Grænland tekið yfir málaflokk stjórnarskrárinnar, ríkisborgararéttar, dómsmála, varnar- og öryggismála og gjaldmiðils. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir spurði Kleist um utanríkismál Grænlendinga og stöðu þeirra varðandi Evrópusambandið og önnur ríki. Þá spurði hún Kleist um atvinnutækifæri á Grænlandi fyrir utan nýtingu náttúruauðlinda. Kleist svaraði því til að allar dyr væru opnar fyrir Grænlendinga í utanríkismálum og sagði þróunina hafa verið afar hraða í þeim málaflokki. Loftslagsbreytingarnar hefðu þar haft sín áhrif, auk hugsanlegs gróða frá náttúruauðlindum landsins.
    Jørgen Hammeken-Holm, aðstoðarráðherra auðlindamála, og Henrik Stendal frá auðlindaskrifstofu, kynntu nefndarmönnum þróun í auðlindamálum á Grænlandi. Holm sagði Grænlendinga mjög háða fiskveiðum en að áhugi væri fyrir því að þróa aðrar atvinnugreinar, eins og námugröft, með það að markmiði að skapa fleiri störf og verðmæti í Grænlandi. Guðfríður Lilja spurði Holm um verndunarsjónarmið og hvort til væri „plan b“ varðandi námugröft og hvort opin umræða hafi farið fram um hvar væri leyfilegt að vera með námuvinnslu. Þá spurði hún um fjölda starfa sem sköpuðust við aðgerðirnar. Holm svaraði því til að Grænland væri gríðarlega stórt land og ekki væru sérstakar reglur varðandi landsvæði og námugröft. Hvert mál væri skoðað sérstaklega og leitast eftir því að taka mið af aðstæðum hverju sinni. Hann sagði námuvinnu geta skapað um 2–3 þúsund störf en nú væri atvinnuleysi í landinu um 7%. Þá sagði hann mikla umræðu hafa farið fram um málið sem væri m.a. hluti af félagslegu verkefni í landinu.
    Þá kynnti Carl Christian Olsen, formaður Grænlandsdeildar norðurheimskautsráðs inúíta, ICC ( Inuit Circumpolar Council), alþjóðlegt starf ICC og hlutverk þess á Grænlandi. ICC er eitt af sex samtökum frumbyggja sem hafa stöðu fastafulltrúa í Norðurskautsráðinu og taka þar með þátt í allri ákvarðanatöku ráðsins. Hann sagði ICC hafa átt í miklum samræðum við Evrópusambandið um selveiðar þar sem samtökin legðu áherslu á mannréttinda- og menningarsjónarmið. Jafnframt hefði ráðstefna leiðtoga Inúíta árið 2010 í Ottawa samþykkt yfirlýsingu varðandi meginreglur um nýtingu náttúruaðlinda.
     Næsta mál á dagskrá var umræða um skipulagningu ráðstefnu nefndarinnar sem haldin skyldi á Akureyri 5.–7. september 2012. Guðfríður Lilja sagði nefndarmönnum frá undirbúningi ráðstefnunnar og fór yfir uppfærð drög að dagskrá hennar. Þá kynnti Sara Olsvig uppfærð drög að skýrslu um stjórnskipulag á norðurslóðum og viðbótartillögur. Hún lagði til að fastafulltrúar Norðurskautsráðsins hefðu aðkomu að ákvarðanatöku varðandi milliríkjasamning fyrir Norðurskautsráðið, eins og hefð væri fyrir í ráðinu og hefði verið gert við gerð samnings um leitar- og björgunarmál, sem var undirritaður á ráðherrafundi ráðsins 2011. Þá lagði Olsvig til að komið yrði á viðræðum við fastafulltrúa nefndarinnar þar sem þeir gætu skýrt sjónarmið sín varðandi skjal SCPAR um stjórnskipun á norðurskautssvæðinu. Olsvig lagði jafnframt til að bætt yrði við málsgrein í skjalið þar sem lögð yrði áhersla á mikilvægi þess að norðurslóðir yrðu ekki hervæddar þrátt fyrir aukinn alþjóðlegan áhuga á svæðinu og að þingmannanefndin yrði boðberi friðsamlegrar þróunar. Nefndarmenn voru sammála um mikilvægi þess að rödd fastafulltrúanna heyrðist en það mætti ekki fresta því ferli að skjalið yrði samþykkt á næsta fundi nefndarinnar. Jafnframt var ákveðið að nota ekki orðið hervæðing í skjalinu. Þá séu málefni áheyrnaraðildar að ráðinu pólitísk ákvörðun sem þurfi að ræða á sviði stjórnmála. Guðfríður Lilja lagði til að í skjalinu yrðu fleiri svið nefnd þar sem hugsanlega væri hægt að gera bindandi samninga um málaflokka, eins og vistvæna stjórnun, sjókort, kolefni (e. black carbon) og fleira. Tekin var ákvörðun um að Olsvig og framkvæmdastjóri SCPAR uppfærðu drög að skýrslunni eftir umræður á fundinum og sendu til nefndarmanna til samþykktar. Einnig verða drögin send til fastafulltrúa nefndarinnar til upplýsingar.
    Guðfríður Lilja Grétarsdóttir greindi nefndarmönnum frá fundi aðstoðarráðherra Norðurskautsráðsins sem haldinn var 15. maí 2012 í Stokkhólmi. Hún sagði að ákvarðanir fundarins hefðu verið góðar en umræðurnar hefðu í raun átt sér stað utan fundarins sem gerði það að verkum að skoðanaskipti á fundinum hefðu verið í lágmarki. Guðfríður Lilja kynnti á fundinum tillögur nefndarinnar um stjórnskipun á norðurslóðum og hvatti til að lögð yrði fram yfirlýsing á næsta ráðherrafundi Norðurskautsráðsins, sem væri í takt við tillögu þingmannanefndarinnar.
    Næsti dagskrárliður fundarins fjallaði um starfsemi þingmannanefndarinnar og málefni norðurskautsins innan einstakra aðildarríkja hennar. Helgi Hjörvar, fulltrúi Norðurlandaráðs á fundinum, sagði nefndarmönnum frá fundi ráðsins þar sem aðalviðfangsefnið hefði verið norðurslóðir. Ályktanir fundarins fjölluðu m.a. um þróun sameiginlegrar norrænnar stefnu fyrir norðurslóðir þar sem löndin eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta. Í annarri ályktuninni var lagt til að kannaðir yrðu möguleikar á því að fjármagna ráðstafanir varðandi leitar- og björgunarmál á norðurslóðum í gegnum sérstakan skatt eða gjaldtöku af skipum sem sigldu um hafsvæði norðurslóða. Formaður Vestnorræna ráðsins og þingforseti Grænlands, Josef Motzfeldt, sagði nefndarmönnum frá Vestnorrænni menningarhátíð sem fyrirhugað var að halda 7.–8. september í Reykjavík og bauð nefndarmenn velkomna til þátttöku.

Þingmannaráðstefna um norðurskautsmál og fundir þingmannanefndar á Akureyri, 5.–7. september 2012.
    Tíunda þingmannaráðstefnan um norðurskautsmál var haldin á Akureyri 5.–7. september 2012. Ráðstefnuna sóttu fyrir hönd Alþingis Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður Íslandsdeildar, Kristján Þór Júlíusson og Jónína Rós Guðmundsdóttir auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar, og Lárusar Valgarðssonar alþjóðaritara.
    Ráðstefnan hófst með því að gestir voru ávarpaðir og boðnir velkomnir af Ástu R. Jóhannesdóttur, forseta Alþingis, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur og Eiríki Birni Björgvinssyni, bæjarstjóra Akureyrar. Þá ávörpuðu jafnframt ráðstefnuna Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, Gustaf Lind, forseti Norðurskautsráðsins, og Morten Høglund, formaður þingmannanefndar um norðurskautsmál.
    Í opnunarræðu sinni lagði Ásta R. Jóhannesdóttir áherslu á mikilvægt starf alþjóðlegra þingmannasamtaka. Hún benti jafnframt á að fyrsta ráðstefna þingmannanefndar um norðurslóðamál hefði verið haldin árið 1993 eða þremur árum fyrir stofnun Norðurskautsráðsins og áhugi þingmannanefndarinnar á málefnum norðurslóða hefði verið mikilvægur áhrifavaldur við stofnun ráðsins. Guðfríður Lilja lagði í ávarpi sínu áherslu á mikilvægi þess að varðveita merka menningararfleifð norðurslóða og viðkvæma náttúru. Þá sagði hún þær umræður sem mundu eiga sér stað á ráðstefnunni næstu þrjá daga ekki mælikvarða á árangur hennar heldur það sem þátttakendur hennar tækju með sér heim og kæmu í framkvæmd. Þannig skapaðist tækifæri til að stuðla að raunverulegum breytingum á norðurslóðum.
     Össur Skarphéðinsson hvatti í ræðu sinni til aukins pólitísks samstarfs og hagnýtra verkefna milli ríkja á norðurskautssvæðinu, svo sem á sviði umhverfismála og um leit og björgun. Þá kom fram í máli ráðherra að samstarf ríkjanna væri að stóreflast en mikilvægt væri að treysta böndin enn frekar, ekki síst á vettvangi Norðurskautsráðsins, svo hægt yrði að mæta hraðfara áhrifum loftslagsbreytinga, aukinna siglinga og auðlindanýtingar. Þá sagði Gustaf Lind frá áhersluatriðum Svía í formennsku í Norðurskautsráðinu en Svíþjóð fer með formennsku í ráðinu þar til í maí 2013 þegar Kanada tekur við. Lind ítrekaði í ræðu sinni mikilvægi þess að vakta loftslagsbreytingar, vernda svæðið fyrir hættu á olíuslysum og styrkja Norðurskautsráðið.
    Fyrsti hluti ráðstefnunnar var tileinkaður umfjöllun um stjórnskipulag á norðurslóðum og Norðurskautsráðinu og stýrði bandaríski öldungardeildarþingmaðurinn, Lisa Murkowski, umræðunni ásamt Pat the Cope Gallagher, þingmanni á Evrópuþinginu. Clifford Lincoln, fyrrverandi þingmaður og formaður þingmannanefndar um norðurskautsmál, hélt erindi um efnið. Hann ræddi meðal annars um mikilvægi þess að Norðurskautsráðið hefði varanlega skrifstofu á ákveðnum stað og stöðuga fjárhagsáætlun auk þess sem ákjósanlegast væri að ráðið fengi stöðu alþjóðastofnunar þar sem aðildarríkin gerðu sín á milli lagalega bindandi samkomulag um ólík málefni. Þá hélt dr. Valur Ingimundarson, sagnfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands, erindi. Hann tók m.a. undir þá skoðun nefndarmanna að mikilvægt væri að gera langtímaáætlun til a.m.k. 10 ára um framtíðarsýn fyrir svæðið með samkomulagi við aðrar þjóðir. Sænski þingmaðurinn, Ann-Kristine Johansson, kynnti skýrslu þingmannanefndarinnar um stjórnskipulag á norðurslóðum og helstu niðurstöður hennar fyrir fundargestum.
    Annar hluti ráðstefnunnar var tileinkaður umfjöllun um viðskiptatækifæri á norðurskautssvæðinu. Tero Vauraste, framkvæmdastjóri Arctia Shipping, og Felix Tschudi, framkvæmdastjóri Tschudi Shipping, héldu fyrirlestra um efnið. Þá héldu rússneski þingmaðurinn Michael Slipenchuk og bandaríski öldungardeildarþingmaðurinn, Lisa Murkowski, erindi. Murkowski sagði það sameiginlega hagsmuni að tryggja það að öll þau skref sem stigin væru á svæðinu væru tekin af ábyrgð og nærgætni gagnvart umhverfinu. Það væri alltaf spenna milli þróunarverkefna og þess að tryggja að gengið væri fram með ábyrgð gagnvart umhverfinu. Shell hefði fengið rannsóknarleyfi á hafsvæðinu norður af Alaska og hefðu stjórnvöld sett ströng skilyrði með tilliti til áhrifa á umhverfið. Afar mikilvægt væri að tryggja rétt vinnubrögð svo jafnvægis væri gætt. Finnski þingmaðurinn, Johanna Ojala-Niemelä, kynnti skýrslu nefndarinnar um efnið og helstu niðurstöður hennar fyrir fundargestum. Í skýrslunni var lögð áhersla á samstarf á sviði samgangna og flutninga, orkumála og námureksturs. Ojala-Niemelä sagði skynsamlegt fyrir norðurskautsríkin að kortleggja og vinna að stefnumótun í málaflokknum svo nauðsynleg yfirsýn og þekking væri til staðar til að sjálfbær þróun ætti sér stað auk þess að tryggja að vinnslan væri til hagsbóta fyrir efnahagskerfi norðurskautsríkjanna.
    Þriðji hluti ráðstefnunnar var tileinkaður umfjöllun um mannlífsþróun á norðurskautssvæðinu. Dr. Joan Nymand Larsen, deildarstjóri hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, hélt erindi um efnið og ræddi m.a. um framgang vinnu við aðra vísindaskýrslu um mannlífsþróun á norðurskautssvæðinu sem ráðgert er að komi út árið 2014. Fyrirhugað er að skýrslan verði m.a. byggð á þeirri þekkingu sem aflast hefur með rannsóknum Alþjóðaheimskautaársins um samfélög á norðurskautssvæðinu og velferð þeirra á breiðum grunni. Þá hélt David Hik, formaður International Arctic Science Committee (IASC), fyrirlestur um efnið auk kanadísku þingmannanna Larry Miller og Dennis Bevington. Enn fremur kynnti dansk-grænlenski þingmaðurinn Sara Olsvig, höfundur skýrslu þingmannanefndarinnar um efnið, helstu niðurstöður skýrslunnar. Hún lagði ríka áherslu á að réttindi íbúa norðurslóða væru virt og varin og að þeir tækju sjálfir ákvarðanir varðandi þróun samfélaga sinna að meðtöldum náttúruauðlindum, iðnaði, siglingarleiðum og annarri starfsemi á svæðinu.
    Undir lok ráðstefnunnar var samþykkt yfirlýsing sem að hluta til er beint til ríkisstjórna á norðurskautssvæðinu, Norðurskautsráðsins og stofnana Evrópusambandsins. Þar er m.a. kallað eftir að lögð verði áhersla á að gera Norðurskautsráðið að alþjóðlegum samtökum með því að aðildarríkin átta sameinist um bindandi samkomulag um málefni norðurslóða. Þá er hvatt til þess að aðildarríkin efli samstarf sitt við Alþjóðasiglingamálastofnun og að hægt verði að hagræða siglingum um norðurheimskautssvæðið. Enn fremur var kallað eftir aukinni viðleitni til að draga úr loftslagsbreytingum og afleiðingum þeirra fyrir íbúa norðurskautsins. Við undirbúning yfirlýsingarinnar var skipuð sérstök nefnd sem hittist á þremur fundum og fór yfir þær athugasemdir og tillögur sem lagðar voru fram. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir var fulltrúi Íslandsdeildar í nefndinni og lagði m.a. áherslu á eflingu Norðurskautsráðsins, umhverfismál og sjálfbæra þróun, jafnrétti kynjanna í allri stefnumótun, forvarnir og áherslu á viðbúnað til leitar og björgunar þegar sjó- og umhverfisslys verða. Þá voru þátttakendur boðnir velkomnir á næstu ráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin verður í Kanada árið 2014.
    Þingmannanefnd um norðurskautsmál hélt tvo fundi samhliða ráðstefnunni. Á fyrri fundi nefndarinnar, 5. september 2012, var farið yfir dagskrá ráðstefnunnar og drög að yfirlýsingu hennar. Nefndarmönnum var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum varðandi drögin og þeim komið á framfæri við nefnd sem vann að gerð yfirlýsingar ráðstefnunnar. Á síðari fundi nefndarinnar, 7. september, var Morten Høglund, fulltrúi norska þingsins, endurkjörinn formaður nefndarinnar, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir endurkjörin varaformaður og Björn Willy Robstad, starfsmaður norska Stórþingsins, endurráðinn framkvæmdastjóri. Það var samhljóma álit nefndarmanna að ráðstefnan á Akureyri hefði heppnast einstaklega vel og verið til fyrirmyndar í alla staði.

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál í Inari 12.–13. nóvember.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar um norðurskautsmál sótti fundinn Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður, auk Örnu Gerðar Bang ritara. Helstu mál á dagskrá voru viðskiptatækifæri á norðurslóðum, norðurslóðastefna Finnlands og réttindi Sama í Lapplandi.
    Fyrsta mál á dagskrá var kynning Tiina Sanila-Aikio, varaforseta þings Sama í Finnlandi, á starfsháttum þingsins. Hún sagði þingið sjálfsstjórnarstofnun Sama í Finnlandi og ekki vera hluta af stjórnsýslu ríkisins heldur sjálfstæð lögskipuð eining. Þingið væri fulltrúi Sama bæði innan lands og utan varðandi málaflokka sem lytu að menningu, tungumáli og stöðu þeirra sem frumbyggja. Á þinginu sæti 21 fulltrúi og væri kjörtímabilið fjögur ár. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir spurði Aikio hvernig þingið hygðist tryggja einkenni Sama um ókomna framtíð. Aikio svaraði því til að tungumálið væri grundvöllur menningar Sama og áhersla væri lögð á að viðhalda því og vernda. Að lokum lýsti Aikio yfir áhyggjum vegna aðgerða rússneskra yfirvalda gegn RAIPON (Russian Association of Indigenous Peoples of the North) sem eru eins konar regnhlífarsamtök frumbyggja á norðurslóðum í Rússlandi en yfirvöld hafa fyrirskipað lokun á starfsemi samtakanna. Í framhaldinu tók nefndin ákvörðun um að skrifa bréf þar sem lýst yrði yfir áhyggjum nefndarinnar af stöðu RAIPON.
    Þá kynnti Hanna-Elina Koivisto, sérfræðingur hjá utanríkisráðuneytinu í Finnlandi, norðurslóðastefnu Finnlands fyrir nefndarmönnum. Stjórnvöld í Finnlandi birtu norðurslóðastefnu sína árið 2010 með áherslu á málaflokka öryggis, umhverfis, frumbyggja, efnahags og Evrópusambandsins. Þá sé litið á Norðurskautsráðið sem mikilvægasta samstarfsvettvanginn fyrir norðurslóðamál. Vinna stendur nú yfir við að uppfæra stefnuna og er búist við að ný útgáfa verði gefin út á vormánuðum árið 2013. Guðfríður Lilja spurði Koivisto hvort áherslubreytinga væri að vænta í nýju stefnunni og svaraði hún því til að aukin áhersla yrði lögð á sérfræðiþekkingu Finna á sviði norðurslóðamála, m.a. varðandi vöruflutninga á sjó og námurekstur.
    Outi Snellman, varaforseti skrifstofu Háskóla norðursins ( UArctic), upplýsti nefndarmenn um starfsemi háskólans og helstu verkefni. Hún sagði að með því að skapa tækifæri á norðurslóðum sköpuðust einnig betri skilyrði til búsetu og fólk flytti síður búferlum af svæðinu. Þá sagði hún ánægjulegt að varaformaður þingmannanefndarinnar, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, væri fulltrúi í starfshópi sem hefði það hlutverk að yfirfara utanaðkomandi samstarf háskólans en Tony Penikett frá Kanada gegnir formennsku í hópnum. Jafnframt lagði hún til að komið yrði á fót pólhverfu skiptinemaprógrammi. Hún sagði slíkt verkefni ekki kostnaðarsamt í framkvæmd en afar mikilvægt fyrir þróun á norðurslóðum.
    Enn fremur upplýsti Paula Kankaanpää, forstjóri norðurslóðaseturs við Háskólann í Lapplandi í Finnlandi, nefndarmenn um framgang mála við að fá upplýsingamiðstöð Evrópu- sambandsins um norðurslóðamál til Rovaniemi. Hún sagði að ekki væri búið að taka endanlega ákvörðun varðandi staðsetningu miðstöðvarinnar en vonaðist til að hún yrði tilkynnt á vormánuðum 2013. Þá sagði hún að þegar starfsemi væri komin af stað í upplýsingamiðstöðinni væri mögulega hægt að ræða samstarf við fleiri aðila, eins og t.d. Rússland.
    Þá ræddi Timo Rautajoki, stjórnarformaður viðskiptaráðs Lapplands, um viðskiptatækifæri og samstarf í Norður-Evrópu og á norðurslóðum. Hann sagði viðskiptasamstarf í Norður- Evrópu frábrugðið því í Kanada þar sem meiri iðnaður og útflutningur sé í Evrópu. Mikilvægar greinar séu námurekstur, ferðaiðnaður, olía og gas, stáliðnaður og pappírsframleiðsla. Þá sagði hann að bæta þyrfti samstarf yfir landamæri en eitt af vandamálunum væru samgöngur og langar vegalendir. Vænst væri stórra fjárfestinga á svæðinu næsta áratuginn og tækifærin mörg þó tíminn yrði að leiða í ljós hvernig þróunin yrði.
    Næsti dagskrárliður fjallaði um reynslu af tíundu ráðstefnu þingmannanefndarinnar sem haldin var á Akureyri 5.–7. september. Formaður nefndarinnar, Morten Høglund, lýsti yfir ánægju sinni með ráðstefnuna. Hann sagði gott jafnvægi hafa verið í dagskránni og ráðstefnuyfirlýsingin hefði endurspeglað umræðuefni ráðstefnunnar. Þá hefðu fyrirlesararnir verið með ólíkan bakgrunn og pallborðsumræðurnar verið árangursríkar. Guðfríður Lilja tók í sama streng og sagðist ánægð með uppbyggingu og dagskrá ráðstefnunnar. Hún benti jafnframt á mikilvægi þess að fastafulltrúar frumbyggja í nefndinni væru virkari þátttakendur í dagskránni. Nefndarmenn voru sammála um mikilvægi þess að rödd fastafulltrúanna heyrðist.
    Þá var rætt um hugsanleg umfjöllunarefni nefndarinnar fyrir árið 2013 og næstu ráðstefnu sem haldin verður í Kanada í september 2014. Guðfríður Lilja lagði til að nefndin mundi áfram fjalla um stjórnskipulag á norðurslóðum auk þess sem málefni Norðurskautsráðsins með áherslu á framtíðarsýn og áheyrnaraðild að ráðinu væru áhugaverð efni. Önnur umræðuefni sem m.a. voru lögð til af nefndarmönnum voru öryggismál á sjó, samgöngumál, veðurspár og aukið samstarf, nemendaskipti, reynslumiðlun varðandi námurekstur og mat á áhrifum auðlindaþróunar á menningu og samfélög. Tekin var ákvörðun um að nefndarmenn hugleiddu tillögurnar og tækju ákvörðun um umræðuefni á næsta fundi nefndarinnar.
    Næsta mál á dagskrá var um starfsemi þingmannanefndarinnar og málefni norðurskautsins innan einstakra aðildarríkja hennar. Ryan Leef frá Kanada upplýsti nefndarmenn um að verðandi forseti Norðurskautsráðsins yrði Leona Aglukkaq, ráðherra heilbrigðismála í Kanada. Hún hefur hafist handa við undirbúning formennsku Kanada með viðræðufundum þvert yfir Kanada. Þá sagði hann að ákveðið hefði verið að ellefta ráðstefna þingmannanefndarinnar yrði haldin í Whitehorse, Yukon, í september 2014. Þá sagði fulltrúi Vestnorræna ráðsins, Henrik Old, nefndarmönnum frá þemaráðstefnu ráðsins um heilbrigðiskerfi á Vestur-Norðurlöndum, sem haldin verður um miðjan janúar á Íslandi. Jafnframt bauð hann þingmannanefndinni að halda fund nefndarinnar í Færeyjum í nánustu framtíð. Rússneski þingmaðurinn, Torlopov, sagði nefndarmönnum frá umræðum í rússneska þinginu um regluverk fyrir þróun norðaustursiglingaleiðarinnar. Einnig bauðst rússneska landsdeildin til að halda fund þingmannanefndarinnar í Murmansk á haustmánuðum árið 2013. Að lokum sagði Björn-Willy Robstad nefndarmönnum frá þátttöku sinni á fundi Senior Arctic Officials 14.–15. nóvember í Haparanda þar sem hann kynnti niðurstöður þingmannaráðstefnunnar á Akureyri.

Alþingi, 31. janúar 2013.



Ólafur Þór Gunnarsson,


form.


Jónína Rós Guðmundsdóttir,


varaform.


Kristján Þór Júlíusson.