Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 88. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1083  —  88. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til efnalaga.

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin fékk á sinn fund Sigurbjörgu Sæmundsdóttur og Kjartan Ingvarsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu til að kynna frumvarpið. Einnig fékk nefndin á sinn fund Svövu Steinarsdóttur frá Félagi heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa, Guðmund H. Einarsson og Pál Stefánsson frá Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, Árnýju Sigurðardóttur frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og Samtökum heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi, Stellu Hrönn Jóhannsdóttur frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, Bergþóru H. Skúladóttur, Sigríði Kristjánsdóttur og Kristínu Lindu Árnadóttur frá Umhverfisstofnun, Ingibjörgu Halldórsdóttur og Elísabetu Pálmadóttur frá Mannvirkjastofnun, Bryndísi Skúladóttur frá Samtökum iðnaðarins, Jóhönnu Guðbjartsdóttur og Steinþór Þorsteinsson frá tollstjóranum, Eyjólf Sæmundsson og Björn Þór Rögnvaldsson frá Vinnueftirlitinu, Bjarna Jónsson frá Bændasamtökum Íslands/Sambandi garðyrkjubænda, Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Matthildi Sveinsdóttur frá Neytendastofu. Nefndinni bárust umsagnir frá Bændasamtökum Íslands og Sambandi garðyrkjubænda, Félagi heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa, Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, Mannvirkjastofnun, Neytendastofu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins o.fl. (frá SA, SI og SVÞ), Samtökum heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi, tollstjóranum í Reykjavík, Umhverfisstofnun og Vinnueftirlitinu. Einnig bárust nefndinni minnisblað frá Umhverfisstofnun.
    Markmið laganna er að tryggja að fyllstu varúðar sé gætt við meðferð efna og efnablandna svo að hvorki skaði heilsu manna og dýra né valdi tjóni á umhverfi, og stuðla að skilvirku eftirliti með framkvæmd laganna. Allt frá setningu fyrstu laga um eiturefni og hættuleg efni árið 1968 hefur heilsa manna og dýra verið þungamiðja laganna en nú er bætt við umhverfisþættinum þannig að taka skuli enn fremur mið af efnum sem hafa eða geta haft skaðleg áhrif á umhverfið. Einnig kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu að það sé markmið laganna að tryggja frjálst flæði efna og efnablandna á markaði og koma í veg fyrir ólöglega markaðssetningu um leið og tryggt er að nauðsynlegum upplýsingum sé miðlað eftir því sem nauðsynlegt er.
    Grundvallarsjónarmið í umsögnum þeirra heilbrigðisnefnda og heilbrigðisfulltrúa sem sent hafa umsagnir við frumvarpið er að tilgangi frumvarpsins við að einfalda eftirlit sé ekki náð, heldur sé fyrst og fremst verið að auka flækjustigið. Eins sé hætta á því að vernd almennings minnki þar sem eftirlitið sé ekki lengur heima í héraði.
    Það eftirlit sem fram hefur farið með efnum og efnablöndum á Íslandi undanfarin ár er fyrst og fremst eftirlit með merkingum efna og efnablandna í verslunum og þjónustufyrirtækjum sem heilbrigðisnefndir gefa út starfsleyfi fyrir á grundvelli laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að þessi skylda heilbrigðisnefnda breytist með þeirri undantekningu þó að felld verður út starfsleyfisskylda fyrir verslun með vörur sem innihalda hættuleg efni og eiturefni og verslun með fegrunar- og snyrtiefni. Ástæðan fyrir þessu er fyrst og fremst sú áherslubreyting sem boðuð er með frumvarpinu að eftirliti með efnum, efnablöndum og efnum í hlutum verði fyrst og fremst beint að þeim sem bera ábyrgð á markaðssetningu þeirra, þ.e. birgjum (framleiðendum, innflytjendum, eftirnotendum og dreifendum) efst í aðfangakeðjunni en minni áhersla lögð á smásöluaðila eins og verslanir. Heilbrigðisnefndir munu eftir sem áður hafa eftirlit með þeim fyrirtækjum sem þær gefa út starfsleyfi fyrir og geta beitt þeim þvingunarúrræðum og viðurlögum sem þau hafa samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Samkvæmt frumvarpinu mun Umhverfisstofnun hafa víðtækt eftirlit með framkvæmd þeirra nýju laga sem kynnt eru í nýja frumvarpinu og beita þeim þvingunarúrræðum sem þar eru kynnt. Verði heilbrigðisnefnd vör við brot gegn nýju lögunum í eftirliti sínu geta þau upplýst Umhverfisstofnun um brotið.
    Markaður með efni, efnablöndur og efni í hlutum er byggður upp á Evrópska efnahagssvæðinu á þann hátt að efst í aðfangakeðjunni eru innflytjendur (samkvæmt skilgreiningu eru það aðilar sem flytja inn efni, efnablöndur og efni í hlutum frá löndum utan EES) og framleiðendur. Þessir aðilar bera samkvæmt löggjöfinni ítarlegar skyldur um áhættumat efna, þ.e. mat á eðlis- og efnafræðilegum eiginleikum þeirra og hver áhrif þeirra eru á menn og umhverfi. Framleiðendur og innflytjendur bera ábyrgð á að efni sem þeir framleiða eða flytja inn séu skráð hjá Efnastofnun Evrópu samkvæmt REACH-reglugerðinni. Eftirlit með þessum aðilum felst í því að fara yfir þau efni sem þeir framleiða og/eða flytja inn frá löndum utan EES, kalla eftir skráningarnúmerum efnanna og bera þau saman við upplýsingar í gagnabanka Efnastofnunar Evrópu, auk þess sem kallað er eftir og farið yfir öryggisblöð. Umhverfisstofnun hefur nú þegar tekið þátt í tveimur samræmdum eftirlitsverkefnum með ákvæðum REACH-reglugerðarinnar. Verkefnin voru í yfirumsjón Efnastofnunar Evrópu og framkvæmd í yfir 20 löndum. Unnið var með gögn frá tolli, auk framangreindra gagna. Hér skal bent á að hluta af þessu eftirliti er hægt að gera í gegnum síma og rafrænt.
    Framleiðendur, innflytjendur og eftirnotendur bera ábyrgð á að efni og efnablöndur séu rétt flokkaðar og merktar áður en þær fara á markað, sbr. 30. gr. frumvarpsins. Eftirlit með flokkun og merkingu efna og efnablandna þarf því að fara fram hjá þeim, en ekki í þeim verslunum þar sem efni og efnablöndur eru til sölu. Samkvæmt nálgun Umhverfisstofnunar ætti eftirlitið því að fara fram ofar í aðfangakeðjunni þar sem krafist er að þessir aðilar uppfylli skyldur sínar um rétta flokkun og merkingu. Eftirlit með þessu er ekki alltaf einfalt. Þó svo að vara sé merkt með hættumerki þá er sú merking ekki endilega í samræmi við rétta flokkun vörunnar. Því þarf að greina innihaldsefnin og sannreyna flokkun með því að nota viðmið í reglugerðum. Slíkt eftirlit getur orðið æði tímafrekt og oft þarf að kalla eftir rökstuðningi ábyrgðaraðila fyrir flokkuninni. Slíkt eftirlit á ekki heima í verslunum og ekki er hægt að gera verslanir ábyrgar fyrir réttri merkingum á staðnum, nema ábyrgðaraðilinn fyrir markaðssetningunni sé verslunin sjálf. Meiri hlutinn er sammála þeirri skoðun Umhverfisstofnunar að mun hagkvæmara sé og markvissara að gera kröfur um breytingar hjá birgi heldur en í hinum ýmsu verslunum sem birgirinn selur til. Þá hefur verið bent á að að samkvæmt nýrri reglugerð um flokkun og merkingu, sem sett var 29. október sl. og innleiðir nýjar reglur um flokkun, pökkun og merkingu, eru það birgjar sem bera ábyrgð á réttri pökkun og merkingu efna og efnablandna. Eðlilegt framhald af þeirri innleiðingu er því að einbeita kröftum að birgjum þegar kemur að því að hafa eftirlit með þessum þáttum. Ákveðin einföldun næst líka með þessari áherslu þar sem birgjar eru færri en verslanir.
    Áður en langt um líður verður markaðurinn á Íslandi þannig að öll plöntuvarnarefni og öll sæfiefni þurfa að hafa markaðsleyfi, eða gagnkvæma viðurkenningu á markaðsleyfi sem gefin er út af Umhverfisstofnun. Slík leyfi eru háð áhættumati sem stofnunin mun þurfa að gera á efnunum og getur slíkt mat orðið æði kostnaðarsamt fyrir fyrirtæki sem um þau sækja. Aðilar sem eru með markaðsleyfi munu án efa krefjast þess að haldið verði úti öflugu innflutnings- og markaðseftirliti þannig að vörur, sem ekki hafa leyfi, verði teknar umsvifalaust úr umferð. Meiri hlutinn telur að sú sérþekking innan stofnunarinnar, sem byggst hefur upp um þessa vöruflokka, bæði með leyfisveitingum og eins alþjóðlegu samstarfi, nýtist best ef stofnunin heldur sjálf utan um eftirlitið.
    Aðrir eftirlitsþættir samkvæmt frumvarpinu tengjast m.a. eftirliti með takmörkunum á tilteknum efnum í vörum/hlutum, innflutningi flúoraðra gróðurhúsalofttegunda og ósoneyðandi efna, eftirlit með markaðssetningu og merkingum snyrtivara, eftirlit með tilkynningum frá aðilum sem markaðsetja eiturefni og tiltekin varnarefni og eftirliti með öryggisblöðum svo eitthvað sé nefnt.
    Í hugmyndafræði efnalagafrumvarpsins er horfið frá hefðbundnu eftirliti sem byggist á grunni starfsleyfa eins og í lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þess í stað er markmiðið heildstætt eftirliti í allri aðfangakeðjunni. Komið er á eftirliti með öllum þáttum efnafrumvarpsins á einum stað þ.e. hjá Umhverfisstofnun óháð því hvort stofnunin hefur gefið út starfsleyfi fyrir fyrirtækið eða ekki. Áhersla er lögð á eftirlit sem skipulagt er út frá áhættu og að sami aðili sinni því á þann hátt að full samræming sé til staðar bæði við beitingu eftirlits og við beitingu þvingunarúrræða og viðurlaga. Einnig að hægt verði að fara í skyndieftirlit eftir þörfum í takt við ábendingar sem berast og beina eftirliti að þeim sem ekki fara eftir lögunum. Eins væri mögulegt fyrir stofnunina að semja við heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga um að ná í sýnishorn í verslunum sem síðan yrðu greind eða skoðuð af stofnuninni eða að nýta starfsmenn sína hringinn í kringum landið. Þess má geta að mikill meiri hluti þeirra birgja sem bera ábyrgð á markaðssetningu efna, efnablandna og efna í hlutum er staðsettur á suðvesturhorni landsins sem einfaldar að miklu leyti eftirlit efst í aðfangakeðjunni.
    Meiri hlutinn telur að með þessari nýju hugmyndafræði í eftirliti með efnum, efnablöndum og efnum í hlutum á Íslandi muni fljótlega skapast markaður sem neytendur geti treyst, enda munu viðurlög við brotum verða markvissari og skýrari með tilkomu stjórnvaldssekta. Vert er að benda á að markaður með efnum og efnablöndum á Íslandi er ekki stór í samanburði við önnur lönd innan EES og því til mikils að vinna að einfalda kerfið. Hugmyndafræði frumvarpsins er í samræmi við þær áherslur sem koma fram í nýrri efnalöggjöf Evrópusambandsins og endurspeglast í eftirlitskerfum landa eins og Danmerkur og Finnlands. Í henni er meiri ábyrgð lögð á herðar þeirra sem bera ábyrgð á markaðssetningu efna, efnablanda og efna í hlutum. Í Evrópulöggjöfinni er enn fremur rík krafa lögð á samræmingu í innleiðingu hennar á öllu Evrópska efnahagssvæðinu, gerð er krafa um sérþekkingu á eiginleikum efna í tengslum við eftirlit og áhersla lögð á að samræming sé í framkvæmd. Efnastofnun Evrópu var m.a. sett á laggirnar til að tryggja þessa samræmingu.
    Varðandi umsagnir um aukinn kostnað við eftirlit hjá stofnuninni er bent á að með frumvarpinu er gerð áherslubreyting í eftirliti með efnum, efnablöndum og efnum í hlutum. Eftirlitið mun ekki einskorðast við við merkingar heldur verður það eflt og haft verður eftirlit með öllum þáttum sem lögin taka til, sbr. umfjöllun hér að framan. Meiri hlutinn telur mikilvægt að eftirlit verði eflt á þennan hátt þar sem staðreyndin er að notkun efna og áhrif þeirra, bæði á menn og umhverfi, er sífellt betur að koma í ljós, og einnig hefur athygli manna beinst að svokölluðum kokteiláhrifum hormónaraskandi efna. Því er mikilvægt að þau efni, efnablöndur og hlutir sem eru á markaði hér uppfylli kröfur laga þessara og gott eftirlit sé haft með því. Að auki mun Umhverfisstofnun fá aukið hlutverk í leyfisveitingum varnarefna, sem og ábyrgð á að hafa yfirsýn yfir innflutning og notkun hættulegra efna.
    Hér má líka árétta að hluti af því eftirliti, sem þarf að hafa með efnum, efnablöndum og efnum í hlutum, er hægt að framkvæma rafrænt, auk þess sem tekin eru sýnishorn úr verslunum. Ekki er um eftirlit með meðferð og notkun að ræða. Verið er að skoða skráningar, merkingar, innflutningsgögn, leyfisumsóknir og ýmislegt sem hægt er að nálgast rafrænt. Við þetta eftirlit er þörf á aðgengi að ýmsum gagnabönkum í Evrópu sem Umhverfisstofnun hefur og strangar öryggiskröfur gerðar áður en veittur er aðgangur.
    Í umsögnum margra umsagnaraðila voru gerðar athugasemdir við orðalag í frumvarpinu. Á fundum nefndarinnar með fulltrúum ráðuneytisins og Umhverfisstofnunar kom fram að ítrekað var umrætt orðalag í samræmi við orðalagsnotkun í öðrum lagabálkum, t.d. lögum nr. 45/2008, um efni og efnablöndur, og lögum nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni. Meiri hlutinn telur ekki ástæðu til að bregðast við þeim athugasemdum þar sem þetta á við.
    Þá kom fram gagnrýni á að í frumvarpinu væri rætt um tvenns konar markaðsleyfi, annars vegar markaðsleyfi fyrir varnarefni (33. gr.) og markaðsleyfi Efnastofnunar Evrópu (26. gr). Hér þyrfti að gera greinarmun á milli þar sem það væri ruglandi að hafa sama heitið á mismunandi leyfum í lögunum. Í umfjöllun um þetta taldi Umhverfisstofnun hins vegar að annað orðalag væri til þess að skapa rugling. Meiri hlutinn sér ekki ástæðu til að leggja til breytt orðalag í þessum tilvikum.
    Kom fram í umsögnum að ósamræmi væri milli reglugerðar um snyrtivörur, nr. 748/2003, og á hugtakinu snyrtivara í 32. tölul. 3. gr. frumvarpsins. Í frumvarpinu kemur fram að snyrtivörur séu m.a. ætlaðar til notkunar á dýrum en samkvæmt reglugerð um snyrtivörur eru snyrtivörur ekki til notkunar á dýrum heldur eingöngu á mannslíkamann. Meiri hlutinn er sammála því sjónarmiði að æskilegt sé að hafa samræmi í skilgreiningum milli laga og reglugerða og leggur til breytingartillögu sem felur í sér að „eða dýr“ er tekið út úr skilgreiningunni.
    Athugasemd var gerð við það að í upptalningu á eftirliti Umhverfisstofnunar í 5. gr. frumvarpsins vantaði eftirlit með því að öryggisblöð fyrir þau efni sem notuð eru í fyrirtækjum væru til staðar. Við umfjöllun málsins kom fram að eins og áður muni Umhverfisstofnun hafa eftirlit með öryggisblöðum, samhliða REACH-eftirliti sínu efst í aðfangakeðjunni, þ.e. hjá innflytjendum, framleiðendum og eftirnotendum. Því leggur meiri hlutinn til að bætt verði við upptalninguna í 2. málsl. 5. gr. til að auka skýrleika.
    Við umfjöllun málsins vöknuðu spurningar um verkaskiptingu á milli heilbrigðisnefnda sveitarfélaga og Umhverfisstofnunar. Sérstaklega var rætt um 5. tölul. 5. gr. frumvarpsins þar sem fram kemur að Umhverfisstofnun skuli útbúa eftirlitsáætlun fyrir eftirlit með efnum og efnablöndum sem gildi fyrir landið allt og gæta hagkvæmni í eftirliti og fyrirbyggja tvíverknað og skörun eftir því sem frekast sé unnt. Þar sem heilbrigðisnefndir gera nú sínar eigin eftirlitsáætlanir árlega fyrir reglubundið eftirlit sem kunna að vera í ósamræmi við áætlun Umhverfisstofnunar var því velt upp hvort hún gæti ráðið yfir gerð eftirlitsáætlanna sem gerðar væru í umboði heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna. Samkvæmt minnisblaði Umhverfisstofnunar mun hún ekki geta ráðið yfir gerð eftirlitsáætlana annars stjórnvalds, þ.e. heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna. Þá segir í minnisblaðinu að hafa beri í huga að efnavörueftirlit snúist um margt fleira en merkingar en það sé sá þáttur sem heilbrigðisfulltrúar hafi skoðað undanfarin ár. Auk þess skuli hafa í huga að heilbrigðisfulltrúar þurfi að fara í öll fyrirtæki sem viðkomandi heilbrigðisnefnd gefur út starfsleyfi fyrir. Hins vegar var í minnisblaði Umhverfisstofnunar bent á að hún muni fara í stikkprufueftirlit og beina kröftum sínum þangað sem áhættan er talin mest. Í þessu skyni megi nefna eftirlit með eiturefnum og varnarefnum, þ.e. hættulegustu efnunum, og eftirlit með efnum í vörum en það sé sá málaflokkur sem hvað mesta áherslan sé lögð á í nágrannalöndum okkar um þessar mundir.
    Í umfjöllun um málið hefur komið fram að heilbrigðiseftirlitin telji að margt í frumvarpinu auki flækjustig frekar en að einfalda ríkjandi fyrirkomulag. Í þessu tilliti hefur m.a. verið bent á 6. gr. frumvarpsins, en í henni kemur fram að heilbrigðisnefndir sveitarfélaga hafi eftir sem áður efnavörueftirlit í fyrirtækjum sem heilbrigðisnefndir veita starfsleyfi. Enn fremur geti heilbrigðisnefnd tekið að sér eftirlitsverkefni með samningi við Umhverfisstofnun. Einnig skuli nefndir fylgjast með og tilkynna til stofnunarinnar lögbrot sem þær verða varar við í öðru eftirliti. Umhverfisstofnun bendir í minnisblaði sínu á að í greininni segi að heilbrigðisnefnd skuli hafa eftirlit með meðferð, notkun og merkingum efna í starfsleyfisskyldri starfsemi sem heyri undir starfsleyfi sem nefndin gefur út á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Enn fremur segir í minnisblaðinu að skilningur stofnunarinnar sé að greinin lýsi því sem heilbrigðisnefndum beri að gera í eftirliti sínu með þeirri starfsleyfisskyldu starfsemi sem nefndin hefur eftirlit með og varðar lögin, þ.e. að fylgjast með hvort vörur séu merktar í samræmi við ákvæði laga og reglugerða. Jafnframt bendir Umhverfisstofnun á að eftirlit með merkingum efna og efnablandna sé eingöngu brot af því eftirliti sem á að hafa með þessum vörum. Það sé skylda heilbrigðisnefnda að líta eftir því hvort vörur séu vanmerktar og upplýsa Umhverfisstofnun svo hún geti beitt sér gagnvart birgjum. Þá segir í minnisblaðinu að hér sé hægt að nýta vefgátt stofnunarinnar og heilbrigðisnefnda, sem og efnavöruhóp sem er samvinnuvettvangur Umhverfisstofnunar og heilbrigðisnefnda sveitarfélaga. Ef fram kemur í starfsleyfi að merkingarskyldar vörur skuli uppfylla kröfur í lögum og reglugerðum og fyrirtæki verður uppvíst að því að vera með vanmerktar eða ómerktar vörur þá sé möguleiki að beita þeim þvingunarúrræðum sem heilbrigðisnefnd hefur yfir að ráða samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Gera má ráð fyrir að Umhverfisstofnun og heilbrigðisnefndir haldi áfram samvinnu á vettvangi efnavöruhóps og væri eðlilegt að vinna á þeim vettvangi sameiginleg eftirlitsverkefni.
    Við umfjöllun málsins komu upp mótmæli er vörðuðu það að skv. 8. tölul. 10. gr. frumvarpsins færist kælimiðlaeftirlit frá heilbrigðisnefndum til Umhverfisstofnunar. Þessu var mótmælt með þeim rökum að eftirlit með þjónustuaðilum og framleiðendum kælikerfa og kæli- og frystigeymsla væri í höndum heilbrigðisnefnda samkvæmt reglugerð nr. 785/1999. Fulltrúar Umhverfisstofnunar bentu á að skv. 2. tölul. 6. gr. hafi heilbrigðisnefndir eftirlit með meðferð og notkun efna og efnablandna hjá þeim starfsleyfisskyldu fyrirtækjum sem nefndir hafa umsjón með og að í þessu frumvarpi væri engin breyting lögð til á því. Þá kemur fram að það sé hlutverk Umhverfisstofnunar að hafa eftirlit með markaðssetningu kælimiðlanna sjálfra, sbr. skráningu efna samkvæmt REACH og að ekki sé um að ræða bönnuð efni.
    Nokkrir umsagnaraðilar gerðu athugasemdir við að einungis Umhverfisstofnun skuli geta gert kröfu um framfylgni skiptireglu í starfsleyfum sínum. Þeir töldu að eðlilegt væri að taka fram að heilbrigðisnefndir geti einnig gert slíka kröfu í sínum starfsleyfum enda hluti af því sem gert sé í eftirliti þegar rekstraraðilum er bent á að skipta út hættulegum efnum fyrir minna hættuleg þar sem unnt er. Við umfjöllun málsins kom fram að rökin fyrir því að þetta sé sett fram á þennan hátt í frumvarpinu séu m.a. þau að mikilvægt sé að tryggja samræmdar kröfur um land allt. Umhverfisstofnun veitir starfsleyfi fyrir mengandi fyrirtæki sem talin séu upp á fylgiskjali I með lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þetta eru m.a. stóriðja, förgunarstöðvar og olíubirgðarstöðvar. Heilbrigðisnefndir veita starfsleyfi mengandi fyrirtækjum sem ekki eru nefnd á fylgiskjali I, þ.e. minni fyrirtækjum, svo sem efnalaugum, tannlæknastofum, trésmíðaverkstæðum, matvælavinnslum og bensínstöðvum, og fyrirtækjum sem falla undir ákvæði hollustuhátta, skv. 4. gr. laganna, svo sem hárgreiðslustofum, snyrtistofum, leikskólum og garðaúðurum. Í 14. gr. frumvarpsins er gerð tillaga um að ráðherra geti með reglugerð sett almenn skilyrði um að þeir sem nota tiltekin efni eða efnablöndur skipti þeim út fyrir efni, efnablöndur eða aðferðir sem feli í sér minni áhættu fyrir heilsu og umhverfið. Gert er ráð fyrir að þegar um er að ræða þannig breytingar setji ráðherra ákvæði um það í reglugerð, t.d. gæti það átt við um hárlitunarefni og þá væri framkvæmdin samræmd á landinu öllu. Eftir sem áður munu heilbrigðisnefndir geta leiðbeint almennt um notkun efna og hvar hægt væri að nota t.d. minna skaðlegar hreinlætisvörur og efni þar sem það á við.
    Þá hefur það verið gagnrýnt að í 20. gr. standi ekki að heilbrigðisnefndir geti fengið þær upplýsingar sem Umhverfisstofnun á kröfu á samkvæmt greininni. Samkvæmt þeim tillögum sem settar eru fram í þessu frumvarpi er framkvæmd eftirlits með efnum, efnablöndum og efnum í hlutum og viðurlög í höndum Umhverfisstofnunar. Því er Umhverfisstofnun eingöngu nefnd í þessari grein.
    Við umfjöllun málsins hefur verið bent á að eigi að birta hættuflokkun efnavara í öllum auglýsingum þurfi Neytendastofa, sem hefur eftirlit með auglýsingum skv. 9. gr., að ráða aðila með sérfræðiþekkingu um flokkun og merkingu efnavara. Ekki fáist séð að af þessu fyrirkomulagi skapist hagræðing eða einföldun eftirlits. Samkvæmt fulltrúum Umhverfisstofnunar eru Neytendastofa og stofnunin í ágætu samstarfi þegar kemur að upplýsingagjöf á báða bóga og því ekki fyrirséð að Neytendastofa þurfi að byggja upp framangreinda sérþekkingu.
    Þá hefur verið gagnrýnt að í 46. gr. sé of víðtækt að skylda alla þá sem nota sæfiefni til að hafa notendaleyfi til meindýraeyðingar. Samkvæmt skilgreiningu séu sæfiefni efni eða efnablöndur sem ætlað sé að eyða hættulegum lífverum, bægja þeim frá eða gera þær skaðlausar. Sæfiefni séu t.d. viðarvörn, nagdýraeitur, skordýraeitur, gróðurhindrandi efni, sótthreinsandi efni og rotvarnarefni. Augljóst sé því að tilgreina þurfi hvaða sæfiefni sé verið að tala um. Í svörum Umhverfisstofnunar er bent á að í 10. gr. sé tilgreint að sett verði í reglugerð ákvæði um skilyrði og útgáfu notendaleyfa vegna varnarefna. Þar verði tilgreind þau sæfiefni sem um ræðir.
    Við umfjöllun um málið var af hálfu nokkurra umsagnaraðila bent á að í 53. gr. frumvarpsins vantaði gjaldtökuheimild fyrir heilbrigðisnefndir. Ekki væri hægt að ætlast til þess að heilbrigðisnefndir tækju gjald fyrir eftirlit í samræmi við gjaldskrá Umhverfisstofnunar heldur gerði hvert eftirlitssvæði sína eigin gjaldskrá. Samkvæmt fulltrúum Umhverfisstofnunar er um misskilning að ræða því engin eftirlitsgjöld séu nefnd í greininni og á það eingöngu við um eftirlit Umhverfisstofnunar. Heilbrigðisnefndir munu halda áfram að rukka eftirlitsgjöld hjá starfsleyfisskyldum fyrirtækjum í þeirra umsjón. Hér er því um enga breytingu að ræða.
    Þá hefur það verið gagnrýnt að 54.–58. gr. taki einungis til Umhverfisstofnunar en ekki heilbrigðisnefnda. Í minnisblaði frá Umhverfisstofnun er bent á að samkvæmt frumvarpinu hafi stofnunin eftirlit með framkvæmd laganna og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Því sé eðlilegt að þvingunarúrræðin séu í höndum stofnunarinnar. Í minnisblaðinu segir enn fremur:
    „Heilbrigðisnefndir munu áfram hafa þvingunarúrræði skv. lögum nr. 7/1998 sem þau geta beint gagnvart fyrirtækjum sem hafa starfsleyfi hjá þeim, gerist þau brotleg við starfsleyfi.
    Sé um að ræða skýlaust brot á lögunum getur heilbrigðisnefnd tilkynnt Umhverfisstofnun um brotið. Ef um væri að ræða vanmerkta vöru í hillum verslana getur Umhverfisstofnun farið í eftirlit hjá birgja og krafið um úrbætur.
    Umhverfisstofnun telur ekki að þetta hafi í för með sér töf eða flækjur. Þvingunarúrræði eru í eðli sínu oft tímafrek og hefur Umhverfisstofnun undanfarin 2 ár sett upp skýran eftirfylgniferil í mengunareftirliti sem getur nýst stofnunni við að byggja upp eftirfylgni gagnvart brotum við nýjum lögum.
    Enn fremur skal minnast á þau nýmæli að hægt sé að leggja á stjórnsýslusektir við brot á tilteknum ákvæðum laganna. Mikilvægt er að samræmi sé í beitingu slíkra úrræða og því mikilvægt að þau séu á einum stað. Hér má benda á, varðandi eftirlit með merkingum efna og efnablandna, sem er ein af skyldum heilbrigðisnefnda skv. frumvarpinu, þá er það ekki verslunin sem slík sem er ábyrg fyrir réttri merkingu heldur birginn/framleiðandinn.“
    Mannvirkjastofnun benti á í umfjöllun sinni um málið að í íslenska löggjöf vantaði heildstæð skýr ákvæði er sneru að mengunaróhöppum af völdum efna, um samstarf og hlutverkaskiptingu mismunandi eftirlitsaðila þegar óhöpp verði og ábyrgð þess sem mengun ylli, bótaskyldu, refsiábyrgð og skyldu til greiðslu kostnaðar af upphreinsun. Meiri hlutinn tekur undir að skerpa megi á þessum ákvæðum í löggjöf en telur að þessi ákvæði þurfi að vera í mengunarlöggjöf en ekki í almennri efnalöggjöf.
    Umhverfisstofnun gerði nokkrar athugasemdir við frumvarpið sem meiri hlutinn tekur undir og leggur til breytingar í samræmi við það.
    
Markmið og skilgreiningar.
    Í 1. gr. segir m.a.: „og hins vegar að tryggja frjálst flæði á efnum og efnablöndum á markaði“. Umhverfisstofnun benti á að hún telji rétt í þessu sambandi að vísa til meginreglu samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem kveður á um frjálst flæði á vörum eftir nánari reglum þar um, þ.m.t. um öryggi og umhverfisvernd. Markmiðið þar er því ekki að efni og efnablöndur flæði óheft og frjálst. Tölverðar takmarkanir eru á frjálsu flæði efna og efnablandna. Þannig er oft krafist sérstaks samþykkis frá viðkomandi ríki þegar innflytjendur sækja inn á þarlendan markað, sbr. reglur um gagnkvæma viðurkenningu, þrátt fyrir að markaðssetning hafi áður verið heimiluð í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu. Leggur meiri hlutinn til að notað verði orðalagið „að efna skuldbindingar Íslands um frjálst flæði á vörum á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins að því er varðar efni og efnablöndur“.
    Umhverfisstofnun lagði til tvær breytingar á skilgreiningum í 3. gr. Í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1907/2006, sem innleidd var með reglugerð nr. 750/2008 um skráningu, mat, leyfisveitingar og takmarkanir að því er varðar efni, er framleiðsla efna gerð skráningarskyld. Sú skylda endurspeglast í lögunum og því þarf þessi skilgreining að vera í samræmi við framangreinda Evrópureglugerð. Umhverfisstofnun lagði til sömu skýringu hér og er í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1907/2006. Enn fremur lagði hún til að skilgreining á orðinu meðferð yrði víkkuð út þannig að vigtun, blöndun og áfylling væru hluti af skilgreiningunni. Meiri hlutinn tekur undir þetta og leggur til breytingar á skilgreiningum hugtaka í 14. og 21. tölul. 3. gr.

Hlutverk Umhverfisstofnunar.
    Í 5. gr. er fjallað um hlutverk Umhverfisstofnunar. Meiri hlutinn telur að með samþykkt frumvarpsins verði mikilvægt skref stigið í eftirliti með efnum hér á landi. Samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið ber Íslandi að innleiða, framkvæma og fylgja eftir samræmdri Evrópulöggjöf um efni. Evrópulöggjöf um efni hefur tekið miklum stakkaskiptum á undanförnum árum og ný löggjöf hefur litið dagsins ljós. Má þar helsta nefna svokallaða REACH-löggjöf frá árinu 2006 sem fjallar um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir efna, sem og CLP-löggjöfina frá árinu 2008 sem umbyltir algjörlega reglum um merkingar efna og efnablandna á markaði. Eins má nefna nýja löggjöf um snyrtivörur frá árinu 2009, nýja löggjöf um plöntuvarnarefni sem er líka frá árinu 2009 og nýja löggjöf um sæfiefni sem sett var 2012 og tekur gildi í september 2013. REACH- löggjöfin var innleidd hér á landi árið 2008 og unnið er að innleiðingu CLP-löggjafarinnar í íslenskan rétt með reglugerð sem tók gildi 29. október sl. Unnið er að undirbúningi á innleiðingu á nýjum reglugerðum um snyrtivörur, sæfiefni og plöntuvarnarefni og er samþykkt frumvarpsins mikilvæg undirstaða þeirrar vinnu.
    Mikil vinna hefur farið fram hjá Umhverfisstofnun við greiningu og framkvæmd framangreindar löggjafar á síðustu árum. Auk þess hefur stofnunin leiðbeint fyrirtækjum um ýmsa þætti er varða efnalöggjöfina, t.d. skráningu efna, samantekt öryggisblaða, merkingar og kröfur um markaðsleyfi varnarefna. Stofnunin hefur tekið þátt í vinnufundum í Brussel, norrænum fundum og vinnu sem fram fer hjá Efnastofnun Evrópu. Hér má einnig nefna að stofnunin hefur t.d. tekið þátt í samevrópskum eftirlitsverkefnum með REACH-reglugerðinni. Sérþekking á efnum og framkvæmd þessarar löggjafar hefur því byggst upp innan Umhverfisstofnunar. Lítur meiri hlutinn því svo á að flutningur eftirlits til stofnunarinnar sé eðlilegt framhald af þeirri þekkingaruppbyggingu. Í minnisblaði sínu bendir Umhverfisstofnun á að hún telji það hvorki skynsamlegt né hagkvæmt til lengri tíma litið að eftirlit með svo ítarlegri og flókinni löggjöf sé skipt niður á 11 embætti (10 heilbrigðiseftirlitssvæði og Umhverfisstofnun) enda kallar það á mikla menntun og fræðslu fyrir heilbrigðisfulltrúa á 10 svæðum sem í mörgum tilfellum sinna efnaeftirliti í mjög litlu starfshlutfalli. Unnið er að hugmyndum um útfærslu á nýjum hlutverkum stofnunarinnar samkvæmt frumvarpinu. Meiri hlutinn telur mikilvægt að eftirlitið verði fært ofar í aðfangakeðjuna til að uppfylla kröfur Evrópulöggjafarinnar um að eftirlitið beinist að þeim sem bera ábyrgð á framleiðslu og markaðssetningu. Hér má nefna kröfur til efna og efnablandna sem gerðar eru samkvæmt lögum, svo sem rétta flokkun og merkingu, markaðsleyfi, notkun í samræmi við öryggisblöð, auglýsingar og fleira. Meiri hlutinn lítur svo á að með þessari aðferð verði framleiðendaábyrgð styrkt og minni þörf verði á eftirliti hjá smásölum úti um landið. Í umfjöllun um málið kom fram að þessari aðferð er beitt í nágrannalöndum okkar, t.d. í Danmörku þar sem allt eftirlit með efnum er á einum stað, hjá Miljøstyrelsen í Danmörku. Þar er sú stefna í eftirliti með efnavörum á markaði að haft er eftirlit með birgjum enda eru það þeir sem fyrst og síðast bera ábyrgð á að vara sem þeir markaðsetja uppfylli kröfur sem settar eru í lögum og reglugerðum. Það eftirlit sem fer fram í verslunum er fyrst og fremst svokallað „stikkprufueftirlit“ þar sem nokkrar vörur eru teknar úr búðum og þær skoðaðar. Ef varan uppfyllir ekki kröfur er haft samband við birgi og hann látinn taka ábyrgð á því að varan uppfylli kröfur. Þessi nálgun er í takt við þá hugmyndafræði sem höfð hefur verið til grundvallar í nýrri efnalöggjöf frá Evrópusambandinu sem setur auknar kröfur á framleiðendur og innflytjendur á að meta sjálfir þau efni sem þeir framleiða eða flytja inn og bera ábyrgð á að varan standist kröfur.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að lagðar verði á stjórnsýslusektir við brot á ákvæðum laganna og telur meiri hlutinn þær til þess fallnar að hægt verði að byggja upp markað hér á landi þar sem fyrirtæki fái sjálf að bera þá ábyrgð að þeirra vörur uppfylli skilyrði laganna. Verði þau hins vegar uppvís að því að brjóta lögin hvort sem er af gáleysi eða ásetningi þá sé hægt að beita viðurlögum umsvifalaust („high trust, high penalty“). Telur meiri hlutinn að þessi ákvæði muni einnig koma til með að stuðla að því að hér á landi ríki traust gagnvart markaði með efni og efnablöndur. Slíkur markaður er afar smár á Íslandi og íslensk stjórnsýsla er einnig afar smá í samanburði við stjórnsýslu samstarfsríkjanna á Evrópska efnahagssvæðinu. Ísland þarf þó að uppfylla sömu kröfur og gerðar eru hjá stórþjóðum á meginlandi Evrópu varðandi öryggi efnavara og frelsis til viðskipta með þær.
    Eins og áður hefur komið fram er Evrópulöggjöfin umfangsmikil og flókin og markmið hennar er að framkvæmdin sé fyllilega samræmd. Leiðarljósið er að allir neytendur á Evrópska efnahagssvæðinu eigi sama rétt og að samkeppnisskilyrði við markaðssetningu á vörum sé alls staðar eins. Áherslumunur í stjórnsýslu og eftirliti með efnavörum, á grundvelli staðbundinna sjónarmiða, gengur því gegn markmiðum löggjafarinnar. Telur meiri hlutinn til mikilla bóta að hlutverk Umhverfisstofnunar séu skýrð en hefur hins vegar minni háttar athugasemdir við útfærslu verkefna og telur þörf á að skerpa á tilteknum atriðum. Því leggur meiri hlutinn til breytingar á 5. gr.
    Í ljósi umfjöllunar hér að framan og þess að frumvarpið gerir ráð fyrir því að eftirlit með löggjöfinni verði að mestu leyti á einni hendi hjá Umhverfisstofnun, leggur meiri hlutinn til að horfið verði frá því að lögbinda fræðslu- og samræmingarhlutverk stofnunarinnar. Er því lagt til að 4. tölul. 5. gr. verði felldur brott. Krafa um fræðslu til almennings er í 1. tölul. greinarinnar og í 17. tölul. hennar kemur fram að Umhverfisstofnun skuli upplýsa viðeigandi stofnanir og stjórnvöld um þætti sem falla undir lögin og þau gætu þurft á að halda til að sinna eftirliti sínu. Meiri hlutinn telur að þessi hlutverk séu nægjanlega skýr og komi í raun í stað 4. tölul. Með þessum breytingum verður einnig hlutverk Umhverfisstofnunar enn skýrara. Enn fremur leggur meiri hlutinn til að 2. og 6. tölul. verði sameinaðir í nýjan 2. tölul. og þar verði tilgreint að stofnunin skuli hafa eftirlit með framleiðslu, meðferð og markaðssetningu efna, efnablandna og hluta sem falla undir lögin með samræmdum hætti um land allt. Þetta er í samræmi við tillögur Umhverfisstofnuar sem benti á vissa tvítekningu í 2. og 6. tölul. Einnig er lagt til að orðalag verði gert skýrara um það hver beri ábyrgð á að veita Umhverfisstofnun upplýsingar um innflutning tiltekinna efna og efnablandna sem er forsenda fyrir tollafgreiðslu, sjá nánar umfjöllun um 19. gr. Lagt er til að 14. tölul. verði orðaður á þann hátt að Umhverfisstofnun skuli taka á móti upplýsingum um innflutning frá innflutningsaðilum sem gefnar eru áður en tiltekin efni og efnablöndur eru tollafgreidd.

Hlutverk heilbrigðisnefnda sveitarfélaga.
    Í 6. gr. er fjallað um hlutverk heilbrigðisnefnda sveitarfélaga. Í 2. tölul. er fjallað um eftirlit heilbrigðisnefnda með meðferð, notkun og merkingum efna í starfsleyfisskyldri starfsemi. Meiri hlutinn telur að bæta þurfi við ákvæðið setningu um að Umhverfisstofnun verði upplýst um niðurstöður eftirlits ef um er að ræða brot við lögum þessum. Samkvæmt minnisblaði stofnunarinnar gerir hún ráð fyrir að upplýsingum verði hægt að skila með rafrænum hætti í gegnum vefgátt sem stofnunin hefur sett upp í samvinnu við sérfræðinga á vegum heilbrigðisnefnda sveitarfélaga og hefur verið notuð með ágætum árangri sl. tvö ár. Verði frumvarpið að lögum verður til staðar sá möguleiki að Umhverfisstofnun geri samning við einstakar heilbrigðisnefndir eða þær allar um að taka að sér verkefni samkvæmt eftirlitsáætlun. Umhverfisstofnun bendir á að hún telji þetta mikilvægt þar sem á eftirlitsáætlun gætu verið verkefni þar sem áhersla væri á eftirlit með merkingum vara í verslunum og því gæti verið kostur að nýta til þess heilbrigðisfulltrúa út um landið. Við slíkt framsal mundu leiðbeiningar um framkvæmd fylgja með. Einnig sér Umhverfisstofnun fyrir sér að hægt væri að semja við heilbrigðisnefndir um að heilbrigðisfulltrúar færu í verslanir og tækju prufur sem Umhverfisstofnun gæti svo metið eða sent til rannsókna. Meiri hlutinn leggur til að minni háttar orðalagsbreytingar verði gerðar á 2. og 4. tölul. 6. gr. til að auka skýrleika. Hlutverk heilbrigðisnefnda verði orðað svo í 2. tölul. að þær skuli hafa eftirlit með meðferð, notkun og merkingum efna í starfsleyfisskyldri starfsemi sem heyrir undir þau starfsleyfi sem nefndin gefur út á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og upplýsa Umhverfisstofnun um niðurstöður eftirlitsins. En að 4. tölul. orðist svo: „senda Umhverfisstofnun upplýsingar um niðurstöður eftirlits sem fellur undir lög þessi og kemur fram við eftirlit nefndarinnar samkvæmt ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir á þeim tíma og á þann hátt sem stofnunin ákveður.“

Hlutverk Vinnueftirlits ríkisins.
    Í 7. gr. er fjallað um hlutverk Vinnueftirlits ríkisins. Meiri hlutinn leggur til að í 4. tölul.
greinarinnar orðist svo: upplýsa Umhverfisstofnun og eftir atvikum slökkvilið um framkvæmd og niðurstöður eftirlits samkvæmt ákvæðum laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Hlutverk tollstjóra.
    Í 8. gr. er fjallað um hlutverk tollstjóra. Þar sem frumvarpið gerir ekki ráð fyrir sérstökum innflutningsleyfum leggur meiri hlutinn til að 2. tölul. orðist svo: „stöðva innflutning á tilteknum eiturefnum og tilteknum varnarefnum sem hafa ekki markaðsleyfi, sbr. 27. og 35. gr., sem og stöðva innflutning efna og efnablandna sem uppfylla ekki skilyrði þessara laga, sbr. 4. mgr. 23. gr.“

Hlutverk Eitrunarmiðstöðvar Landspítala.
    Í minnisblaði sínu leggur Umhverfisstofnun til að bætt verði við nýrri grein, 10. gr., þar sem hlutverk Eitrunarmiðstöðvar Landspítala verði útfært. Meiri hlutinn tekur undir þetta og gerir tillögu um það. Mikilvægt er að útfæra hlutverk Eiturefnamiðstöðvar Landspítala og þá skyldu hennar að taka við ákveðnum upplýsingum um efnasamsetningu og eiturhrif efna og efnablandna sem sett eru á markað. Er þetta lagt til til þess að tryggja að hægt sé að uppfylla læknisfræðilegar kröfur um ráðstafanir til forvarna og lækninga í neyðartilvikum og er sett til að innleiða ákvæði í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1272/2008. Þar er gerð krafa um að safnað sé saman á einum stað í hverju ríki upplýsingum um efnasamsetningu og áhrif hættuflokkaðra efna og efnablandna sem eru á markaði í hverju ríki fyrir sig til að auðvelda neyðarráðstafanir.

Reglugerðarheimildir.
    Í 10. gr. frumvarpsins eru tilgreindar reglugerðarheimildir. Meiri hlutinn leggur til að við 3. tölul. verði bætt i-lið sem orðist svo: „samþykki virkra efna, samverkandi efna, hjálparefna og eiturdeyfandi efna sem notuð eru í varnarefnum.“
    Jafnframt leggur meiri hlutinn til að 11. tölul. orðist svo: „Bann og takmarkanir á framleiðslu, markaðssetningu, útflutningi og notkun tiltekinna efna, hvort heldur þau eru hrein, í efnablöndum eða í hlutum, sbr. 26. gr.“ Enn fremur leggur meiri hlutinn til að 15. tölul. orðist svo: „Notendaleyfi vegna varnarefna, m.a. starfsréttindi meindýraeyða og garðaúðara, sbr. 47. gr., þ.m.t. um námsefni um meðferð varnarefna sem skal m.a. fjalla um helstu lög og reglugerðir, plöntuvarnarefni, sæfiefni, vinnuvernd, meindýr, meindýravarnir og dýravernd, próf og kröfur til þeirra sem halda námskeið og próf.“ Í báðum framangreindum tilvikum er lagt til að orðalag í reglugerðarheimild verði fært til hliðsjónar við það sem segir í sambærilegum greinum frumvarpsins.

Varðveisla.
    Meiri hlutinn leggur til að við 15. gr. bætist lokamálsliður sem orðist svo: „Jafnframt gilda ákvæði laga um mannvirki og byggingarreglugerðar um gerð og umbúnað mannvirkja þar sem efni eru geymd.“

Bann við íblöndun.
    Meiri hlutinn leggur til að við 16. gr. bætist lokamálsliður sem orðist svo: „Jafnframt gilda ákvæði laga um mannvirki og byggingarreglugerðar um gerð og umbúnað mannvirkja þar sem efni eru geymd.“

Tollafgreiðsla.
    Meiri hlutinn leggur til að 19. gr. orðist svo: „Áður en til tollafgreiðslu tiltekinna efna og efnablandna kemur skal innflytjandi gera Umhverfisstofnun grein fyrir magni þeirra á þar til gerðum eyðublöðum. Ráðherra skal setja í reglugerð, sbr. 11. gr., nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar.“ Við tollafgreiðslu vöru er ekki um það að ræða að fylla þurfi út eyðublað áður en að varan fæst afgreidd út úr tolli. Ef það á að ganga upp þarf að vera búið að ganga frá tilkynningu á þar til gerðu eyðublaði áður en kemur að tollafgreiðslu. Meiri hlutinn telur rétt að gerð sé grein fyrir hlutverki tollstjóra í 8. gr. en ekki 19. gr., um tollafgreiðslu, því að upplýsingar um fyrirhugaðan innflutning þurfa að liggja fyrir áður en kemur að innflutningi en ekki við sjálfan innflutninginn. Þetta má sjá í umsögn frá tollstjóraembættinu til umhverfis- og auðlindaráðuneytis um frumvarpsdrögin. Í umfjöllun kom fram að ástæðan fyrir þessu er takmarkanir sem eru á tölvukerfi tollstjóra. Verið er að vinna við að innleiða nýtt kerfi og hefur sú vinna verið háð styrkjum frá ESB. Í athugasemd frá fjármálaráðuneytinu við frumvarpið kemur fram að gert er ráð fyrir 5 millj. kr. til uppfærslu á tölvukerfi tollstjóra. Sú vinna mun hins vegar taka nokkur ár í viðbót.

Framleiðsla og markaðsetning.
    Varðandi 20.–23. gr. telur meiri hlutinn að orðinu „eiturefna“ sé ofaukið í fyrri 2. mgr. 20. gr. Einnig virðist vera viðsnúningur á orðaröð í lokamálsgrein 22. gr. þar sem tvívegis er talað um „hluti í efnum“. Lagt er til að þetta verði leiðrétt með því að segja þess í stað „efni í hlutum“. Lagt er til að orðinu „eiturefni“ verði bætt inn í 5. málsl. 1. mgr. 23. gr. þar sem reglunni er ætlað að gilda bæði um eiturefni og varnarefni.

Öryggisblöð og öryggisskýrslur.
    Meiri hlutinn leggur til að nýrri málsgrein verði bætt við 29. gr. á eftir 1. mgr., svohljóðandi: „Öryggisblöð skulu vera á íslensku. Heimilt er að afhenda öryggisblöð með efni eða efnablöndu á ensku, dönsku, norsku eða sænsku til viðtakenda efna sem stunda rannsóknir og þróun enda sé um að ræða afmarkaðan hóp manna sem með sanngirni má ætlast til að skilji annað erlent mál vegna menntunar eða annarrar sérhæfingar. Heimild þessi gildir þó einungis ef magn efnis eða efnablöndu sem er afhent er minna en 1 kg á ári á hvern viðtakanda.“
    Einnig leggur meiri hlutinn til að nýr málsliður bætist við 2. mgr., sem verður 3. mgr. Lagt er til að málsgreinin í heild hljóði svo: „Upplýsingar úr öryggisskýrslum um örugga notkun skulu, þegar við á, fylgja í viðauka við öryggisblað. Heimilt er að birta upplýsingar úr öryggisskýrslum á ensku.“

Flokkun efna og efnablandna og tilkynningar.

    Í 30. gr. leggur meiri hlutinn til að sett verði inn ákvæði um hlutverk Eitrunarmiðstöðvar Landspítala, sbr. framangreinda umfjöllun um nýja 10. gr. hér að framan. Sömu ástæður liggja hér til grundvallar. Meiri hlutinn leggur til að á eftir 4. mgr. 30. gr. komi ný málsgrein sem orðist svo: „Innflytjendur og eftirnotendur sem markaðssetja efnablöndur skulu upplýsa Eitrunarmiðstöð Landspítala um efnasamsetningu blandna sem eru settar á markað og flokkast sem hættulegar á grundvelli þeirra áhrifa sem þær hafa á heilbrigði eða eðlisfræðilegra áhrifa þeirra.“

Markaðsleyfi varnarefna

    Í 34. gr. er í lokamálsgrein nefnt leyfi til markaðssetningar, ekkert slíkt leyfi er tilgreint í frumvarpinu. Umrætt leyfi er ekki það sama og markaðsleyfi sem er skilgreint sérstaklega í 19. tölul. 3. gr. frumvarpsins. Því leggur meiri hlutinn til að síðasta málsgrein 34. gr. orðist svo: „Ráðherra skal í reglugerð, sbr. 11. gr., takmarka notkun tiltekinna varnarefna við þá sem hafa notendaleyfi og sölu tiltekinna varnarefna við þá sem hafa tilkynnt um markaðssetningu slíkra efna, sbr. 24. gr.“

Hliðstæð viðskipti.
    Meiri hlutinn leggur til að 35. gr. orðist svo: „Umhverfisstofnun getur veitt leyfi til hliðstæðra viðskipta með varnarefni sem hefur fengið markaðsleyfi í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu. Leyfið er háð því að varnarefnið uppfylli viðmið sem sett eru í reglugerð þannig að það sé að öllu leyti sambærilegt við varnarefni sem þegar hefur fengið markaðsleyfi á Íslandi, sbr. 35. gr. Ráðherra setur í reglugerð, sbr. 10. gr., nánari ákvæði um veitingu leyfis til hliðstæðra viðskipta, viðmið, sbr. 1. málsl., og kröfur til umsókna um hliðstæð viðskipti.“ Hér er orðalagi breytt lítillega til að auka skýrleika greinarinnar. Meiri hlutinn telur að orðið auðkenni sem notað er í frumvarpinu sé óskýrt og framangreint orðalag sé betra.

Snyrtivörur.
    Meiri hlutinn leggur til að í stað orðsins „fengið“ í 2. mgr. 39. gr. komi orðið „staðist“ til að krafan sé skýr. Markaðssetning snyrtivöru ætti að vera háð því að varan standist öryggismat.

Kaup og viðtaka eiturefna.
    Varðandi 44. gr. þá leggur meiri hlutinn til, að til að koma í veg fyrir að einstaklingar geti keypt eiturefni ótakmarkað verði sett inn eftirfarandi aukasetning í lok 3. málsl. 1. gr.: „svo sem um hámarksmagn sem einstaklingur má kaupa af eiturefnum.“ Meiri hlutinn telur þó að rökin fyrir því að taka út svokallaðar eiturbeiðnir sem voru í lögum nr. 52/1988 sem einstaklingar þurfa að fylla út séu ekki fyllilega skýr og skoða þurfi hvort ástæða sé til að viðhalda því kerfi. Þó telur meiri hlutinn að framangreind ákvæði, sem og ábyrgð þeirra sem markaðssetja efni, sbr. 3. mgr. 23. gr. og 2. mgr. 44. gr., um sölu þeirra til einstaklinga, ætti að vera næg vernd gegn misnotkun, sbr. og kröfur um upplýsingar sem þeim sem tekur við eiturefnum er skylt að gefa um fyrirhugaða notkun þeirra skv. 1. mgr. 44. gr.

Notendaleyfi vegna varnarefna.
    Meiri hlutinn leggur til orðalagsbreytingu á 2. málsl. 1. mgr. 46. gr. og að orðin „þá hættuflokka sem leyfið nær til“ verði felld brott úr 3. málsl. 3. mgr. ákvæðisins. Er þetta til samræmis við aðra orðanotkun í frumvarpinu.
Heimildir Umhverfisstofnunar.
    Meiri hlutinn leggur til að 2. málsl. 1. mgr. 48. gr. orðist svo: „Í því felst meðal annars heimild til sýna- og myndatöku, að fá afhent eintak af vöru til nánari skoðunar, svo og heimild til skoðunar og ljósritunar gagna.“ Einnig leggur meiri hlutinn til að á eftir 3. mgr. verði bætt nýrri málsgrein sem orðist svo: „Umhverfisstofnun er heimilt að senda fulltrúa í sínu umboði til að sækja vörueintök eða sýni til skoðunar og eftirlits, enda sé slíkt í samræmi við samþykkta eftirlitsáætlun stofnunarinnar.“ Ástæðan fyrir þessum tillögum er að meiri hlutinn telur til bóta að stofnuninni verði veittar skýrari heimildir til að taka sýnishorn af vörum úr verslunum eða hjá birgjum til nánari skoðunar. Er gert ráð fyrir því í tillögunni að stofnuninni sé heimilt að framselja heimildir sínar með umboði til annarra aðila. Dæmi um þetta gæti verið að stofnunin vildi taka stikkprufur samtímis úr nokkrum verslunum t.d. til að kanna hvort innihaldsefni í vörum eru skráð eða hvort varan er rétt flokkuð eða merkt. Þá gæti stofnunin samið, t.d. við heilbrigðisnefndir um að taka sýnishorn af vörum sem stofnunin fengi svo til skoðunar.

Þvingunarúrræði.
    Meiri hlutinn telur rétt að bætt verði inn ákvæðum um heimildir til að banna notkun efnis eða efnablöndu, sem og að stöðva starfsemi eða notkun. Því leggur meiri hlutinn til að bætt verði við nýrri grein, 58. gr., sem orðist svo: „Telji Umhverfisstofnun svo alvarlega hættu stafa af tiltekinni starfrækslu eða notkun efnis eða efnablöndu að aðgerð þoli enga bið er henni heimilt til bráðabirgða að stöðva starfsemi eða notkun þegar í stað, með aðstoð lögreglu ef þurfa þykir.“

Um ákvæði til bráðabirgða.
    Meiri hlutinn leggur til að d-liður ákvæðis til bráðabirgða I verði felldur brott úr frumvarpinu en Umhverfisstofnun telur að það ákvæði eigi ekki lengur við.
    Meiri hlutinn leggur breytingar á ákvæði til bráðabirgða II. Ákvæðið er sett inn til að setja upp aðlögunartímabil á milli reglugerðar nr. 50/1984 og reglugerðar (EB) nr. 1107/2009 sem innleidd verður á árinu 2013. Ástæða fyrir slíku aðlögunartímabili er að tryggja þarf að nauðsynleg plöntuvarnarefni séu fáanleg á markaði hér við upptöku á reglugerð (EB) nr. 1107/2009. Þannig munu samkvæmt ákvæðinu núgildandi skráningar hér á landi gildi áfram fyrir þau plöntuvarnarefni sem innihalda virk efni sem á sínum tíma voru samþykkt á grundvelli tilskipunar 91/414/EBE, sem ekki var innleidd í íslenskan rétt þar sem fyrirliggjandi reglugerð frá 1984 þótti a.m.k. veita jafngóða vernd á þeim tíma.
    Varðandi ákvæði til bráðabirgða III telur meiri hlutinn að tímaramminn sem gefin er upp sé of skammur og leggur til að hann verði lengdur til 1. júlí 2014, til að gefa færi á að klára vinnu vegna námskeiða og vottunar.
    Þá er lagt er til að bætt verði við nýju ákvæði til bráðabirgða um að fyrsta eftirlitsáætlun í samræmi við 51. gr. skuli gilda frá og með árinu 2014.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem lagðar eru til í sérstöku skjali.

Alþingi, 18. febrúar 2013.



Ólafur Þór Gunnarsson,


form., frsm.


Ólína Þorvarðardóttir.


Róbert Marshall.



Mörður Árnason.


Arndís Soffía Sigurðardóttir.