Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 109. máls.

Þingskjal 109  —  109. mál.



Frumvarp til bókasafnalaga.

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)




I. KAFLI
Tilgangur og gildissvið.
1. gr.
Tilgangur.

    Tilgangur laga þessara er að efla starfsemi og samvinnu bókasafna þannig að þau geti sem best gegnt því hlutverki sínu að vera þekkingarveitur og fræðslustofnanir sem halda uppi virkri og fjölþættri upplýsingaþjónustu á sem flestum sviðum og tryggja jafnframt varðveislu þess menningararfs sem bókasöfn hafa að geyma.

2. gr.
Gildissvið.

    Til bókasafna samkvæmt lögum þessum teljast Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Hljóðbókasafn Íslands svo og háskólabókasöfn, almenningsbókasöfn, bókasöfn framhalds- og grunnskóla, sérfræðisöfn og bókasöfn í stofnunum sem reknar eru af ríki eða sveitarfélögum, eftir því sem við á.
    Þessi söfn mynda sameiginlega bókasafnakerfi landsins. Þau skulu taka þátt í samstarfi bókasafna og safnkostur þeirra skal aðgengilegur eftir því sem við verður komið. Upplýsingar um safnkostinn skulu aðgengilegar öllum.
    

II. KAFLI
Skipulag.
3. gr.
Yfirstjórn.

    Ráðherra hefur yfirumsjón með stefnumörkun og samræmingu í starfsemi bókasafna sem undir lög þessi falla.
    Bókasafnaráð er ráðherra og öðrum stjórnvöldum til ráðgjafar um málefni bókasafna.

4. gr.
Bókasafnaráð.

    Ráðherra skipar bókasafnaráð til fjögurra ára í senn. Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök forstöðumanna almenningsbókasafna tilnefna hvort sinn fulltrúa í ráðið, Upplýsing, félag bókasafns- og upplýsingafræða, tilnefnir tvo fulltrúa ólíkra flokka bókasafna, og einn fulltrúi er skipaður án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ekki er heimilt að skipa saman mann aðalfulltrúa í bókasafnaráði lengur en tvö samfelld starfstímabil.
    Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi stjórnarmanna.
    Landsbókavörður og forstöðumaður Hljóðbókasafns Íslands sitja fundi bókasafnaráðs með málfrelsi og tillögurétt.
    Kostnaður af starfsemi bókasafnaráðs greiðist úr ríkissjóði.

5. gr.
Hlutverk bókasafnaráðs.

    Bókasafnaráð hefur eftirfarandi hlutverk:
     1.      að vinna að stefnumörkun um starfsemi bókasafna í samvinnu við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn sem send er ráðherra til samþykktar,
     2.      að setja reglur söfnun og úrvinnslu tölfræðilegra upplýsinga um bókasöfn á Íslandi sem ráðherra staðfestir,
     3.      að setja bókasafnasjóði úthlutunarreglur sem ráðherra staðfestir,
     4.      að veita umsögn um styrkumsóknir úr bókasafnasjóði,
     5.      að sinna öðrum verkefnum á sviði málefna bókasafna samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra.

III. KAFLI
Bókasöfn og starfsemi þeirra.
6. gr.
Markmið og hlutverk.

    Bókasöfn eru þjónustustofnanir sem starfa í þágu almennings og eigenda sinna og eru ekki rekin í hagnaðarskyni. Sameiginlegt markmið bókasafna, sem undir lög þessi falla, er að veita aðgang að fjölbreyttu safnefni og upplýsingum á mismunandi formi. Þau skulu efla menningar- og vísindastarfsemi, menntun, símenntun, atvinnulíf, íslenska tungu, ánægjulestur og upplýsingalæsi.
    Hlutverk bókasafna er að jafna aðgengi að menningu og þekkingu. Áhersla skal lögð á að safnkostur bókasafna endurspegli sem flest sjónarmið.

7. gr.
Flokkar safna.

    Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn er forustusafn bókasafna landsins. Það stuðlar að samstarfi, samræmingu og þróun starfshátta bókasafna og veitir öðrum söfnum faglega ráðgjöf, sinnir rannsóknum á sviði bókfræði, bóksögu og bókasafns- og upplýsingafræði og öðrum verkefnum samkvæmt lögum um safnið.
    Almenningsbókasöfn eru menningar-, upplýsinga- og menntastofnanir reknar af sveitarfélögum. Allir landsmenn skulu eiga kost á að njóta þjónustu almenningsbókasafna.
    Öllum sveitarfélögum er skylt að standa að slíkri þjónustu í samræmi við þessi lög. Sveitarfélög ráða starfslið almenningsbókasafna sem á vegum þeirra starfa, sjá söfnunum fyrir viðunandi húsnæði og búa þau nauðsynlegum búnaði.
    Bókasöfn í skólum eru upplýsingamiðstövar fyrir nemendur og kennara. Þau skulu búin bókum og nýsigögnum auk annars safnkosts sem tengist námsgreinum skóla. Í starfsemi skólasafna skal meðal annars leggja áherslu á að þjálfa nemendur og starfsfólk skóla í upplýsingalæsi, þ.m.t. í sjálfstæðri leit upplýsinga.
    Sérfræðisöfn og bókasöfn stofnana sem reknar eru af ríki eða sveitarfélögum skulu vera þekkingarmiðstöðvar á þeim sviðum sem þau eru helguð.

8. gr.
Stjórn almenningsbókasafna.

    Fyrir hverju almenningsbókasafni skal vera stjórn, kjörin af hlutaðeigandi sveitarstjórn eða sveitarstjórnum. Skipunartími stjórnar er hinn sami og kjörtímabil sveitarstjórnar. Sveitarstjórn er heimilt að skipa eina bókasafnsstjórn fyrir öll almenningsbókasöfn sem rekin eru af sveitarfélaginu eða fela fastanefnd samkvæmt samþykktum sveitarfélags að fara með málefni almenningsbókasafna.
    Stjórn bókasafns skal gæta þess að þar sé unnið í samræmi við lög og reglugerðir og eftir faglegum viðmiðunum á sviði bókasafna- og upplýsingamála.

9. gr.
Sameining almenningsbókasafna.

    Sveitarfélögum er heimilt að sameinast um rekstur almenningsbókasafns í samræmi við sveitarstjórnarlög. Standi sveitarfélög saman að rekstri bókasafns skal í samstarfssamningi kveðið á um skiptingu kostnaðar, aðild hvers sveitarfélags að stjórn og um verkefni stjórnarinnar.

10. gr.
Sameining skólasafna og almenningsbókasafna.

    Heimilt er að reka almenningsbókasafn og skólasafn grunnskóla saman, enda sé gerður um það skriflegur samstarfssamningur milli bókasafnsstjórnar og skólanefndar með samþykki hlutaðeigandi sveitarstjórnar eða sveitarstjórna.
    Einnig er heimilt að stofna til samningsbundins rekstrar- eða þjónustusamstarfs milli almenningsbókasafns og bókasafns við skóla á framhaldsskóla- eða háskólastigi þar sem slík tilhögun telst henta vegna sérstakra aðstæðna.
    Við sameiginlegan rekstur skólasafna og almenningsbókasafna skal gera ráð fyrir greiðum aðgangi almennings að þjónustu safns utan skólatíma og leitast við að gæta hagsmuna allra notendahópa.

11. gr.
Starfsfólk og búnaður.

    Forstöðumaður bókasafns skal, ef þess er kostur, hafa lokið prófi í bókasafns- og upplýsingafræði. Tryggja skal eftir föngum að bókasöfn hafi á að skipa starfsfólki með sérmenntun sem hæfir verksviði safnanna.
    Búnaður bókasafna, húsnæði og safnkostur skal taka mið af hlutverki þeirra hvers um sig.

12. gr.
Aðgangur og samstarf.

    Bókasöfn geta sett nánari reglur um afnot af safnkosti sínum og meðal annars takmarkað aðgang almennings að honum. Bókasöfnum er heimilt að krefja lánþega um tryggingarfé ef sérstök ástæða þykir til.
    Til að rækja hlutverk sitt er bókasöfnum heimilt að hafa með sér samstarf um þjónustu við notendur og gera þjónustu- og samstarfssamninga sín á milli.

13. gr.
Þjónustusamningar.

    Ráðherra er heimilt að gera þjónustusamninga við tiltekin bókasöfn eða aðra um sértæka þjónustu á ákveðnum sviðum, að fenginni umsögn bókasafnaráðs. Í slíkum samningum skulu verkefni skilgreind, stjórnun þeirra, lengd samningstíma og hvernig greiðslum til bókasafna vegna þjónustunnar og úttekt á árangri viðkomandi verkefna skuli háttað.

14. gr.
Tölfræðilegar upplýsingar.

    Bókasöfn skulu árlega láta ráðuneytinu í té skýrslu um fjármál sín og starfsemi í samræmi við reglur sem bókasafnaráð setur og ráðherra staðfestir.
    Ráðuneytinu er heimilt að fela öðrum aðilum með þjónustusamningi að hafa umsjón með söfnun og úrvinnslu tölfræðilegra upplýsinga um bókasöfn á Íslandi í samræmi við framangreindar reglur.

IV. KAFLI
Hljóðbókasafn Íslands.
15. gr.
Hlutverk.

    Hljóðbókasafn Íslands er í eigu ríkisins og fer ráðherra með yfirstjórn þess.
    Hlutverk Hljóðbókasafns Íslands er að sjá þeim sem ekki geta fært sér venjulegt prentað letur í nyt fyrir bókasafnsþjónustu með miðlun á fjölbreyttu safnefni, þar á meðal námsgögnum, í sem bestu samræmi við óskir og þarfir notenda.
    Hljóðbókasafn Íslands skal hafa samstarf við aðila sem standa að skipulagningu bókasafnamála, þá sem vinna að framleiðslu og dreifingu námsefnis og þá sem starfa að málefnum blindra og sjónskertra og annarra hópa fatlaðra sem njóta þjónustu safnsins. Til að rækja hlutverk sitt sem best er safninu heimilt að gera þjónustu- og samstarfssamninga við slíka aðila.
    Kostnaður við starfsemi Hljóðbókasafns Íslands greiðist úr ríkissjóði eftir því sem ákveðið er í fjárlögum. Tekjum safnsins skal varið í þess þágu.

16. gr.
Forstöðumaður.

    Ráðherra skipar forstöðumann Hljóðbókasafns Íslands til fimm ára í senn. Skal forstöðumaður hafa háskólamenntun og staðgóða þekkingu á starfssviði safnsins.
    Forstöðumaður stjórnar starfsemi og rekstri Hljóðbókasafns Íslands. Hann ræður starfsmenn þess og er í fyrirsvari fyrir safnið.

17. gr.
Samráðshópur.

    Ráðherra skipar sex manna samráðshóp um málefni Hljóðbókasafns Íslands. Skal einn fulltrúi tilnefndur af Blindrafélaginu, samtökum blindra og sjónskertra á Íslandi, einn af Félagi lesblindra, einn af Félagi íslenskra sérkennara, einn af Upplýsingu, félagi bókasafns- og upplýsingafræða, og einn af Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ekki er heimilt að skipa sama mann aðalmann í samráðshópinn lengur en tvö samfelld starfstímabil.
    Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi tilnefndra fulltrúa.
    Samráðshópurinn er forstöðumanni Hljóðbókasafns Íslands til samráðs og ráðgjafar um stefnu safnsins og önnur málefni sem varða starfsemi þess.
    Forstöðumaður Hljóðbókasafns Íslands situr fundi hópsins með málfrelsi og tillögurétt.

V. KAFLI
Fjármál bókasafna.
18. gr.
Framlög til bókasafna.

    Framlög til almenningsbókasafna skulu ákveðin í árlegri fjárhagsáætlun sérhvers sveitarfélags.
    Framlög til bókasafna í skólum og stofnunum og sérfræðisafna skulu ákveðin í árlegri fjárhagsáætlun viðkomandi skóla, stofnana eða eigenda sérfræðibókasafna.
    Gjafir og fjárframlög til bókasafna eru frádráttarbær til skatts í samræmi við ákvæði laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, með áorðnum breytingum.

19. gr.
Gjaldtökuheimildir.

    Bókasöfnum er heimilt að innheimta gjöld fyrir þjónustu sína, svo sem útlánastarfsemi, millisafnalán, afritun, fjölföldun, ljósmyndun, sérfræðilega heimildaþjónustu, heimildaleit í gagnagrunnum og útlán á sérstökum safnkosti.
    Hvert safn setur gjaldskrá um alla gjaldtöku skv. 1. mgr. að fengnu samþykki bókasafnsstjórnar eða yfirstjórnar stofnunar. Umrædd gjöld skulu ekki vera hærri en raunkostnaður viðkomandi safns vegna þjónustunnar og er ætlað að standa straum af eftirfarandi kostnaðarþáttum við hana:
     a.      launum starfsfólks sem sinnir þjónustunni,
     b.      sérstökum efniskostnaði vegna þjónustunnar.
    Bókasöfnum er heimilt að innheimta dagsektir fyrir afnot safnefnis fram yfir skilafrest og bætur fyrir safnefni sem glatast eða skemmist í meðförum notenda. Hvert safn setur sér reglur um innheimtu dagsekta og bóta að fengnu samþykki bókasafnsstjórnar eða yfirstjórnar stofnunar. Skal í þeim kveðið á um að dagsektir sem lagðar eru á hvern lánþega vegna tiltekins safnefnis, eða bætur sem innheimtar eru vegna þess, megi mest nema innkaupsverði viðkomandi efnis. Þá er bókasafni heimilt að mæla fyrir um að sé safnefni ófáanlegt skuli verð metið að álitum og það mat lagt til grundvallar við ákvörðun bóta eða sekta, eftir atvikum með allt að 50% álagi á sektir eða bætur ef um mikilvægt efni er að ræða.
    Gjaldskrár skv. 2. og 3. mgr. skal birta notendum á aðgengilegan hátt.

VI. KAFLI
Bókasafnasjóður.
20. gr.
Hlutverk og skipulag.

    Bókasafnasjóður hefur það hlutverk að efla starfsemi bókasafna sem falla undir lög þessi. Í þeim tilgangi styrkir sjóðurinn skilgreindar rannsóknir og þróunar- og samstarfsverkefni á sviði bókasafna- og upplýsingamála. Sjóðnum er einnig heimilt að styrkja önnur verkefni til að efla faglegt samstarf bókasafna, m.a. alþjóðleg samstarfsverkefni sem bókasöfn, sem undir lög þessi falla, taka þátt í.
    Tekjur bókasafnasjóðs eru:
     a.      framlag ríkissjóðs eftir því sem ákveðið er í fjárlögum,
     b.      önnur framlög.

21. gr.
Styrkveitingar.

    Styrkir úr bókasafnasjóði eru ákveðnir í samræmi við úthlutunarreglur sjóðsins, sbr. 3. tölul. 5. gr.
    Heimilt er að krefjast endurgreiðslu hafi verkefni sem hlotið hefur styrk ekki verið unnið í samræmi við umsókn og þau gögn sem styrkveiting var byggð á, hafi verkefnið ekki verið unnið samkvæmt skilmálum bókasafnasjóðs eða lokaskýrslu ekki verið skilað innan árs frá áætluðum lokum verkefnis.
    Ráðherra úthlutar styrkjum úr bókasafnasjóði að fengnum tillögum bókasafnaráðs.
    Styrkir úr bókasafnasjóði eru undanþegnir tekjuskatti.

VII. KAFLI
Önnur ákvæði.
22. gr.
Setning reglugerða.

    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara í heild eða einstakra hluta þeirra.

23. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög um almenningsbókasöfn, nr. 36/1997, og lög um Blindrabókasafn Íslands, nr. 35/1982.

24. gr.
Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verður 8. gr. laga um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, nr. 142/2011, svohljóðandi:
    Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni er heimilt að innheimta gjöld fyrir þjónustu sína, svo sem útlánastarfsemi, millisafnalán, afritun, fjölföldun, ljósmyndun, sérfræðilega heimildaþjónustu, heimildaleit í gagnagrunnum og útlán á sérstökum safnkosti.
    Landsbókavörður setur gjaldskrá um alla gjaldtöku skv. 1. mgr. að fenginni umsögn stjórnar. Umrædd gjöld skulu ekki vera hærri en raunkostnaður safnsins vegna þjónustunnar og er ætlað að standa straum af eftirfarandi kostnaðarþáttum við hana:
     a.      launum starfsfólks sem sinnir þjónustunni,
     b.      sérstökum efniskostnaði vegna þjónustunnar.
    Safninu er heimilt að innheimta dagsektir fyrir afnot safnefnis fram yfir skilafrest og bætur fyrir safnefni sem glatast í meðförum notenda. Landsbókavörður setur reglur um innheimtu dagsekta og bóta að fenginni umsögn stjórnar. Skal í þeim kveðið á um að dagsektir sem lagðar eru á hvern lánþega vegna tiltekins safnefnis, eða bætur sem innheimtar eru vegna þess, megi mest nema innkaupsverði viðkomandi efnis. Þá er heimilt að mæla fyrir um að sé safnefni ófáanlegt skuli verð metið að álitum og það mat lagt til grundvallar við ákvörðun bóta eða sekta, eftir atvikum með allt að 50% álagi á sektir eða bætur ef um mikilvægt efni er að ræða.
    Gjaldskrá skv. 2. og 3. mgr. skal birta notendum á aðgengilegan hátt.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Störf starfsmanna Blindrabókasafns Íslands flytjast til Hljóðbókasafns Íslands og fela lög þessi ekki í sér breytingar á stöðu og réttindum þeirra.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Menntamálaráðherra skipaði þann 24. júní 2003 nefnd sem einkum var falið að kanna hvort hagkvæmt væri að setja heildarlög sem gætu tekið til allra tegunda bókasafna og skilgreina hlutverk og stöðu þeirra í safnakerfi landsins. Nefndinni var einnig falið að skilgreina stöðu Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns sem forustusafns allra bókasafna landsins og fjalla um lög um almenningsbókasöfn með tilliti til þessa.
    Í nefndinni áttu sæti: Þóra Óskarsdóttir sérfræðingur, formaður nefndarinnar, skipuð án tilnefningar, Kristbjörg Stephensen lögfræðingur, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Marta Hildur Richter forstöðumaður, tilnefnd af Samtökum forstöðumanna almenningsbókasafna, Sigrún Klara Hannesdóttir landsbókavörður, tilnefnd af Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, og Þórdís T. Þórarinsdóttir forstöðumaður, tilnefnd af Upplýsingu – Félagi bókasafns- og upplýsingafræða.
    Nefndin skilaði af sér 13. janúar 2004 og lagði fram þrjár tillögur að nýjum frumvörpum ásamt greinargerð með athugasemdum:
     1.      Tillögu að frumvarpi til bókasafnalaga.
     2.      Tillögu að frumvarpi til laga um almenningsbókasöfn.
     3.      Tillögu að frumvarpi til laga um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn.
    Niðurstaða menntamálaráðuneytis, eftir að tillögur nefndarinnar höfðu verið til skoðunar, varð sú að heppilegast væri að setja ein heildarlög um starfsemi almenningsbókasafna, skólabókasafna og Blindrabókasafns Íslands. Í bréfi, dags. 20. janúar 2006, var þess óskað að nefndin endurskoðaði tillögur sínar með tilliti til þess að sett yrðu ein heildarlög um bókasafnamál.
    Vegna anna treysti Kristbjörg Stephensen sér ekki til að starfa áfram með nefndinni og var Jana Friðfinnsdóttir lögfræðingur, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, skipuð í nefndina. Að öðru leyti var nefndin óbreytt.

II.     Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Eftirfarandi heildarlög gilda nú um bókasöfn:
          Lög um almenningsbókasöfn, nr. 36/1997.
          Lög um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, nr. 142/2011, og reglugerð um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn nr. 706/1998, ásamt síðari breytingum.
          Lög um Blindrabókasafn Íslands, nr. 35/1982, ásamt síðari breytingum, og reglugerð um Blindrabókasafn Íslands, nr. 799/2002.
          Lög um bókasöfn prestakalla, nr. 17/1931.
    Auk þess er fjallað um bókasöfn í eftirfarandi ákvæðum annarra laga:
          20. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008,
          39. gr. a laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008,
          E-lið 1. mgr. 2. gr. laga um Listasafn Íslands, nr. 58/1988, en þau lög falla úr gildi (og þar með lagaákvæði um að safnið skuli reka bókasafn) 1. janúar 2013 við gildistöku nýrra myndlistarlaga, nr. 64/2012.
    Loks er vísað til bókasafna í ákvæðum ýmissa fleiri laga, án þess að þau hafi áhrif á viðfangsefni þessarar lagasetningar (m.a. í lögum um utanríkisþjónustu Íslands, nr. 39/1971, í höfundalögum, nr. 73/1972, í lögum um Þjóðskjalasafn Íslands, nr. 66/1985, um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, nr. 40/2007, um bókmenntasjóð, nr. 91/2007, o.fl.). Nokkur bókasöfn í háskólum og flest bókasöfn í opinberum stofnunum eru nú utan laga og reglugerða, auk þess sem aðeins eru ákvæði um samstarf safna og samvinnu í lögum um almenningsbókasöfn og lögum um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn.
    Árið 1997 voru sett ný lög um almenningsbókasöfn. Með setningu laganna var fellt niður ákvæði um bókafulltrúa ríkisins í menntamálaráðuneyti, sem annaðist málefni almenningsbókasafna, en þess í stað var í 11. gr. laganna kveðið á um tiltekið forustuhlutverk Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns í málefnum bókasafna, sbr. 15. mgr. 7. gr. þágildandi laga um það safn, nr. 71/1994: „Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn stuðlar að samræmingu starfshátta í íslenskum bókasöfnum, veitir þeim faglega ráðgjöf og á við þau samstarf, svo sem nánar er kveðið á um í lögum um stofnunina og reglugerð á grundvelli þeirra.“
    Nú, tæpum tveimur áratugum síðar, hafa ýmsar forsendur lagasetningar á þessu sviði breyst:
          Stórstígar framfarir hafa orðið í upplýsingatækni sem hafa haft víðtæk áhrif á starfshætti og samstarfsmöguleika bókasafna.
          Hugmyndir um heildstæða bókasafnsþjónustu (e. seamless library service) eru mjög að ryðja sér til rúms í samfélaginu.
          Sameining sveitarfélaga og aukið samstarf þeirra á ýmsum sviðum hefur breytt rekstrargrundvelli margra almenningsbókasafna og skólasafna.
          Sameiginlegt skráningar- og þjónustukerfi bókasafna fyrir allt landið, www.gegnir.is, hefur verið tekið í notkun. Kerfið skiptist í þrettán stjórnunareiningar og raðast söfnin á höfuðborgarsvæðinu saman eftir safnategundum, en utan höfuðborgarsvæðisins eru allar safnategundir saman í fjórum landshlutaeiningum.
          Kominn er landsaðgangur að rafrænum gagnagrunnum og tímaritum með samvinnu allra safnategunda í landinu, sjá www.hvar.is.
          Opnaður hefur verið nýr leitarvefur fyrir efni allra bókasafna landsins og ýmissa annarra gagnasafna, sem stefnt er að því að eflist enn frekar í framtíðinni, sjá www.leitir.is.
          Ný lög hafa tekið gildi um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, nr. 142/2011.
    Það viðhorf hafði lengi verið algengt meðal bókasafns- og upplýsingafræðinga að sérhver safnategund væri svo sérstök að hún hefði fátt til annarra bókasafna að sækja. Þetta viðhorf hefur breyst hratt undanfarin ár á sama tíma og sú skoðun hefur rutt sér til rúms að aukin samvinna bókasafna muni leiða til betri þjónustu og betri nýtingar á safnefni, sérstaklega þegar horft er til náms og símenntunar, og að upplýsingasamfélagið krefjist þess að öll bókasöfn landsins séu þátttakendur í vel skipulagðri upplýsinga- og þekkingarveitu. Almennt má því segja að áhersla fagaðila sé nú á samvinnu og samstarf safna fremur en sérstöðu einstakra bókasafna og þar af leiðandi er eðlilegt að setning heildarlaga um bókasöfn sé ofarlega á baugi bæði hér á landi og í nágrannalöndunum.
    Í Danmörku voru árið 2000 samþykkt ný lög, Lov om biblioteksvirksomhed, sem síðan voru endurskoðuð 2008. Lögin fjalla um öll opinber bókasöfn og hlutverk ríkisins í bókasafnakerfinu. Þar er m.a. kveðið á um samvinnu og samstarf safnanna og millisafnalán.
    Athyglisverðar tilraunir til samþættingar stjórnsýslu bókasafna, skjalasafna og annarra safna hafa verið gerðar undanfarinn áratug. Í Noregi var um aldamótin stofnað til ABM- utvikling. Statens senter for arkiv, bibliotek og museer, þar sem reynt var að móta sameiginlega framtíðarstefnu á sviðum skjalasafna, bókasafna og minja- og listasafna. Niðurstaðan varð sú að leggja þetta samþætta kerfi niður, og færa þau verkefni sem sneru að málefnum bókasafna til Nasjonalbiblioteket frá 1. júlí 2010. Sams konar stofnun var komið á fót árið 2000 í Bretlandi undir heitinu Resource: the Museums, Libraries and Archives Council (almennt nefnd MLA), þar sem stefnt var að aukinni samvinnu þessara þriggja safnategunda. Þar hefur skipulagi mála einnig verið breytt, en frá 1. október 2011 hefur Arts Council England tekið við flestum verkefnum umræddrar stofnunar á sviði málefna bókasafna og almennra safna, en MLA var endanlega lögð niður í maí 2012. Það virðist því ljóst að tilraunir til samþættingar stjórnsýslu of stórra sviða hafa ekki gefið þann árangur sem stefnt var að.
    Árið 2001 voru sett safnalög, nr. 106/2001, sem taka til allra lista- og minjasafna (menningarminja- og náttúruminjasafna), en þau hafa nú verið endurskoðuð og ný safnalög, nr. 141/2011, taka gildi 1. janúar 2013. Hafði nefndin sem undirbjó þetta frumvarp til bókasafnalaga þau m.a. til hliðsjónar við vinnu sína. Einnig hafði hún til hliðsjónar Guidelines on Library Legislation and Policy in Europe: A User Guide. Strasbourg: Council of Europe/ Eblida, 1998, ásamt norrænum lögum og reglugerðum á þessu sviði.
    Við frekari vinnslu frumvarpsins í mennta- og menningarmálaráðuneyti var leitast við að samhæfa uppsetningu þess og framsetningu efnisatriða við önnur lög, m.a. leiklistarlög, lög um bókmenntasjóð og ný lög um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, sem og ný safnalög og lög um menningarminjar, nr. 80/2012, þannig að um sé að ræða svipaða heildarlöggjöf og þar er mælt fyrir um í hverjum málaflokki fyrir sig.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Helstu nýmæli í fyrirliggjandi tillögu að frumvarpi til bókasafnalaga eru:
          Taldar eru upp allar tegundir bókasafna sem eru reknar fyrir opinbert fé og kveðið á um samstarf þeirra og samvinnu og að þau séu hluti af bókasafnakerfi landsins.
          Með því að fella niður gildandi lög um almenningsbókasöfn er m.a. horfið frá því að landinu sé skipt í bókasafnsumdæmi og að í hverju umdæmi skuli starfandi umdæmissafn. Þessi ákvæði gildandi laga um bókasafnsumdæmi og umdæmissöfn eru talin úrelt og óþörf í ljósi þróunar samvinnu bókasafna. Þess í stað er mælt fyrir um samstarf safna og hugsanlegan samrekstur þar sem slíkt þykir henta.
          Einnig eru felld út ákvæði um bókasöfn í sjúkrahúsum, dvalarheimilum aldraðra og í fangahúsum. Ekki þykir ástæða til að kveða á um þjónustu í slíkum stofnunum í lögum sem þessum, m.a. í ljósi breytinga á skipulagi og starfsemi slíkra stofnana, sem og auknum möguleikum til afþreyingar, sem fram hafa komið á síðustu áratugum. Þá tryggir síðari málsliður 2. mgr. 7. gr. („Allir landsmenn skulu eiga kost á að njóta þjónustu almenningsbókasafna.“) að þeir sem dvelja á slíkum stofnunum skulu eiga sama kost og aðrir á að njóta þjónustu almenningsbókasafna.
          Þá er nýmæli að lagt er til að stofnað verði bókasafnaráð sem skuli vera ráðherra og stjórnvöldum til ráðgjafar, og vinni m.a. að stefnumótun um starfsemi bókasafna, setji reglur um söfnun og úrvinnslu tölfræðilegra upplýsinga um bókasöfn, setji reglur um úthlutanir úr bókasafnasjóði og veiti umsögn um umsóknir um styrki úr sjóðnum, og sinni loks öðrum verkefnum sem ráðherra kann að fela ráðinu. Ráðgjafarnefnd um málefni almenningsbókasafna verður lögð af og verkefni hennar flytjast til bókasafnaráðs.
          Lög um Blindrabókasafn Íslands eru felld inn í þessi lög og öll ákvæði um starfsemi þess einfölduð; jafnframt er nafni þess safns breytt, m.a. með vísan til aukins hlutverks þess við að veita öðrum þjóðfélagshópum en blindum nauðsynlega þjónustu. Settur verði á fót samráðshópur skipaður fulltrúum helstu notendahópa í stað stjórnar samkvæmt eldri lögum.
          Þá er einnig lagt til að stofnaður verði bókasafnasjóður sem hafi það að markmiði að efla starfsemi bókasafna með því að styrkja rannsóknir, þróunar- og samstarfsverkefni í greininni.
          Loks er í frumvarpinu gert ráð fyrir skýrum heimildum til gjaldtöku vegna útlána, þjónustu, dagsekta og bóta og heimildir allra bókasafna sem lögin ná til samræmdar hvað þetta varðar.

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Vinna við undirbúning frumvarpsins hefur ekki gefið tilefni til að fjallað væri um samræmi þess við stjórnarskrá og skuldbindinga samkvæmt alþjóðasamningum.

V. Samráð.
    Í starfi sínu hafði nefndin eftir því sem kostur var samráð við forstöðumenn allra safnategunda og leitaði sem víðast heimilda og fyrirmynda og lagaði að íslenskum aðstæðum.
    Með bréfi dags. 10. október 2006 lauk nefndin störfum og lagði fram tillögu að frumvarpi til bókasafnalaga ásamt greinargerð með athugasemdum. Í tillögunni var lögð áhersla á sameiginlegar skyldur og þarfir bókasafna ásamt nauðsynlegum sérgreinum varðandi almenningsbókasöfn, skólasöfn og það safn sem nú heitir Blindrabókasafn Íslands.
    Tillaga nefndarinnar hefur verið til meðferðar í mennta- og menningarmálaráðuneyti frá þeim tíma. Meðal annars hefur verið litið til þróunar í skipulagi bókasafnamála í nágrannalöndum undanfarin ár, til undirbúnings að nýlegri endurskoðun laga um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn (sem var samþykkt sem lög nr. 142/2011), haft var samráð við ýmsa hagsmunaaðila (m.a. ráðgjafarnefnd um málefni almenningsbókasafna, sem starfar skv. 13. gr. laga um almenningsbókasöfn, nr. 36/1997, Samband íslenskra sveitarfélaga, Upplýsingu, félag um bókasafns- og upplýsingafræði, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Blindrabókasafn Íslands) um tillögur til breytinga og loks var efnt til opinberrar kynningar á vef ráðuneytisins í nóvember 2011 á fyrirhuguðu frumvarpi. Ráðuneytinu bárust í kjölfarið ýmsar ábendingar um efni frumvarpsins, m.a. frá fyrrgreindum aðilum sem og frá t.d. faghópi bókasafnsfræðinga á framhaldsskólastigi og Landskerfi bókasafna hf. Við endanlega gerð frumvarpsins, eins og það er nú lagt fyrir Alþingi, hefur verið tekið tillit til þeirra í ýmsum atriðum.

VI. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarpið að lögum má gera ráð fyrir auknu samstarfi bókasafna sem rekin eru fyrir opinbert fé. Svigrúm sveitarfélaga til að auka hagkvæmni og samvinnu í rekstri bókasafna mun aukast með afnámi umdæmisskiptingar bókasafna og skyldu til að hafa bókasöfn í sjúkrahúsum, dvalarheimilum aldraðra og í fangahúsum. Með því að lagt er til í frumvarpinu að starfsemi Blindrabókasafns Íslands falli inn í heildarlög um bókasöfn verður lagarammi um starfsemi þess einfaldaður, jafnframt því sem safninu verður gert kleift að veita öðrum þjóðfélagshópum en blindum nauðsynlega þjónustu. Í frumvarpinu er lagt til að heimildir til gjaldtöku vegna útlána, þjónustu, dagsekta og bóta verði skýrar fyrir öll þau bókasöfn sem falla munu undir lögin.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í greininni er lýst þeim tilgangi laganna að efla starfsemi og samvinnu bókasafna til að þau geti sem best þjónað samfélaginu sem þekkingarveitur og fræðslustofnanir sem haldi upp virkri og fjölþættri upplýsingaþjónustu á sem flestum sviðum, auk þess að tryggja varðveislu þess menningararfs sem bókasöfn hafa að geyma.
    Þessi skilgreining er nýmæli. Í 1. gr. laga nr. 36/1997 eru almenningsbókasöfn skilgreind sem upplýsinga- og menningarstofnanir, en ekki liggja fyrir í lögum viðlíka skilgreiningar á tilgangi starfsemi annarra bókasafna, utan þess sem segir um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn í 1. gr. laga nr. 142/2011. Vegna þeirra breytinga sem orðið hafa á starfsemi bókasafna og í upplýsingamiðlun almennt í kjölfar tæknibyltinga síðustu áratuga þykir rétt að leggja áherslu á miðlunarhlutverk þeirra sem þekkingarveitur og fræðslustofnanir sem halda uppi virkri og fjölþættri upplýsingaþjónustu, sem mun verða eitt helsta verkefni bókasafna í framtíðinni. Er þessi skilgreining sett í lögin í samræmi við umræður sem m.a. hafa farið fram um upplýsingasamfélagið undanfarin ár.
    Með þeim tilgangi laganna sem hér er lýst um eflingu starfsemi og samvinnu bókasafna er vísað til eðlis þeirra flokka bókasafna sem lögin fjalla um. Annars vegar er um að ræða það þjónustuhlutverk sem er grundvöllur starfsemi flestra bókasafna í landinu, hvort sem þeim er ætlað að þjóna öllum almenningi eða sérstökum hópum, hvort sem um er að ræða starfsfólk og nemendur skóla, sérfræðisvið eða starfsfólk ákveðinna stofnana, og hins vegar mikilvægt varðveisluhlutverk safna eins og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, ýmissa sérfræðisafna stofnana og jafnvel skóla, sem sum hver varðveita mikilvægan þátt íslenskrar menningarsögu.

Um 2. gr.

    Í greininni eru talin upp þau bókasöfn og þeir flokkar bókasafna sem lögin gilda um. Sérfræðisöfn sem falla undir lögin eru takmörkuð við söfn sem rekin eru af stofnunum á vegum ríkis eða sveitarfélaga, eftir því sem við á, enda kunna einstakar stofnanir að safna bókum og upplýsingaritum vegna starfsemi sinnar, án þess að um formlegt bókasafn sé að ræða, og því sé ekki vert að lagaákvæði tiltaki án undantekninga að slík söfn falli undir þessi lög. Þá verður ekki séð að í lögum sem þessum sé hægt að setja reglur um starfsemi bókasafna á vegum aðila sem eru einkaréttarlegs eðlis, þó þess megi vænta að mörg slík bókasöfn leiti eftir þátttöku í ýmsu því samstarfi sem bókasöfn sem falla undir þessi lög efna til, og má ætla að slíkt samstarf geti orðið öllum til hagsbóta.
    Þá er kveðið á um skyldur allra viðeigandi bókasafna til samstarfs og samvinnu og tekið fram að þau séu hluti af bókasafnakerfi landsins, sem skuli vinna saman að því að safnkostur þeirra sé aðgengilegur öllum landsmönnum, eftir því sem við verður komið. Í þessu samhengi er vert að vísa til ákvæða 6. gr. Þá er kveðið á um að upplýsingar um safnkost allra bókasafna skuli vera aðgengilegar, þó að almennt aðgengi að slíkum safnkosti geti verið takmarkað í samræmi við ákvæði 12. gr.

Um 3. gr.

    Í II. kafla laganna er skipulag málefna bókasafna skilgreint nánar. Tekið er mið af Guidelines on Library Legislation and Policy, sbr. almennar athugasemdir hér framar, og tekið tillit til íslenskra aðstæðna.
    Ákvæði 3. gr. er í samræmi við 12. gr. laga nr. 36/1997, um almenningsbókasöfn, og 1. gr. laga nr. 142/2011, um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Flestar tegundir bókasafna falla nú undir stjórnsýslu mennta- og menningarmálaráðuneytis, þrátt fyrir að sérfræðisöfn einstakra ríkisstofnana kunni að heyra undir önnur ráðuneyti. Í samræmi við lög nr. 126/2011 (um breytingar á ýmsum lögum vegna heildarendurskoðunar á lögum um Stjórnarráð Íslands) er í öllum viðeigandi greinum þessa frumvarps hins vegar aðeins vísað til „ráðherra“. Með hliðsjón af því er eðlilegt að yfirumsjón með stefnumörkun og samræmingu í starfsemi bókasafna heyri undir ráðherra.
    Sem dæmi um forustu mennta- og menningarmálaráðherra á þessu sviði síðustu ár má nefna að ráðherra hafði forgöngu um stofnun fyrirtækisins Landskerfis bókasafna hf. með sameiginlegu skráningar- og þjónustukerfi allra bókasafna í landinu og setti enn fremur á stofn nefnd sem samdi um landsaðgang að fjölda gagnagrunna og tímarita sem allar tegundir bókasafna hafa sameinast um. Er þessi landsaðgangur einstakur í heiminum, en umsjón þess verkefnis er nú í höndum Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns samkvæmt lögum nr. 142/2011.
    Þá er hér kveðið á um að bókasafnaráð skuli vera ráðherra og öðrum stjórnvöldum til ráðgjafar um málefni bókasafna, og er það m.a. í samræmi við hlutverk safnaráðs um málefni safna samkvæmt safnalögum, nr. 141/2011.

Um 4. gr.

    Með lögum um almenningsbókasöfn, nr. 36/1997, var fellt niður ákvæði um bókafulltrúa í menntamálaráðuneytinu, sem annaðist málefni almenningsbókasafna. Í 11. gr. laganna var kveðið á um ráðgjafar- og samstarfshlutverk Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns gagnvart almenningsbókasöfnum með skírskotun til eldri laganna um stofnunina, en í 4. gr. nýrra laga nr. 142/2011 eru ákvæði er snúa að þessu hlutverki safnsins. Ekkert fé hefur þó verið veitt sérstaklega til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns til að standa straum af þeim kostnaði sem kann að fylgja þessu hlutverki. Einnig má deila um hversu heppilegt það sé að fela einni stofnun einhliða slíkar skyldur þó að vissulega sé hægt að krefjast vissrar forustu af þjóðarbókasafni landsins.
    Í gildandi lögum um almenningsbókasöfn er kveðið á um að ráðherra skipi ráðgjafarnefnd um málefni almenningsbókasafna, en þessi þriggja manna nefnd hefur ekki verið formlegur ráðgjafi um önnur mál en þau sem snúa að almenningsbókasöfnum. Í ljósi reynslunnar á öðrum sviðum menningarmála (m.a. í málefnum minja- og listasafna) er talið eðlilegt að slík ráðgjafarnefnd fjalli um víðara svið, og að fjallað verði um málefni sem eru sameiginleg öllum bókasöfnum á einum vettvangi.
    Því er lagt til að stofnað verði sérstakt ráð, bókasafnaráð, sem gegni þessu hlutverki. Lagt er til að bókasafnaráð verði skipað þannig að Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök forstöðumanna almenningsbókasafna tilnefni hvort sinn fulltrúa í ráðið, en að Upplýsing, félag bókasafns- og upplýsingafræða tilnefni tvo fulltrúa ólíkra flokka bókasafna; loks skipi ráðherra einn fulltrúa án tilnefningar. Með þessum tilnefningum er leitast við að tryggja eftir föngum að fulltrúar sem flestra flokka bókasafna verði skipaðir í bókasafnaráð. Ráðherra skipi formann ráðsins og varaformann úr hópi stjórnarmanna. Varamenn skulu tilnefndir með sama hætti og aðalmenn. Þá er mælt fyrir um að ekki sé heimilt að skipa sama mann aðalmann í bókasafnaráð lengur en tvö samfelld starfstímabil, og er það í samræmi við það sem almennt gildir nú um stjórnir og ráð á verksviði mennta- og menningarmálaráðuneytis. Landsbókavörður og forstöðumaður Hljóðbókasafns Íslands (áður Blindrabókasafns Íslands) sitji einnig fundi ráðsins með málfrelsi og tillögurétt. – Skipun ráðsins og samsetning á sér að nokkru fyrirmyndir í skipun safnaráðs samkvæmt safnalögum og í skipun stjórnar Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns samkvæmt lögum um það safn.
    Bókasafnaráði eru ætluð ýmis verkefni skv. 5. gr. frumvarpsins, og því þarf að gera ráð fyrir greiðslu kostnaðar vegna starfsemi þess. Í greininni er því kveðið á um að kostnaður vegna ráðsins skuli greiðast úr ríkissjóði.
    Þess ber að geta að með því að fella niður lög um almenningsbókasöfn verður ráðgjafarnefnd um málefni almenningsbókasafna lögð niður og munu verkefni hennar flytjast til bókasafnaráðs.

Um 5. gr.

    Í greininni er hlutverk bókasafnaráðs skilgreint nánar. Þýðingarmesta hlutverk þess er að vinna að stefnumörkun um starfsemi bókasafna og vera ráðherra og stjórnvöldum almennt til ráðgjafar um málefni bókasafna, eins og fram kemur í 3. gr. Þá er gerð tillaga um að ráðið setji reglur um söfnun og úrvinnslu tölfræðilegra upplýsinga um starfsemi bókasafna hér á landi sem ráðherra staðfestir, en við setningu slíkra reglna er eðlilegt að haft sé samráð við ýmsa þá aðila, sem hagsmuna hafa að gæta vegna þeirrar vinnu sem um ræðir og mögulegrar nýtingar umræddra upplýsinga. Þar er bæði um að ræða hagsmunaaðila sem eiga fulltrúa í bókasafnaráði eða seturétt á fundum þess skv. 4. gr., sem og aðra sem koma að söfnun og jafnvel varðveislu upplýsinga af þessu tagi. Meðal slíkra er m.a. Landskerfi bókasafna hf. mikilvægur samstarfsaðili, en einnig má nefna Hagstofu Íslands, ráðuneyti og jafnvel Þjóðskjalasafn Íslands.
    Ráðinu er einnig ætlað að setja bókasafnasjóði úthlutunarreglur um styrki úr bókasafnasjóði sem ráðherra staðfestir og loks að veita umsögn um umsóknir um styrki úr sjóðnum. Tillagan um stofnun slíks sjóðs er í VI. kafla frumvarpsins. Þá getur ráðherra falið ráðinu að sinna ýmsum öðrum verkefnum, þannig að ákveðið svigrúm er til að bókasafnaráð geti gegnt víðtæku hlutverki við þróun íslenskra bókasafna í framtíðinni.
    Með þessum ákvæðum er hlutverk bókasafnaráðs gagnvart ráðherra, bókasafnasjóði og bókasafnamálum almennt ráðgefandi og því er ætlað að leggja til ákveðinn grundvöll verkefna í málaflokknum með vinnu að stefnumörkun um starfsemi bókasafna og tillögum um reglur á ákveðnum sviðum. Ætla má að veiting umsagna um styrkumsóknir úr bókasafnasjóði og önnur verkefni samkvæmt ákvörðun ráðherra verði helstu viðfangsefni ráðsins til framtíðar.

Um 6. gr.

    Hér eru bókasöfn skilgreind sem þjónustustofnanir í þágu almennings sem ekki eru reknar í hagnaðarskyni. Samkvæmt greininni skulu bókasöfn sem falla undir lögin leitast við að bjóða upp á fjölbreytt safnefni og upplýsingar á mismunandi formi, t.d. prentuðu og rafrænu formi. Þá er kveðið á um að bókasöfn skuli leitast við að efla ánægjulestur, menntun, menningar- og vísindastarfsemi, íslenska tungu, upplýsingalæsi o.fl.
    Í almennri jafnt sem fræðilegri umræðu undanfarin ár hefur hugtakið „ánægjulestur“ verið notað í vaxandi mæli þegar fjallað hefur verið um nauðsyn þess að leita leiða til að auka almennan lestur, einkum barna og unglinga. Með því er vísað til lesturs umfram nauðsyn, viðkomandi til ánægju. Það er vel við hæfi að í frumvarpi um bókasöfn sé vísað til þessa sem eins af markmiðum með starfsemi þeirra.
    Miklar félagslegar og tæknilegar breytingar hafa átt sér stað í þjóðfélaginu og þar með einnig í atvinnulífinu undanfarinn áratug með tilkomu netsins og þess upplýsingamagns sem þar er að finna. Til að takast á við síbreytilegan heim tækni og upplýsinga er í vaxandi mæli lögð áhersla á upplýsingalæsi, en það er sú þekking og færni sem þarf til að afla, flokka og meta upplýsingar á gagnrýninn og skapandi hátt. Upplýsingalæs einstaklingur er þannig betur en ella fær um að finna, meta og nota upplýsingar á árangursríkan hátt.
    Þá er í greininni fjallað um það hlutverk bókasafnakerfisins að jafna aðgengi allra að menningu og þekkingu. Er með því ákvæði vísað m.a. til hlutverks bókasafna við að greiða fyrir sem bestu aðgengi allra að safnkosti bókasafna, t.d. með millisafnalánum, skyldu þeirra gagnvart einstaklingum með fötlun og leshömlun, og þjónustu við einstaklinga sem eiga sér annað móðurmál en íslensku. Með ákvæðum greinarinnar er m.a. vísað til nauðsynjar þess að bókasöfn þjóni þessum hópum einstaklinga ekki síður en öðrum.
    Loks er lögð áhersla á að safnkostur bókasafna endurspegli sem flest sjónarmið, og er þar m.a. vísað til hins almenna hlutverks þeirra að geta verið vettvangur ólíkra skoðana og lífsviðhorfa á öllum sviðum. Í þessu ákvæði felst einnig að safnkostur bókasafna skuli taka mið af þeim margbreytileika samfélagsins, sem daglegt líf endurspeglar, og er með því m.a. vísað til þess að Ísland er á 21. öld í vaxandi mæli skilgreint sem fjölmenningarsamfélag.

Um 7. gr.

    Hér er fjallað um þá flokka bókasafna, sem lögin ná til. Sérstaklega er kveðið á um hlutverk Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns sem forustusafns bókasafna landsins. Safninu er ætlað að veita öðrum söfnum faglega ráðgjöf, örva þróunarstarf, sinna rannsóknum og öðrum verkefnum samkvæmt lögum um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, nr. 142/2011.
    Er heitið forustusafn notað hér til aðgreiningar frá skilgreiningu höfuðsafna samkvæmt safnalögum, þar sem vísað er til Listasafns Íslands, Náttúruminjasafns Íslands og Þjóðminjasafns Íslands sem höfuðsafna, hvers á sínu sviði; þykir ekki ástæða til að efna til þess mögulega misskilnings, að sömu lög gildi um þessi ólíku svið, þ.e. málefni bókasafna annars vegar og málefni menningarminjasafna, náttúruminjasafna og listasafna hins vegar.
    Hlutverk almenningsbókasafna er hér áréttað sérstaklega líkt og það er í gildandi lögum um almenningsbókasöfn, nr. 36/1997. Þá er kveðið á um að sveitarfélögum sé skylt að standa að slíkri þjónustu, og er það í samræmi við gildandi lög. Þá er kveðið á um að sveitarfélög skuli ráða starfslið almenningsbókasafna, sjá þeim fyrir viðunandi húsnæði og búa þau nauðsynlegum búnaði.
    Bókasöfn viðkomandi skóla eru tilgreind sem skólasöfn í lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, og lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008, enda teljast þau eðlilegur hluti þess aðbúnaðar sem sérhver skóli þarf til að geta gegnt hlutverki sínu. Almennt hlutverk þeirra er skilgreint innan ramma þessara laga með svipuðu orðalagi og í framangreindum lögum, þ.e. að það sé hlutverk þeirra að vera upplýsingamiðstöðvar fyrir nemendur og kennara sem skuli m.a. þjálfa nemendur og starfsfólk skóla í sjálfstæðri leit upplýsinga.
    Engin ákvæði um bókasöfn er að finna í gildandi lögum um háskóla, nr. 63/2006, né í lögum um opinbera háskóla, nr. 85/2008, og þykir ekki rétt að setja sérstakar skilgreiningar slíkra safna í ákvæði þessara laga. Bókasöfn háskólastofnana eru engu að síður meðal þeirra bókasafna skóla sem vísað er til í 4. mgr.
    Loks eru sérfræðisöfn og bókasöfn stofnana skilgreind sem þekkingarmiðstöðvar á þeim sviðum sem þau eru sköpuð til að þjóna. Gildi slíkra safna mun aukast í náinni framtíð eftir því sem þekkingu og sérhæfingu á ýmsum sviðum fleygir fram, og því er talið rétt að skilgreining sem þessi sé fest í lög.

Um 8. gr.

    Greinin er að mestu samhljóða 7. og 8. gr. gildandi laga um almenningsbókasöfn. Hér er kveðið á um að yfir almenningsbókasafni skuli vera stjórn, en ekki er talin þörf á að kveða á um tiltekinn fjölda stjórnarmanna og er sú ákvörðun í höndum sveitarstjórna. Þá er sveitarstjórnum veitt heimild til að skipa eina stjórn sem fer með málefni bókasafna sveitarfélagsins, hvort sem þau eru eitt eða fleiri. Loks er algengt að sveitarstjórnir feli sömu fastanefnd að vera stjórn fleiri en einnar menningarstofnunar á sínum vegum, og standa ákvæði greinarinnar ekki í vegi fyrir því að svo verði áfram.
    Einnig er hér undirstrikuð ábyrgð bókasafnsstjórnar á að fagleg sjónarmið séu höfð að leiðarljósi í starfi safnanna og að þess skuli gætt að unnið sé eftir lögum og reglugerðum. Skal stjórn almenningsbókasafns vera málsvari safnsins í samræmi við almennt hlutverk stjórna stofnana sem reknar eru í þágu almennings.

Um 9. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 3. gr. og 2. mgr. 9. gr. gildandi laga um almenningsbókasöfn. Þar er kveðið á um heimild sveitarfélaga til að sameinast um rekstur almenningsbókasafns í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga. Slíkt samstarf skal ákveðið með samstarfssamningi og í honum skal kveða á um skiptingu kostnaðar og aðild hvers sveitarfélags að stjórn safnsins og verkefni stjórnar.

Um 10. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 4. gr. laga um almenningsbókasöfn.
    Hér er sveitarfélögum veitt heimild til að sameina almenningsbókasafn og skólasafn grunnskóla. Um slíka sameiningu skal gera skriflegan samstarfssamning á milli bókasafnsstjórnar og skólanefndar og skal hann samþykktur af hlutaðeigandi sveitarstjórn eða sveitarstjórnum.
    Sambærileg heimild er til sameiginlegs rekstrar almenningsbókasafns og skólasafns framhalds- eða háskóla, þegar slíkt er talið henta.
    Mikilvægt er að þegar almenningsbókasafn og skólasafn eru rekin saman sé vel séð fyrir aðgengi almennings að safninu utan skólatíma og að tekið sé tillit til hagsmuna beggja notendahópa, þ.e. skólanemenda og almennings, þannig að önnur safnategundin yfirgnæfi ekki hina.
    Í öllum tilvikum er eðlilegt að tillit sé tekið til sérstaks eðlis hverrar tegundar bókasafns. Í þessu sambandi má einnig benda á að heppilegt kann að vera að safnkostur sé aðgreinanlegur með það að markmiði að unnt sé að aðskilja safnkostinn ef bókasöfnin verða aðskilin síðar.

Um 11. gr.

    Í greininni er tekið fram að forstöðumaður bókasafns skuli hafi lokið prófi í bókasafns- og upplýsingafræði, sé þess kostur að ráða starfsmann með slíka menntun til starfans. Í ákvæðinu felst þó ekki skylda til þess að ráða forstöðumann sem lokið hefur prófi í faginu.
    Þá er lagt til að tryggja skuli eftir föngum að bókasöfn hafi á að skipa starfsfólki sem hafi sérmenntun sem hæfi verksviði safnanna og loks að búnaður bókasafna, húsnæði og safnkostur taki mið af hlutverki þeirra.

Um 12. gr.

    Í greininni felst nýmæli. Þar segir að bókasöfnum sé heimilt að setja reglur um afnot af safnkosti sínum og meðal annars aðgang almennings að safnkostinum. Þessi tillaga er fram komin vegna mögulegrar sérstöðu ýmissa safna hvað varðar safneign og notkun hennar, en í reynd er líklegt að í mörgum bókasöfnum kunni að vera til staðar sérstakur safnkostur, sem væri eðlilegt að einungis væri til afnota á viðkomandi safni samkvæmt sérstökum reglum, en væri e.t.v. ekki ætlaður til útláns. Þannig má m.a. setja reglur um forgang starfsmanna og nemenda einstakra skóla eða stofnana að umræddum safnkosti umfram aðra aðila, eða aðrar reglur um takmörkun á aðgengi annarra en safnkostinum er ætlað að þjóna.
    Enn fremur er bókasöfnum veitt heimild til að krefjast tryggingarfjár, t.d. þegar safnkostur er lánaður í millisafnaláni eða af öðrum ástæðum til þess að tryggja að umræddum verkum verði skilað og þjónustan sé safninu að skaðlausu.
    Loks er í greininni kveðið á um heimild til handa bókasöfnum til að hafa samstarf sín á milli með það að markmiði að rækja hlutverk sitt með sem bestum hætti. Dæmi um slíkt samstarf eru sameiginlegt skráningarkerfi, millisafnalán o.fl. og geta bókasöfn gert sérstaka þjónustu- og samstarfssamninga sín á milli þar að lútandi.

Um 13. gr.

    Þar sem gera má ráð fyrir að ekki sé alltaf hagkvæmt að öll bókasöfn sinni sértækri þjónustu er gert ráð fyrir að ráðherra geti gert þjónustusamninga við tiltekin bókasöfn eða aðra um að sinna ákveðinni þjónustu. Sem dæmi um slíka þjónustu við tiltekna hópa má t.d. nefna uppbyggingu bókakosts fyrir afmarkaða hópa íbúa sem eiga sér annað móðurmál en íslensku, lesblinda, tækniþjónustu o.s.frv. Áður en slíkir samningar eru gerðir skal leitað umsagnar bókasafnaráðs.
    Þegar gerðir eru þjónustusamningar um sértæka þjónustu á ákveðnu sviði skulu verkefnin skilgreind í samningnum, en auk þess skal kveða á um hvernig viðkomandi verkefnum skuli stjórnað, hver beri ábyrgð á þeim, lengd samningstíma og hvernig úttekt á árangri skuli fara fram. Þá skal einnig gerð grein fyrir því í samningnum hvernig greiðslum vegna þjónustunnar skuli háttað.
    Þessi heimild er nýmæli í lögum og gæti auðveldað framkvæmd ýmissa verkefna sem horfa til framþróunar á starfssviðum bókasafna.

Um 14. gr.

    Skipulag söfnunar tölfræðilegra upplýsinga um bókasafnamál hefur verið nokkuð á reiki hér á landi, a.m.k. síðasta áratug. Sérfræðisöfnin hafa sum hver skilað tölfræðilegum upplýsingum til Hagstofu Íslands, en almenningsbókasöfn og skólasöfn hafa skilað slíkum upplýsingum til mennta- og menningarmálaráðuneytis (eða aðila sem það hefur falið verkefnið samkvæmt þjónustusamningi) í samræmi við ákvæði 12. gr. gildandi laga um almenningsbókasöfn. Þá hefur mjög verið litið til þess að hægt verði að draga slíkar upplýsingar með samræmdum hætti úr almennu skráningarkerfi bókasafna, www.gegnir.is, sem rekið er af fyrirtæki í sameiginlegri eigu ríkis og sveitarfélaga, Landskerfi bókasafna hf.
    Hér er gert ráð fyrir að samhæfa þessa upplýsingasöfnun þannig að öll bókasöfn skili skýrslum um fjármál sín og starfsemi til ráðuneytisins í samræmi við reglur sem bókasafnaráð setur og ráðherra staðfestir. Ráðuneytið getur hins vegar kosið að fela öðrum það verkefni er hér um ræðir með þjónustusamningi þar að lútandi í samræmi við heimild til slíkra samninga skv. 13. gr.

Um 15. gr.

    Í IV. kafla er fjallað um Hljóðbókasafn Íslands, en hér er um að ræða breytingu frá eldra heiti viðkomandi safns, sem hefur verið Blindrabókasafn Íslands. Byggist tillagan um hið nýja nafn á þeirri þróun sem orðið hefur í starfsemi safnsins undanfarinn áratug, m.a. vegna örra tæknibreytinga, svo og þeim breiða hópi sem nú nýtur þjónustu safnsins, þ.e. blindir, sjónskertir, lesblindir o.fl.
    Í greininni er fjallað um hlutverk safnsins. Sérstaða þess er að því er skylt að sjá þeim fyrir bókasafnsþjónustu sem ekki geta fært sér prentað letur í nyt. Því er þar með einkum ætlað þjónustuhlutverk við afmarkaðan hóp þeirra sem ekki geta nýtt sér hefðbundinn safnkost annarra bókasafna og skal miðla fjölbreyttu safnefni, þar á meðal námsgögnum, á öðru formi en hefðbundnu prentuðu letri, t.d. með hljóðritunum. Ákvæðið er efnislega samhljóða 1. gr. gildandi laga um Blindrabókasafn Íslands, nr. 35/1982.
    Fyrri hluti 3. mgr. er samhljóða 2. mgr. 2. gr. í gildandi lögum um Blindrabókasafn Íslands, en í síðari hluta greinarinnar er safninu veitt heimild til að gera þjónustu- og samstarfssamninga við utanaðkomandi aðila til að rækja hlutverk sitt sem best. Er slík heimild talin eðlileg í ljósi þess að í sumum tilvikum kunna slíkir aðilar að vera betur hæfir en safnið, m.a. vegna tækjabúnaðar eða aðstöðu, til að veita ákveðna þjónustu og jafnvel gegn lægra verði.
    Síðasta málsgreinin er efnislega samhljóða 8. gr. laga um Blindrabókasafn Íslands. Hér er einnig tekið fram að öðrum tekjum safnsins skuli verja í þágu þess. Með tekjum stofnunarinnar er átt við mögulegan hagnað af verkefnum sem safnið kann að taka að sér að vinna og ekki eru einskorðuð við þarfir blindra og sjónskertra. Þá getur einnig verið um að ræða tekjur af sölu á eintökum bóka eða námsgagna til einstaklinga eða stofnana, styrki til safnsins o.fl., eins og lýst var í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að gildandi lögum um Blindrabókasafn Íslands.

Um 16. gr.

    Greinin er samhljóða 6. gr. gildandi laga um Blindrabókasafn Íslands, nr. 35/1982, og þarfnast ekki skýringa (utan þess sem fylgir breytingu á nafni safnsins).

Um 17. gr.

    Það er ljóst að skv. 15. gr. er Hljóðbókasafni Íslands ætlað að þjóna breiðum notendahóp, en í 2. mgr. hennar er hann skilgreindur sem allir þeir sem ekki geta fært sér venjulegt prentað letur í nyt. Til að gegna þessu hlutverki sem best er æskilegt að safnið geti leitað samráðs við notendur sína til að geta skipulagt framboð sitt á þjónustu sem best í samræmi við óskir þeirra og þarfir. Hópur af því tagi sem hér er lagður til er vel til þess fallinn að sinna því hlutverki að veita forstöðumanni tækifæri til samráðs, t.d. um starfsáætlanir, framboð þjónustu og nýjungar í starfseminni, sem líklegt er að skipti miklu í starfsemi safnsins á næstu árum, líkt og verið hefur undanfarin ár.
    Þrátt fyrir almenna þróun undanfarinna ára í löggjöf um stofnanir á vegum ríkisins sem felst í að fella brott ákvæði um stjórnir er skipan og hlutverk þessa hóps í fullu samræmi við skipan og hlutverk t.d. stjórnar Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns samkvæmt lögum nr. 142/2011, og fyrirhugaða skipan og hlutverk stjórnarnefndar Þjóðskjalasafns Íslands samkvæmt frumvarpi til laga um opinber skjalasöfn. Er eðlilegt að ákvæði laga um þennan samráðshóp svipi til ákvæða um þær stjórnir og stjórnarnefndir, og tekur framsetning greinarinnar mið af þeim.

Um 18. gr.

    IV. kafli fjallar um fjármál bókasafna.
    Í 1. mgr. 18. gr. er kveðið á um að framlög til almenningsbókasafna skuli ákveðin í árlegri fjárhagsáætlun hvers sveitarfélags. Mikilvægt er að bókasöfnum sé skapaður viðunandi rekstrargrundvöllur og því er stjórnendum bókasafna nauðsynlegt að fá með skipulegum hætti upplýsingar um það hver árleg framlög til safnanna verði. Ekki er kveðið á um ákveðnar fjárhæðir sem sveitarfélög skuli leggja bókasöfnum til, en einungis lögð sú skylda á sveitarfélög að tekin sé ákvörðun um framlögin við gerð fjárhagsáætlunar.
    Í 2. mgr. er með sama hætti ákvæði um að í árlegum fjárhagsáætlunum skóla og annarra stofnana sem slíkt á við um skuli kveðið á um framlög til bókasafns viðkomandi skóla eða stofnunar. Er stjórnendum slíkra safna mikilvægt að fá upplýsingar um hver framlög til bókasafnsins verða á næsta fjárhagsári til þess að unnt sé að efla safnkost og stuðla að hagkvæmni í rekstri.
    Mælt er með því að skapað verði svigrúm til þess að bókasöfn geti í auknum mæli aflað sértekna, sem m.a. gætu falist í því að fá styrktaraðila til að borga áskriftir ákveðinna tímarita og/eða gagnagrunna o.fl. Til að slíkt svigrúm skapist þykir nauðsynlegt að kveða á um að fjárframlög til bókasafna verði frádráttarbær til skatts skv. 2. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Sambærilegt ákvæði er að finna í safnalögum, nr. 141/2011.

Um 19. gr.

    Mörg bókasöfn hér á landi hafa tekið gjald fyrir ýmsa þætti þjónustu sinnar um árabil, en skýrt heimildarákvæði til slíkrar innheimtu hefur þótt skorta í lög. Hinn 16. júní 2011 tók gildi nýtt ákvæði af þessu tagi með breytingu á lögum um almenningsbókasöfn (lög nr. 69/2011), en með þessari grein tekur slíkt ákvæði til allra flokka bókasafna sem lögin ná til.
    Þá er einnig kveðið á um að bókasöfnum sé heimilt að innheimta dagsektir fyrir afnot safnefnis fram yfir skilafrest og bætur fyrir glatað safnefni, og með hvaða hætti slíkar dagsektir og bætur skuli ákveðnar. Stjórnendur bókasafna hafa komið fram með þau sjónarmið að það hámark dagsekta sem er að finna í 14. gr. gildandi laga um almenningsbókasöfn (4.000 kr.) sé of lágt til að slíkar sektir hafi tilætluð varnaðaráhrif og skili þeim árangri sem að er stefnt, sérstaklega þegar vanskil eru vegna margra bóka eða annars safnkosts, og því er lagt til að umrætt ákvæði um hámark dagsekta verði fellt brott. Að vel athuguðu máli er því lagt til í frumvarpinu að hámark dagsekta sem lagðar eru á hvern lánþega vegna tiltekins safnefnis eða bætur sem innheimtar eru vegna þess megi mest nema innkaupsverði viðkomandi efnis. Þá er lagt til að safn geti lagt sérstakt álag á sektir eða bætur samkvæmt þessari grein ef um mikilvægt efni er að ræða.
    Loks segir í greininni að gjaldskrár samkvæmt ákvæðum greinarinnar skuli birta með aðgengilegum hætti.
    Rétt er að benda á að skv. 1. mgr. 31. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008, skal kennsla í skyldunámi í opinberum grunnskólum veitt nemendum að kostnaðarlausu og er óheimilt að krefja nemendur eða foreldra þeirra um greiðslu fyrir kennslu, þjónustu, námsgögn eða annað efni sem nemendum er gert skylt að nota í námi sínu og samrýmist ákvæðum laganna og aðalnámskrá. Af þessu leiðir að gjaldtökuheimild í 19. gr. frumvarpsins tekur ekki til skólabókasafna grunnskóla.
    Í reglugerð um gjaldtökuheimildir opinberra framhaldsskóla nr. 614/2009, sem sett er á grundvelli 45. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, segir eftirfarandi í 5. gr. (Þjónusta sem boðin er án endurgjalds): „Þjónusta sem nemendum í framhaldsskólum stendur til boða, auk kennslu án sérstaks endurgjalds, er eftirfarandi: Aðgangur að bókasafni og þjónusta bókasafns- og upplýsingafræðinga; þjónusta náms- og starfsráðgjafa; aðstoð og þjónusta umsjónarkennara; skólanámskrá og kennsluáætlanir; stundatafla, fjarvistayfirlit, námsferill og brautskráningarskírteini; aðgangur að lesstofu og nettengdum tölvum.“ Því er ljóst að umrædd gjaldtökuheimild tekur ekki heldur til bókasafna í framhaldsskólum.

Um 20. gr.

    Í VI. kafla frumvarpsins er lagt til að stofnaður verði bókasafnasjóður sem hafi það hlutverk að efla starfsemi bókasafna með því m.a. að styrkja rannsóknir og þróunar- og samstarfsverkefni á sviði bókasafna- og upplýsingamála. Er þetta nýmæli í lögum.
    Í lögum um almenningsbókasöfn, nr. 36/1997, var ákvæði til bráðabirgða sem gerði ráð fyrir framlagi úr ríkissjóði að upphæð 4 millj. kr. árlega í fimm ár til að stuðla að því að almenningsbókasöfn yrðu fær um að bjóða þjónustu sem styddist við nútímatækni og til að greiða fyrir tengingu bókasafna landsins í stafrænt upplýsinganet.
    Samtals bárust 124 umsóknir með beiðni um framlög að upphæð 65–70 millj. kr. Almenningsbókasöfnum voru veittir alls 63 styrkir, samtals að upphæð 20 millj. kr., m.a. til að kaupa tölvubúnað og tengingar við netið, námskeið o.fl. (51 styrkur, samtals 12,8 millj. kr.) og til annarrar þróunarstarfsemi svo sem náms, námsefnisgerðar og námskeiða, til þess að semja fræðsluefni og handbækur og til þess að byggja upp gagnagrunna (12 styrkir, samtals 7,2 millj. kr.).
    Við framkvæmd þessa verkefnis kom berlega í ljós rík þörf fyrir styrki til þróunar- og samstarfsverkefna bókasafna. Fullyrða má að skortur á fé til sameiginlegra verkefna þeirra hafi staðið frekari þróun bókasafna hér á landi fyrir þrifum hin síðari ár.
    Félög á sviði bókasafns- og upplýsingafræða bentu ítrekað á þessa staðreynd og lögðu til að stofnaður yrði bókasafnasjóður eða þróunarsjóður bókasafna þegar umræddu tímabili samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu lyki, en það gilti frá 1997–2001. Hefur verið bent á að fjárveitingar úr slíkum sjóði væru í samræmi við hlutverk sambærilegra sjóða sem sinna þróunarmálum samhliða öðrum verkefnum á öðrum sviðum, svo sem safnasjóðs, fornleifasjóðs og húsafriðunarsjóðs.
    Í greininni er því lagt til að slíkur sjóður verði settur á stofn og fjallað um hlutverk hans og til hvers styrkjum hans skuli varið.
    Lagt er til að tekjur bókasafnasjóðs verði til með sama hætti og tekjur safnasjóðs samkvæmt gildandi safnalögum og nýjum safnalögum, nr. 141/2011, sem taka gildi 1. janúar 2013, þ.e. einkum með framlagi ríkissjóðs sem ákveðið er í fjárlögum.

Um 21. gr.

    Bókasafnaráði ber skv. 5. gr. að setja sjóðnum sérstakar úthlutunarreglur og skulu þær hljóta staðfestingu ráðherra. Er það fyrirkomulag með sama hætti og gildir um safnasjóð samkvæmt safnalögum, nr. 141/2011, og fyrirhugað er að gildi einnig um fornminjasjóð og húsafriðunarsjóð samkvæmt frumvarpi til laga um menningarminjar.
    Í greininni felst einnig heimild til að krefjast endurgreiðslu styrks ef talið er að verkefni hafi ekki verið unnin í samræmi við umsókn, skilmálum sjóðsins hafi ekki verið fylgt eða lokaskýrslu um verkefni hafi ekki verið skilað innan tilskilins tíma; öll eru þessi ákvæði ætluð til að tryggja aðhald og eftirfylgni með styrkjum úr sjóðnum.
    Ráðherra úthlutar styrkjum úr sjóðnum að fengnum tillögum bókasafnaráðs, og er það sama fyrirkomulag og viðhaft er við úthlutun styrkja úr safnasjóði samkvæmt safnalögum.
    Styrkir úr bókasafnasjóði skulu vera undanþegnir tekjuskatti, líkt og styrkir úr húsafriðunarsjóði eru skv. 16. gr. laga nr. 104/2001, um húsafriðun.

Um 22.–23. gr.

    Í síðasta kafla laganna er að finna önnur almenn ákvæði. Fyrst ber að nefna ákvæði í 22. gr. sem veita ráðherra heimild til að setja reglugerðir, og síðan um gildistöku laganna í 23. gr. og lög sem falla úr gildi samtímis þeirri gildistöku.
    Þessar greinar þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 24. gr.

    Ákvæði um gjaldtökuheimildir í lögum um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, nr. 142/2011 (8. gr.), voru sniðin að fyrirmynd ákvæða í 14. gr. laga um almenningsbókasöfn, sem lögtekin voru 11. júní 2011.
    Í þessu frumvarpi er verið að leggja til breytingu á þessum atriðum með ákvæðum um gjaldtökuheimildir bókasafna almennt (í 19. gr. frumvarpsins). Er því talið eðlilegt að leggja til að gerð verði samsvarandi breyting á ákvæðum um gjaldtökuheimildir í lögum um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, til að tryggja að öll bókasöfn í landinu vinni á sama grundvelli hvað þessi mál varðar.
    Er einfaldast að gera það með fyrirliggjandi tillögu um nýja grein í lok þessa frumvarps, sem vísar til breytinga á þeim lögum, líkt og almennt er þegar öðrum lögum er breytt samhliða setningu nýrra laga. Efnislega er þessi tillaga samhljóða 19. gr. þessa frumvarps, að teknu tilliti til fyrirkomulags stjórnunar Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Hér er kveðið á um að verði frumvarp þetta að lögum muni það ekki fela í sér breytingar á stöðu og réttindum starfsmanna Blindrabókasafns Íslands er heiti þess verður breytt í Hljóðbókasafn Íslands og störf þeirra flytjast yfir til þess. Þykir rétt að hafa slíkt ákvæði til að taka af allan vafa um réttarstöðu starfsmanna.



Fylgiskjal I.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti:

Mat á áhrifum frumvarpsins á fjárhag sveitarfélaga
skv. 129. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011.

    Gert er ráð fyrir skýrum heimildum til gjaldtöku vegna útlána, þjónustu, dagsekta og bóta allra bókasafna sem lögin ná til. Nú þegar er gjaldtökuheimild til staðar en þetta eykur svigrúm bókasafna eitthvað, en ákvæðið er þó ekki talið skipta verulegu máli fyrir tekjur bókasafna. Verði frumvarpið að lögum má gera ráð fyrir auknu samstarfi bókasafna sem rekin eru fyrir opinbert fé. Áhrif frumvarpsins á sveitarfélögin eru að svigrúm til að auka hagkvæmni í rekstri bókasafna mun aukast með afnámi umdæmisskiptingar bókasafna og skyldu til að hafa bókasöfn í sjúkrahúsum, dvalarheimilum aldraðra og í fangahúsum. Með vísan til þess sem að framan er rakið telur mennta- og menningarmálaráðuneytið að með lögfestingu frumvarpsins megi ætla að það muni ekki hafa íþyngjandi áhrif á fjárhag sveitarfélaga.



Fylgiskjal II.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til bókasafnslaga.

    Með frumvarpi þessu um bókasafnslög er lagt til að sett verði ein heildarlög um starfsemi almenningsbókasafna, skólabókasafna og Blindrabókasafns Íslands. Felld verði niður lög um almenningsbókasöfn sem og ákvæði um bókasöfn í sjúkrahúsum, dvalarheimilum aldraðra og í fangahúsum. Einnig verði stofnaður bókasafnasjóður sem hafi að markmiði að efla starfsemi bókasafna með því að styrkja rannsóknir og þróunar- og samstarfsverkefni í greininni. Þá er gert ráð fyrir stofnun bókasafnaráðs sem skuli vera ráðherra og stjórnvöldum til ráðgjafar og vinni m.a. að stefnumótun um starfsemi bókasafna. Loks er í frumvarpinu gert ráð fyrir skýrum heimildum til gjaldtöku vegna útlána, þjónustu, dagsekta og bóta.
    Helstu kostnaðaráhrif sem gætu falist í frumvarpinu eru í fyrsta lagi þau að gera má ráð fyrir rúmlega 1 m.kr. árlegum viðbótarkostnaði vegna skipunar bókasafnaráðs, sem í verði fimm fulltrúar í stað núverandi þriggja manna ráðgjafanefndar, að meðtöldum kostnaði vegna viðbótarverkefna. Í öðru lagi verður mennta- og menningarmálaráðuneyti ætlað að safna og vinna úr tölfræðilegum upplýsingum um bókasöfn á Íslandi en viðbótarkostnaður vegna þess er talinn verða óverulegur. Í þriðja lagi er í frumvarpinu heimildarákvæði um að ráðherra geti gert þjónustusamning við tiltekin bókasöfn eða aðra um sértæka þjónustu á ákveðnum sviðum að fenginni umsögn bókasafnaráðs. Loks er í frumvarpinu lagt til að stofnaður verði bókasafnasjóður, sem hafi það hlutverk að efla starfsemi bókasafna með styrkveitingum til rannsókna og þróunar- og samstarfsverkefna. Gera má ráð fyrir að bókasafnasjóður og þjónustusamningar ráðherra við bókasöfn fái framlög sem ákvörðuð verði af fjárlögum hverju sinni og hljóti að ráðast af ráðstöfun mennta- og menningarmálaráðuneytis af sínum útgjaldaramma, líkt og það hefur gert með framlögum til svipaðra verkefna á liðnum árum.
    Áhrif frumvarpsins á sveitarfélögin eru talin þau að svigrúm skapist til að auka hagkvæmni í rekstri bókasafna með afnámi umdæmisskiptingar bókasafna og skyldu þeirra til að reka bókasöfn í sjúkrahúsum, dvalarheimilum aldraðra og í fangahúsum.
    Verði frumvarpið lögfest ætti það því ekki að leiða til teljandi aukinna útgjalda hjá ríkissjóði umfram það sem þegar hefur verið ákveðið í fjárlögum. Ef talin verður meiri þörf fyrir aukna starfsemi á þessu sviði fremur en öðrum verður að gera ráð fyrir að mennta- og menningarmálaráðuneytið muni þá forgangsraða til verkefnisins öðrum fjárheimildum innan síns útgjaldaramma.