Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 437. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1098  —  437. mál.




Svar



fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur um
neytendalán í eigu Seðlabanka Íslands og dótturfélaga.


    Fjármála- og efnahagsráðuneytið leitaði eftir upplýsingum hjá Seðlabanka Íslands. Eru svörin sem hér fylgja byggð á upplýsingum bankans.

     1.      Hver er fjöldi, kröfuvirði og bókfært virði neytendalána til heimila og einstaklinga sem eru í eigu Seðlabanka Íslands og dótturfélaga, sundurliðað eftir fasteignaveðlánum, bílalánssamningum og öðrum tegundum, þ.m.t. gengis- eða verðtryggingu?
    Það eru engin neytendalán á efnahagsreikningi Seðlabanka Íslands (SÍ) né heldur Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf. (ESÍ). Hins vegar eru neytendalán hjá Hildu og miðað við 30. júní 2012 voru lán til einstaklinga 1.624. Þessi lán eru nær öll eingöngu með veði í fasteignum eða eiga uppruna sinn að rekja til fasteignalána.
    Fasteignalán í eigu Hildu miðað við 30 júní 2012 skiptast í 1.426 verðtryggð lán, þrjú óverðtryggð lán og 186 ólögmæt gengistryggð lán. Hilda á engin bílalán. Níu einstaklingslán Hildu teljast ekki til fasteignalána.
    Þar sem stefnt er að því að selja lánasöfn Hildu á næstu missirum er ekki unnt að veita upplýsingar um áætlað verðmæti framangreindra lána né bókfært verðmæti þeirra. Sú afstaða byggir á þeim forsendum að slíkar upplýsingar kunni að hafa áhrif á söluverð lánasafnanna.

     2.      Hver er fjöldi, kröfuvirði og bókfært virði sértryggðra skuldabréfa í eigu Seðlabanka Íslands og dótturfélaga sem tryggð eru með veði í fasteignalánasöfnum í eigu fjármálafyrirtækja eða sjóða, sundurliðað eftir mótaðilum?
    ESÍ á sértryggð skuldabréf, að nafnverði um 1 ma. kr., samkvæmt skilgreiningu laga nr. 11/2008, um sértryggð skuldabréf.
    ESÍ á hlut í fjórum flokkum „samningsbundinna sértryggðra skuldabréfa“ útgefnum af Arion banka hf. samtals að upphaflegu útgefnu nafnvirði um 72 ma. kr., sjá frekari upplýsingar á heimasíðu Arion banka hf. um útgáfurnar. Um er að ræða skuldabréf með sambærilega eiginleika og skuldabréf samkvæmt skilgreiningu laga nr. 11/2008, um sértryggð skuldabréf.
    ESÍ á að auki skuldabréf útgefin af Arion banka hf. og Íslandsbanka hf., samtals að nafnvirði um 105 ma. kr. tryggð með veði í lánasöfnum, sem innihalda bæði lán til einstaklinga og fyrirtækja.
    Þá má geta þess að ESÍ leysti til sín veðsett íbúðabréf en þeim hefur að mestu verið ráðstafað til SÍ sem greiðslu inn á lán SÍ til ESÍ.
    Þar sem stefnt er að sölu á skuldabréfum ESÍ eru ekki veittar upplýsingar um áætlað verðmæti framangreindra skuldabréfa né bókfært verðmæti þeirra.
    Sú afstaða byggir á þeim forsendum að slíkar upplýsingar kunni að hafa áhrif á söluverð skuldabréfanna.
    Hilda á hvorki sértryggð skuldabréf né sambærileg skuldabréf .

     3.      Hverjar og hvers konar aðrar kröfur á lánveitendur neytendalána og útlán þeirra til heimila og einstaklinga eru í eigu Seðlabanka Íslands og dótturfélaga, sundurliðað eftir tegund og mótaðilum?
    Sjá svar við 2. tölul. fyrirspurnarinnar, auk þess sem ESÍ á kröfur á sparisjóði að fjárhæð um 1,5 ma. kr.

     4.      Hversu mörgum rétthafabreytingum á veðböndum hefur verið þinglýst vegna fasteignaveðlána neytenda eða sértryggðra skuldabréfa sem Seðlabanki Íslands og dótturfélög hafa eignast?
    Uppistaða af lánum í eigu Hildu til einstaklinga eru fasteignalán, sbr. svar við 1. tölul. fyrirspurnarinnar. Þetta eru lán sem voru í eigu SPRON og Frjálsa fjárfestingarbankans hf. auk lána sem sett höfðu verið í sérstakan sjóð, sem gaf út skuldabréf á móti, sem aftur var veðsett í SÍ á árinu 2008 ásamt umræddum lánum. Sjóðnum hefur verið slitið og eignum hans ráðstafað til ESÍ/Hildu auk þess sem önnur veðsett lán voru framseld beint til Hildu.
    Skuldaraskipti hafa átt sér stað á lánum í lánasafninu, svo sem vegna fasteignaviðskipta sem og skilmálabreytinga. Upplýsingar um fjölda slíkra breytinga liggja ekki fyrir á þessari stundu.

     5.      Hverjar eru heildartekjur ríkissjóðs vegna þinglýsingargjalda af rétthafabreytingum á veðböndum húsnæðisveðlána sem Seðlabanka Íslands og dótturfélög hafa eignast?

    Á þessari stundu liggja þessar upplýsingar ekki fyrir, en þess má geta að kostnaður við að þinglýsa viðauka við skuldabréf, svo sem vegna skilmálabreytinga eða skuldaraskipta, er 2 þús. kr. á hvert skjal.