Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 465. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1105  —  465. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit



um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 200/2012 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.


Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið umsögn um það frá 1. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 200/2012, frá 26. október 2012, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 66/2010, frá 25. nóvember 2009, um umhverfismerki ESB. Sex mánaða frestur, samkvæmt EES-samningnum, til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara er veittur til 26. apríl 2013. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála frá 1. október 2010.
    Reglugerðin kveður á um stofnun og notkun á valfrjálsu umhverfismerkjakerfi Evrópusambandsins með það að markmiði að hvetja til notkunar vara, sem eru afar vistvænar, með því að nota umhverfismerki ESB. Settar eru kröfur um viðmiðanir, svo sem áhrif vöru á náttúruna, á loftslagsbreytingar, á orku- og auðlindanýtingu, o.s.frv.
    Innleiðing framangreindrar gerðar kallar á lagabreytingar hér á landi og hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, til innleiðingar á ákvæðum reglugerðarinnar (þskj. 320, 287. mál) í því skyni. Frumvarpið hefur verið til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd.
    Hvorki er gert ráð fyrir að innleiðing reglugerðarinnar muni hafa í för með sér teljandi efnahagslegar né stjórnsýslulegar afleiðingar.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Helgi Hjörvar og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 19. febrúar 2013.



Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Lúðvík Geirsson.


Álfheiður Ingadóttir.



Ragnheiður E. Árnadóttir.


Gunnar Bragi Sveinsson.


Guðlaugur Þór Þórðarson.




Fylgiskjal.


Umsögn


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 200/2012 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.


Frá 1. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.



    Utanríkismálanefnd óskaði eftir því með tölvupósti, dags. 4. febrúar 2013, að umhverfis- og samgöngunefnd léti í té álit sitt á tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 200/2012 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn (465. mál).
    Umhverfis- og samgöngunefnd hefur fjallað um málið. Með vísan til þess að umhverfis- og samgöngunefnd hefur haft til umfjöllunar frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, til innleiðingar á ákvæðum reglugerðarinnar (þskj. 320, 287. mál) gerir 1. minni hluti nefndarinnar ekki athugasemd við það að hinum stjórnskipulega fyrirvara verði aflétt af umræddri EES-gerð.
    Birgir Ármannsson, Árni Johnsen og Arndís Soffía Sigurðardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 18. febrúar 2013.

Ólafur Þór Gunnarsson, form.,
Ólína Þorvarðardóttir,
Mörður Árnason,
Margrét Pétursdóttir.