Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 632. máls.

Þingskjal 1108  —  632. mál.


Frumvarp til laga

um heimild til samninga um kísilver í landi Bakka í Norðurþingi.

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)




1. gr.
Heimild.

    Ráðherra er veitt heimild til að gera fjárfestingarsamning fyrir hönd ríkisstjórnarinnar innan ramma þessara laga við PCC SE (eigandinn) og PCC BakkiSilicon hf. (félagið) en félagið mun reisa og reka kísilver á Íslandi (verkefnið).
    Þrátt fyrir að ákvæði í lögum nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, heimili frávik frá almennum reglum um skatta og opinber gjöld í 13 ár frá undirritun samnings en aldrei lengur en í 10 ár frá því að skattskylda eða gjaldskylda myndast hjá félaginu er heimilt að láta samning við félagið gilda í 14 ár í stað 13 ára, en aldrei lengur en í 10 ár frá því að skattskylda eða gjaldskylda myndast hjá félaginu.
    Fjárfestingarsamningur sá sem ráðherra undirritar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar samkvæmt lögum þessum skal birtur í B-deild Stjórnartíðinda.
    Starfsemi félagsins skal vera í samræmi við íslensk lög og stjórnvaldsfyrirmæli eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum.

2. gr.
Verkefnið.

    Verkefnið sem lög þessi taka til felur í sér að félagið byggir kísilver í landi Bakka í Norðurþingi til framleiðslu á kísilmálmi og aðstöðu sem tengist slíkri framleiðslu og skyldri starfsemi eins og nánar verður kveðið á um í fjárfestingarsamningi sem gerður verður innan ramma laga þessara á milli ráðherra, félagsins og eigandans. Kísilverið er hannað til framleiðslu á allt að 33 þúsund tonnum af kísilmálmi á ári og með það fyrir augum að framleiðslugetan verði aukin upp í 66 þúsund tonn af kísilmálmi á ári þegar aðstæður leyfa.

3. gr.
Skattlagning og gjaldtaka.

    Félagið skal greiða skatta og önnur opinber gjöld sem almennt eru lögð á hér á landi, eftir þeim reglum sem um þau gilda samkvæmt lögum á hverjum tíma, nema að því leyti sem á annan veg er fyrir mælt í lögum þessum.
    Félagið skal eiga rétt á ívilnunum í samræmi við lög nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, með síðari breytingum, þ.m.t. þjálfunarstyrk skv. 12. gr. laganna að fenginni heimild í fjárlögum, enda uppfylli fjárfestingarverkefnið skilyrði þeirra fyrir veitingu ívilnana. Félagið skal einnig eiga rétt á ívilnunum samkvæmt eftirfarandi sérákvæðum:
     1.      Þrátt fyrir ákvæði í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og breytingar sem síðar kunna að verða á þeim lögum skal félagið greiða 15% tekjuskatt. Ef tekjuskattshlutfall á félög með takmarkaðri ábyrgð, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er lægra en 15% skal hið lægra tekjuskattshlutfall gilda um félagið á gildistíma fjárfestingarsamningsins. Verði tekjuskattshlutfallið hækkað að nýju skal það gilda um félagið en þó aldrei vera hærra en 15%.
     2.      Þrátt fyrir ákvæði 4. tölul. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2010 skal félagið undanþegið stimpilgjöldum af öllum stimpilskyldum skjölum sem félagið gefur út eða stofnað er til í tengslum við uppbyggingu fjárfestingarverkefnisins.
     3.      Þrátt fyrir ákvæði 6. tölul. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2010 skal skatthlutfall fasteignaskatts félagsins vera 50% lægra en lögbundið hámark að viðbættu álagi skv. II. kafla laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.
     4.      Þrátt fyrir ákvæði 7. tölul. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2010 skal félagið vera undanþegið almennu tryggingagjaldi sem kveðið er á um í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald.
    Í fjárfestingarsamningi er heimilt að kveða á um að:
     a.      ekki skuli leggja á félagið umhverfisgjöld eða umhverfisskatta sem tengjast losun lofttegundanna CO 2 og SO 2 eða annarri losun eða öðrum mengunarvöldum nema slík gjöld eða skattar séu almennt lagðir á önnur fyrirtæki á Íslandi, þ.m.t. öll önnur kísilver, og mismuni ekki félaginu að öðru leyti,
     b.      ekki skuli leggja skatta eða gjöld á raforkunotkun félagsins eða útblástur lofttegunda eða aðra losun úrgangsefna nema slík gjöld og skattar séu jafnframt lögð með almennum hætti á öll önnur íslensk fyrirtæki, þ.m.t. kísilver, og mismuni ekki félaginu að öðru leyti,
     c.      ekki skuli leggja á gjöld eða skatta í tengslum við raforkukaup og/eða raforkunotkun félagsins nema slík gjöld eða skattar séu almennt lagðir á önnur fyrirtæki á Íslandi, þ.m.t. öll önnur kísilver, og mismuni ekki félaginu að öðru leyti.
    Almenn ákvæði íslenskra laga um tekjuskatt, virðisaukaskatt og gjöld sem sveitarfélög leggja á og í gildi eru á hverjum tíma og varða skattframtal, framtalsfrest, álagningu, endurskoðun, endurálagningu, innheimtu, gjalddaga og greiðslu, sem og aðrar uppgjörsreglur varðandi tekjuskatt, virðisaukaskatt og gjöld sem sveitarfélög leggja á, auk andmæla og ágreinings í tengslum við þau, skulu gilda um félagið.
    Á gildistíma fjárfestingarsamningsins getur félagið valið að almenn ákvæði íslenskra skattalaga, eins og þau eru á hverjum tíma, gildi um það fremur en sérákvæði fjárfestingarsamningsins. Beiðni um slíka breytingu skal gerð með skriflegri tilkynningu sem lögð skal fram eigi síðar en 1. júní á almanaksári áður en breytingin á að taka gildi. Berist slík beiðni skulu ríkisstjórnin, eigandinn og félagið þegar ganga til samninga um breytinguna yfir í hið almenna skattkerfi. Ríkisstjórnin, eigandinn og félagið skulu koma sér saman um aðferðir við framkvæmd slíkrar breytingar. Eftir það skal félagið lúta almennum íslenskum skattalögum það sem eftir er af gildistíma fjárfestingarsamningsins.

4. gr.
Lóðarframkvæmdir.

    Með samningi sem er gerður samkvæmt lögum þessum, og að fenginni heimild á fjárlögum, má ákveða að ríkissjóður taki þátt í kostnaði vegna undirbúnings á iðnaðarlóð félagsins í landi Bakka að fjárhæð 3,3 milljónir evra. Útborgun greiðslna samkvæmt þessari heimild skal innt af hendi í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi evru (kaupgengi) eins og það er skráð við hverja útborgun, samkvæmt sérstökum samningi sem gerður verður þar um við framkvæmdaraðila.

5. gr.
Framsal.

    Heimilt er að semja um framsal félagsins og eigandans á fjárfestingarsamningnum með tilteknum skilyrðum sem skulu koma fram í fjárfestingarsamningnum.

6. gr.
Lögsaga og lausn deilumála.

    Uppbygging, túlkun og framkvæmd samninga, sem eru gerðir innan ramma þessara laga, skal lúta lögsögu íslenskra laga. Heimilt er þó í fjárfestingarsamningi að semja um að ágreiningi skuli vísa til gerðardóms.

7. gr.

    Samningur sem er gerður samkvæmt lögum þessum skal ekki taka gildi fyrr en Eftirlitsstofnun EFTA hefur veitt samþykki fyrir honum.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu að höfðu samráði við sveitarfélagið Norðurþing. Með því er lagt til að ráðherra sem fer með málefni atvinnuþróunar og fjárfestingar, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, verði veitt heimild til að semja við PCC BakkiSilicon hf. og eiganda þess, PCC SE, um kísilver í landi Bakka í Norðurþingi í samræmi við ákvæði frumvarpsins.

1. Tilgangur og nauðsyn lagasetningar.
    Á síðustu áratugum hafa íslensk stjórnvöld gert sérstaka fjárfestingarsamninga við félög um nýfjárfestingarverkefni í orkufrekum iðnaði. Í lögum nr. 62/1997, um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, lögum nr. 12/2003, um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði, og í lögum nr. 51/2009, um heimild til samninga um álver í Helguvík, er kveðið á um að þar tilgreind félög, sem stofnuð eru í þeim tilgangi að reisa og reka viðkomandi iðnfyrirtæki, skuli greiða skatta og önnur opinber gjöld, sem almennt eru lögð á hér á landi, eftir þeim reglum sem um þau gilda samkvæmt lögum á hverjum tíma, nema að því leyti sem á annan veg er mælt fyrir í þeim lögum. Í framangreindum lögum er með tæmandi hætti talið upp hvaða skattalegu frávik gilda fyrir viðkomandi félög, með sams konar hætti og þau eru talin upp í fjárfestingarsamningum sem gerðir voru við félögin. Með frumvarpi því sem hér er lagt fram er með sams konar hætti gert ráð fyrir því að almennar skattareglur gildi um félagið PCC BakkiSilicon hf. vegna kísilvers í landi Bakka, með tilteknum frávikum sem með tæmandi hætti eru tilgreind í frumvarpinu. Eru þau frávik verulega minni en þau sem voru lögfest í lögum nr. 62/1997, nr. 12/2003 og nr. 51/2009.
    Í fjárfestingarsamningnum verður fjallað um þá samninga sem félagið gerir við Landsvirkjun og Landsnet, Norðurþing og hafnarsjóð Norðurþings, eins og lýst er í fylgiskjölum III, IV, V og VI. Þá verður í samningnum kveðið á um þær ívilnanir sem ríkið, Norðurþing og hafnarsjóður Norðurþings veita félaginu.
    Félagið, PCC BakkiSilicon hf., er stofnað samkvæmt íslenskum lögum árið 2012 og er í eigu PCC SE (96%) og yfirmanna PCC (4%) sem er alþjóðleg samsteypa fyrirtækja undir stjórn PCC (fyrrum PCC AG) í Duisburg í Þýskalandi. Í byrjun árs 2013 störfuðu um 2.200 starfsmenn hjá PCC í meira en 70 dótturfélögum og tengdum félögum í 12 löndum um heim allan. Tekjur samstæðunnar eru áætlaðar um 680 milljónir evrur fyrir árið 2012, sem koma frá þremur meginsviðum hennar: efnavöru, orku og flutningum.
    Í fylgiskjölum með frumvarpinu er að finna lýsingu á fyrirhuguðu verkefni (fskj. I), sameiginlega yfirlýsingu um efnisatriði sem fyrirhugaður fjárfestingarsamningur byggir á (fskj. II), drög að helstu ákvæðum hafnarsamnings (fskj. III), drög að helstu ákvæðum lóðarsamnings (fskj. IV), minnisblað Landsvirkjunar um raforkusamning (fskj. V), minnisblað Landsvirkjunar vegna greinargerðar Byggðastofnunar (fskj. VI), minnisblað Landsnets um raforkuflutning (fskj. VII), ákvörðun um tillögu að matsáætlun Skipulagsstofnunar (fskj. VIII), greinargerð efnahagsskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins um þjóðhagsleg áhrif (fskj. IX) og greinargerð Byggðastofnunar um svæðisbundin áhrif (fskj. X).

2. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að ráðherra verði fengin heimild til að semja við PCC SE og PCC BakkiSilicon hf. um að hið síðarnefnda reisi og reki kísilver til framleiðslu á allt að 33 þús. tonnum af kísilmálmi á ári með það fyrir augum að framleiðslugetan verði aukin upp í 66 þús. tonn á ári þegar aðstæður leyfa. Kveðið er á um að PCC BakkiSilicon hf. starfi samkvæmt ákvæðum íslenskra laga. Með undirritun fjárfestingarsamnings verður hægt að hefja á þessu ári undirbúningsvinnu vegna framkvæmda á Bakka með þeim fyrirvörum sem um samninginn gilda.
    Í öðru lagi er kveðið á um skattlagningu vegna reksturs kísilversins. Hún verður í meginatriðum í samræmi við íslensk skattalög en félagið getur einnig fengið ákveðnar ívilnanir í samræmi við rammalöggjöf um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, sbr. lög nr. 99/2010, með síðari breytingum. Þá er ráðherra með fjárfestingarsamningi heimilt að veita sérstakar ívilnanir vegna nýfjárfestingar til félagsins samkvæmt sérákvæðum sem lögð eru til í frumvarpi þessu. Eru ívilnanirnar í samræmi við sameiginlega viljayfirlýsingu (e. Joint declaration) PCC SE, ríkisstjórnarinnar, Norðurþings og hafnarsjóðs Norðurþings, sbr. fylgiskjal II. Í viðræðum við PCC SE sem semur fyrir hönd hins íslenska félags, PCC BakkiSilicon hf., hefur komið skýrt fram að veiting ívilnana, sérstaklega í upphafi verkefnisins, sé forsenda þess að fjárfestingarverkefnið verði að veruleika hér á landi. Þá er ljóst að félagið verður með fyrsta fjárfestingarverkefnið á Bakka, ef samningar ganga eftir. Það tekur því þátt í uppbyggingu svæðisins og myndar hvata fyrir önnur félög að hefja þar rekstur. Þær athuganir sem liggja til grundvallar frumvarpinu sýna að verkefnið hefur jákvæð þjóðhagsleg áhrif, sbr. fylgiskjal IX, styrkir verulega byggðir á Norðausturlandi, sbr. fylgiskjal X, og getur orðið eitt af áhugaverðustu svæðum til iðnaðarþróunar í Evrópu, sbr. fylgiskjal V. Í sérákvæðum frumvarpsins er kveðið á um að félagið njóti eftirfarandi ívilnana umfram þær ívilnanir sem heimilt er að veita í núgildandi lögum um nýfjárfestingar, sbr. lög nr. 99/2010:
     a.      Að félagið njóti 15% tekjuskattshlutfalls í stað 20% eins og nú er.
     b.      Að félagið greiði engin gjöld af stimpilskyldum skjölum sem félagið gefur út eða stofnar til í tengslum við uppbyggingu viðkomandi fjárfestingarverkefnis í stað þess að greiða 0,15%.
     c.      Að félagið njóti 50% afsláttar af fasteignagjöldum í stað 30% afsláttar.
     d.      Að félagið verði undanþegið almennu tryggingagjaldi í stað þess að fá 20% afslátt af gjöldunum.
     e.      Að heimilt verði að heimila félaginu frávik frá sköttum og gjöldum í 14 ár í stað 13 ára frá undirritun samnings eins og gert er ráð fyrir í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2010, en þó aldrei lengur en í 10 ár frá því að skattskylda eða gjaldskylda myndast hjá félaginu.
    Þær ívilnanir sem ríkið veitir til verkefnisins vegna frávika frá sköttum og gjöldum, þ.e. lægra tekjuskattshlutfall og undanþága frá almennu tryggingagjaldi og stimpilgjaldi, eru áætlaðar um 100–150 millj. ísl. kr. að meðaltali á ári eða um 1–1,5 milljarðar kr. á öllu tímabilinu sem heimilt er að veita ívilnanir eða í 10 ár en þó aldrei lengur en í 14 ár frá því að fjárfestingarsamningur er undirritaður. Ekki er því um bein útgjöld að ræða en ljóst er að ríkissjóður verður af þessum tekjum. Aðrar ívilnanir um frávik frá sköttum og gjöldum sem raktar eru í þessu frumvarpi falla á sveitarfélagið Norðurþing, þ.e. 30% afsláttur af gatnagerðargjöldum og 50% afsláttur af fasteignagjöldum, að því tilskildu að slíkt verði heimilað að lögum. Þá hyggst hafnarsjóður Norðurþings veita félaginu 40% afslátt af vörugjöldum eins og lýst er í fylgiskjali III.
    Í þriðja lagi er lagt til að ríkissjóður veiti félaginu, PCC BakkiSilicon hf., að fenginni heimild á fjárlögum, fjárstuðning annars vegar vegna undirbúnings iðnaðarlóðar félagsins í landi Bakka þar sem hún er m.a. ójöfn í miklum bratta og hins vegar vegna þjálfunar starfsfólks. Í áðurnefndri viljayfirlýsingu, sbr. fylgiskjal II, kemur fram að ríkið hyggst veita PCC BakkiSilicon hf. fjárstuðning að fjárhæð 3,3 milljónir evra til undirbúnings lóðarinnar. Þykir því rétt að kveða í frumvarpi þessu á um fjárhæðina í evrum, þótt greiðsla til framkvæmdaraðila verði í íslenskum krónum. Sú fjárhæð er um 538 millj. ísl. kr. og er þá miðað við að meðalgengi evrunnar verði á tímabilinu 163 kr. sem er í samræmi við gengis- og verðbólguspá Hagstofu Íslands frá því í nóvember 2012. Greiðslur til framkvæmdanna fara fram á árunum 2014 og 2015, að öllu óbreyttu. Enn fremur er gert ráð fyrir að félaginu verði veitt ívilnun í formi þjálfunaraðstoðar vegna kostnaðar við þjálfun starfsfólks sem fellur til í tengslum við nýfjárfestinguna, sbr. 12. gr. laga nr. 99/2010. Hér, eins og með stuðning við undirbúning lóðar, er um beinan fjárstuðning að ræða. Í fyrrgreindum lögum er kveðið á um að hámark leyfilegrar þjálfunaraðstoðar séu 2 milljónir evra fyrir hvert fjárfestingarverkefni. Samkvæmt 39. gr. reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008 má aðstoðarhlutfallið ekki fara yfir 25% af aðstoðarhæfum kostnaði við sérmenntun og 60% af aðstoðarhæfum kostnaði við almenna menntun. Í rekstraráætlun félagsins er gert ráð fyrir að þjálfa hluta starfsmanna til sérmenntunar og hluta til almennrar menntunar á árunum 2015–2017. Miðað við þær forsendur sem liggja til grundvallar áætluninni reiknast til að heimilt verði að veita félaginu tæplega 1,4 milljónir evra í þjálfunarstyrk eða um 222 millj. ísl. kr. Ekki þótti rétt að kveða sérstaklega á um fjárhæð þjálfunarstyrks í frumvarpinu þar sem hún getur breyst til hækkunar eða lækkunar þegar kemur til útgreiðslu á styrknum en þó aldrei þannig að hún fari yfir 2 milljónir evra eins og að framan greinir. Samtals er því gert ráð fyrir að beinn stuðningur ríkissjóðs til verkefnisins, þ.e. vegna undirbúnings lóðar og þjálfunarstyrks, geti numið um 760 millj. ísl. kr. og er þá miðað við að meðalgengi evrunnar verði á tímabilinu 163 kr. sem er í samræmi við gengis- og verðbólguspá Hagstofu Íslands frá því í nóvember 2012.
    Í fjórða lagi eru settar takmarkanir á framsal fjárfestingarsamnings sem gerður verður á grundvelli þessa frumvarps og jafnframt kveðið á um lögsögu íslenskra dómstóla og stöðu gerðardóms.

3. Frávik frá reglum um skatta og gjöld.
    Í samræmi við 61. gr. EES-samningsins hefur Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) verið tilkynnt um þá ríkisaðstoð (byggðaaðstoð) sem í þessu fyrirkomulag felst, með sama hætti og gert var vegna áðurgreindra laga nr. 62/1997, nr. 12/2003 og nr. 51/2009. Verði gerður fjárfestingarsamningur við PCC BakkiSilicon hf. á grundvelli þeirrar heimildar sem lögð er til með frumvarpinu verður hann með fyrirvara um samþykki ESA.

4. Aðdragandi fjárfestingarsamningsins.
    Í mars og maí 2011 komu fulltrúar þýska fyrirtækisins PCC SE til fundar við forsvarsmenn Norðurþings til að kanna möguleika á uppbyggingu kísilvers sem mundi nýta endurnýjanlega orkugjafa. Í júní 2011 hófust formlegar viðræður PCC SE og Norðurþings um lóðarleigusamning með það að markmiði að byggja 33 þús. tonna kísilmálmbræðslu á Bakka, með mögulegri stækkun í allt að 66 þús. tonna framleiðslu. Í október sama ár undirrituðu Norðurþing og PCC SE viljayfirlýsingu um að kanna hagkvæmni þess að byggja kísilver í landi Bakka í Norðurþingi. Í viðræðum við PCC SE hefur komið fram að stefnt sé að því að framleiðslan geti hafist á árinu 2016 ef allt gengur að óskum. Þessi áform PCC SE voru kynnt á opnum fundi í desember 2011. Frá þeim tíma hefur PCC SE átt í viðræðum við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Norðurþing um mögulegan stuðning við uppbyggingu kísilversins og ívilnanir á rekstrartímanum. Viðræður hafa gengið vel og hafa aðilar undirritað sameiginlega viljayfirlýsingu (e. Joint declaration), sbr. umfjöllun í kafla 2 og fylgiskjal II. Markmið yfirlýsingarinnar er að ljúka undirritun allra samninga sem leggja þarf til grundvallar áður en hægt verður að hefja framkvæmdir á iðnaðarsvæðinu.

5. Lýsing á fyrirhuguðu kísilveri á Bakka.
    Tilgangur verkefnisins er að þróa, byggja og reka hátæknikísilver með framleiðslugetu upp á 33 þús. tonn á ári. Kísilverið mun þurfa um það bil 52MW af orku og nota um það bil 456 GWh á ári. Aðalhráefnið sem notað yrði til framleiðslunnar er kvarsít, en öskulítil kol og viðarspænir eru einnig mikilvæg hráefni. Gerðar hafa verið rekstraráætlanir miðað við 33 þús. tonna framleiðslugetu fyrir hágæða kísilmálm. Gert er ráð fyrir að eftir tveggja ára uppkeyrslutíma verði 70% af árlegri framleiðslu hágæða kísilmálmur og 30% seld á eftirmarkaði fyrir ál. Áætlað er að heildarvöxtur í kísilnotkun verði meira en 3% á ári. PCC BakkiSilicon hf. hyggst gera langtímasamninga um stóran hluta framleiðslunnar við einstaka viðskiptavini úr efnaiðnaðinum sem og sérhæfða söluaðila.
    Kísilverið verður byggt með hátæknibúnaði frá þýska tæknibirginum SMS Siemag. Nýjasta tækni verður notuð sem felst m.a. í nýtingu þeirrar varmaorku sem til verður í ofninum, vinnslu í lokaðri hringrás, stýringu og eftirliti með afköstum og gæðum í vinnsluferlinu. Engin losun verður út í yfirborðsvatn eða grunnvatn, og engin spilliefni falla til við framleiðsluna. SMS Siemag mun einnig sjá alfarið um byggingu versins sem verður í alverktöku. Tveir brennsluofnar verða byggðir miðað við 33 þús. tonna framleiðslugetu. Hver ofn er hannaður til að framleiða um það bil 16 þús. tonn af söluhæfum kísilmálmi á ári. Eftir að búið er að ná samfelldum rekstri kísilversins með stöðugum gæðum er hægt að byggja tvo ofna til viðbótar af sömu stærð til að auka sveigjanleika í framleiðslu og hámarka nýtingu þeirra innviða sem fyrir eru. Við það tvöfaldast framleiðslugetan í 66 þús. tonn. Með áframhaldandi umbótum á framleiðsluferlum má gera ráð fyrir að kísilverið nái allt að 70 þús. tonna hámarksframleiðslugetu á ári miðað við 104 MW aflþörf.
    Miðað við 33 þús. tonna framleiðslu mun kísilverið þurfa um 180 þúsund tonn af hráefni árlega. Flutningur hráefnis og afurða verður með skipum til og frá Húsavíkurhöfn. Hráefnin eru aðallega flutt sem lausavara, en kísilmálmurinn og kísilduftsafurðir verða almennt afhentar til viðskiptavina í gámum. Flutningsmagnið er áætlað á bilinu 4–6 þús. tonn á hvert skip.
    Undirbúningur og þróun verkefnisins hófst árið 2011. Í bráðabirgðaáætlun PCC BakkiSilicon hf. er gert ráð fyrir að verkefnið verði unnið í fimm áföngum, eins og fram kemur í töflu A og lýst er nánar í fylgiskjali I:

Tafla A. Verkefnaáætlun.

Áfang i Verkefnaáætlun Ár
1. Þróun verkefnis 2011–201 3
2. Upphafleg fjárfesting 2013–201 6
3. Upphaf rekstrar, uppkeyrslutími 2016–201 8
4. Hámarksafköst kísilversins 2018–
5. Stækkun kísilversins 2020–

6. Mat á umhverfisáhrifum.
    Í janúar 2012 lagði Efla verkfræðistofa, f.h. PCC SE, fram tillögu að matsáætlun til Skipulagsstofnunar vegna allt að 66 þús. tonna kísilvers á Bakka. Þann 2. febrúar 2012 gaf Skipulagsstofnun út ákvörðun um tillögu að matsáætlun í samræmi við 8. gr. laga nr. 106/ 2000, um mat á umhverfisáhrifum, vegna kísilmálmvinnslu. Í ákvörðuninni kemur fram að stofnunin fallist á matsáætlunina með athugasemdum eins og nánar er lýst í fylgiskjali VIII. Í þessu samhengi má geta þess að Skipulagsstofnun birti í nóvember 2010 álit sitt á mati á umhverfisáhrifum vegna álvers á Bakka með allt að 346 þús. tonna ársframleiðslu, Kröfluvirkjunar II, Þeistareykjavirkjunar, háspennulína að Bakka og sameiginlegu mati framangreindra framkvæmda vegna álvers á Bakka.
    Í október 2012 skilaði PCC SE, sem framkvæmdaraðili, frummatsskýrslu til Skipulagsstofnunar. Áætlað er að stofnunin hefji formlegt sex vikna kynningartímabil á skýrslunni fyrir lok febrúar 2013 Á tímabilinu er unnt að koma á framfæri athugasemdum við skýrsluna. Að því loknu mun stofnunin gefa út álit sitt um umhverfismat vegna kísilframleiðslunnar. Því er gerður fyrirvari um niðurstöðu umhverfismatsins.

7. Áhrif á þjóðarhag.
    Í ársbyrjun 2013 vann efnahagsskrifstofa fjármála- og efnahagsráðuneytisins, að beiðni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, mat á þjóðhagslegum áhrifum fyrirhugaðra framkvæmda við kísilver í landi Bakka, sjá fylgiskjal IX. Í mati efnahagsskrifstofunnar er í meginatriðum stuðst við sömu aðferðir og beitt hefur verið við hliðstæðar athuganir á undanförnum árum. Niðurstöður eru birtar sem fráviksspá frá tilteknu grunndæmi, sem er án iðjuversframkvæmda, en það er sambærileg aðferðafræði og Hagstofa Íslands beitir í sínum þjóðhagsspám. Í fyrirliggjandi mati er stuðst við þjóðhagsspá Hagstofunnar, sem gefin var út í nóvember 2012 og nær til ársins 2017. Þegar matið var unnið var gert ráð fyrir að framkvæmdir við byggingu kísilversins gætu hafist á árinu 2013 og rekstur þess væri komið á fullt á árinu 2017. Nú er talið ólíklegt að það náist og gera þarf því ráð fyrir að áætlunin færist til um eitt ár. Hagstofa Íslands hefur hins vegar ekki gefið út, þegar þetta frumvarp er samið, hagspá sem nær til 2018. Ber því að taka eftirfarandi niðurstöðum fráviksspárinnar með þeim fyrirvara.
    Fyrirhuguð fjárfesting vegna byggingar kísilvers á Bakka er áætluð um 170 milljónir evra (á verðlagi ársins 2012) eða um 28 milljarðar ísl. kr. og er þá miðað við að meðalgengi evrunnar á tímabilinu verði 163 kr. Er það í samræmi við gengis- og verðbólguspá Hagstofu Íslands frá því í nóvember 2012. Áætlað er að fjárfestingin dreifist yfir þrjú ár. Samkvæmt matinu eykst landsframleiðslan um samtals 33,2 milljarða kr. á tímabilinu 2013–2017, sem er um 0,27% af væntri landsframleiðslu. Framkvæmdirnar standa að mestu leyti yfir á árunum 2014–2015/2016 og má gera ráð fyrir að kísilverið byrji að skila tekjum árið 2016 og nái fullum rekstri á árinu 2018. Þá skal geta þess að í mati efnahagsskrifstofunnar er ekki gert ráð fyrir framkvæmdum vegna orkuöflunar þar sem hún lá ekki fyrir þegar efnahagsskrifstofan vann matið. Áætluð aflþörf er 52 MW og hefur Landsvirkjun lagt fram minnisblað þess efnis, sjá fylgiskjal V. Í töflu B er gerð grein fyrir stofnkostnaði vegna framkvæmda PCC BakkiSilicon hf. og virkjana eins og nánar er rakið í fylgiskjölum I og VI. Ekki liggur fyrir kostnaður vegna raforkuflutninga til kísilversins en Landsnet sendi ráðuneytinu minnisblað, dags. 13. febrúar 2013. Í minnisblaðinu kemur fram að Landsnet og PCC SE hafi gert með sér samstarfsyfirlýsingu um tengingu kísilvers fyrirtækisins við raforkukerfið en samningaviðræður standa yfir.

Tafla B. Stofnkostnaður kísilframkvæmda á verðlagi hvers árs
í milljónum króna (meðalgengi 163 kr./evra).

2013 2014 2015 2016 Samtals
PCC 1 4.890 6.520 16.300 27.710
Virkjun 3.500 3.600 7.700 2.300 17.100
Samtals 3.500 8.490 14.220 18.600 44.810
VLF 1.853.374 1.969.027 2.082.321 2.194.170 8.098.892
% af VLF 0,2% 0,4% 0,7% 0,8% 0,6%

    Á fyrsta ári framkvæmdanna er aukin landsframleiðsla að mestu tilkomin vegna aukinnar atvinnuvegafjárfestingar en á seinni hluta tímabilsins er aukningin að mestu vegna aukins útflutnings. Á heildina litið eykst hagvöxtur á fyrsta ári vegna framkvæmdanna um 0,2 prósentustig og 0,1 stig á öðru ári. Vegna grunnáhrifa dregst hagvöxtur saman á næstu tveimur árum þar á eftir en eykst lítillega á ný samfara auknum útflutningstekjum á árinu 2017. Á mynd 1 eru sýnd áhrif fyrirhugaðra framkvæmda í landi Bakka á hagvöxt, annars vegar þar sem framkvæmdirnar eru taldar með í grunnspá Hagstofu Íslands og hins vegar í fráviksspá sem er án framkvæmdanna.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Á fyrri hluta tímabilsins verður afgangur á vöru- og þjónustuskiptajöfnuði af landsframleiðslu lítillega minni en ella væri vegna aukins innflutnings fjárfestingarvöru, en síðan eykst afgangurinn á seinni hluta tímabilsins vegna aukins útflutnings. Sömu áhrifa gætir á viðskiptajöfnuðinn. Á mynd 2 og 3 eru þessi áhrif sýnd.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í fráviksspánni minnkar atvinnuleysi lítið á tímabilinu. Áhrifin eru engin á fyrstu árunum og lítil á seinni hlutanum, þ.e. atvinnuleysi dregst þá saman um 0,05 prósentustig. Engu síður er ljóst að atvinnuleysi og störf munu skapast á svæðum sem liggja næst kísilverinu eins og lýst er í fylgiskjali IX.
    Framkvæmdirnar hafa smávægileg þensluáhrif í för með sér sem hækkar vaxtastigið og minnkar einkaneyslu. Fjárfesting á uppbyggingartímabilinu (2013–2015) eykst um 33,7 milljarða kr., þar af atvinnuvegafjárfesting um 29 milljarða kr. Atvinnuvegafjárfestingin er áætluð um 230 milljarðar kr. á nafnverði að meðaltali á ári á tímabilinu en 220 milljarðar kr. hefði ekki komið til fjárfestingarinnar (mynd 4). Innflutningur á vöru og þjónustu mun aukast á fyrri hluta framkvæmdanna vegna innkaupa á vélum og búnaði og uppsetningar þeirra en eftir að framleiðsla hefst og útflutningur á framleiðsluvörum kísilmálma eykst snýst dæmið við og innflutningur minnkar í samanburði við fráviksspána (mynd 5). Ef eingöngu er skoðaður útflutningur á vöru og þjónustu sést á mynd 6 að útflutningstekjur aukast jafnt og þétt frá þeim tíma að framleiðsla kísilversins hefst og nær hámarki þegar fullum afköstum er náð eftir 2015/2016.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




    Niðurstöður greiningarinnar eru að framkvæmdirnar munu hafa jákvæð áhrif á þjóðarbúið þótt um sé að ræða frekar smáa fjárfestingu í samanburði við stóriðju á borð við álversframleiðslu. Mestu jákvæðu áhrifin eru fyrir samfélagið á norðausturhornið eins og vikið er að í kafla 8.

8. Samfélagsleg áhrif.
    Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið óskað eftir að Byggðastofnun legði mat á samfélagsleg áhrif af kísilframleiðslu í landi Bakka í Norðurþingi. Ráðuneytinu barst greinargerð frá stofnuninni 9. desember 2012, sbr. fylgiskjal X. Með greinargerðinni er leitast við að varpa ljósi á stöðu mála í Þingeyjarsýslum og hver þróunin yrði með og án uppbyggingar iðjuvers, einkum þróun íbúafjöldans, en fólksfækkun á norðausturhorni landsins hefur verið mikil á undanförnum árum. Niðurstöður Byggðastofnunar eru eftirfarandi:
    Það er mat Byggðastofnunar að fyrirhugaðar fjárfestingar hafi mikil og jákvæð áhrif á samfélagið í Þingeyjarsýslu, sérstaklega með tilliti til íbúaþróunar á svæðinu og samsetningar íbúa. Meðalaldur mun lækka og fólki á vinnualdri og börnum fjölga hlutfallslega. Þá mun aukinn íbúafjöldi renna styrkari stoðum undir þá þjónustu sem veitt er, bæði á vegum opinberra aðila og einkaaðila, og styrkja rekstur sveitarfélagsins sem yrði þá miklu betur sett til að styðja við byggðaaðgerðir. Enn fremur er það mat Byggðastofnunar að komi ekki til ný atvinnuuppbygging muni íbúum í Þingeyjarsýslu fækka um 330 manns á næstu 10 árum sem muni enn veikja stoðir samfélagsins. Verði af iðnaðaruppbyggingu muni íbúum á hinn bóginn fjölga á bilinu frá um 750 manns og upp í um 1.130, eftir því hversu mikil uppbyggingin verður. Þá kemur fram í mati stofnunarinnar að áhrifin verði mismikil innan þess svæðis sem skilgreint er auk þess sem þau einangrist ekki við það. Þannig verði áhrifin mest á nærsvæði framkvæmdanna þar sem um beina atvinnusókn verði að ræða, en áhrifin fjær muni einkum varða þjónustusókn af ýmsu tagi. Í ljósi reynslunnar muni öflug uppbygging á svæðinu hafa áhrif út fyrir Þingeyjarsýslu, einkum á höfuðborgarsvæðinu vegna stöðu þess í stjórnsýslu og þjónustu í landinu, ásamt því að vera þungamiðja í samgöngukerfi landsins. Í töflu C kemur fram íbúaþróun á vinnusóknarsvæði Húsavíkur miðað við að PCC BakkiSilicon hf. framleiði annars vegar 33 þús. tonn af kísilmálmi (áfangi 1) og hins vegar stækkun upp í 66 þús. tonna framleiðslu (áfangi 2).

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Þegar framkvæmdir hefjast við kísilverið er gert ráð fyrir að fólksfækkun á norðausturhorninu muni stöðvast, bæði vegna þeirra atvinnutækifæra sem verða í boði á Húsavík og starfa tengdra m.a. fiskveiðum og vinnslu sem flytjast frá Húsavík til Kópaskers, Þórshafnar og Raufarhafnar. Því er gert ráð fyrir því að heildaríbúafjöldi á vinnusóknarsvæði Húsavíkur (Húsavík, Tjörneshreppur, Skútustaðahreppur og Þingeyjarsveit) og á norðausturhorninu (Norðurþing án Húsavíkur, Langanesbyggð og Þórshafnarhreppur) verði eins og lýst er í töflu D.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Gert er ráð fyrir því að án iðjuvera verði íbúafjöldinn á norðausturhorninu kominn niður í 4.522 íbúa árið 2022 ef ekkert gerist í atvinnumálum svæðisins. Ef fyrsti áfangi kísilversins kemst til framkvæmda verður íbúafjöldinn árið 2022 kominn í 5.275 íbúa sem er fjölgun um 753 íbúa eða 16,7%. Ef nýtt iðjuver bætist við verður íbúafjöldinn árið 2022 kominn í 5.513 sem er fjölgun um 991 íbúa eða 21,9%. Verði þar á ofan ráðist í seinni áfanga kísilversins verður íbúafjöldinn kominn í 5.653 íbúa sem er fjölgun um 1.131 íbúa eða 25%. Hvort heldur fjölgunin verður 16,7%, 25% eða einhvers staðar þar á milli þá er ljóst að um algeran viðsnúning verður að ræða í byggðaþróun á svæðinu. Sér í lagi ef þessar tölur eru bornar saman við íbúaþróun án iðjuvera, en þá er ekki við öðru að búast en áframhaldandi fækkun.
    Innviðir samfélagsins á Húsavík og í nágrenninu eru undir það búnir að taka við íbúafjölgun af þeirri stærð sem hér er um að ræða. Skólar, bæði grunn- og framhaldsskóli, geta tekið við þeirri fjölgun nemenda sem gera má ráð fyrir án fjárfestinga í húsnæði. Aukinn nemendafjöldi kallar þó á aukið rekstrarfé. Hins vegar þarf að stækka leikskóla. Heilbrigðisstofnanir á Húsavík og á Akureyri geta sinnt auknum íbúafjölda. Raunar mun aukinn íbúafjöldi renna styrkari stoðum undir þá þjónustu sem veitt er, bæði á vegum opinberra aðila og einkaaðila. Aukinn íbúafjöldi og umsvif mun einnig skjóta styrkari stoðum undir flugsamgöngur og almenningssamgöngur.
    Nægt framboð er á byggingarlóðum fyrir íbúðarhús en á Húsavík eru skipulögð íbúðarsvæði fyrir 366–460 íbúðir. Einnig er nokkur fjöldi íbúðarlóða til reiðu í Skútustaðahreppi.
    Sveitarfélagið Norðurþing er mikið skuldsett og rekstur þess er erfiður. Fyrirhugaðar framkvæmdir og íbúafjölgun þeim tengd eru sveitarfélaginu mikilvægar til að styrkja tekjugrunn þess, bæði í formi skatttekna og þjónustugjalda. Með bættri afkomu verður sveitarfélagið í allt annarri stöðu til að styðja við byggðaaðgerðir.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni er atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra heimilað að ganga til samnings á grundvelli frumvarps þessa við PCC SE (eigandinn) og PCC BakkiSilicon hf. (félagið) um byggingu og rekstur kísilvers í landi Bakka í Norðurþingi. Í fjárfestingarsamningi við félagið skal kveðið á um skuldbindingar ríkisins og félagsins og eigenda þess sem hin fyrirhugaða starfsemi gefur til kynna. Þar skal einnig fjallað um framkvæmd ákvæða laganna, eftir því sem nauðsynlegt er talið.
    Í samningnum skal kveðið á um gildistíma ákvæða hans sem ekki skal vera lengri en til 14 ára frá undirritun hans. Er þetta frávik frá 3. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2010, sem gerir ráð fyrir 13 árum. Ívilnanir samkvæmt samningnum skulu þó ekki vara lengur en í 10 ár frá því að viðkomandi skattskylda eða gjaldskylda myndast hjá félaginu.
    Gert er ráð fyrir að fjárfestingarsamningurinn um verkefnið verði birtur í B-deild Stjórnartíðinda að undirritun lokinni. Þá skal félagið starfa samkvæmt íslenskum lögum og reglum með þeim frávikum sem í frumvarpi þessu greinir.

Um 2. gr.

    Í greininni er kveðið á um verkefnið sem lögin fjalla um. Verkefninu er lýst í 5. kafla almennra athugasemda og í fylgiskjali I. Verkefnið er skilgreint sem bygging kísilvers í landi Bakka í Norðurþingi til framleiðslu á allt að 33 þús. tonnum af kísilmálmi á ári og aðstöðu sem tengist slíkri framleiðslu og skyldri starfsemi með það fyrir augum að framleiðslugetan verði aukin upp í 66 þúsund tonn af kísilmálmi á ári þegar aðstæður leyfa.

Um 3. gr.

    Fjárfestingarsamningurinn sem vísað er til í frumvarpinu og ráðgert er að gera á grundvelli laganna, verði frumvarpið að lögum, byggist á því að íslensk skattalög gildi nema kveðið sé á um annað í fjárfestingarsamningnum og frumvarpi þessu. Í upphafi greinarinnar er sett fram sú aðalregla að félagið greiði alla almenna skatta og opinber gjöld hér á landi vegna kísilversins samkvæmt lögum sem gilda á hverjum tíma með þeim sérákvæðum sem í greininni eru tilgreind. Önnur ákvæði greinarinnar eru því tæmandi upptalning frávika frá aðalreglunni. Gert er ráð fyrir því að félagið verði sjálfstæður skattaðili.
    Í 1. tölul. 2. mgr. er að finna ákvæði um tekjuskatt félagsins. Félagið mun greiða 15% tekjuskatt í stað 20% eins og kveðið er á um í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir fráviki frá almennum skattlagningarreglum lögaðila að því er snýr að tekjuskatti en þar segir að ef tekjuskattshlutfall á félög með takmarkaðri ábyrgð er lækkað niður fyrir 15% þá gildi hin nýja almenna skattprósenta einnig fyrir félagið. Ástæða þessarar undanþágu er að samið er um starfsemi sem ekki hefur framleiðslu fyrr en árið 2016 ef allar áætlanir standast. Þykir eðlilegt að félagið njóti þeirra breytinga í sama mæli og önnur fyrirtæki fram að þeim tíma er rekstur hefst. Í ákvæðinu er einnig kveðið á um að verði síðari hækkanir á skatthlutfallinu þá skuli hærra skatthlutfall gilda fyrir félagið, þó þannig að skatthlutfallið verði aldrei hærra en 15%.
    Í 2. tölul. 2. mgr. kemur fram að félagið skuli undanþegið stimpilgjöldum af öllum stimpilskyldum skjölum sem félagið gefur út í tengslum við verkefnið í stað þess að greiða 0,15% stimpilgjald eins og 4. tölul. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2010 mælir fyrir um.
    Í 3. tölul. 2. mgr. er heimildarákvæði sem gerir viðkomandi sveitarfélagi kleift að semja um afslátt af fasteignagjöldum umfram það sem segir í 6. tölul. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/ 2010, en það er hlutfallið 30%.
    Í 4. tölul. 2. mgr. kemur fram að félagið skuli undanþegið almennu tryggingagjaldi sem kveðið er á um í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, en skv. 7. tölul. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2010 er hlutfall afsláttar frá fullu gjaldi 20%.
    Í 3. mgr. er lagt til að í fjárfestingarsamningi verði heimilt að kveða á um eftirtalin atriði:
     1.      Ekki skuli lögð umhverfisgjöld eða umhverfisskattar, sem tengjast losun lofttegundanna CO 2 og SO 2 eða annarri losun eða öðrum mengunarvöldum, á félagið nema slík gjöld eða skattar séu almennt lagðir á önnur fyrirtæki á Íslandi, þ.m.t. öll önnur kísilver, og mismuni ekki félaginu að öðru leyti. Árið 2008 samþykkti ríkisstjórnin samningsmarkmið Íslands fyrir næsta tímabil loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna 2013–2020. Þau lúta að því að sú viðurkenning sem Ísland hlaut með Kyoto-bókuninni á fyrsta losunartímabilinu 2008–2012 haldist áfram við upphaf annars tímabils en minnki síðan ár frá ári. Ljóst má vera að stefnt er að því að hvers konar losun gróðurhúsalofttegunda minnki og að Ísland muni þurfa að bera hlutfallslega álíkar byrðar og önnur Evrópuríki. Í þessu felst að íslensk iðnfyrirtæki munu þurfa að vera undirbúin því að taka á sig samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda eða afla losunarheimilda í gegnum viðurkennd viðskiptakerfi. Í ákvæðinu felst að íslensk stjórnvöld munu ekki leggja umhverfisgjöld eða umhverfisskatta vegna losunar gróðurhúsalofttegunda á félagið umfram það sem önnur sambærileg fyrirtæki á Íslandi kunna að þurfa að bera í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.
     2.      Ekki skuli leggja skatta eða gjöld á raforkunotkun félagsins eða útblástur lofttegunda eða aðra losun úrgangsefna nema slíkir skattar og gjöld séu jafnframt lögð með almennum hætti á öll önnur íslensk fyrirtæki, þ.m.t. kísilver, og mismuni ekki félaginu að öðru leyti.
     3.      Ekki skuli leggja á gjöld eða skatta í tengslum við raforkukaup og/eða raforkunotkun félagsins nema slík gjöld eða skattar séu almennt lagðir á önnur fyrirtæki á Íslandi, þ.m.t. öll önnur kísilver, og mismuni ekki félaginu að öðru leyti.
    Efnislega sams konar ákvæði er að finna í lögum nr. 62/1997, nr. 12/2003 og nr. 51/2009.
    Í 4. mgr. er tekið fram með ótvíræðum hætti að félagið verði háð almennum reglum íslenskra laga varðandi skattframtal, álagningu, viðurlög og málskot. Ágreiningi um túlkun samningsákvæða má þó skjóta til gerðardóms samkvæmt ákvæðum fjárfestingarsamningsins.     Efnislega sams konar ákvæði er að finna í lögum nr. 62/1997, nr. 12/2003 og nr. 51/2009.
    Í 5. mgr. er kveðið á um að á gildistíma fjárfestingarsamningsins sé félaginu heimilt að velja þann kost að lúta almennum íslenskum skattalögum sem í gildi eru hverju sinni. Beiðni um slíka breytingu skal lögð fram skriflega eigi síðar en 1. júní þess almanaksárs sem fer á undan því almanaksári sem breytingin á að taka gildi. Berist slík beiðni skulu ríkisstjórnin, eigandinn og félagið þegar ganga til samninga um breytinguna yfir í hið almenna skattakerfi. Efnislega sams konar ákvæði er að finna í lögum nr. 62/1997, nr. 12/2003 og nr. 51/2009.


Um 4. gr.

    Byggingarlóðin við Bakka er á margan hátt erfið. Hún er í miklum bratta og berggrunnur undir yfirborðslögum er breytilegur og ójafn. Í samningum við iðnfyrirtækið hefur ekki verið hjá því komist að taka þátt í kostnaði við forvinnu lóðarinnar, þ.e. jarðvinnslunni, sem er undanfari byggingarframkvæmdanna. Hér er gerð tillaga um þátttöku ríkisins í lóðarundirbúningi sem í meginatriðum felst í því að kosta jöfnun lóðarinnar í þrjá meginfleti og tvo minni fleti í mismunandi hæðum sem verða undirstöður mannvirkja sem hvíla munu á þeim. Helstu verkþættir eru að fjarlægja laus yfirborðslög, rippa og sprengja klöpp, jafna yfirborð í réttar hæðir og fláa, mala og harpa berg í vinnanlegar kornastærðir fyrir yfirborðslög og þjappa fyllingar. Sett er kostnaðarþak á framlag ríkisins til þessara verkþátta að upphæð sem samsvarar 3,3 milljónum evra, sem svarar til um 538 millj. ísl. kr. ef miðað er við að meðalgengi evrunnar á tímabilinu verði 163 kr. sem er í samræmi við gengis- og verðbólguspá Hagstofu Íslands frá því í nóvember 2012.

Um 5. gr.

    Í greininni kemur fram að semja megi um að félaginu og eiganda þess sé heimilt að framselja fjárfestingarsamninginn við tilteknar afmarkaðar aðstæður.

Um 6. gr.

    Við uppbyggingu, túlkun og framkvæmd samninga sem gerðir verða innan ramma laga þessara skal farið að íslenskum lögum. Heimild skal þó vera til þess að vísa ágreiningi til gerðardóms.

Um 7. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um að gildistaka samningsins sé skilyrt við samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA.

Um 8. gr.

    Greinin þarfnast ekki frekari skýringa.


Fylgiskjal I.


Minnisblað um lýsingu á fyrirhuguðu verkefni.

www.althingi.is/altext/141/s/fylgiskjol/s1108-f_I.pdf



Fylgiskjal II.


Sameiginleg yfirlýsing um fyrirhugaðan fjárfestingarsamning.

www.althingi.is/altext/141/s/fylgiskjol/s1108-f_II.pdf




Fylgiskjal III.


Drög að helstu ákvæðum hafnarsamnings.


www.althingi.is/altext/141/s/fylgiskjol/s1108-f_III.pdf


Fylgiskjal IV.


Drög að helstu ákvæðum lóðarsamnings.


www.althingi.is/altext/141/s/fylgiskjol/s1108-f_IV.pdf


Fylgiskjal V.


Minnisblað Landsvirkjunar um raforkusamning.


www.althingi.is/altext/141/s/fylgiskjol/s1108-f_V.pdf


Fylgiskjal VI.


Minnisblað Landsvirkjunar vegna greinargerðar Byggðastofnunar.


www.althingi.is/altext/141/s/fylgiskjol/s1108-f_VI.pdf


Fylgiskjal VII.


Minnisblað Landsnets um tengingu kísilvers á Bakka.


www.althingi.is/altext/141/s/fylgiskjol/s1108-f_VII.pdf


Fylgiskjal VIII.


Ákvörðun Skipulagsstofnunar um tillögu um matsáætlun.


www.althingi.is/altext/141/s/fylgiskjol/s1108-f_VIII.pdf


Fylgiskjal IX.


Greinargerð efnahagsskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins
um þjóðhagsleg áhrif.


www.althingi.is/altext/141/s/fylgiskjol/s1108-f_IX.pdf


Fylgiskjal X.


Greinargerð Byggðastofnunar um svæðisbundin áhrif.


www.althingi.is/altext/141/s/fylgiskjol/s1108-f_X.pdf


Fylgiskjal XI.

Atvinnuvega- og
nýsköpunarráðuneyti:


Mat á áhrifum frumvarpsins á fjárhag sveitarfélaga skv. 129. gr.
sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011.

    Með frumvarpinu, sem atvinnuvega- og nýsköpunaráðherra leggur nú fram á 141. löggjafarþingi 2012–2013, er lagt til að ráðherra sem fer með málefni atvinnuþróunar og fjárfestingar, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, verði veitt heimild til að semja við PCC BakkiSilicon hf. og eiganda þess, PCC SE, um kísilver í landi Bakka í Norðurþingi í samræmi við ákvæði frumvarpsins.
    Á síðustu áratugum hafa íslensk stjórnvöld gert sérstaka fjárfestingarsamninga við félög um nýfjárfestingarverkefni í orkufrekum iðnaði. Í lögum nr. 62/1997, um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, lögum nr. 12/2003, um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði, og í lögum nr. 51/2009, um heimild til samninga um álver í Helguvík, er kveðið á um að þar tilgreind félög, sem stofnuð eru í þeim tilgangi að reisa og reka viðkomandi iðnfyrirtæki, skuli greiða skatta og önnur opinber gjöld, sem almennt eru lögð á hér á landi, eftir þeim reglum sem um þau gilda samkvæmt lögum á hverjum tíma, nema að því leyti sem á annan veg er mælt fyrir í þeim lögum. Í framangreindum lögum er með tæmandi hætti talið upp hvaða skattalegu frávik gilda fyrir viðkomandi félög, með sams konar hætti og þau eru talin upp í fjárfestingarsamningum sem gerðir voru við félögin. Með frumvarpi því sem hér er lagt fram er með sams konar hætti gert ráð fyrir því að almennar skattareglur gildi um félagið PCC BakkiSilicon hf. vegna kísilvers í landi Bakka, með tilteknum frávikum sem með tæmandi hætti eru tilgreind í frumvarpinu. Eru þau frávik verulega minni en þau sem voru lögfest í lögum nr. 62/1997, nr. 12/2003 og nr. 51/2009.
    Í fjárfestingarsamningnum verður fjallað um þá samninga sem félagið gerir við Landsvirkjun og Landsnet, Norðurþing og hafnarsjóð Norðurþings. Þá verður í samningnum kveðið á um þær ívilnanir sem ríkið, Norðurþing og hafnarsjóður Norðurþings veita félaginu.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að í fjárfestingarsamningi verði kveðið á um að félagið, PCC BakkiSilicon hf., fái annars vegar ívilnanir í samræmi við rammalöggjöf um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, sbr. lög nr. 99/2010, með síðari breytingum, og hins vegar sérstakar ívilnanir vegna nýfjárfestingar samkvæmt sérákvæðum. Eru ívilnanirnar í samræmi við sameiginlega viljayfirlýsingu (e. Joint declaration) PCC SE, ríkisstjórnarinnar, Norðurþings og hafnarsjóðs Norðurþings. Í viðræðum við PCC SE sem semur fyrir hönd hins íslenska félags, PCC BakkiSilicon hf., hefur komið skýrt fram að veiting ívilnana, sérstaklega í upphafi verkefnisins, sé forsenda þess að fjárfestingarverkefnið verði að veruleika hér á landi. Þá er ljóst að PCC BakkiSilicon hf. verður fyrsta fjárfestingarverkefnið á Bakka, ef samningar ganga eftir. Það tekur því þátt í uppbyggingu svæðisins og myndar hvata fyrir önnur félög að hefja þar rekstur. Þær athuganir sem liggja til grundvallar frumvarpinu sýna að verkefnið er þjóðhagslega hagkvæmt, styrkir verulega byggðir á Norðausturlandi og getur orðið eitt af áhugaverðustu svæðum til iðnaðarþróunar í Evrópu. Í sérákvæðum frumvarpsins er kveðið á um að félagið njóti eftirfarandi ívilnana umfram þær ívilnanir sem heimilt er að veita í núgildandi lögum um nýfjárfestingar, sbr. lög nr. 99/2010:
     a.      Að félagið njóti 15% tekjuskattshlutfalls í stað 20% eins og nú er.
     b.      Að félagið greiði engin gjöld af stimpilskyldum skjölum sem félagið gefur út eða stofnar til í tengslum við uppbyggingu viðkomandi fjárfestingarverkefnis í stað þess að greiða 0,15%.
     c.      Að félagið njóti 50% afsláttar af fasteignagjöldum í stað 30% afsláttar.
     d.      Að félagið verði undanþegið almennu tryggingagjaldi í stað þess að fá 20% afslátt af gjöldunum.
     e.      Að heimilt verði að heimila félaginu frávik frá sköttum og gjöldum í 14 ár í stað 13 ára frá undirritun samnings eins og gert er ráð fyrir í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2010, en þó aldrei lengur en í 10 ár frá því að skattskylda eða gjaldskylda myndast hjá félaginu.
    Þær ívilnanir sem ríkið veitir til verkefnisins vegna frávika frá sköttum og gjöldum, þ.e. lægra tekjuskattshlutfall og undanþága frá almennu tryggingagjaldi og stimpilgjaldi, eru áætlaðar um 1–1,5 milljarðar kr. á öllu tímabilinu sem heimilt er að veita ívilnanir eða í 10 ár en þó aldrei lengur en í 14 ár frá því að fjárfestingarsamningur er undirritaður. Aðrar ívilnanir um frávik frá sköttum og gjöldum sem raktar eru í frumvarpinu falla á sveitarfélagið Norðurþing, þ.e. 30% afsláttur af gatnagerðargjöldum og 50% afsláttur af fasteignagjöldum, að því tilskildu að slíkt verði heimilað að lögum. Þá hyggst hafnarsjóður Norðurþings veita félaginu 40% afslátt af vörugjöldum. Áætlaður tekjumissir fyrir sveitarfélagið, miðað við að engar ívilnanir væru veittar, er á bilinu 500–550 millj. kr. á öllu ofangreindu tímabili sem heimilt er að veita ívilnanir og fyrir hafnarsjóð á bilinu 400–450 millj. kr. Er þá miðað við að meðalgengi evrunnar verði á tímabilinu 163 kr. sem er í samræmi við gengis- og verðbólguspá Hagstofu Íslands frá því í nóvember 2012. Á móti kemur að fjárfestingarverkefni af þessari stærðargráðu skilar sveitarfélaginu strax á uppbyggingartímanum verulegum tekjum og störfum fyrir íbúa, eins og rakið er í kostnaðarumsögn með frumvarpi um heimild handa ráðherra f.h. ríkissjóðs til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka í Norðurþingi.
    Umsögn þessi var unnin í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og gerir sambandið ekki athugasemd við niðurstöðuna.

Fylgiskjal XII.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um heimild til samninga um kísilver í landi Bakka í Norðurþingi.

    Í frumvarpi þessu er lagt til að atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra verði veitt heimild til að gera fjárfestingarsamning fyrir hönd ríkisstjórnarinnar við PCC SE (eigandann) og PCC BakkiSilicon hf. (félagið) um að hið síðarnefnda reisi og reki kísilmálmverksmiðju á Íslandi. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að félagið skuli njóta ýmissa skattalegra ívilnana umfram þær ívilnanir sem heimilt er að veita samkvæmt gildandi lögum nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi. Í fyrsta lagi er lagt til að félagið njóti 15% tekjuskattshlutfalls í stað 20% eins og í gildandi lögum. Í öðru lagi er lagt til að félagið verði undanþegið tryggingagjaldi í stað þess að fá 20% afslátt af gjöldunum. Í þriðja lagi er lagt til að félagið greiði engin gjöld af stimpilskyldum skjölum sem félagið gefur út eða stofnar til í stað 0,15%. Í fjórða lagi að félagið njóti 50% afsláttar af fasteignagjöldum í stað 30%. Í fimmta lagi er síðan gert ráð fyrir að heimilt verði að veita félaginu frávik frá sköttum og gjöldum í 14 ár í stað 13 ára frá undirritun samnings. Áætlað er að þær ívilnanir sem ríkið veitir til verkefnisins vegna frávika frá sköttum og gjöldum, þ.e. lægra tekjuskattshlutfall og undanþága frá almennu tryggingagjaldi og stimpilgjaldi, geti verið um 100–150 m.kr. á ári eða um 1–1,5 mia.kr. á 10 ára tímabili frá því að fjárfestingarsamningur er undirritaður. Til viðbótar þessum skattalegu ívilnunum er í 3. gr. frumvarpsins gert ráð fyrir að ríkissjóður taki þátt í kostnaði við undirbúning á iðnaðarlóð félagsins í landi Bakka, að fenginni heimild í fjárlögum, sem þó verði aldrei hærri fjárhæð en 3,3 milljónir evra eða sem svarar til 559 m.kr. miðað við gengi í dag. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að félaginu verði einnig veittur 1,4 milljón evra þjálfunarstyrkur, eða sem svarar til 237 m.kr., vegna kostnaðar við þjálfun starfsfólks sem fellur til í tengslum við nýfjárfestinguna, að fenginni heimild í fjárlögum.
    Frumvarpið er lagt fram samhliða öðru frumvarpi til laga um heimild til handa ráðherra, f.h. ríkissjóðs, til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka í Norðurþingi. Í því frumvarpi er gert ráð fyrir að atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra fái heimild til að semja annars vegar við Vegagerðina um gerð vegtengingar milli Húsavíkurhafnar og iðnaðarsvæðisins á Bakka fyrir allt að 1.800 m.kr. og hins vegar við hafnarsjóð Húsavíkurhafnar um víkjandi lán til hafnarframkvæmda fyrir allt að 819 m.kr. Þar sem bæði frumvörpin varða sama verkefni um uppbyggingu atvinnustarfsemi á Bakka í Norðurþingi er að öðru leyti vísað í umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins um það frumvarp. Þar er sett fram umfjöllun um mat á fjárhagsáhrifum beggja frumvarpanna fyrir ríkissjóð og skyld málefni.