Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 639. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Prentað upp.

Þingskjal 1134  —  639. mál.
Viðbót.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um virðisaukaskatt og lögum um staðgreiðslu
opinberra gjalda (skatteftirlit, skil á virðisaukaskatti).


Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

1. gr.

    Í stað orðanna „tvö ár“ í 1. mgr. 27. gr. A laganna kemur: tvö uppgjörstímabil.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda,
með síðari breytingum.

    

2. gr.


    Við 3. mgr. 29. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Jafnframt er ríkisskattstjóra heimilt að láta lögreglu stöðva atvinnurekstur launagreiðanda sem hefur ekki sinnt skyldum sínum skv. 2. mgr. 15. gr. eða 1. mgr. 19. gr. Ekki skal beita þessu úrræði nema eftir ítrekuð tilmæli um úrbætur.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta er flutt af efnahags- og viðskiptanefnd að höfðu samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið, Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands. Það er samið á grundvelli samstarfsátaks ríkisskattstjóra, Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands sem ætlað er að sporna við svartri atvinnustarfsemi og stuðla að bættum skattskilum. Átakið ber heitið Leggur þú þitt af mörkum?.
    Þeir aðilar sem að átakinu standa telja að ýmsan lærdóm megi draga af verkefninu og niðurstöðum þess hingað til. Meðal þess sem þarfnist nánari skoðunar séu þau úrræði sem tiltæk eru vegna skattalagabrota. Af þeim sökum settu þeir sig í samband við fjármála- og efnahagsráðuneytið til að ræða mögulegar breytingar á skattalögum hvað þetta varðar. Eitt af því sem lagt var til í þessu samhengi er að tímamörk skv. 1. mgr. 27. gr. A í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, verði þrengd verulega. Í núgildandi ákvæði er ríkisskattstjóra heimilað að fella skattaðila út af virðisaukaskattsskrá hafi hann sætt áætlun samfellt í tvö ár eða lengur. Það er mat ríkisskattstjóra að reynslan af þessu ákvæði sl. tvö ár hafi sýnt að þetta tímabil sé allt of langt. Þó að talsverður árangur hafi náðst varðandi áætlaða aðila eru samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra enn um 12% þeirra aðila sem skráðir eru á virðisaukaskattsskrá áætlaðir við frumálagningu.
    Með hliðsjón af þessu er í frumvarpinu lagt til að ákvæði 1. mgr. 27. gr. A verði breytt og viðmiðið verði að skattaðila, sem sætt hefur áætlun samfellt í tvö uppgjörstímabil eða lengur, megi fella af virðisaukaskattsskrá.
    Með lögum nr. 163/2010 voru gerðar nokkrar breytingar á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem ætlað var að bæta skil og eftirlit með greiðslu virðisaukaskatts. Með 9. gr. laganna var 27. gr. A bætt við lögin um virðisaukaskatt en í því ákvæði var að finna nýmæli sem varðar þá skattaðila sem hafa sætt áætlun virðisaukaskatts í langan tíma samfellt. Í 1. mgr. ákvæðisins var lögfest að ríkisskattstjóra væri heimilt að fella skattaðila af virðisaukaskattsskrá hafi hann sætt áætlun virðisaukaskatts, skv. 25. eða 26. gr. laganna, samfellt í tvö ár eða lengur. Þessi breyting var rökstudd með vísan til þess að áætluðum aðilum á virðisaukaskattsskrá hefði fjölgað verulega á árunum á undan og ríkissjóður hefði orðið af háum fjárhæðum vegna þessara skattaðila. Þá segir í almennum athugasemdum við frumvarpið að um 32.000 aðilar séu á virðisaukaskattsskrá og sæti um 20% þeirra áætlun við frumálagningu. Breytingunum var þannig ætlað að stuðla að betra skatteftirliti og koma í veg fyrir að aðilar sæti ítrekað áætlunum. Lög nr. 163/2010 öðluðust gildi 1. janúar 2011.
    Reglur um uppgjörstímabil í virðisaukaskatti er að finna í 24. gr. laga nr. 50/1988. Samkvæmt ákvæðinu er meginreglan sú að hvert uppgjörstímabil er tveir mánuðir, ríkisskattstjóri getur þó heimilað skemmri uppgjörstímabil við sérstakar aðstæður sbr. 4. mgr. 24. gr. Þá skulu þeir aðilar sem selja virðisaukaskattsskylda vöru og þjónustu fyrir minna en 3.000.000 kr. nota almanaksárið sem uppgjörstímabil, sbr. 1. mgr. 24. gr. Loks gilda sérreglur um uppgjörstímabil þeirra aðila sem stunda landbúnað, sbr. X. kafla laganna en þeir aðilar skulu almennt gera skil á virðisaukaskatti tvisvar á ári.
    Almenna reglan um uppgjör og skil á virðisaukaskatti er því tveggja mánaða tímabil. Gjalddagi vegna hvers uppgjörstímabils er einum mánuði og fimm dögum eftir lok tímabilsins. Af þessu leiðir að frumálagning virðisaukaskatts eftir tvö samfelld almenn uppgjörstímabil fer fram um sex mánuðum eftir upphaf þess tímabils. Aðgerðir ríkisskattstjóra hefjast ekki fyrr en að þeim tíma liðnum og að jafnaði byrjar ríkisskattstjóri á því að gefa leiðbeinandi tilmæli og frest til úrbóta.
    Verði frumvarpið að lögum styttist sá tími sem líða þarf áður en ríkisskattstjóra er heimilt að fella aðila út af virðisaukaskattsskrá verulega, þ.e. úr tveimur árum í um það bil sex mánuði þegar um almenn uppgjörstímabil er að ræða.
    Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að lögfest verði sjálfstætt úrræði fyrir ríkisskattstjóra sem beitt yrði í skatteftirliti og er til viðbótar við þau úrræði sem nú þegar eru fyrir hendi. Oft háttar þannig til að nauðsynlegt getur verið að stöðva atvinnurekstur með skjótum aðgerðum þannig að draga megi úr möguleikum á því að frekara tjón verði fyrir ríkissjóð og launamenn.
    Lagt er til að ríkisskattstjóri geti leitað atbeina lögreglu og látið stöðva rekstur launagreiðanda þegar hann hefur ekki sinnt tilteknum skyldum samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987. Nánar tiltekið er um að ræða vanrækslu skv. 2. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 19. gr. Í 2. mgr. 15. gr. er kveðið á um að launagreiðendur skuli reikna og halda eftir staðgreiðslu af launum launamanna sinna og skila staðgreiðslu til innheimtuaðila. Í 1. mgr. 19. gr. er kveðið á um að launagreiðandi skuli ótilkvaddur tilkynna ríkisskattstjóra um starfsemi sína og óska eftir skráningu á launagreiðendaskrá. Sinni launagreiðandi ekki þessum skyldum sínum yrði eins og fyrr segir heimilt að stöðva starfsemi hans að því gefnu að hann hafi ekki sinnt tilmælum eftirlitsmanna ríkisskattstjóra. Úrræði sem nú er í lögum um að úrskurða launagreiðendur á launagreiðendaskrá kallar eingöngu á áætlun staðgreiðslufjárhæðar til að tryggja kröfu í staðgreiðsluskrá en breytir engu um það hvort aðilar halda áfram starfsemi án skila.
    Gert er ráð fyrir að lokunarúrræði sé tækt á staðgreiðsluári til að bæta úr tilteknu ástandi en að því yrði ekki beitt að staðgreiðsluári loknu nema launagreiðandi sýndi af sér sömu háttsemi.
    Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að launagreiðandi hafi fengið áskorun um að sinna skyldum sínum samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Alla jafna gæfist honum 10–20 daga frestur til að koma málum þessum í rétt horf. Að þeim fresti liðnum bæri ríkisskattstjóra að ítreka tilmæli sín og mundi frestur til að bæta úr vera mun styttri, til að mynda 3–7 dagar. Að þeim tíma liðnum væri ríkisskattstjóra heimilt að leita atbeina lögreglu og stöðva starfsemi launagreiðandans væri hann ekki búinn að koma málum sínum í lag.