Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 502. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1136  —  502. mál.

3. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/2010, um ívilnanir
vegna nýfjárfestinga á Íslandi, með síðari breytingum.

Frá minni hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið að nýju.
    Eftir að nefndin afgreiddi málið til 2. umræðu barst nefndinni viðbótarumsögn frá ríkisskattstjóra þar sem fram kemur að í þeim samningum sem gerðir hafi verið á grundvelli laga nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, sé að finna nokkur ívilnandi ákvæði sem erfið séu í framkvæmd í núverandi kerfum embættisins. Bent er á að tryggingagjald sé samsett úr almennu tryggingagjaldi og atvinnutryggingagjaldi, sbr. ákvæði 1. gr. laga nr. 113/1990. Þá er vakin athygli á því að samkvæmt lögum nr. 99/2010 sé heimilt að veita 20% afslátt af almennu tryggingagjaldi sem vegi þyngst í tryggingagjaldinu, sbr. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald. Að auki kemur fram að í álagningarkerfum ríkisskattstjóra sé lagt á stofninn ósundurliðaðan, þ.e. almenna tryggingagjaldið og atvinnutryggingagjaldið. Í framhaldinu er upplýst um að fyrirkomulag frumvarpsins hafi í för með sér verulegt óhagræði fyrir ríkisskattstjóra og aðila að ívilnanasamningum. Telur ríkisskattstjóri að æskilegra væri að afsláttur væri veittur af stofni til tryggingagjalds, þar með talið atvinnutryggingagjaldi.
    Nefndin fékk á sinn fund Þórð Reynisson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og Jón Á. Tryggvason og Kristján Gunnarsson frá ríkisskattstjóra. Á fundinum var upplýst að gerðir samningar væru fáir og ekki væri fyrirsjáanlegt að þeim fjölgaði mikið á þessu ári. Þá var bent á að heildarendurskoðun laganna væri í undirbúningi og henni þyrfti að verða lokið fyrir næstu áramót. Að auki kom fram að fyrirkomulag frumvarpsins leiddi til umtalsverðrar vinnu við útreikninga tryggingagjaldsafslátta en að sú vinna ætti ekki að reynast ríkisskattstjóra og fyrirtækjum um megn nema gerðum ívilnanasamningum mundi fjölga verulega.
    Jónína Rós Guðmundsdóttir, framsögumaður, og Þór Saari voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Í ljósi framangreinds leggur minni hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 5. mars 2013.



Lilja Rafney Magnúsdóttir,


form., frsm.


Logi Már Einarsson.


Björn Valur Gíslason.



Ólína Þorvarðardóttir.