Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 642. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1140  —  642. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar
verði lokið á sjötíu ára afmæli lýðveldisins.

Flm.: Árni Páll Árnason, Katrín Jakobsdóttir, Guðmundur Steingrímsson.


    Alþingi ályktar að mikilvægt sé að leiða til lykta það ferli stjórnskipunarumbóta sem hófst í aðdraganda kosninga 2009 og hélt áfram með þjóðfundi, starfi stjórnlaganefndar og stjórnlagaráðs og tillögu ráðsins til nýrrar stjórnarskrár 2011, ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu 2012, þar sem fram kom stuðningur við smíði nýrrar stjórnarskrár, og þinglegri meðferð frumvarps á þeim grunni.
    Alþingi samþykkir að kjósa á yfirstandandi þingi fimm manna stjórnarskrárnefnd sem fái það hlutverk að vinna að farsælli niðurstöðu málsins á næsta kjörtímabili. Vinna nefndarinnar grundvallist á tillögum stjórnlagaráðs og miði að því að útfæra nánar frumvarp það til nýrrar stjórnarskrár sem nú liggur fyrir þinginu. Þá verði jafnframt hafðar til hliðsjónar þær breytingartillögur sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur lagt fram. Nefndin skili stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis tillögum sínum fyrir 1. október 2013 og stefnt verði að því að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar verði lokið á sjötíu ára afmæli lýðveldisins árið 2014.

Greinargerð.


    Í kjölfar þess að innlendir sérfræðingar luku lagatæknilegri yfirferð yfir frumvarp stjórnlagaráðs óskaði Alþingi eftir umsögn Feneyjanefndar Evrópuráðsins um fyrirliggjandi frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Af þátttöku Íslands í fjölþjóðlegu samstarfi á vettvangi Evrópuráðsins er góð reynsla, allt frá árinu 1951, og hefur hún fært íslenskum almenningi margar mikilvægustu réttarbætur síðustu áratuga, með mannréttindasáttmála Evrópu og dómum Mannréttindadómstólsins í Strassborg.
    Í áliti nefndarinnar er borið lof á það opna ferli sem Alþingi ýtti úr vör árið 2010, sem og ýmis nýmæli sem felast í tillögu stjórnlagaráðs. Um leið er bent á atriði sem þarfnist nánari athugunar og mikilvægi þess að tryggja farsæla afgreiðslu þeirra tillagna sem eru afrakstur ferlisins. Fyrirsjáanlegt er að ekki muni vinnast tími til að ljúka heildarendurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins á slíkum grunni fyrir lok yfirstandandi þings. Þá er mikilvægt að tími gefist til að kynna þjóðinni frumvarpið eins og það lítur út eftir vinnu og breytingar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og tími gefist til umræðu um nýja stjórnarskrá innan þings og utan til að skapa víðtæka sátt um hana.
    Þingsályktunartillaga þessi felur í sér að kosin verði nefnd á þessu þingi til að leiða frekara starf sem undirbúi meðferð stjórnarskrárfrumvarps þegar Alþingi kemur saman haustið 2013. Nefndinni er ætlað að grundvalla vinnu sínu á fyrirliggjandi tillögum stjórnlagaráðs og útfæra nánar frumvarp það til nýrrar stjórnarskrár sem nú liggur fyrir Alþingi með hliðsjón af breytingartillögum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, athugasemdum Feneyjanefndarinar og umsögnum sem Alþingi hafa borist við fyrirliggjandi frumvarp. Lagt er til að þessi sérstaka stjórnarskrárnefnd skili stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis tillögum sínum 1. október 2013.
    Samhliða þingsályktunartillögu þessari er lagt fram frumvarp til stjórnarskipunarlaga þar sem lögð er til sú tímabundna viðbót við 79. gr. stjórnarskrárinnar að breyta megi stjórnarskránni með öðrum hætti en nú er. Þannig verði heimilt að afgreiða stjórnarskrárbreytingar óháð þingkosningum en í staðinn áskilið að breytingarnar þurfi bæði aukinn meiri hluta á Alþingi og í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hljóti það frumvarp brautargengi verður unnt að ljúka heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar með viðeigandi hætti í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu á sjötíu ára afmæli lýðveldisins árið 2014.