Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 542. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1151  —  542. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt,
með síðari breytingum (gagnaver).


Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sóleyju Ragnarsdóttur og Guðrúnu Þorleifsdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Jón Guðmundsson, Óskar Albertsson og Bjarna Amby Lárusson frá ríkisskattstjóra, Kolbein Einarsson frá Samtökum íslenskra gagnavera og Sigurð B. Halldórsson frá Samtökum iðnaðarins. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá ríkisskattstjóra og Samtökum ferðaþjónustunnar.
    Samkvæmt lögum nr. 163/2010 sem breyttu d-lið 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt telst rafrænt afhent þjónusta ekki til skattskyldrar veltu þegar þjónustan er keypt af erlendum aðila sem ekki stundar starfsemi hér á landi. Kom fram í athugasemdum við frumvarp til laganna að skýring hugtaksins „rafrænt afhent þjónusta“ tæki mið af tilskipun Evrópusambandsins 2006/112/EB og skv. 2. mgr. 12. laga um virðisaukaskatt yrði heimilt að skilgreina hugtakið í reglugerð.
    Tilefni umræddrar lagasetningar var þannig lýst að um væri að ræða áfanga í endurskoðun laga um virðisaukaskatt sem einkum tæki mið af því að laga ákvæði hennar að breyttum viðskiptaháttum og auknum viðskiptum milli landa, ekki síst á sviði rafrænnar sölu á vöru og þjónustu. Yfirlýstur tilgangur breytingarinnar var einnig að afmarka betur hvað teldist til afhendingar á rafrænni þjónustu hjá gagnaverum þar sem talið var að þjónusta þeirra gæti bæði falið í sér rafrænt afhenta þjónustu, sem er undanþegin skattskyldri veltu, og þjónustu í formi aðstöðuleigu (hýsingar), sem ber virðisaukaskatt.
    Við þinglega meðferð frumvarpsins skiluðu Samtök íslenskra gagnavera umsögn þar sem gerðar voru athugasemdir við umrædda aðgreiningu þjónustunnar og talið að álagning skattsins á hýsingarþjónustu sem seld væri úr landi mundi raska stöðu íslenskra gagnavera gagnvart erlendum samkeppnisaðilum sem staðsettir væru á Evrópska efnahagssvæðinu. Samtökin lögðu einnig áherslu á að viðskiptamönnum gagnavera sem heimilisfastir væru innan svæðisins yrði að greindum skilyrðum heimilað að flytja inn tölvubúnað til notkunar í íslenskum gagnaverum án þess að óafturkræfur virðisaukaskattur legðist á við innflutning búnaðarins.
    Í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar (þskj. 581, 208. mál á 139. löggjafarþingi) var lagt til að bætt yrði við lög um virðisaukaskatt nýrri grein, 42. gr. A, þess efnis að innflutningur á netþjónum og tengdum búnaði í eigu aðila sem væri heimilisfastur í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings EFTA eða í Færeyjum og ekki væri með fasta starfsstöð hér á landi yrði undanþeginn virðisaukaskatti að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Var lagt til að ákvæðið tæki gildi fjórum mánuðum eftir almenna gildistöku laganna og átti að nota þann tíma til þess að fá úr því skorið hjá Eftirlitsstofnun EFTA hvort ákvæðið væri innan marka EES-samningsins er varða ríkisstyrkjareglur.
    Í nefndarálitinu kemur einnig fram að nefndin hafi leitað leiða til að koma til móts við gagnrýni er varðaði flokkun þeirrar þjónustu gagnavera sem teldist til rafrænnar þjónustu. Sjónarmið koma þar einnig fram um vandkvæði þess að skilgreina hýsingarþjónustu á annan hátt en getið er hér að framan á þeirri forsendu að í henni felist ekki útflutningur þar sem hún sé að fullu veitt og hennar notið hér á landi. Við 2. umræðu var þó samþykkt breytingartillaga er laut að því að undanþiggja skattskyldri veltu hvers kyns blandaða þjónustu gagnavera til kaupenda sem búsettir væru erlendis og hefðu ekki fasta starfsstöð hér á landi, sbr. nú síðari málslið d-liðar 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. Var tillögunni ætlað að taka gildi fjórum mánuðum eftir almenna gildistöku frumvarpsins.
    Í athugasemdum frumvarpsins sem hér er til umfjöllunar kemur fram að allt frá því að lög nr. 163/2010 voru samþykkt með framangreindum breytingum, sem annars vegar varða blandaða þjónustu og hins vegar innflutning á netþjónum og tengdum búnaði, hafi íslensk stjórnvöld átt í viðræðum við Eftirlitsstofnun EFTA um hvort þær samrýmdust EES-skuldbindingum Íslands. Fram kemur að stofnunin hafi talið að á því léki vafi og af þeim sökum er lagt til í 1. og 2. gr. frumvarpsins að síðari málsliður d-liðar 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. og ákvæði 42. gr. A laga um virðisaukaskatt falli brott.
    Meiri hlutinn tekur undir þann skilning sem fram kemur í umsögn ríkisskattstjóra þar sem gert er ráð fyrir að hluti sölu gagnavera til erlendra aðila teljist til skattskyldrar veltu ef ákvæði d-liðar 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. fellur brott. Að uppfylltu því skilyrði að starfsemi hins erlenda fyrirtækis væri skráningarskyld samkvæmt lögum um virðisaukaskatt væri hún rekin hér á landi og að uppfylltum öðrum skilyrðum sem fram koma í reglugerð nr. 288/1995 gæti hluti fyrirtækja fengið slíkan virðisaukaskatt endurgreiddan. Að mati ríkisskattstjóra ætti það sjaldnast við um erlenda banka sem kunna að greiða gagnaverunum hér á landi fyrir þjónustu.
    Í 3. gr. frumvarpsins er enn fremur lagt til að ráðherra verði veitt heimild til að setja reglur um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna innflutnings erlendra fyrirtækja á vörum. Er lagt til að endurgreiðslan lúti sömu skilyrðum og ferlum og gilda við endurgreiðslu vegna kaupa á vöru og þjónustu hér á landi, sbr. reglugerð nr. 288/1995, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra fyrirtækja. Hefur athygli nefndarinnar verið vakin á því að með því að styðjast við þann endurgreiðsluferil sem þegar er farvegur fyrir sé helstu markmiðum varðandi innflutning umræddra aðila náð.
    Til áréttingar er í 3. gr. fjallað um það hvenær fyrirtæki teljist erlent og er þá átt við að aðili hafi hvorki fasta búsetu né starfsstöð hér á landi. Í umsögn ríkisskattstjóra er vakin athygli á því að hugtakið „föst starfsstöð“ sé hvergi skilgreint í íslenskum lögum og að við skýringu þess hafi m.a. verið litið til úrskurða yfirskattanefndar og tvísköttunarsamningsfyrirmynd OECD.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 5. mars 2013.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Magnús Orri Schram.



Árni Þór Sigurðsson.


Skúli Helgason.