Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 564. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1158  —  564. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit



um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu
EES-nefndarinnar nr. 210/2012 um breytingu á II. viðauka
(Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn.


Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergþór Magnússon og Jóhönnu Bryndísi Bjarnadóttur frá utanríkisráðuneyti og Björn Frey Björnsson frá innanríkisráðuneyti. Málið var sent allsherjar- og menntamálanefnd til umsagnar og gerir nefndin ekki athugasemd við það að hinum stjórnskipulega fyrirvara verði aflétt af umræddri EES-gerð.
    Utanríkismálanefnd hefur áður, í samræmi við 2. gr. reglna um þinglega meðferð EES- mála, fjallað um reglugerð (ESB) nr. 286/2012, er varðar heiti textíltrefja, til mats á því hvort efnislegra aðlagana væri þörf. Málið var þá komið til umfjöllunar í vinnuhópi EFTA og var utanríkismálanefnd upplýst um málið með skeyti frá utanríkisráðuneyti, dags. 20. ágúst 2012, ásamt fylgigögnum. Í því ferli, sbr. 2. og 7. gr. framangreindra reglna, hlaut reglugerðin efnislega umfjöllun í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 210/2012, frá 7. desember 2012, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn framselda reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 286/2012 frá 27. janúar 2012 um breytingu á I. viðauka, til að fella inn nýtt heiti textíltrefja, og VIII. og IX. viðauka, í þeim tilgangi að laga þá að tækniframförum, reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1007/2011 um heiti textíltrefja og viðkomandi merkimiða og merkingar varðandi trefjasamsetningu textílvara. Sex mánaða frestur, samkvæmt EES-samningnum, til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara er veittur til 7. júní 2013. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála frá 1. október 2010.
    Með reglugerðinni er trefjategundinni polypropylene/polyamide bætt við samræmda skrá yfir textíltrefjar og skilgreindar samræmdar prófunaraðferðir fyrir trefjategundina, með það að markmiði að fella brott hindranir á eðlilegri starfsemi á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins þar sem ákvæði aðildarríkjanna um heiti, samsetningu og merkingu textílvara hafa hingað til verið breytileg frá einu aðildarríki til annars.
    Innleiðing framangreindrar gerðar kallar á lagabreytingar hér á landi og mun fyrirhugað frumvarp innanríkisráðherra til nýrra heildarlaga um textílheiti, textílmerkingar o.fl. verða lagt fram á næsta þingi til innleiðingar á ákvæðum reglugerðarinnar. Frumvarpið mun að líkindum koma til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd.
    Hvorki er gert ráð fyrir að innleiðing reglugerðarinnar muni hafa í för með sér umtalsverðar fjárhagslegar né stjórnsýslulegar afleiðingar.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Árni Páll Árnason, Bjarni Benediktsson og Mörður Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 5. mars 2013.



Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Helgi Hjörvar.


Gunnar Bragi Sveinsson.



Ragnheiður E. Árnadóttir.


Ólafur Þór Gunnarsson.






Fylgiskjal.



Umsögn



um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu
EES-nefndarinnar nr. 210/2012 um breytingu á II. viðauka
(Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn.


Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.



    Utanríkismálanefnd óskaði eftir því með tölvupósti, dags. 26. febrúar 2013, að allsherjar- og menntamálanefnd léti í té álit sitt á tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 210/2012 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn (564. mál).
    Allsherjar- og menntamálanefnd hefur fjallað um málið. Með vísan til þess að málið hefur áður hlotið efnislega umfjöllun í allsherjar- og menntamálanefnd, sbr. 2. og 7. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála, gerir meiri hlutinn ekki athugasemd við það að hinum stjórnskipulega fyrirvara verði aflétt af umræddri EES-gerð.
    Sigmundur Ernir Rúnarsson og Tryggvi Þór Herbertsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. mars 2013.

Björgvin G. Sigurðsson, form.,
Skúli Helgason,
Þráinn Bertelsson,
Ólafur Þór Gunnarsson,
Siv Friðleifsdóttir.