Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 447. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1191 —  447. mál.

2. umræða.


Breytingartillaga



við frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða,
með síðari breytingum (stærðarmörk krókaaflamarksbáta, strandveiðar).


Frá Jóni Bjarnasyni og Atla Gíslasyni.



    Við 3. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, XIII, svohljóðandi:
    Á fiskveiðiárunum 2013/2014 og 2014/2015 hefur ráðherra til ráðstöfunar, til sérstakrar úthlutunar, eftirfarandi aflaheimildir hvort fiskveiðiár, miðað við óslægðan afla: Ýsa 3.000 lestir.
    Aflaheimildum þessum er heimilt að ráðstafa til krókaaflamarksbáta sem hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni og hafa stundað veiðar á vetrarvertíð. Útgerð á þess kost að fá úthlutað fyrir hvert skip gegn greiðslu gjalds allt að 10 lestum af ýsu. Fiskistofa annast úthlutun aflaheimildanna. Aflaheimildir sem er úthlutað samkvæmt þessari grein eru ekki framseljanlegar. Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.
    Verð á aflamarki skal vera 180 kr. fyrir hvert kílógramm af ýsu. Gjaldið skal greitt Fiskistofu fyrir úthlutun.
    Tekjur af aflaheimildum skulu renna í ríkissjóð og skal þeim ráðstafað til verkefna sem eru í samræmi við markmið 1. gr. laganna um verndun og hagkvæma nýtingu nytjastofna á Íslandsmiðum ásamt því að tryggja atvinnu og trausta byggð í landinu. Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.

Greinargerð.


    Fyrir liggur að viðskipti með aflamark í ýsu eru nú í lágmarki og eiga útgerðir í erfiðleikum með að fá nauðsynlegar aflaheimildir til að geta stundað blandaðar veiðar. Mikill niðurskurður í aflaheimildum á ýsu á þessu fiskveiðiári eykur enn á þennan vanda. Af því tilefni er talið réttlætanlegt að ráðherra sé veitt heimild til að auka nokkuð aflaheimildir í því skyni að koma til móts við þennan mikla vanda.
    Jafnframt er lagt til að tekjur vegna viðskipta með aflamark ýsu er renna í ríkissjóð verði í heild sinni varið til verkefna er taki mið af þeim markmiðum sem fram koma í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða.