Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 632. máls. Ferill 633. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1228  —  632. og 633. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um heimild til samninga um kísilver í landi Bakka í Norðurþingi og frumvarp til laga um heimild til handa ráðherra, f.h. ríkissjóðs, til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka í Norðurþingi.

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Í nefndaráliti þessu er fjallað um tvö þingmál, sbr. 1. mgr. 30. gr. laga um þingsköp Alþingis: 632. mál, kísilver í landi Bakka (fjárfestingarsamningur og ívilnanir), og 633. mál, uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka (stækkun hafnar og vegtenging).
    Nefndin hefur fjallað um málin og fengið á sinn fund Þórð Reynisson og Margréti Sæmundsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Hörð Arnarson og Óla Grétar Sveinsson frá Landsvirkjun, Þórð Guðmundsson og Árna Jón Elíasson frá Landsneti, Pétur Reimarsson frá Samtökum atvinnulífsins, Bjarna Má Gylfason frá Samtökum iðnaðarins, Gylfa Arnbjörnsson frá Alþýðusambandi Íslands og Hrein Haraldsson frá Vegagerðinni. Þá átti nefndin símafundi með Gunnlaugi Stefánssyni, Jóni Helga Björnssyni, Þráni Gunnarssyni, Bergi Elíasi Ágústssyni, Snæbirni Sigurðarsyni og Guðbjarti Ellerti Jónssyni frá Norðurþingi, Sigurgeiri Höskuldssyni frá Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga, Dagbjörtu Jónsdóttur frá Þingeyjarsveit og Þórði Hilmarssyni frá Íslandsstofu. Umsagnir um málin bárust frá umhverfis- og samgöngunefnd, fjárlaganefnd, Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins og Vegagerðinni.
    Frumvörpin varða bæði uppbyggingu kísilvers í landi Bakka í Norðurþingi. Frumvarp í 632. máli felur í sér heimild til að gera fjárfestingarsamning um rekstur og byggingu kísilvers, lýsingu á verkefninu, heimildir til ívilnana á sviði skatta og gjalda auk heimilda fyrir ríkissjóð til að taka þátt í greiðslu kostnaðar vegna undirbúnings verkefnisins. Frumvarp í 633. máli felur í sér heimildir til að skuldbinda ríkissjóð til að koma fjárhagslega að vega- og hafnarframkvæmdum í tengslum við kísilversuppbygginguna.
    Gestir og umsagnaraðilar eru flestir jákvæðir í garð frumvarpanna. Að þeirra mati gefa þær athuganir sem liggja frumvörpunum til grundvallar þá mynd að uppbygging kísilversins muni hafa jákvæð þjóðhagsleg áhrif og styrkja verulega byggðir á Norðausturlandi. Gert er ráð fyrir að kísilver á Bakka nýti orku frá jarðvarmavirkjunum á jarðhitasvæðum í Þingeyjarsýslum. Virkjanakostir í Bjarnarflagi og á Þeistareykjum eru í orkunýtingarflokki samkvæmt gildandi þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Samkvæmt upplýsingum meiri hlutans er undirbúningur framangreindra virkjanakosta lengst kominn af þeim virkjanakostum sem Landsvirkjun hefur til athugunar, útboðshönnun er í gangi og því hægt að bjóða viðkomandi virkjanaframkvæmdir út með stuttum fyrirvara.
    Af gögnum málsins og umræðum á fundum nefndarinnar má sjá að undirbúningur verkefnisins er langt kominn. Þannig liggja drög helstu samninga fyrir og virðast allir sem að verkefninu koma, beint eða óbeint, tilbúnir að takast á við það. Helsti óvissuþátturinn virðist vera utanaðkomandi, þ.e. þróun í alþjóðlegu efnahagslífi, m.a. áhrif hennar á eftirspurn eftir framleiðsluvörum kísilversins og annars iðnaðar sem áætlað er að verði starfræktur á Bakka.
    Í leiðbeinandi reglum Eftirlitsstofnunar EFTA um ríkisaðstoð kemur fram að hvað byggðaaðstoð varðar, árin 2007–2013, skuli hámark aðstoðar í tilvikum lítilla fyrirtækja nema 35% af fjárfestingarkostnaði en 25% hjá meðalstórum fyrirtækjum og 15% hjá stórum fyrirtækjum. Þá er gert ráð fyrir að hlutfallið sé enn lægra þegar um er að ræða verkefni þar sem fjárfestingarkostnaðurinn nemur yfir 50 millj. evra. Á fundum nefndarinnar kom fram að hlutfall ríkisaðstoðar á grundvelli ákvæða frumvarpanna sé talsvert undir viðeigandi hámarkshlutfalli.
    Áætlaður kostnaður ríkissjóðs vegna framkvæmdanna mun verða um 3.415 millj. kr. á uppbyggingartímanum. Að mati meiri hlutans verður að telja verulegar líkur á því að sú upphæð skili sér til baka í ríkissjóð til lengri tíma litið og því muni afkomubati verkefnisins vega upp skammtímaáhrif sem af því hljótast.
    Á fundi nefnarinnar komu ákveðnar áhyggjur fram varðandi heimild til undanþágu frá almennu tryggingagjaldi skv. 4. tölul. 2. mgr. 3. gr. frumvarps í 632. máli, um kísilver í landi Bakka. Þannig kom fram að undanþágan hefði mögulega í för með sér óvissu um réttarstöðu starfsmanna kísilversins. Skilningur meiri hlutans er að áhyggjur þessar eru óþarfar enda muni réttindi starfsmannanna verða óskert þrátt fyrir undanþáguna.
    Á fundum nefndarinnar kom fram að uppbygging innviða í Norðurþingi væri grunnforsenda frekari uppbyggingarverkefna á svæðinu. Í þessu sambandi var m.a. bent á að Thorsil ehf. hefur gert samkomulag við Landsvirkjun um skilmála vegna raforkukaupa fyrir kísilmálmverksmiðju sem það hyggst reisa og reka á Bakka. Að auki hefur franska fyrirtækið Saint-Gobain, eitt af 10 bestu nýsköpunarfyrirtækjum í Frakklandi og eitt af 100 stærstu fyrirtækjum í heimi, hafið umhverfismat (frummat) vegna kísilkarbítverksmiðju á svæðinu. Í almennri umræðu hefur nokkuð verið komið inn á það að hvaða leyti ákvæði frumvarpsins fela í sér fordæmisgefandi aðgerðir. Í því sambandi bendir meiri hlutinn á að uppbygging kísilvers er einstakt verkefni fyrir þær sakir að í því felst uppbygging á byggða- og samfélagslega köldu svæði þar sem samfélags- og atvinnuástand hefur veikst síðastliðin ár. Innviði samfélagsins þarf að byggja upp til að mögulegt sé að ráðast í uppbyggingu á Bakka. Þá kom það mat fram á fundi nefndarinnar að skref væru stigin í rétta átt með því að veita frumkvöðlum við uppbyggingu á köldum svæðum frekari ívilnanir en öðrum enda tækju þeir ríkari þátt en aðrir í aðlögun innviða og samfélags að nýjum atvinnu- og samfélagsháttum. Var framlag slíka frumkvöðla talið verulegt, tilvist þeirra kynni að skipta sköpum þegar kæmi að því að laða frekari uppbyggingu að viðkomandi svæðum.
    Á fundum nefndarinnar kom fram að áhrif verkefnisins verða mikil á norðausturhluta landsins. Í greinargerð þróunarsviðs Byggðastofnunar um svæðisbundin áhrif verkefnisins er m.a. komist að þeirri niðurstöðu að ef ekki komi til nýrrar atvinnuuppbyggingar muni íbúum í Þingeyjarsýslum fækka um 330 manns næstu tíu ár og slík fækkun muni veikja stoðir samfélagsins. Telur þróunarsviðið að uppbygging iðuvers eða iðjuvera á svæðinu muni beint og óbeint verða til þess að íbúum muni fjölga um 750–1.130 manns. Ljóst er því að sveitarstjórnir á norðausturhluta landsins þurfa að vera tilbúnar til að fást við þau verkefni sem íbúafjölgunin kallar á. Á sama tíma þurfa sveitarstjórnarmenn að gæta að sér þar sem áhrifin verða að hluta tímabundin.
    Að lokum tekur meiri hlutinn fram að í umsögn Vegagerðarinnar um 633. mál, um uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka, er tekið undir ábendingu sem kemur fram í umsögn fjárlagaskristofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þar er spurt hvort ekki sé rétt að fjárveiting ríkissjóðs til vegaframkvæmda, sem heimild er veitt til í frumvarpinu, renni til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sem taki þar með ábyrgð á framkvæmdinni og skuldbindandi samningum en semji við Vegagerðina um stjórnun og umsjón með gerð mannvirkja. Að mati meiri hlutans er ábendingin þörf og eðlilegt að fjárveitingum og skuldbindingum verði hagað til samræmis við hana.
    Í ljósi framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvörpin verði samþykkt óbreytt.
    Þór Saari var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. mars 2013.



Kristján L. Möller,


form., frsm.


Þuríður Backman.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.



Björn Valur Gíslason.


Magnús Orri Schram.


Sigurður Ingi Jóhannsson,


með fyrirvara.



Fylgiskjal I.


Umsögn

um frumvarp til laga um heimild til samninga um kísilver í landi Bakka, 632. mál, og um heimild til handa ráðherra, f.h. ríkissjóðs, til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka í Norðurþingi, 633. mál.

Frá fjárlaganefnd.


    Hinn 8. mars sl. óskað atvinnuveganefnd eftir því að fjárlaganefnd veitti umsögn um frumvarp til laga um heimild til samninga um kísilver í landi Bakka, 632. mál, og frumvarp til laga um heimild til handa ráðherra, f.h. ríkissjóðs, til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka í Norðurþingi, 633. mál, sem eru til umfjöllunar í atvinnuveganefnd. Fjárlaganefnd hélt tvo fundi um málið og fékk Nökkva Bragason og Magnús Hafsteinsson frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu á sinn fund.
    Í ljósi verkaskiptingar milli nefnda Alþingis þá mun fjárlaganefnd fyrst og fremst fjalla um fjárhagslega þætti frumvarpanna, svo sem áætluð útgjöld ríkissjóðs, þjóðhagsleg áhrif framkvæmdanna og áhrif á ríkisfjármálastefnu ríkisstjórnarinnar. Frumvarpið um uppbyggingu innviða fjallar um fjárveitingar til Vegagerðarinnar og Hafnarsjóðs og er því eðlilegt að fjárlaganefnd komi að málinu.

Meginefni frumvarpanna.
    Bæði frumvörpin tengjast fyrirhugaðri uppbyggingu kísilsvers í landi Bakka í Norðurþingi. Markmið með frumvarpinu um sjálft kísilverið, 632. mál, er að afla heimilda til að ráðherra atvinnuvega- og nýsköpunar geti gert fjárfestingarsamning við félagið PCC Bakki Silicon hf. og eiganda þess, PCC SE um kísilver með framleiðslugetu upp á 33 þús. tonn af kísilmálmi á ári. Samningar af þessu tagi er ekki einsdæmi og hafa verið m.a. verið gerðir í tengslum við álbræðslur á Grundatanga, Reyðarfirði og Helguvík, sem og við Járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga.
    Í fjárfestingarsamingnum er ætlunin að fjalla um samninga sem félagið gerir við Landsvirkjun og Landsnet, Norðurþing og hafnarsjóð Norðurþings. Með undirritun fjárfestingarsamnings verður hægt að hefja strax á þessu ári undirbúningsvinnu vegna framkvæmda á Bakka. Þá verður í samningnum fjallað um þær skattalegu ívilnanir sem ætlunin er að veita félaginu og koma fram í sameiginlegri viljayfirlýsingu samningsaðila og Norðurþings. Í þriðja lagi mun samningurinn fjalla um fjárstuðnings ríkisins vegna iðnaðarlóðar félagsins í landi Bakka.
    Hinu frumvarpinu, 633. máli, er ætlað að afla heimilda til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna kísilversins. Í því felst stækkun hafnar og vegtenging milli Húsavíkurhafnar og iðnaðarsvæðisins á Bakka. Áætlað er að framkvæmdirnar taki um tvö og hálft til þrjú ár og kosti rúmlega 2,6 milljarða kr. Heimildin sem lögð er til í frumvarpinu er bundin þeirri forsendu að vinna hefjist ekki við framkvæmdirnar fyrr en undirritaðir hafa verið nauðsynlegir samningar, svo sem fjárfestingarsamningur.

Þjóðhagsleg og samfélagsleg áhrif framkvæmdanna.
    Efnahagsskrifstofa fjármála- og efnahagsráðuneytisins var fengin til að leggja mat á þjóðhagsleg áhrif fyrirhugaðra framkvæmda við Bakka og Byggðastofnun lagði mat á samfélagsleg áhrif. Fyrirhuguð fjárfesting er áætluð um 28 milljarða kr. Áætlað er að fjárfestingin dreifist á þrjú ár og að landsframleiðslan aukist um 33,2 milljarða kr. vegna fjárfestingarinnar sem er um 0,27% af áætlaði landsframleiðslu á framkvæmdatímabilinu. Niðurstöður þjóðhagslegs mats eru að framkvæmdirnar muni hafa jákvæð áhrif á þjóðarbúið, og mikil áhrif fyrir samfélagið í Þingeyjarsýslum. Byggðastofnun telur að meðalaldur íbúa muni lækka og aukinn íbúafjöldi renna styrkari stoðum undir þá þjónustu sem veitt er, bæði á vegum opinberra aðila og einkaaðila og styrkja rekstur sveitarfélagsins. Enn fremur er það mat stofnunarinnar að komi ekki til ný atvinnuuppbygging muni íbúum í Þingeyjarsýslu fækka um 330 manns á næstu 10 árum sem muni enn veikja stoðir samfélagsins. Verði af iðnaðaruppbyggingu muni íbúum hins vegar fjölga á bilinu frá 750 upp í um 1.1.30 manns eftir því hve mikil uppbyggingin verður.

Útgjöld ríkissjóðs.
    Í kostnaðarmati fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins er gerð grein fyrir áætlun um 1.365 millj. kr. fjármögnun hafnarframkvæmda þar sem gert er ráð fyrir að eigið fé hafnarsjóðs fjármagni 10%, víkjandi lán ríkissjóðs 60% og lántaka sveitarfélagins til 40 ára fjármagni þau 30% sem upp á vantar. Í hagkvæmisútreikningum er ekki gert ráð fyrir endurgreiðslu á 819 millj. kr. vaxtalausu víkjandi láni ríkissjóðs þar sem reiknað er með að höfnin verði rekin með tapi ef ekki kemur til frekari atvinnuuppbygging.
    Jafnframt er gerð grein fyrir áætlun um útgjöld Vegagerðarinnar vegna vegtengingar milli Húsavíkurhafnar og iðnaðarsvæðisins á Bakka. Áætlaður heildarkostnaður vegna þess nemur 1.800 millj. kr. og skiptist þannig að 450 millj. kr. fara í jarðgangagröft, 410 millj. kr. til styrkingar klæðingar og frostvarna, 180 millj. kr. í gerð vegskála, 180 millj. kr. til rafbúnaðar, 280 millj. kr. til vegar innan gagna og utan að iðnaðarlóð, 80 millj. kr. til athafnasvæðisins og loks 120 millj. kr. ófyrirséð.
    Einnig er í kostnaðarmatinu lagt mat á útgjöld ríkissjóðs vegna samningsins við félagið PCC BakkiSilicon hf. Í því frumvarpi kemur fram að félagið skuli njóta 15% tekjuskattshlutfalls í stað 20% eins og gildandi lög um ívilnanir vegna nýfjárfestinga gera ráð fyrir. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að félagið greiði engin gjöld af stimpilskyldum skjölum sem félagið gefur út eða stofnar til í stað 0,15%. Í þriðja lagi er lagt til að félagið verði undanþegið tryggingagjaldi í stað þess að fá 20% afslátt af gjöldunum. Í fjórða lagi að félagið njóti 50% afsláttar af fasteignagjöldum í stað 30%. Loks er gert ráð fyrir að heimilt verði að veita félaginu frávik frá sköttum í 14 ár frá undirritun samnings.
    Til viðbótar skattalegu ívilnunum er einnig gert ráð fyrir að ríkissjóður taki þátt í kostnaði við undirbúning á iðnaðarlóð félagsins sem þó verði ekki hærri en sem nemur 560 millj. kr. á núverandi gengi. Einnig er gert ráð fyrir þjálfunarstyrk að fjárhæð um 240 millj. kr.
    Samtals er gert ráð fyrir rúmlega 3,4 milljarða kr. útgjöldum ríkissjóðs vegna ákvæða frumvarpsins, ef samþykkt verður, sem er um 12% af heildarfjárfestingunni.

Samantekt.
    Fjárlaganefnd undirstrikar mikilvægi þess að áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum nái fram að ganga eins og lagt hefur verið upp með en í þeirri áætlun er ekki gert ráð fyrir þeim útgjöldum sem frumvörpin fela í sér. Nefndin vekur einnig athygli á mikilvægi aukinna fjárfestinga hér á landi með tilheyrandi atvinnusköpun og bendir á í því sambandi að í þjóðhagsáætlunum er gert er ráð fyrir þeim framkvæmdum sem frumvörpin fjalla um. Aukin verðmæta- og atvinnusköpun sem byggist á fjölbreytni atvinnulífsins er forsenda þess að ríkisfjármálaáætlun nái fram að ganga og hagvöxtur verði.
    Fjárlagnefnd bendir á að þau útgjöld sem frumvarpið um uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi á Bakka (633. mál) felur í sér, verði það samþykkt, muni ekki einungis nýtast því fyrirtæki sem hér um ræðir heldur verður með þeim lagður grunnur að enn frekari atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum. Landsvirkjun hefur nú þegar lagt í miklar fjárfestingar á svæðinu og lýst því yfir að þar verði um frekari orkunýtingu að ræða og að í því sambandi standi yfir viðræður við fleiri fyrirtæki.
    Eins og fram hefur komið eru fjölmörg fordæmi fyrir hendi um ívilnanir af ýmsum toga vegna stærri framkvæmda sem taka mið af aðstæðum og eðli þeirra. Fjárlaganefnd lítur því svo á að þau frumvörp sem hér um ræðir varði eingöngu samninga um afmarkaðar framkvæmdir. Um slík mál þarf að taka sjálfstæða ákvörðun sem taki mið af eðli slíkra framkvæmda, umfangi þeirra og aðstæðum hverju sinni.
    Fjárlaganefnd vekur jafnframt athygli atvinnuvegarnefndar á því að samkvæmt túlkun fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins getur undanþága frá greiðslu almenns tryggingagjalds valdið óvissu um réttindi starfsfólks varðandi fæðingarorlof, lífeyris- og slysatryggingar og starfsendurhæfingarsjóði sem almenna tryggingagjaldinu er ætlað að fjármagna.

Alþingi, 11. mars 2013.

Björn Valur Gíslason, form.
Kristján Þór Júlíusson.
Lúðvík Geirsson.
Sigfús Karlsson.
Sigmundur Ernir Rúnarsson.
Valgerður Bjarnadóttir.


Fylgiskjal II.


Umsögn

um frumvarp til laga um kísilver í landi Bakka (fjárfestingarsamningur og ívilnanir) og frumvarp til laga um uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka (stækkun hafnar og vegtenging).

Frá 1. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Atvinnuveganefnd óskaði eftir því með tölvupósti, dags. 8. mars 2013, að umhverfis- og samgöngunefnd léti í té umsögn sína um frumvarp til laga um kísilver í landi Bakka (fjárfestingarsamningur og ívilnanir) og frumvarp til laga um uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka (stækkun hafnar og vegtenging).
    Umhverfis- og samgöngunefnd hefur fjallað um málið og kynnt sér þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru samkvæmt frumvörpunum.
    Eins og getið er um í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins er umfang framkvæmdanna slíkt að hætt er við að áhrif á heildarumsvif ríkisins geti orðið slík að valdi niðurskurði eða samdrætti í framkvæmdum annars staðar á framkvæmdatíma.
    1. minni hluti umhverfis- og samgöngunefndar leggur á það ríka áherslu að tryggt verði að framkvæmdirnar valdi ekki töfum á gildandi samgönguáætlun, enda fyrst og fremst um að ræða staðbundna styrkingu innviða vegna atvinnuátaks á svæðinu. Minni hlutinn leggur einnig ríka áherslu á að við framkvæmdirnar verði farið að lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, og skipulagslögum, nr. 123/2010, í hvívetna.
    Mörður Árnason og Birgir Ármannsson voru ekki á móti afgreiðslu málsins.
    Fjarverandi voru Ásmundur Einar Daðason, Árni Johnsen, Atli Gíslason og Róbert Marshall.

Alþingi, 8. mars 2013.

Ólafur Þór Gunnarsson, form.
Ólína Þorvarðardóttir.
Lilja Rafney Magnúsdóttir.



Fylgiskjal III.

Ívilnanir, samanburðarskjal.

Ívilnanir A. Álverið á Reyðarfirði B. Kísilver á Bakka C. Lög nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga* D. Lög nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga, án breytinga
Lengd fjárfestingarsamnings 20 ár frá umsömdum afhendingardegi rafmagns og einhliða réttur til að framlengja samningi um önnur 20 ár 14 ár frá undirritun fjárfestingarsamningi en aldrei lengur en í 10 ár frá því að skattskylda eða gjaldskylda myndast hjá félaginu 13 ár frá undirritun fjárfestingarsamningi en aldrei lengur en í 10 ár frá því að skattskylda eða gjaldskylda myndast hjá félaginu. 13 ár frá undirritun fjárfestingarsamningi en aldrei lengur en í 10 ár frá því að skattskylda eða gjaldskylda myndast hjá félaginu.
Tekjuskattur 18% 15% 18% Tekjuskattur festur í samræmi við það sem er í gildi á hverjum tíma. Verne (20%) og Becromal (15%)
Tryggingagjald Ekki sérreglur Undanþága 50% afsláttur 20% afsláttur
Tolla- og vörugjöld Undanþága Undanþága Undanþága Undanþága
Fasteignaskattur, veitt af sveitarfél. Gjaldhlutfall 1% + sérreglur um gjaldstofn 50% afsláttur 50% afsláttur 30% afsláttur
Öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga Undanþága Undanþága Undanþága Undanþága
Fyrningarreglur Sérreglur** Sérreglur** Sérreglur** Sérreglur**
Eignarskattur Undanþága Ekki sérreglur Ekki sérreglur Ekki sérreglur
Iðnaðarmálagjald/ markaðsgjald*** Undanþága Undanþága Undanþága Undanþága
Gatnagerðargjald, veitt af sveitarfél. Undanþága 30% afsláttur Ekki sérreglur Ekki sérreglur
VSK á innflutningi Frestur á greiðslu fram að gjalddaga fyrir endurgreiðslu vegna viðkomandi uppgjörstímabils Ekki sérreglur Ekki sérreglur Ekki sérreglur
VSK vegna kaupa á rafmagni Frestur á greiðslu fram að gjalddaga fyrir endurgreiðslu vegna viðkomandi uppgjörstímabils Ekki sérreglur Ekki sérreglur Ekki sérreglur
Stimpilgjöld 0,15% Undanþága (0%) Undanþága (0%) 0,15%
Þjálfunarstyrkur Ekki sérreglur Allt að 2 millj. evra Allt að 2 millj. evra Allt að 2 millj. Evra (ekki fengist fjárlögum)
Þátttaka ríkisins í lóðaundirbúningi Ekki sérreglur 3,3 millj. Evra Ekki sérreglur Ekki sérreglur
* Miðað við að frumvarp sem nú liggur fyrir á Alþingi verði samþykkt óbreytt
** Sérstakar fyrningarreglur sem heimila að fyrna í hlutfalli við notkun og að eign verði fyrnd að fullu
*** Iðnaðargjald fellt úr gildi 1. janúar 2011, en síðasta álagningarárið var 2010 vegna rekstrarárs 2009
Fylgiskjal IV.


Um innviðafjárfestingu á Bakka.
(VH – febrúar 2013.)


    Í frumvörpum sem fjalla um uppbyggingu iðnaðarsvæðis í landi Bakka við Húsavík kemur fram að ríkið áformar að fjármagna nauðsynlega innviðafjárfestingu á þessu nýja svæði. Auk þess er að finna áform um ívilnunarsamning við þýska iðnfyrirtækið PCC sem hyggst reisa kísilver á Bakka. Ívilnunarsamningurinn inniheldur ýmislegt kunnuglegt sem áður hefur sést í sambærilegum samningum við erlend stór iðnaðarfyrirtæki á Íslandi.

Innviðafjárfestingin.
    Innviðafjárfestingin samanstendur af þrennu:
    (i)    Hafnarframkvæmdum á Húsavík; dýpkun, stækkun og byggingu stálþils
    (ii)    Uppbyggingu vegtengingar frá iðnaðarlóð að höfn (ríflega 1 km löng jarðgöng)
    (iii)    Þátttaka í kostnaði við grófjöfnun iðnaðarlóðar PCC á Bakka
    Samtals nema útgjöld ríkisins við þessa innviðafjárfestingu um 3,4 milljörðum kr. og dreifist á nokkrum árum á uppbyggingartímanum. Langstærstur hluti þessara innviðafjárfestinga á Bakka er varanleg uppbygging við höfn og vegtengingu sem mun nýtast öllum þeim fyrirtækjum sem ákveða að byggja upp starfsemi á svæðinu. Landsvirkjun hefur sagt opinberlega að helsta áhersla fyrirtækisins í orkusölumálum á næstunni sé að selja orku af háhitasvæðunum í Þingeyjarsýslu (Þeistareykir, Krafla og Bjarnarflag) til iðnaðarfyrirtækja sem vilja byggja upp framleiðslu þar. Fyrirhugaðar hafnarframkvæmdir og uppbygging vegtengingar á Bakka mun því ekki einungis nýtast PCC heldur einnig öðrum fyrirtækjum sem ákveða að hefja framleiðslu á svæðinu. Raunar er líklegt að þegar fyrsta fyrirtækið hefur hafið starfsemi í landi Bakka þá verði mun áhugaverðara fyrir önnur fyrirtæki að skoða Bakka sem raunhæfan kost þar sem þá verða nauðsynlegir innviðir til staðar og meiri vissa um skipulag svæðisins.

Mikil fjárfesting.
    Fjárfesting PCC á Bakka er áætluð 170 milljónir EUR. Á uppbyggingartíma iðjuversins verða tæpir 400 starfsmenn. Til viðbótar verður umtalsverður starfsmannafjöldi við uppbyggingu vegtengingar og stækkun hafnarinnar og því til viðbótar við uppbyggingu virkjana á Þeistareykjasvæðinu. Varanlegur starfsmannafjöldi PCC verður um 120. Ljóst er því að veruleg umsvif munu fylgja allri þessari uppbyggingu í Þingeyjarsýslum á næstu árum og einnig til langs tíma. Fyrir liggur að ríkið mun fá umtalsverðar skatttekjur af þessum framkvæmdum ef af þeim verður.

Kalt svæði.
    Eins og fyrir liggur hefur íbúum fækkað í Þingeyjarsýslum á síðustu árum. Heilsársstörfum hefur víðast hvar fækkað bæði í Suður- og Norðursýslunni og atvinnumöguleikar eru víða fábrotnir þótt ferðaþjónusta að sumri sé víða blómleg nú seinni árin. Mikið áhyggjuefni er hversu meðalaldur hefur hækkað á svæðinu. Í byggðalegu tilliti má segja að Þingeyjarsýslur séu kalt svæði. Fyrirhuguð uppbygging á Bakka er því sérstaklega mikilvæg fyrir íbúa á svæðinu. Líklegt er að íbúum gæti fjölgað talsvert, sérstaklega á Húsavíkursvæðinu.