Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 220. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1242  —  220. mál.

3. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um neytendalán.



Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Eftir umfjöllun nefndarinnar um málið milli 2. og 3. umræðu hafa ýmis atriði sem 1. minni hluti benti á í umsögn sinni við 2. umræðu skýrst að nokkru leyti. Þannig hefur það verið fullyrt við vinnu nefndarinnar að frumvarpið muni ekki raska hefðbundnum lánaviðskiptum fjármálafyrirtækja og neytenda með tilliti til kvaða um upplýsingaskyldu, greiðslumat, lánshæfismat og hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar. Almennt er upplýsingaskylda lánveitanda til lántaka aukin í frumvarpinu og líkt og fram kemur í nefndaráliti 1. minni hluta við 2. umræðu ber að fagna því og áréttar 1. minni hluti jafnframt nauðsyn þess að bæta fjármálalæsi almennings samhliða aukinni upplýsingagjöf lánveitanda svo að neytendur geti áttað sig á þeim upplýsingum sem þeim eru veittar samhliða lántöku og geti á fullnægjandi hátt borið saman mismunandi kjör á lánamarkaði.
    Fram komu áhyggjur varðandi möguleika námsmanna til að fá fyrirgreiðslu í bönkum gegn lánsloforði frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Námslán LÍN eru greidd út eftir að námsmaður hefur lokið önn og staðist próf í ákveðnum fjölda eininga en þar til lánið er greitt út fá námsmenn lán hjá bönkunum gegn lánsloforði LÍN standist þeir kröfur um námsframvindu. Komu fram sjónarmið um hvort þessi lán bankanna til námsmanna ættu að falla undir j-lið 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins og þau þannig undanskilin gildissviði þess þar sem fyrirsjáanlegt er að námsmenn sem hafa litlar tekjur og eiga að jafnaði engar eignir muni eiga erfitt með að standast lánshæfis- og greiðslumat. Af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytis kom fram við umfjöllun nefndarinnar að lánafyrirgreiðslur til námsmanna yrðu sérstaklega undanþegnar í reglugerð um lánshæfis- og greiðslumat sem ráðherra setur á grundvelli 5. mgr. 10. gr. frumvarpsins og væri slíkt ákvæði þegar í drögum að reglugerðinni.
    Þá komu fram við umfjöllun nefndarinnar fyrir 2. umræðu efasemdir um hvort framkvæmd verðtryggðra lána hér á landi stæðist ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2008/48/EB sem frumvarpinu er ætlað að innleiða í íslenskan rétt. Hins vegar hafa nú komið fram athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA sem telur að framkvæmd verðtryggingar standist ákvæði tilskipunarinnar og eru því ekki til staðar sérstakar ástæður til að draga það í efa.
    Frumvarpið er til bóta fyrir íslenskan lánamarkað en þó tekur 1. minni hluti fram að ekki er tekið á stóru málunum í frumvarpinu sem lúta m.a. að óviðunandi fjármálaráðgjöf og ómarkvissri og flókinni neytendavernd á fjármálamarkaði en á hana skortir á mörgum sviðum. 1. minni hluti telur í ljósi breytinga sem gerðar hafa verið á frumvarpinu eftir 2. umræðu rétt að leggja til breytingu á 25. gr. frumvarpsins þess efnis að lántakendur langtímalána verði upplýstir um greiðslubyrði sem nær út fyrir hefðbundna starfsævi.
    Fyrsti minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Við síðari málslið 1. mgr. 25. gr. bætist: og þær greiðslur af láninu sem lendi utan hefðbundinnar starfsævi.

Alþingi, 12. mars 2013.



Guðlaugur Þór Þórðarson,


frsm.


Pétur H. Blöndal.