Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 292. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1245  —  292. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 88/2008, um meðferð sakamála,
með síðari breytingum (skilyrði fyrir beitingu úrræða skv. XI. kafla).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur og Þórunni Hafstein frá innanríkisráðuneytinu, Eirík Tómasson frá réttarfarsnefnd, Stefán Eiríksson, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, Ólaf Helga Kjartansson frá Lögreglustjórafélagi Íslands, Sigríði J. Friðjónsdóttur og Helga Magnús Gunnarsson frá ríkissaksóknara og Jón H. B. Snorrason frá Ákærendafélaginu. Umsagnir bárust frá Ákærendafélagi Íslands, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, lögreglunni á Selfossi, Lögreglustjórafélagi Íslands, Persónuvernd og ríkissaksóknara.
    Með frumvarpinu er ætlunin að setja skýrari skilyrði fyrir beitingu þeirra aðgerða sem kveðið er á um í 81. gr. og 1. mgr. 82. gr. laga um meðferð sakamála. Þar kemur fram að lögreglu er heimilt að grípa til tiltekinna aðgerða í þágu rannsóknar, að uppfylltum þeim skilyrðum sem kveðið er á um í 83. gr. og 1. mgr. 84. gr. laganna. Þær aðgerðir sem hér um ræðir eru símahlustun, sbr. 81. gr., upptaka á hljóðum og merkjum, sbr. a-lið 1. mgr. 82. gr, taka ljósmynda og kvikmynda, sbr. b-lið, og notkun eftirfararbúnaðar, sbr. c-lið.
    Frumvarpið felur í sér þá breytingu að aðeins megi veita lögreglu heimild til símahlustunar og skyldra aðgerða að rannsókn beinist að broti sem varðað getur að lögum sex ára fangelsi og að auki verða ríkir almanna- eða einkahagsmunir að krefjast þess. Meiri hlutinn vekur á því athygli að hér er gerð sú breyting frá gildandi lögum að bæði skilyrðin verða að vera uppfyllt svo að heimilt sé að veita lögreglu þessa heimild. Þar að auki er kveðið á um að víkja megi frá þessari meginreglu ef til rannsóknar eru tiltekin brot sem tengjast skipulagðri brotastarfsemi eða beinast gegn friðhelgi einkalífs, frjálsræði eða persónuvernd, enda þótt refsiramminn nái ekki sex ára fangelsi, að því tilskyldu að ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjist þess að gripið verði til þessara aðgerða. Hér er átt við ákvæði almennra hegningarlaga, þ.e. 175. gr. a, er lítur að starfsemi skipulagðra brotasamtaka, 206. gr. um vændi, 210. gr. er varðar klám, 1. mgr. 232. gr. um brot gegn nálgunarbanni og brottvísun af heimili og 233. gr. um hótun um refsiverðan verknað. Meiri hlutinn bendir í þessu sambandi á að með lögum 58/2012, um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum (samningur Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun), var 210. gr. hegningarlaga breytt í þá veru að inn komu tvö ný ákvæði sem varða annars vegar barnaklám 210. gr. a, og hins vegar þátttöku barna í nektar- eða klámsýningum, 210. gr. b. Álit meiri hlutans er að einnig eigi að vera heimilt að beita sömu aðgerðum skv. 81. gr. og 1. mgr. 82. gr. laga um meðferð sakamála í þágu rannsóknar hvað varðar þessi ákvæði en þau varða einnig lægri refsingu en sex ára fangelsi. Leggur meiri hlutinn til breytingu á frumvarpinu þar að lútandi.
    Meiri hlutinn áréttar að þær rannsóknaraðgerðir sem hér um ræðir fela í sér óvenju mikla skerðingu á friðhelgi einkalífs þeirra sem þær beinast að þar sem með þeim fást upplýsingar um athafnir fólks, á heimilum þess sem annars staðar, án vitundar þess. En í 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar segir að allir skuli „njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu“. Á hinn bóginn er óhjákvæmilegt að lögregla hafi heimildir til að grípa til umræddra aðgerða til þess að upplýsa um ýmis brot.
    Eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið er með því verulega þrengd heimild lögreglu til að beita símahlustun og skyldum aðgerðum við rannsókn mála, ekki síst fyrir þá sök að sú heimild yrði í öllum tilvikum að réttlætast af því að ríkir almanna- eða einkahagsmunir krefðust þess. Við meðferð frumvarpsins í nefndinni komu fram þau sjónarmið frá umsagnaraðilum að frumvarpið mundi þrengja um of heimildir lögreglu til umræddra rannsóknaraðgerða. Einnig komu fram efasemdir um að frumvarpið fæli í sér að heimildir til símahlustunar og skyldra aðgerða yrði skýrari með þessum breytingum.
    Meiri hlutinn bendir í þessu sambandi á nýlegt svar innanríkisráðherra við fyrirspurn um hleranir frá ársbyrjun 2008 (þskj. 1022). Þar kemur m.a. fram að héraðsdómarar landsins veittu alls leyfi fyrir 868 símahlerunum á árunum 2008–2012. Einungis var sex beiðnum hafnað og ein var dregin til baka. Meiri hlutinn áréttar að með þessum rannsóknaraðgerðum eru mikilsverð mannréttindi skert á mjög tilfinnanlegan hátt og telur meiri hlutinn eðlilegt að kröfurnar til þeirra séu hertar og setja verði heimildum lögreglu eða ákæruvalds til að beita þessum úrræðum þröngar skorður. Einnig bendir meiri hlutinn á að það er háð dómara hverju sinni að meta hvort lagaskilyrðin teljist uppfyllt. Skiptir þá meginmáli að litið sé til þeirra hagsmuna sem eru í húfi hverju sinni. Meiri hlutinn leggur einnig á það áherslu að jafnvægis sé gætt milli rannsóknarhagsmuna og hagsmuna þeirra sem bornir eru sökum, þ.e. að ekki sé gripið til þessara rannsóknaraðgerða nema brýna nauðsyn beri til.
    Birgitta Jónsdóttir og Tryggvi Þór Herbertsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Í stað orðanna „206., 210. og 226. gr.“ í 1. gr. komi: 206. gr., 210. gr., 210. gr. a, 210. gr.
b, 226. gr.

Alþingi, 13. mars 2013.



Björgvin G. Sigurðsson,


form., frsm.


Skúli Helgason.


Ólafur Þór Gunnarsson.



Magnús Orri Schram.


Björn Valur Gíslason.