Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 52. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1253  —  52. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um tillögu til þingsályktunar um rannsóknir á umfangi
og nýtingarmöguleikum sjávarorku á Íslandi.

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Valdimar Össurarson frá Valorku ehf., Steinar Friðgeirsson frá RARIK Orkuþróun ehf. og Rán Jónsdóttur frá Landsvirkjun. Umsagnir um málið bárust frá Byggðastofnun, RARIK Orkuþróun ehf., Samorku – samtökum orku- og veitufyrirtækja, og Valorku ehf.
    Tillaga þessi felur í sér að hafin verði vinna við mat á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku við strendur Íslands. Lagt er upp með það markmið að greina hagkvæmustu nýtingarkosti til framtíðar auk þess sem lögð verði drög að gagnagrunni um nýtingu sjávarorku og mótuð stefna um framgang tækniþróunar á þessu sviði. Nefndin fagnar tillögunni og telur mikilvægt að hún nái fram að ganga og að þeir möguleikar sem búa í sjávarorku við Íslandsstrendur verði kannaðir til hlítar þannig að þessi nýtingarmöguleiki verði raunhæfur kostur í framtíðinni. Í því samhengi vekur nefndin athygli á því að ekki er langt síðan ráðist var í það verkefni að setja upp vindmyllur að erlendri fyrirmynd og þannig farið markvisst að vinna í nýtingu vindorku til orkuframleiðslu á Íslandi. Ísland er sérstaklega ríkt af endurnýjanlegum orkugjöfum en það er eigi að síður ljóst að áframhaldandi vexti í nýtingu vatnsafls og jarðvarma eru takmörk sett, m.a. vegna náttúruverndarsjónarmiða. Nefndin telur ljóst að mikilvægt er að hugsað sé til langrar framtíðar og allir virkjunarkostir kannaðir og í nýtingu sjávarorku geti falist miklir framtíðarmöguleikar.
    Nefndin vekur athygli á því að mjög mikil sjávarorka er öllum líkindum óbeisluð við strendur landsins og mögulegt er að þar sé orkukostur sem hagkvæmt er að virkja. Fyrir liggur að víða er mikla orku að finna skammt undan ströndum. Um er að ræða stöðuga og fyrirsjáanlega orku. Tækni til nýtingar sjávarorku er sífellt að þróast og verða hagkvæmari. Í heiminum eru nú um 60 tegundir hverfla komnar í tilraunakeyrslu og áætlanir eru um umfangsmiklar sjávarfallavirkjanir í nokkrum ríkjum.
    Umsagnir um tillöguna, sem bárust nefndinni frá nokkrum aðilum, voru almennt jákvæðar. Engu síður komu fram nokkrar athugasemdir sem nefndin telur mikilvægt að vikið sé að. Í umsögn RARIK Orkuþróunar ehf. kemur fram að fyrirtækið er hlynnt því að möguleikar til nýtingar sjávarorku við strendur landsins séu rannsakaðir frekar en það leggur þó áherslu á að halda beri þeim þáttum aðskildum sem fjallað er um í tillögunni annars vegar og hins vegar hvaða stefnu móta skal varðandi framgang tækniþróunar hér á landi á þessu sviði. Í umsögn RARIK Orkuþróunar ehf. koma enn fremur fram efasemdir um skynsemi þess að Íslendingar standi að tækniþróun á eigin hverflum og kosti hana einir. Bent er á að miklu nær væri að eiga samstarf við trausta erlenda aðila sem unnið hafa að hönnun og tækniþróun á þessu sviði og hafa fjármagn til þess að þróa starfhæfa frumgerð á hverflum sem talið er að geti ef til vill staðist þá miklu samkeppni sem ríkir á þessu sviði.
    Þrátt fyrir framangreindar athugasemdir telur nefndin mikilvægt að miklir möguleikar sem falist geta í nýtingu sjávarorku við strendur landsins verði rannsakaðir nánar eins og boðað er í tillögunni.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Orðin „og mótuð stefna um framgang tækniþróunar á þessu sviði“ í 2. málsl. falli brott.
     2.      Í stað orðanna „1. maí 2013“ í lokamálslið komi: 1. janúar 2014.

    Björn Valur Gíslason, Jón Gunnarsson, Kristján L. Möller og Þór Saari voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 14. mars 2013.



Lilja Rafney Magnúsdóttir,


form.


Jónína Rós Guðmundsdóttir,


frsm.


Ólína Þorvarðardóttir.



Einar K. Guðfinnsson.


Sigurður Ingi Jóhannsson.