Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 249. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1256  —  249. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit



um tillögu til þingsályktunar um nýsköpunarátak til að stórefla heilsársferðaþjónustu úti á landi.

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið. Umsagnir bárust frá Rannsóknarmiðstöð ferðamála, Íslandsstofu, ISAVIA ohf., Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum atvinnulífsins, Icelandair Group hf., Þróunarfélagi Austurlands og Markaðsstofu Austurlands.
    Tillagan var áður lögð fram á 139. og 140. löggjafarþingi og er nú endurflutt óbreytt. Atvinnuveganefnd afgreiddi tillöguna með nefndaráliti á 140. löggjafarþingi (þskj 1568, í 37. máli) og vísar nefndin til þess nefndarálits til fyllingar.
    Í tillögunni er lagt til að Alþingi álykti að fela atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra að hlutast hið fyrsta til um að hafið verði nýsköpunarátak í ferðaþjónustu úti á landi í þeim þríþætta tilgangi að fjölga erlendum ferðamönnum utan háannatíma, bæta við áfangastöðum á landinu, svo að álag á ferðamannastaði dreifist betur, og nýta betur og efla öll þau fjölmörgu samgöngu- og menningarmannvirki sem ríki og sveitarfélög hafa fjárfest í. Er lagt til að nýsköpunarátakið verði sjálfstætt samvinnuverkefni Íslandsstofu, Markaðsstofu ferðamála á Norðurlandi og ISAVIA með beinni aðkomu ráðuneyta ferðamála og samgangna, auk eftirlits og ráðgjafar af hálfu Ferðamálastofu og Rannsóknamiðstöðvar ferðamála. Í greinargerð tillögunnar kemur m.a. fram að með henni sé þess freistað að styrkja ferðaþjónustu á landsbyggðinni í fullu samræmi við markmið Sóknaráætlunar 20/20 um tímabundinn stuðning við vaxtargreinar, sérstakan stuðning við vetrarferðaþjónustu, stuðning við klasasamstarf fyrirtækja og umhverfismál ferðaþjónustu. Tillagan tekur einnig tillit til nýrrar ferðamálaáætlunar stjórnvalda.
    Málinu var vísað til atvinnuveganefndar sem sendi það til umsagnar á 140. löggjafarþingi. Að þessu sinni styðst nefndin við þær umsagnir sem þá bárust enda er málið óbreytt. Umsagnaraðilar voru jákvæðir í garð tillögunnar. Margir þeirra tóku sérstaklega undir mikilvægi þess að stuðla að fjölgun erlendra ferðamanna utan háannatíma. Bentu þeir á að á Íslandi hafi ferðamennska í gegnum tíðina verið mjög árstíðabundin sem geri það að verkum að fjárfestingar standi oft ónýttar utan háannatíma í ferðamennsku.
    Mat nefndarinnar er að tillagan sé jákvætt skref og góður stuðningur við það þarfa verk að auka heilsársferðamennsku á landsbyggðinni. Þó vekur nefndin eins og áður athygli á að í greinargerð tillögunnar kemur sú skoðun fram að ríkið þurfi að leggja til 75 millj. kr. á árunum 2012–2014 svo að hefja megi átak til að festa millilandaflug um Akureyrarflugvöll í sessi. Er það álit nefndarinnar að fjárframlög til framgangs tillögunnar megi verða hærri en framkvæmdatíminn lengri og þannig þurfi fjárframlögin að ná til lengri tíma. Þá kann að vera rétt að leggja meiri áherslu á markaðsstarf og nýsköpun en bein orð greinargerðarinnar gefa til kynna að ætlast sé til þess að samræmis verði gætt við áætlanagerð stjórnvalda.
    Í nefndaráliti á 140. löggjafarþingi benti nefndin á að einn tilgangur tillögunnar væri að stuðla að dreifingu álags á ferðamannastaði. Nefndin telur rétt að árétta þann skilning hér og vísa því til stuðnings í nefndarálit um tillögu til þingsályktunar um eflingu græna hagkerfisins á Íslandi (þingskjal 993 á 140. löggjafarþingi) þar sem nefndin tók undir fram komnar áhyggjur af álagi á ferðamannastaði og benti á að síðustu ár virtist innlend ferðamannaþjónusta hafa vaxið með auknum fjölda ferðamanna. Taldi nefndin að ákveðinnar varkárni þyrfti að gæta varðandi burðarþol ferðamannastaða. Í ljósi þessa vekur nefndin athygli á því að tillögunni er ekki aðeins ætlað að efla vöxt og verðmætasköpun innlends ferðamannaiðnaðar heldur einnig, og ekki síður, að dreifa álagi vegna umgangs ferðamanna á fleiri staði á landinu ásamt því að jafna hann út yfir árið.
    Nefndin leggur áherslu á að allt landið er undir þegar kemur að eflingu ferðaþjónustunnar en nefndin telur þó að staðsetning öflugs flugvallar í Eyjafirði og sterkir innviðir atvinnusvæðisins þar um kring séu grundvöllur þess að hefja nýsköpunarátak til að stórefla heilsársferðaþjónustu á því svæði. Þá þekkingu og reynslu sem skapast við skipulagningu og vinnslu verkefnisins geta stjórnvöld og önnur landsvæði nýtt í kjölfarið til eflingar ferðaþjónustu víðar um land.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Björn Valur Gíslason, Jón Gunnarsson, Kristján L. Möller og Þór Saari voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 14. mars 2013.



Lilja Rafney Magnúsdóttir,


form., frsm.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Ólína Þorvarðardóttir.



Einar K. Guðfinnsson.


Sigurður Ingi Jóhannsson.