Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 689. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1284  —  689. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um að styrkja samstarf við Færeyjar og Grænland um málefni norðurslóða.


Frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.


    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að styrkja samstarf við Færeyjar og Grænland um málefni norðurslóða, ásamt því að vinna að sameiginlegri vestnorrænni stefnumörkun varðandi norðurslóðir á þeim sviðum þar sem hagsmunir landanna fara saman og þau eru sammála. Utanríkisráðherra Íslands hitti utanríkisráðherra landanna tveggja reglulega til að ræða málefni norðurslóða og önnur sameiginleg hagsmunamál vestnorrænu landanna, helst árlega eða annað hvert ár hið minnsta. Fundurinn verði haldinn samhliða ársfundi Vestnorræna ráðsins ef mögulegt er.

Greinargerð.

    Tillaga þessi er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 2/2012 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 6. september 2012 í Gjógv og Þórshöfn í Færeyjum.
    Ríki heims sýna norðurslóðum nú vaxandi áhuga vegna þeirra áhrifa sem loftslagsbreytingar munu hafa á þeim slóðum. Þróunin skapar þrýsting á Vestur-Norðurlönd sem ættu að íhuga hvernig þau geti best staðið vörð um sameiginlega hagsmuni, t.d. í umhverfis- og atvinnumálum og eins gagnvart áhuga erlendra ríkja. Vestnorræna ráðið hélt þemaráðstefnu í Ilulissat á Grænlandi í mars 2012 undir yfirskriftinni „Staða Vestur-Norðurlanda í alþjóðakerfinu, með sérstakri áherslu á norðurslóðir“. Ein meginniðurstaða ráðstefnunnar var sú að umhverfis- og loftslagsbreytingar á norðurslóðum hafi haft og muni áfram hafa margar og fjölbreytilegar afleiðingar, ekki síst þegar kemur að efnahagsumsvifum í tengslum við nýtingu málma og annarra auðlinda, ásamt mögulegri opnun nýrra siglingaleiða á norðurslóðum. Þessi þróun hefur leitt til þess að æ fleiri lönd sýna norðurslóðum aukinn áhuga.
    Af þeim sökum er afar mikilvægt að vestnorrænu löndin tryggi sér hlutverk í pólitísku ákvarðanatökuferli um málefni norðurslóða og hagsmuni í Norður-Atlantshafi, ekki síst til að vera betur undir það búin að vernda eigin hagsmuni.
    Á ráðstefnunni var komist að þeirri niðurstöðu að löndin þrjú ættu að skilgreina sameiginlega hagsmuni á þeim sviðum þar sem hagsmunir þeirra fara saman og þau eru á einu máli. Síðan ættu þau að styrkja samstarf sitt um viðkomandi málefni. Löndin ættu þannig að íhuga hvernig best væri að bregðast við vaxandi áhuga á norðurslóðum og utanaðkomandi þrýstingi. Samstaða muni leiða til þess að löndin styrki stöðu sína og áhrif. Löndin standi sterkar saman heldur en hvert fyrir sig.
    Vestur-Norðurlönd eru nánir nágrannar og aðstæður í löndunum líkar að mörgu leyti. Löndin eru strjálbýl en hafa yfir stóru svæði að ráða. Í löndunum þremur eru margar afskekktar byggðir og þau eiga margt sameiginlegt þegar kemur að veðurfari og búsetuskilyrðum. Þar að auki hefur heimurinn nú vaxandi áhuga á norðurslóðum sem skapar þrýsting á vestnorrænu löndin. Þess vegna hafa löndin lagt áherslu á að styrkja samstarf sitt um málefni norðurslóða. Ráðið telur að það samstarf sem hér er lagt til sé mikilvægur þáttur í að ná því markmiði.
    Norðurlandaráð hefur mælst til þess við ríkisstjórnir Norðurlandanna að þær móti sameiginleg stefnumið fyrir norrænt samstarf á norðurslóðum. Fyrir vestnorrænu löndin er það því enn mikilvægara að ræða og komast að samkomulagi um það sem þau óska eftir að verði í slíkri stefnumörkun. Það mun án efa vega þyngra ef löndin þrjú eru sammála um að leggja fram tillögu með nokkrum ákveðnum áherslum sem þau óska eftir að verði hluti af stefnumiðum Norðurlanda um norðurslóðir. Sameiginleg afstaða Íslands, Grænlands og Færeyja mundi auka möguleikana á að hægt væri að hafa áhrif á vinnu ríkisstjórna Norðurlandanna við myndun norðurslóðastefnu.
    Ráðið hvetur stjórnirnar til að halda fund utanríkisráðherra landanna, ef tök eru á, samhliða ársfundi Vestnorræna ráðsins. Bæði væri hægt að nýta skipulag ársfundar ráðsins og eins mundi það hafa í för með sér að ráðið gæti fundað með ráðherrunum.