Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 693. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1293  —  693. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna,
nr. 91/2010, með síðari breytingum.


Flm.: Þorgerður K. Gunnarsdóttir.



1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 4. gr. skal þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald aðildarviðræðna Íslands og Evrópusambandsins fara fram samhliða alþingiskosningum 27. apríl 2013.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða tillögu til þingsályktunar um að samhliða alþingiskosningum 27. apríl 2013 fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald aðildarviðræðna Íslands og Evrópusambandsins. Þar sem svo skammur tími er nú til kosninga er nauðsynlegt að víkja frá ákvæði 1. mgr. 4. gr. laga nr. 91/2010, um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, sem áskilur að þjóðaratkvæðagreiðsla skuli fara fram í fyrsta lagi þremur mánuðum eftir að Alþingi hafi ályktað um hana. Að öðru leyti fer um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar eftir lögunum.