Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 582. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Nr. 21/141.

Þingskjal 1311  —  582. mál.


Þingsályktun

um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2013–2016.


         Alþingi ályktar, sbr. lög um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, nr. 121/2008, að á árunum 2013–2016 skuli unnið að þróunarsamvinnu Íslands í samræmi við eftirfarandi áætlun.
    Markmið Íslendinga með alþjóðlegri þróunarsamvinnu sé að leggja íslensk lóð á vogarskálar baráttunnar gegn fátækt og fyrir bættum lífskjörum í fátækustu hlutum heims. Með virkri þátttöku á þessu sviði leitist Ísland við að uppfylla pólitískar og siðferðislegar skyldur sínar sem ábyrg þjóð í samfélagi þjóðanna. Alþjóðleg þróunarsamvinna sé ein af meginstoðum íslenskrar utanríkisstefnu.
    Slegið er föstu að barátta gegn fátækt, félagslegu ranglæti, misskiptingu lífsgæða og hungri í heiminum sé áfram þungamiðja í stefnu Íslands á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. Jafnframt verði lögð rík áhersla á mannréttindi, jafnrétti kynjanna, réttindi barna, frið og öryggi. Leitast verði við að tryggja innbyrðis samræmi í utanríkisstefnu Íslands með tilliti til hnattrænna efnahags-, umhverfis- og öryggismála.
    Íslensk þróunarsamvinna endurspegli þannig þau gildi sem íslenskt samfélag stendur fyrir, virðingu fyrir lýðræði og mannréttindum, fjölbreytni mannlífs, umburðarlyndi, réttlæti og samstöðu. Í ljósi þessa verði lögð áhersla á:
     a.      Ábyrgð – að ráðvendni og gagnsæi verði höfð að leiðarljósi í þróunarstarfi og ábyrgð á framkvæmd og árangri starfsins deilt með samstarfsaðilum.
     b.      Árangur – að allir þættir þróunarstarfsins, stjórnun, verklag og aðferðafræði verkefna, stuðli að því að árangur þróunarsamvinnu verði sem mestur.
     c.      Áreiðanleika – að landi og þjóð verði aflað virðingar á alþjóðavettvangi með því að vera faglegur og traustur samstarfsaðili í þróunarstarfi.
    Markmið Íslands í þróunarsamvinnu verði að styðja áætlanir um útrýmingu fátæktar á grunni sjálfbærrar þróunar og uppbyggingar á mannauði. Sérstök áhersla verði lögð á mannréttindi, jafnrétti, frið, öryggi og verkefni þar sem íslensk sérþekking og reynsla nýtist.

Framlög.
    Íslensk stjórnvöld styðji markmið Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um að iðnríki skuli veita sem nemur 0,7% af vergum þjóðartekjum (VÞT) til þróunarsamvinnu. Mörkuð verði sú stefna að Ísland muni á næstu árum skipa sér í hóp þeirra ríkja sem leggja meira en sem nemur 0,7% af VÞT til þróunarsamvinnu. Framfylgt verði eftirfarandi áhersluatriðum:
     a.      Fylgt verði tímasettri áætlun um hækkun framlaga á gildistíma þessarar áætlunar, úr 0,26% í 0,42% af VÞT á tímabilinu 2013–2016, sbr. eftirgreinda töflu.
     b.      Stefnt verði að hækkun framlaga í 0,35% af VÞT árið 2015 og 0,42% af VÞT árið 2016.
     c.      Hraðað verði hækkun framlaga við endurskoðun áætlunarinnar árið 2015.
     d.      Verði hagvöxtur meiri en nú er spáð komi framlögin til endurskoðunar en jafnframt verði tryggt að framlög til þróunarmála verði ekki lægri að raungildi en árið 2013.
     e.      Árið 2017 renni 0,5% af VÞT til þróunarmála og árið 2019 renni 0,7% af VÞT til þróunarmála.
     f.      Framlög til fjárlagaliðar fyrir verkefni félagasamtaka nemi 8% af heildarframlögum árið 2014.
     g.      Sérstakur fjárlagaliður verði fyrir Alþjóðlega jafnréttisskólann í fjárlögum eftir að skólinn er orðinn hluti af neti Háskóla Sameinuðu þjóðanna (HSÞ) á Íslandi.
    Áætlað er að þróun framlaga á gildistíma áætlunarinnar verði sem hér segir:
VÞT1 (m.kr.) Hlutfall af
VÞT (%)
Framlög (m.kr.)
2013 1.663.302 0,26 4.332
2014 1.773.680 0,28 4.966
2015 1.878.238 0,35 6.574
2016 1.930.273 0,42 8.107
1 Samkvæmt spá Hagstofu Íslands um VÞT, 2. nóvember 2012.
    Fylgt verði eftirfarandi áætlun um skiptingu framlaga eftir fjárlagaliðum:
2013      2014 2015 2016

m.kr.

Hlutf.

m.kr.

Hlutf.

m.kr.

Hlutf .

m.kr.

Hlutf.
ÞSSÍ 1.772,6 41% 1.982,5 40% 2.624,3 40% 3.236,4 40%
UTN 2.282,7 53% 2.576,6 52% 3.410,5 52% 4.206,0 52%
Þar af:
Jarðhitaskóli HSÞ 249,8 6% 286,5 6%
Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ, FAO 27,2 1% 31,2 1%
Þróunaráætlun SÞ, UNDP 42,8 1% 49,1 1%
Barnahjálp SÞ, UNICEF 175,1 4% 200,9 4%
Sjávarútvegsskóli HSÞ 211,7 5% 242,8 5%
Landgræðsluskóli HSÞ 85,1 2% 102,0 2%
Stofnun SÞ um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna, UN Women 174,7 4% 200,4 4%
Mannúðarmál og neyðaraðstoð 262,2 6% 300,8 6%
Alþjóðabankinn 177,5 4% 203,6 4%
Umhverfis- og loftslagsmál 80,6 2% 92,5 2%
Íslensk friðargæsla 195,0 5% 219,4 4%
Þróunarmál og hjálparstarfsemi, óskipt 206,6 5% 231,0 5%
Almenn framlög til annarra alþjóðastofnana* 149,4 3% 171,4 3%
Stofnfjárframlög (IDA, NDF) 245,0 6% 245,0 5%
Samstarf við frjáls félagasamtök 277,1 6% 397,3 8% 525,9 8% 648,6 8%
Eftirlit Alþingis 9,9 0,2% 13,1 0,2% 16,2 0,2%
SAMTALS 4. 332,4 4.966,3 6.574,0 8.107,0
Hlutfall af VÞT 0,26% 0,28%      0,35% 0,42%
* Hlutfall framlaga til alþjóðlegra stofnana sem telst til þróunarsamvinnu: Almenn framlög til SÞ (12%), UNESCO (60%), IAEA (33%), ÖSE (74%), Alþjóðleg friðargæsla (6%), ILO (60%), WHO (76%) og UNFCCC (61%).

Framkvæmd.
    Í þróunarstarfi Íslands verði áhersla lögð á að skerpa sýn og fylgja skýrri forgangsröðun á grundvelli sjálfbærrar þróunar. Framfylgt verði eftirfarandi áhersluatriðum:

I. Áherslusvið, málaflokkar og þverlæg málefni.
1. Fiskimál:
     a.      Öflugt starf verði á vegum fagteymis utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í auðlinda- og umhverfismálum.
     b.      Virk þátttaka verði í stefnumótun alþjóðastofnana varðandi fiskimál.
     c.      Áhersla verði lögð á störf FAO og Alþjóðabankans.
     d.      Þróunarsamvinnustofnun Íslands leggi sérstaka áherslu á fiskimál í Mósambík og Úganda.
     e.      Öflugt starf verði á vegum Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Starfsemi skólans verði liður í heildarstefnu Íslands í málaflokknum.
    
2. Orkumál:
     a.      Öflugt starf verði á vegum fagteymis utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í auðlinda- og umhverfismálum.
     b.      Virk þátttaka verði í stefnumótun alþjóðastofnana varðandi orkumál.
     c.      Rík áhersla verði á samstarfsverkefni Íslands og Alþjóðabankans um þróun jarðhita í Austur-Afríku. Þróunarsamvinnustofnun Íslands er framkvæmdaraðili fyrsta hluta verkefnisins sem snýr að jarðhitaleit og rannsóknum, en NDF kemur að fjármögnun þess til móts við Þróunarsamvinnustofnun Íslands.
     d.      Stuðlað verði að aukinni fjárfestingu ríkja og þróunarstofnana í jarðhitaverkefnum til hagsbóta fyrir þróunarríki.
     e.      Áhersla verði lögð á störf Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðabankans, NDF og IRENA.
     f.      Öflugt starf verði á vegum Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Starfsemi skólans verði liður í heildarstefnu Íslands í málaflokknum.

3. Menntun:
     a.      Öflugt starf verði á vegum fagteymis utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í félags- og jafnréttismálum.
     b.      Sérstök áhersla verði á menntun og fullorðinsfræðslu í öllum samstarfslöndum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.
     c.      Samstarf verði við félagasamtök í menntamálum.
     d.      Starfsemi Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi á sviði fiskimála, orkumála og landgræðslu verði liður í áherslu á menntun.
     e.      Starfsemi Alþjóðlega jafnréttisskólans á Íslandi verði liður í áherslu Íslands á menntun.
     f.      Stuðningur verði við UN Women og UNICEF sem lykilstofnanir sem stuðla að menntun stúlkna og kvenna.

4. Heilbrigðismál:
     a.      Öflugt starf verði á vegum fagteymis utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í félags- og jafnréttismálum.
     b.      Þróunarsamvinnustofnun Íslands leggi áherslu á lýðheilsu og vatns- og hreinlætismál í Malaví og Úganda, sérstaklega mæðra- og ungbarnaheilsu.
     c.      Samstarf verði við félagasamtök í heilbrigðismálum.
     d.      Samstarf verði við UN Women sem stuðlar að bættri heilsu stúlkna og kvenna.
     e.      Stuðningur verði við kyn- og frjósemisheilbrigði og -réttindi, t.d. með framlögum til UNFPA.
     f.      Þátttaka verði í samstarfi Norðurlanda um mikilvægi kyn- og frjósemisheilbrigðis og -réttinda.
     g.      Stuðningur verði við UNICEF með áherslu á heilsufar barna.
    
5. Stjórnarfar:
     a.      Stuðningur verði við verkefni UN Women í Afganistan og Palestínu.
     b.      Stuðningur við verkefni UNRWA.
     c.      Framfylgt verði áætlun Íslands um framkvæmd ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 1325 um konur, frið og öryggi 2013–2016.
     d.      Nám sérfræðinga frá stríðshrjáðum ríkjum verði við Alþjóðlega jafnréttisskólann.
     e.      Stuðningur verði við mannúðarstörf alþjóðaráðs Rauða krossins.
     f.      Virðing fyrir mannréttindum sé í öndvegi þegar unnið er að uppbyggingu trausts stjórnarfars.
    
6. Endurreisn:
     a.      Framlag verði til samhæfingar endurreisnarstarfs í Afganistan.
     b.      Palestínskir flóttamenn verði studdir með framlagi til Sameinuðu þjóðanna (UNRWA/ UNHCR).
     c.      Stuðningur verði við samhæfingu mannúðaraðstoðar í Palestínu í samstarfi við OCHA og UNDP.
     d.      Stuðningur verði við verkefni UN Women og UNICEF sem stuðla að endurreisn.

7. Jafnréttismál:
     a.      Öflugt starf verði á vegum fagteymis utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í félags- og jafnréttismálum.
     b.      Sameiginlegri jafnréttisstefnu utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands á sviði þróunarsamvinnu 2013–2016 verði framfylgt.
     c.      Mótaðar verði verklagsreglur fyrir Þróunarsamvinnustofnun Íslands um framkvæmd jafnréttisstefnu. Verklok áætluð í desember 2013.
     d.      Öflugt starf verði á vegum Alþjóðlega jafnréttisskólans á Íslandi.
     e.      Alþjóðlegi jafnréttisskólinn verði hluti af neti HSÞ á tímabilinu og í kjölfarið verði sérstakur fjárlagaliður fyrir framlög til skólans.
     f.      Verkefni utanríkisráðuneytisins í kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð 2012–2014 snúi að greiningu á framlögum til þróunarsamvinnu. Verklok áætluð 2014.
     g.      Öll tvíhliða þróunarsamvinna og eyrnamerkt framlög verði greind með kynjajafnréttisstiku Þróunarsamvinnunefndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar.
     h.      Í úttektum á þróunarverkefnum verði lagt sérstakt mat á samþættingu jafnréttissjónarmiða.
     i.      Kynjajafnvægi meðal útsendra starfsmanna á vegum Íslensku friðargæslunnar verði viðhaldið.
     j.      Mannauðsstefnu og jafnréttisáætlunum utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands verði framfylgt.
     k.      Unnið verði markvisst að jafnréttismálum og framgangi ályktana öryggisráðs SÞ um konur, frið og öryggi á vettvangi alþjóðastofnana.
     l.      Framlög verði veitt til verkefna sem hafa kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna að meginmarkmiði, svo sem á vegum UN Women og UNFPA.
     m.      Stuðningur við verkefni er varða baráttuna gegn mansali.
     n.      Endurskoðun verði á áætlun Íslands um framkvæmd ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi. Verklok áætluð í mars 2015.
     o.      Endurskoðun verði á sameiginlegri jafnréttisstefnu utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands á sviði þróunarsamvinnu. Verklok áætluð 2014.

8. Umhverfismál:
     a.      Öflugt starf verði á vegum fagteymis utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í auðlinda- og umhverfismálum.
     b.      Mótun sameiginlegrar umhverfisstefnu utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands á sviði þróunarsamvinnu 2013–2016. Verklok áætluð í apríl 2013.
     c.      Sérstaklega verði fjallað um sjálfbærni í umhverfismálum við undirbúning og framkvæmd þróunarverkefna.
     d.      Öll tvíhliða þróunarsamvinna og eyrnamerkt framlög verði greind með umhverfisstiku Þróunarsamvinnunefndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar.
     e.      Virk þátttaka verði í störfum alþjóðastofnana á sviði endurnýjanlegra orkugjafa og fiskimála.
     f.      Öflug starfsemi verði á vegum Jarðhitaskóla, Sjávarútvegsskóla og Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna auk Alþjóðlega jafnréttisskólans á Íslandi.
     g.      Framlag verði til sjóða á vegum Sameinuðu þjóðanna sem styrkja loftslagsverkefni í fátækustu þróunarlöndunum.
     h.      Áhersla verði lögð á þátttöku kvenna og samþættingu kynjasjónarmiða þegar veitt eru framlög til loftslagstengdra þróunarverkefna.
     i.      Endurskoðun verði á sameiginlegri umhverfisstefnu utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands á sviði þróunarsamvinnu. Verklok áætluð 2015.

II. Neyðar- og mannúðaraðstoð.
1. Stefnumótun og stuðningur við félagasamtök:
     a.      Framlög af sérstökum fjárlagalið um samstarf við félagasamtök nemi 8% af heildarframlögum árið 2014.
     b.      Fylgt verði núverandi verklagsreglum um umsóknir og styrkveitingar.
     c.      Ítarleg endurskoðun verði á verklagsreglum. Verklok áætluð í desember 2013.
     d.      Ísland taki virkan þátt í alþjóðlegu samkomulagi um góða starfshætti í mannúðaraðstoð og vinni skipulega samkvæmt verklagi og viðmiðum þess.
     e.      Stefna í neyðar- og mannúðarmálum mótuð. Verklok áætluð 2014.
    
2. Stuðningur við skrifstofu Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA):
     a.      Regluleg framlög verði til OCHA. Sérstök framlög verði skapist ófyrirséð þörf.
     b.      Skammtímastörf sérfræðinga á vegum utanríkisráðuneytisins verði fyrir OCHA á vettvangi.
     c.      Þátttaka í viðbragðssamráði á vegum OCHA.
     d.      Virk þátttaka verði í málefnavinnu Norðurlanda um neyðaraðstoð Sameinuðu þjóðanna.

3. Stuðningur við Neyðarsjóð Sameinuðu þjóðanna (CERF):
     a.      Regluleg framlög verði til CERF.
     b.      Virk þátttaka verði í málefnavinnu Norðurlanda um neyðaraðstoð Sameinuðu þjóðanna.
    
4. Stuðningur við matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP):
     a.      Framlög verði til neyðaraðstoðar WFP þar sem þörf skapast.
     b.      Skammtímastörf sérfræðinga á vegum utanríkisráðuneytisins verði fyrir WFP á vettvangi.
     c.      Störf ungra íslenskra sérfræðinga verði fyrir WFP á vettvangi.
     d.      Virk þátttaka verði í málefnavinnu Norðurlanda um WFP.
     e.      Þátttaka í viðbragðssamráði á vegum WFP.

III. Lönd og landsvæði.
1. Afganistan:
     a.      Gerð verði aðgerðaáætlun fyrir Afganistan 2013–2016. Verklok áætluð í apríl 2013.
     b.      Íslendingar taki þátt í norrænu samstarfi um málefni Afganistan.
     c.      Stuðlað verði að betri samhæfingu aðstoðar alþjóðasamfélagsins.
     d.      Unnið verði að málefnum kvenna.
     e.      Neyðar- og mannúðaraðstoð verði á vegum alþjóðastofnana og félagasamtaka.
     f.      Stutt verði við áframhaldandi uppbyggingu í Afganistan eftir 2014.
     g.      Aðgerðaáætlun fyrir Afganistan verði endurskoðuð. Verklok áætluð 2014.
    
2. Malaví:
     a.      Samstarfsáætlun Íslands og Malaví 2012–2016 verði framfylgt.
     b.      Félagslegir innviðir: Áhersla verði lögð á menntun, lýðheilsu og vatns- og hreinlætismál.
     c.      Samstarfsáætlun Íslands og Malaví verði endurskoðuð. Verklok áætluð 2014.
    
3. Mósambík:
     a.      Gerð verði samstarfsáætlun Íslands og Mósambík. Verklok áætluð í júní 2013.
     b.      Auðlindir og félagslegir innviðir: Áhersla verði lögð á fiskimál og menntun.
     c.      Samstarfsáætlun Íslands og Mósambík verði endurskoðuð. Verklok áætluð 2015.
    
4. Palestína:
     a.      Aðgerðaáætlun fyrir Palestínu 2013–2016 verði framfylgt.
     b.      Neyðar- og mannúðaraðstoð verði á vegum alþjóðastofnana og félagasamtaka.
     c.      Fjármagni verði varið til aðstoðar flóttamönnum, svo sem með útsendum sérfræðingum og/eða framlögum til UNRWA.
     d.      Fjármagni verði varið til aðstoðar konum og börnum, svo sem með útsendum sérfræðingum og/eða framlögum til starfsemi UN Women og UNICEF í Palestínu.
     e.      Stuðningur verði við þekkingaruppbyggingu á sviði almannavarna.
     f.      Aðgerðaáætlun fyrir Palestínu verði endurskoðuð. Verklok áætluð 2014.

5. Úganda:
     a.      Gerð verði samstarfsáætlun Íslands og Úganda. Verklok áætluð í júní 2013.
     b.      Auðlindir og félagslegir innviðir: Áhersla verði lögð á fiskimál, menntun og byggðaþróun.
     c.      Samstarfsáætlun Íslands og Úganda verði endurskoðuð. Verklok áætluð 2015.

IV. Stofnanir.
1. Alþjóðabankinn:
     a.      Ísland taki þátt í 17. endurfjármögnun IDA.
     b.      Afgreiðsla verði á hlut Íslands í hlutafjáraukningu Alþjóðabankans.
     c.      Þátttaka verði í alþjóðlegu samstarfi um málefni hafsins.
     d.      Stutt verði við verkefni á sviði fiskimála.
     e.      Stutt verði við verkefni á sviði orkumála (ESMAP).
     f.      Samstarfsverkefni Íslands og Alþjóðabankans um þróun jarðhita í Austur-Afríku. Þróunarsamvinnustofnun er framkvæmdaraðili fyrsta hluta verkefnisins sem snýr að jarðhitaleit og rannsóknum, en NDF kemur að fjármögnun þess til móts við Þróunarsamvinnustofnun Íslands.
     g.      Stutt verði við verkefni á sviði jafnréttismála.
     h.      Virk þátttaka verði í málefnavinnu kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í stjórn bankans.
     i.      Þátttaka verði í samstarfsverkefni Norðurlandanna á sviði mannréttindamála.
     j.      Seta í þróunarnefnd Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins árið 2014 fyrir hönd kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja.

2. UNICEF:
     a.      Regluleg framlög verði til UNICEF.
     b.      Störf íslenskra sérfræðinga verði á vettvangi.
     c.      Fylgt verði samstarfssamningi um skammtímastörf sérfræðinga vegna neyðarverkefna.
     d.      Virk þátttaka verði í málefnavinnu Norðurlanda um UNICEF.
     e.      Störf ungra íslenskra sérfræðinga verði fyrir UNICEF á vettvangi.
     f.      Stuðningur verði við samstarfsverkefni UNICEF og UNFPA um afnám limlestinga á kynfærum stúlkna og kvenna.
     g.      Samstarf verði við landsnefnd UNICEF á Íslandi.

3. UN Women:
     a.      Regluleg framlög verði til UN Women.
     b.      Störf íslenskra sérfræðinga verði á vettvangi.
     c.      Virk þátttaka verði í málefnavinnu um jafnréttismál á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
     d.      Störf ungra íslenskra sérfræðinga verði fyrir UN Women á vettvangi.
     e.      Stuðningur verði við styrktarsjóð á vegum UN Women til afnáms ofbeldis gegn konum.
     f.      Samstarf verði við landsnefnd UN Women á Íslandi.
     g.      Þátttaka verði í samstarfi Norðurlanda um UN Women.
     h.      Seta í stjórn UN Women árið 2014.

4. Háskóli Sameinuðu þjóðanna (HSÞ):

     a.      Virk starfsemi Jarðhitaskóla HSÞ á Íslandi og námskeiðahald á hans vegum í þróunarlöndum.
     b.      Virk starfsemi Sjávarútvegsskóla HSÞ á Íslandi og námskeiðahald á hans vegum í þróunarlöndum.
     c.      Virk starfsemi Landgræðsluskóla HSÞ á Íslandi og námskeiðahald á hans vegum í þróunarlöndum.
     d.      Áfram verði unnið að því að Alþjóðlegi jafnréttisskólinn verði hluti af neti HSÞ á Íslandi.
     e.      Áfram verði unnið að undirbúningi að framtíðarfyrirkomulagi starfsemi Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Alþjóðlegt samstarf og viðmið.
    Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegar samþykktir um þróunarsamvinnu sem íslensk stjórnvöld eru aðili að verði nú sem fyrr leiðarljós þróunarsamvinnu Íslands. Framfylgt verði eftirfarandi áhersluatriðum:

1. Sameinuðu þjóðirnar:
     a.      Sérstök áhersla verði lögð á samstarf við undir- og sérstofnanir Sameinuðu þjóðanna sem sinna áherslumálum Íslands.
     b.      Virk þátttaka verði í málefnavinnu gagnvart Sameinuðu þjóðunum á vegum utanríkisráðuneytisins og fastanefnda.
     c.      Virk þátttaka verði í málefnavinnu um þau markmið sem taka við af Þúsaldarmarkmiðum SÞ.
     d.      Virkt samstarf verði við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

2. OECD-samstarf:
     a.      Ísland verði aðili að DAC, Þróunarsamvinnunefnd OECD, á framkvæmdatímabili áætlunarinnar.
     b.      Fyrirkomulag rekstrar og bókhalds vegna þróunarframlaga fylgi reglum DAC.

3. Parísaryfirlýsingin, Accra-aðgerðaáætlunin og Búsanyfirlýsingin:
     a.      Mótuð verði tímasett markmið í þróunarsamvinnu Íslands með tilliti til Parísaryfirlýsingarinnar, Accra-aðgerðaáætlunarinnar og Búsanyfirlýsingarinnar. Verklok áætluð í september 2013.
     b.      Virk þátttaka verði í starfi DAC um skilvirkni og árangur á sviði þróunarsamvinnu.

Stefnumörkun, innra og ytra starf.
    Framfylgt verði eftirfarandi áhersluatriðum:
1. Stefnumörkun og eftirlit:
     a.      Endurskoðuð áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2015–2018 verði lögð fyrir Alþingi fyrir árið 2015.
     b.      Utanríkisráðherra gefi skýrslu til Alþingis um framkvæmd áætlunarinnar á árinu 2015.
     c.      Regluleg skýrslugjöf verði til utanríkismálanefndar og fjárlaganefndar.
     d.      Aukin eftirfylgni verði á vegum Alþingis með framkvæmd áætlunarinnar, svo sem með eftirlitsstarfi á vettvangi.
     e.      Sérstakur fjárlagaliður verði fyrir eftirlitsstarf Alþingis.

2. Árangur og eftirfylgni:
     a.      Sérstök áætlun verði gerð til að bæta eftirlit og úttektir með alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. Þannig verði fylgst með kerfisbundnum hætti með reglulegum úttektum á verkefnum og starfsemi þeirra aðila sem framkvæma þróunarverkefni. Á jafnt við um alþjóðastofnanir, Þróunarsamvinnustofnun Íslands og félagasamtök.
     b.      Verklagsreglum um umsjón og eftirlit með samningum á vegum utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands verði framfylgt.
     c.      Óháð úttekt verði framkvæmd á starfi skóla HSÞ á Íslandi og árangri þeirra hvað varðar framfarir í þróunarlöndum.
     d.      Þróunarsamvinnustofnun Íslands gefi ársfjórðungslega skýrslu til utanríkisráðuneytisins um framvindu og ráðstöfun fjármuna.
     e.      Reglulega verði óháðar úttektir framkvæmdar á verkefnum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.

3. Samspil tvíhliða og marghliða þróunarsamvinnu:
     a.      Öflugt starf fagteyma utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands á eftirfarandi sviðum til eflingar tvíhliða og marghliða samvinnu: i) félags- og jafnréttismál; ii) auðlinda- og umhverfismál; iii) verklag og eftirlit.
     b.      Sameiginlegri jafnréttisstefnu utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands á sviði þróunarsamvinnu verði framfylgt.
     c.      Gerð verði greining á möguleikum hvað varðar samræmi í stefnumótun íslenskra stjórnvalda til aðstoðar þróunarlöndum. Verklok áætluð 2014.

4. Val á samstarfslöndum:
    Unnin verði greining á núverandi og mögulegum samstarfslöndum Íslands. Verklok áætluð í september 2014.

5. Mannauðsstjórn:
     a.      Sameiginlegri mannauðsstefnu utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands vegna starfa að þróunarmálum verði framfylgt.
     b.      Haldnir verði sameiginlegir málfundir og námskeið á vegum utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.
     c.      Hlutur kvenna og karla verði jafnaður samkvæmt mannauðsstefnu í þróunarsamvinnu og jafnréttisáætlunum utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.

6. Samstarf við frjáls félagasamtök:
     a.      Framlög til fjárlagaliðar fyrir verkefni félagasamtaka fari hækkandi og nemi 8% af heildarframlögum árin 2014–2016.
     b.      Fylgt verði sameiginlegum verklagsreglum og eitt umsóknarferli verði fyrir allt samstarf stjórnvalda og félagasamtaka.
     c.      Rammasamningar verði gerðir við stærri félagasamtök og möguleikar á nýliðastyrkjum skoðaðir. Verklok áætluð í september 2013.
     d.      Skoðaður verði möguleiki á að veita ákveðið hlutfall af árlegum framlögum til félagasamtaka til kynningar- og málsvarastarfs. Verklok áætluð í september 2013.
     e.      Stjórnvöld leggi sig fram um að eiga góð samskipti við félagasamtök.
     f.      Félagasamtök sæti úttektum og öðrum eftirlitsaðgerðum sem fylgt er í þróunarstarfi.

7. Samstarf við háskólasamfélagið:
    Áherslum um samstarf stjórnvalda og háskólasamfélagsins á sviði þróunarsamvinnu verði framfylgt.

8. Kynning og umfjöllun:
     a.      Fylgt verði árlegri sameiginlegri kynningaráætlun utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.
     b.      Ráðstefnur og málþing verði skipulögð í samráði við félagasamtök og háskólasamfélagið.
     c.      Utanríkisráðuneytið og Þróunarsamvinnustofnun Íslands láti gera skoðanakönnun á þekkingu og viðhorfi almennings til þróunarsamvinnu. Verklok áætluð 2013.
     d.      Haldnir verði opnir fundir um opinbert þróunarstarf Íslands.

9. Þátttaka einkaaðila:
     a.      Unnin verði greining á möguleikum íslenskra aðila til þátttöku í uppbyggingu atvinnuvega í þróunarlöndum. Verklok áætluð í apríl 2013.
     b.      Niðurstöður greiningarinnar verði kynntar íslenskum aðilum.

Samþykkt á Alþingi 21. mars 2013.