Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 283. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1325  —  283. mál.

3. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um velferð dýra.



Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið að nýju eftir 2. umræðu.
    Á fund nefndarinnar komu fulltrúar Svínaræktarfélags Íslands, Hörður Harðarson og Geir G. Geirsson. Fulltrúarnir afhentu nefndinni framhaldsumsögn um málið. Við það tilefni ítrekuðu þeir athugasemdir sem félagið hafði sett fram á fyrri stigum málsins og létu í ljós þá skoðun að þær breytingar sem nefndin lagði til á 15. gr. frumvarpsins, og samþykktar voru við 2. umræðu, væru varhugaverðar. Töldu þeir breytingarnar kunna að hafa í för með sér veruleg vandamál fyrir svínabændur. Þannig töldu þeir að svínabændur kynnu að verða fyrir tjóni vegna þeirra auk þess sem velferð dýra kynni að verða stefnt í hættu. Að auki töldu þeir að tilkostnaður við svínarækt mundi stóraukast vegna breytinganna sem aftur mundi leiða til hækkana á verðlagi svínaafurða til neytenda og lakari samkeppnisstöðu íslenskra svínakjötsframleiðenda.
    Á fundum sínum ræddi nefndin hvernig mögulegt væri að koma til móts við athugasemdir svínabænda. Var m.a. rætt hvort ekki mætti létta þeim breytinguna með því að koma málum svo fyrir með lögum að bændunum sjálfum yrði heimilað að deyfa grísi fyrir geldingu og framkvæma geldinguna svo fremi þeir hafi hlotið nauðsynlega þjálfun. Skilningur meiri hlutans er að samkvæmt lyfjalögum og reglum sem settar hafa verið á grundvelli þeirra sé aðeins dýralæknum heimilt að gefa dýrum deyfi- og svæfingarlyf. Í frumvarpinu er ekki lögð til breyting á þeim lögum. Þá leiddi könnun nefndarinnar í ljós að slík breyting væri verulega viðurhlutamikil og áhrif hennar ófyrirséð auk þess sem með henni yrði farið gegn markmiðum sem unnið hefur verið að á sviði lyfjamála síðustu ár. Fær meiri hlutinn ekki séð að slík breyting endurspegli leiðir sem farnar hafa verið í löndum í kringum okkur. Að þessu sögðu tekur meiri hlutinn fram að hann telur að ekkert sé því til fyrirstöðu að hugmyndir í þessa átt verði kannaðar nánar og mögulegar breytingar verði lagðar til við síðara tilefni reynist vilji til þess. Ætti tillaga nefndarinnar um breytingu á gildistökugrein frumvarpsins, sem lögð var fram og samþykkt við 2. umræðu, að veita stjórnvöldum og hagsmunaaðilum nokkurt svigrúm til þess að kanna slíka möguleika nánar.
    Við 2. umræðu lagði nefndin fram breytingartillögu við 20. gr. frumvarpsins sem felur í sér breytingu á undanþágu frá banni gegn aflífun dýra með drekkingu. Þannig lagði nefndin til að þrátt fyrir bannákvæðið yrði heimilt að drekkja minkum þegar slík drekking væri hluti af gildruveiði sem væri liður í af skipulögðum aðgerðum til að halda minkastofninum í skefjum og veiðin hefði hlotið samþykki heilbrigðisnefndar sveitarstjórnar á viðkomandi veiðisvæði. Að auki var lagt til að samþykki heilbrigðisnefndar skyldi grundvallað á almennum leiðbeiningum sem Umhverfisstofnun gæfi út. Skömmu eftir að nefndin afgreiddi málið sendi Umhverfisstofnun henni erindi þar sem sú skoðun var látin í ljós að ákvæði um stjórn aðgerða til að halda niðri minkastofninum ættu heima í lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum en ekki í lögum um velferð dýra. Þá bendir stofnunin á að hægt sé að ná markmiðum um yfirsýn yfir gildruveiðar sem hafa í för með sér drekkingu með því að kveða á um tilkynningarskyldu um veiðarnar til sveitarfélaga. Könnun nefndarinnar leiddi einnig í ljós að ákveðin einföldun felist í því að kveða á um að tilkynna beri gildruveiðar minka beint til Umhverfisstofnunar í stað sveitarfélaga, enda fer stofnunin með yfirumsjón með þeim, sbr. ákvæði laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.
    Í ljósi framangreinds leggur meiri hlutinn til breytingu á 3. og 4. málsl. 2. mgr. 21. gr. frumvarpsins. Þannig verði óheimilt að aflífa dýr með því að drekkja þeim nema um sé að ræða gildruveiði minka sem hluta af skipulögðum aðgerðum til að halda minkastofninum í skefjum sem heimil er samkvæmt ákvæðum laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Þá verði slík gildruveiði aðeins heimil að hún hafi verið tilkynnt Umhverfisstofnun áður en gildrur eru lagðar. Með skipulegum aðgerðum til að halda minkastofninum í skefjum vísar meiri hlutinn til þess að tilgangur gildrulagningar þarf að vera annar en frístundaveiði. Til dæmis gæti lagning farið fram í þeim tilgangi að verja hlunnindi, búfénað eða fuglalíf svo fremi sem ekki verði brotið gegn ákvæðum laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Að nýju tekur meiri hlutinn fram að í tillögu hans felst engin áætlun um skuldbindingu af hálfu ríkissjóðs til þess að standa skipuleggjendum minkaveiði skil á nokkrum þeim kostnaði sem þeir verða fyrir vegna hennar.
    Að auki leggur meiri hlutinn til fimm tæknilegar breytingar. Í fyrsta lagi leggur hann til lagfæringu á kaflaheiti IV. kafla frumvarpsins en hann ber heitið Leyfi og eftirlit. Sú breyting er lögð til, svo að gætt sé samræmis við þá breytingu sem gerð hefur verið á 11. gr. frumvarpsins (nú 12. gr.), að þar er kveðið á um úttekt í stað leyfis. Í öðru lagi leggur meiri hlutinn til þá breytingu á 15. gr. (nú 16. gr.) að þar sé rætt um hala í stað skotts, til samræmis við almenna málnotkun. Í þriðja lagi leggur meiri hlutinn til lagfæringu á d-lið 4. mgr. 16. gr. sem gerð var breyting á með breytingartillögu nefndarinnar við 2. umræðu. Vegna mistaka var felld brott sú afmörkun að ákvæðið varðar grísi, ákvæðið opnað um of og hætta sköpuð á að það gilti um fleiri dýrategundir. Það var ekki ætlunin. Í fjórða lagi er lagt til að í stað tilvísunar til 40. gr. sem fjallar um kostnað af þvingunaraðgerðum í 5. málsl. 1. mgr. 37. gr. komi tilvísun til 41. gr. sem fjallar um ágreiningsefni um aðgerðir. Breytingin er gerð vegna misritunar breytingartillagna við 2. umræðu. Í fimmta lagi leggur meiri hlutinn til að ákvæði til bráðabirgða falli brott en sú tillaga kemur í beinu framhaldi af þeim breytingum sem nefndin lagði til við 11. og 12. gr. frumvarpsins fyrir 2. umræðu.
    Í ljósi framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



     1.      Fyrirsögn IV. kafla orðist svo: Úttekt og eftirlit.
     2.      Við 16. gr.
              a.      Í stað orðsins „skotti“ í d-lið 4. mgr. komi: hala.
              b.      Við d-lið 4. mgr. bætist: grísa.
     3.      3. og 4. málsl. 2. mgr. 21. gr. orðist svo: Óheimilt er að aflífa dýr með því að drekkja þeim nema um sé að ræða gildruveiði minka sem hluta af skipulögðum aðgerðum til að halda minkastofninum í skefjum sem heimil er samkvæmt ákvæðum laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Slík gildruveiði er þó aðeins heimil að hún hafi verið tilkynnt Umhverfisstofnun.
     4.      Í stað orðanna „40. gr.“ í 5. málsl. 1. mgr. 37. gr. komi: 41. gr.
     5.      Ákvæði til bráðabirgða falli brott.

Alþingi, 22. mars 2013.



Lilja Rafney Magnúsdóttir,


form.


Ólína Þorvarðardóttir,


frsm.


Björn Valur Gíslason.



Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Sigurður Ingi Jóhannsson,


með fyrirvara.